Guðsþjónusta
í Grensáskirkju,
5. sd. e. þrettándann 2022 kl. 11
Biðjum:
Kenn
mér Jesús, þér að þakka,
þína
trú og bænagjörð.
Yfir
mér og í mér vaki,
elskan
þín og himni og jörð. Amen.
Náð
sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Tímalausar
frásögur, sem miðla visku og blessun
Í
kirkjunni erum við ávallt að vinna með sögur, frásögur, þar sem verið er að
segja frá atburðum. Frásögurnar eru varðveittar í Biblíunni.
Biblían
er safn bóka, eins og þið þekkið, skrifuð af tugum höfunda, í þremur heimsálfum
á yfir þúsund ára tímabili. Þrátt fyrir þann fjölbreytta uppruna, bera ritin
sama rauða þráðinn, um elsku Guðs til manna, tilgang lífsins og mikilvægi,
frelsun og upprisu.
Frásögurnar
hafa að geyma lífsreynslu mannkyns, glímu fólks við lífið og samtíma sinn. sem
miðla okkur lærdómi og visku, sem er tímalaus og manninum lífsnauðsynleg. Sú
viska og þekking er vandfundin á öðrum stöðum, vandfundin eftir öðrum leiðum.
Frásögurnar hafa haft slík áhrif á heiminn að tímatal okkar tekur mið af þeim,
menning okkar og saga er samofin frásögunum, og mannsskilningur okkar er á þeim
grundvallaður.
Sá
mannsskilningur sem við búum við og göngum að sem vísum, óháð annarri
lífsafstöðu eða átrúnaði er til dæmis að allir menn séu óendanlega mikilvægir,
að allar manneskjur eigi rétt á sér og skuli njóta sömu
grundvallarmannréttinda, að allar manneskjur séu elskuð Guðs börn.
Þessi
viðhorf og þessi grundvallarhugsun er sem rauður þráður í frásögunum sem
kirkjan byggir á, í frásögum og textum Biblíunnar.
Þöggun
á undanhaldi – hugrekki hefur innreið sína
Getur
verið að í samfélagi okkar og kannski hinum Vestræna heimi hafi á síðustu
áratugum ríkt þöggun um þessa mikilvægu og sameiginlegu reynslu okkar?
Getur
verið að þöggun hafi ríkt um miðlun þessa arfs kynslóðanna í ár og áratugi?
Þöggun sem birtist til dæmis í því að kennsla í kristnum fræðum var ekki lengur
sjálfsögð í grunnskólum landsins. Þöggun þar sem grunnskólabörn máttu helst
ekki heimsækja kirkjur heim á aðventunni. Þöggun þar sem allt sem tengdist
þessum arfi og lærdómi kynslóðanna mátti vart heyrast.
Blessunarlega
er samfélag nútímans að stíga mörg mikilvæg hugrekkis skref, þar sem verið er
að varpa hulunni af ýmsu í samfélaginu sem hefur verið þagað í hel. Til dæmis er
verið að varpa hulunni af karl-lægri ofbeldismenningu, þar sem við karlar
þurfum í auknum mæli að axla ábyrð á okkar gjörðum, misgjörðum,
ofbeldis-framkomu og yfirgangi. Hugrekki er þar leiðarljósið þar sem þolendur
stíga fram og segja sögu sína, og samfélagið er loks farið að bregðast við og
styðja betur við bakið á þeim sem brotið er á. En betur má ef duga skal.
Ég
skynja það svo að miðlun hinnar sameiginlegu lífsreynslu kynslóðanna, sem
kirkjan stendur fyrir, sé um þessar mundir einnig að losna úr viðjum ákveðinnar
þöggunar í samfélaginu.
Jesús
virtist um tíma ekki lengur velkominn í skólana í borginni, eða börnin í
heimsókn til hans fyrir jólin, eða sem sagt í hús hans, kirkjuna, í
aðventuheimsókn.
Það
er að breytast.
Nýsköpun
Á
sama tíma og umræða fór fram á mjög þröngum vettvangi og út frá mjög þröngu
sjónarhorni um að grunnskólar ættu ekki að sækja kirkju á aðventu með nemendur
sína, og flestir héldu kannski að það væri raunin, þá streymdu þúsundir
skólabarna með kennurum sínum og skólastjórnendum í heimsókn í kirkjurnar í
hverfunum sínum.
Í
eina kirkjuna komu börn víðs vegar að úr borginni. Þangað hafa þau streymt svo
hundruðum og þúsundum skiptir á undanförnum árum og ástæðan líklega sú að þar
fór fram mjög áhugaverð og skemmileg nýsköpun.
Nýsköpunin
fólst í því að móttaka barnanna og kennaranna var fléttuð inn í íslenska
menningu og sögu hússins, með samstarfi við Þjóðminjasafnið og fleiri.
Verkefnið
var látið heita og heitir „Jólin hans Hallgríms“, þar sem börn komu saman undir
líflegri og góðri handleiðslu starfsfólks Hallgrímskirkju, í umhverfi sem sett
var upp í samstarfi við Þjóðminjasafnið á annarri hæðinni í kirkjunni, fyrir
aftan orgelið. Myndheimurinn sem þar var skapaður var af heimilishögum
sálmaskáldsins sem kirkjan stóra er kennd við.
Þar
var síðan saga hans sögð, í stórum dráttum, í anda jólanna, þar sem
jólafrásagan, jólasálmarnir og fleira sem miðlar ríkulegri blessun, var miðlað
í góðu samstarfi skóla og kirkju, á forsendum skólanna.
Sömu
viðhorfsbreytingu finnst mér ég hafa orðið vitni af í samtölum mínum við
skólastjórnendur hér í prestakallinu síðustu mánuði, jákvæðni, vilja og
væntingar til samstarfs.
Saman
erum við eins og einn líkami
Við
höfum fundið það á tímum Covid, hve mikil áhrif við höfum hvert á annað. Allt
gengur sinn vanagang þar til einn daginn fáum við boð frá yfirvöldum um að við
eigum að fara í sóttkví, vegna nálægðar okkar við einstakling sem smitaður er
af covid.
Hverjir
kannast ekki við slík skilaboð?
Við
höfum lært af þessari reynslu hve tengd við erum.
Enska
orðið, ligament, sem er þýtt liðband, hefur heillað mig. Liðböndin halda líkama
okkar saman með því að tengja bein við bein. Þetta hugtak er mjög jarðneskt,
veraldlegt, holdlegt, ef svo má segja, tekið úr líffræðinni og náttúrufræðunum.
Í líkama fullorðins manns eru 206 bein. Sinar tengja bein við vöðva og liðbönd
tengja sem sagt bein við bein.
Enska
orðið ligament er dregið af latneska orðinu ligamentum.
Af
því er dregið latneska orðið re-ligamentum, sem þýðir að tengja saman á ný. Af
því orði drögum við enska orðið religion, sem þýðir á okkar ilhýra, trúarbrögð
eða átrúnaður.
Trúin
okkar, okkar kristna trú, er því að þessu leyti mjög samfélagslega mikilvæg,
líkt og liðbönd líkamans, þar sem hún gefur okkur samhengi, gefur okkur efnivið
í tengsl og kærleiksríkt og stærra samhengi, þar sem allir eru með. Trúin okkar
getur því tengt okkur saman á ný á margvíslegan máta. Tengslin sem trúin glæðir
eru fyrst og fremst þrenns konar: Það eru tengsl við sjálfan sig. Hver er ég?
Hvaðan er ég? Hver eru hlutverk mín í heiminum? O.s.frv.
Það
eru síðan tengsl manneskjunnar við náunga sinn. Það er að segja tengsl okkar
við samferðarfólk, ættingja, vini, samstarfsfólk, alla sem verða á vegi okkar á
lífsleiðinni.
Í
þriðja lagi eru það síðan tengsl okkar við okkar æðri mátt. Tengsl við Guð.
Kirkjan
er vettvangur þessara tengsla. Kirkjan er vettvangur þess að við fáum tækifæri
til að rækta þessi þrennskonar tengsl og þá fyrst og fremst kannski þau
síðastnefndu. Tengsl okkar við Guð.
Trúin
er þá kannski samkvæmt hinum fornu hugtökum leið okkar til að endurnýja
tengslin við frumkraft tilverunnar.
Að
koma á tengslum á ný við uppsprettu lífsins, að tengjast á ný því sem er æðra
okkur, sem við nefnum á tungutaki kirkjunnar, skapara, frelsara og helgara
lífsins, Guð.
Eins
og liðbönd líkamans halda honum saman, þá má segja að það sé eitthvað andlegt,
eitthvað samfélagslegt, eitthvað utan við okkur sjálf, sem heldur okkur einnig
saman, sem heild, sem heilbrigðum manneskjum, sem samfélagi.
Árþúsunda
frásögur af tengslum, einnig andlegum
Frásaga
dagsins úr guðspjalli Matteusar segir frá ummyndun Jesú á fjallinu. Þar voru
með honum lærisveinarnir Pétur, Jakob og Jóhannes.
Ummyndunarfrásagan
í heild sinni hefur það markmið að sannfæra gyðinga, þá sem lásu og heyrðu
boðskapinn á þeim tíma um að Jesús væri sá sem talað er um í 5. Mósebók, sem
lesið var úr hér áðan. Guðspjallið í heild sinni, með fæðingarfrásögunni, gefur
hins vegar til kynna að Jesús sé meira en Móse og Elía, hann sé mannssonurinn
sem verður reistur upp frá dauðum.
Ljóminn
sem stafaði af Móse, var í raun nokkurs konar geisli af dýrð Guðs. Hins vegar
virðist sem Jesús ljómi af sjálfum sér, sem undirstrikar guðdóm hans, því
ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós.
Þarna
sér maður augljós tengsl í þessari stóru sögu, á milli þessara texta, fyrst í
Mósebókum og síðar í guðspjöllunum. Í guðspjöllunum er hlutverk og staða Jesú
undirstrikuð, þar sem hann er frelsari manna, sigrar dauðann í upprisunni og er
nærri hverjum þeim sem biðja Guð í Jesú nafni.
Jesús
er nærri hverjum þeim sem biður, nú í dag, hér fyrrum og um alla eilífð. Pétur vildi
reisa þeim tjaldbúð þarna, Jesú eina, Elía eina og Móse eina. En það var ekki
vilji Jesú að þeir færu að setjast þarna að, heldur áttu þeir að fara út í
heiminn, boða, kenna, þjóna og líkna í hans nafni. Líkt og við nú í dag.
Frískápur
Kirkjan
er vettvangur okkar allra til að hafa góð áhrif á samfélagið, til að milda hörð
hjörtu, reynast útlendingum og einstæðingum vel, rækta jörðina, vernda jörðina,
sinna náunganum.
Kirkjan
er það fólk sem kirkjunni tilheyrir, við öll sem viljum láta gott af okkur
leiða.
Nú
fyrir skömmu komu að máli við mig og okkur hér, starfsfólk kirkjunnar,
áhugasamir einstaklingar sem vilja koma upp svokölluðum frískáp hér í
hverfunum.
Frískápur
er ísskápur sem allir geta gefið matvæli í, og allir náð sér í matvæli úr, sér
að kostnaðarlausu. Fólk í hverfinu er tilbúið að leggja verkefninu lið, öðrum
til góðs. Á vettvangi hverfishópsins 108 á facebook hefur verið umræða um
málið.
Frískápurinn
hefur í raun nokkur markmið, stuðlar meðal annars að minni matarsóun, og er þar
með umhverfisvænn, en einnig er hann vettvangur fólks til að gefa og þiggja.
Slíkt
gerir samfélagið ávallt ríkara, í slíkum verkefnum og framgöngu má ætla að
ljómi Krists lýsi, líkt og frammi fyrir lærisveinunum á fjallinu forðum.
Umbreyting verður á samfélaginu með framgöngu fólks á þeim nótum. Umbreyting,
þar sem Kristur lifir og er með oss, eins og segir í sálminum.
Megi
fleiri slík verkefni verða okkar sameiginlega markmið og starf. Því í gegnum
þau og bænir allar, rís Kristur upp í samfélagi okkar sem morgunstjarnan, bæði
í hjörtum okkar og samfélagi öllu, líkt og Pétur postuli nefnir í bréfi sínu,
sem lesið var hér úr áðan.
Dýrð
sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um
aldir alda. Amen.
Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.