Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. I. Ríkissjónvarpið birti áhugaverða frétt síðasta miðvikudagskvöld Þar var sagt frá því að Öryrkjabandalag Íslands hafi haldið fund með forsvarsmönnum allra stjórnmálaafla sem bjóða fram í vor. Efni og erindi fundarins hafi verið það að ræða um sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland undirritaði árið 2007 og spyrjast fyrir um það hvort og þá hvernig og hvenær samningurinn verði fullgiltur eða lögfestur hér á landi.
Í tilefni þessa fundar var rætt við Evu Þórdísi Ebenezardóttur sem hefur kynnt sér þennan málaflokk rækilega. Í viðtalinu ræddi Eva Þórdís um að það væri mikilvægt að bæta aðgengi fatlaðs fólks í samfélaginu. Síðan bætti hún við að aðgengi væri meira en þröskuldur, tröppur eða lyftur. Aðgengi fjallaði ekki síður um það sem ætti sér stað inni í höfðinu á okkur sjálfum. Aðgengi væri þannig „spurning um viðhorf, hugarfar og hugmyndafræði.“
En hvað er hugmyndafræðilegt aðgengi? Það er ekkert erfitt að átta sig á því að fatlað fólk þurfi á lausnum að halda til þess að komast klakklaust um byggingar. Það getur verið nokkurt verk að endurhanna gamlar byggingar til að auka aðgengi fatlaðra, en verkið sjálft er býsna augljóst. Það snýst einmitt um þröskulda, tröppur og lyftur og þegar okkur hefur tekist að koma þessu á, öndum við flestöll léttar. Hvað er þá hugmyndafræðilegt aðgengi, til hvers meira er hægt að ætlast af ófötluðu fólki til að ala önn fyrir þeim sem búa við fötlun?
Sáttmálinn sem öryrjabandalagið kallaði stjórnmálamenn saman til að ræða svarar þessari spurningu. Sáttmálinn hefst á því að kalla þjóðir heims til ábyrgðar með því að „a) minnast meginreglna, sem kunngerðar eru í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem meðfædd göfgi og verðleikar og jöfn og óafsalanleg réttindi allra manna eru viðurkennd sem hornsteinn frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.“ Sáttmálinn ræðir síðan í nokkru máli hvernig þessar meginreglur um göfgi, verðleika og jafnrétta allra manneskja, fatlaðra jafnt sem ófatlaðra hafi áhrif á viðhorf til fatlaðs fólks. Þar er viðurkennd sú alvarlega staða að mannréttindi fatlaðra eru þverbrotin víða um heim og þar með með víðtækum hætti gengið gegn hugmyndum um reisn og virðingu alls fólks. Vakin er sérstök athygli á fátækt fatlaðs fólks um veröld víða. Kallað er eftir því að stjórnvöld um heim allan virði mannréttindi og göfgi fatlaðs fólks. Og síðan bendir sáttmálinn á ábyrgð allra einstaklinga í hverju samfélagi. Samkvæmt sáttmálanum er það málefni okkar allra að berjast fyrir þessum bættu aðstæðum og ganga eftir því að reisn fatlaðs fólks sé virt.
Það er hugmyndafræðilegt aðgengi, aðgengi sem lætur sér ekki nægja að gera ráð fyrir fatlaðrabílastæði, hjólastólalyftu og rennibraut, þó að þessi hjálpartæki séu vitaskuld mikilsverð. Hugmyndafræðilegt aðgengi lýtur að jafnrétti fatlaðra og ófatlaðra við allar aðstæður daglegs lífs. Vegna þess að við erum öll jöfn og óendanlega mikilvæg.
Út frá kristnu sjónarmiði erum við undursamleg sköpun Guðs, einstök hvert og eitt. Sálmaskáld Biblíunnar orðar vel þessa áherslu á göfgi hverrar manneskju þegar það segir í 139 sálmi:
Ég lofa þig fyrir það Að ég er undursamlega skapaður, Undursamleg eru verk þín, Það veit ég næsta vel. Beinin í mér voru þér eigi hulin Þegar ég var gjörður í leyni Myndaður í djúpum jarðar. Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, Ævidagar voru ákveðnir Og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.
Undursamleg sköpun erum við, augu Guðs sjá okkur, hvert og eitt og þekkja lífssögu okkar. Og þess vegna er mannréttindabarátta eitthvað sem trúað fólk og trúlaust getur sannmælst um. Forsendur geta verið ólíkar, en viðmiðin, baráttan og skilningurinn á mikilvægi aðgengis er einn og hinn sami. Af því að við erum dýrmæt og reisn okkar allra er mikilvæg og aðgengi okkar að öllum þáttum samfélagsins er það líka.
II. Samkvæmt guðspjalli dagsins er Jesús á ferð rétt fyrir utan borgina Jeríkó. Þar við veginn situr blindur beiningarmaður, einn af þeim ótalmörgu körlum og konum sem dæmdur var til fátæktar og útskúfunar vegna fötlunar sinnar. Þessum blinda beiningamanni hafa engin úrræði borist, engin hjálpartæki, engin sjóntæki, lækningar, hvítir stafir, hljóðgerflar eða sérbyggðar tölvur. Hans beið ekkert annað en útskúfun og samferðamenn hans litu á hann sem úrhrak og úrþvætti. Guðfræði þeirra margra hverra gerði líka ráð fyrir því að fötlun hans væri honum sjálfum að kenna eða foreldrum hans og því væru honum aðstæður sínar mátulegar. Við vitum fátt um blinda manninn annað en nafnið. Hann hét Bartímeus Tímeusarson og þennan dag sat hann við veginn og kallaði á Jesú. Hann kallaði á son Davíðs.
Mörg þeirra sem túlka Biblíuna segja að titillinn sonur Davíðs sé Messíasartitill. Þegar Bartímeus hinn blindi kallar á son Davíðs, þá viðurkennir hann Jesú frá Nasaret sem Messíasinn, Krist, sem þjóðin öll hafði beðið eftir í hundruð ára. Hann sér eitthvað í Jesú, sem hin sjáandi sáu ekki. Og Messíasinn nemur staðar hjá Bartímeusi, hlustar á hann, talar við hann, læknar hann og opnar honum aðgengi til Guðs.
Við getum alveg tekið okkur til og borið saman aðstæður Bartímeusar og aðstæður fatlaðs fólks á Íslandi. Víða um heim býr fólk við aðstæður sem eru ekki hótinu betri en þær sem Bartímeusi var forðum boðið upp á, aðstæður fátæktar, útskúfunar og félagslegrar einangrunar. Sem betur fer hafa aðstæður fatlaðra breyst mikið á Íslandi, fatlaðir Íslendingar búa við velferðarkerfi sem gerir aðstæður þeirra ólíkar lífi Bartímeusar.
Og samt höfum við ekki fullgilt samninginn um jafnan rétt fatlaðra og ófatlaðra. Samt lítum við ekki enn á hugmyndafræðilegt aðgengi sem sjálfsagt baráttumál allra einstaklinga samfélagsins. Samt eru aðstæður öryrkja á Íslandi víða mjög erfiðar, bæði félagslega og efnahagslega. Samt er fatlað fólk á Íslandi gert ósýnilegt og við gleymum að gera ráð fyrir þeim. Þar með má segja að við sem þjóðfélag og einstaklingar séum slegin sjónskekkju sem er erfiðari og lúmskari en það dimma sjónarhorn sem Bartímeus lifði við um sína daga. Þessi skekkja sjónar okkar er lúmsk vegna þess að hún gerir fatlaða einstaklinga ósýnilega augum okkar og kallar fram fordóma og hörð hjörtu í garð fólks sem eru öryrkjar.
Og þess vegna er það gott og hollt þegar við göngum inn í guðspjallssöguna og sláumst í för með Jesú þennan dag í Jeríkó að horfast í augu við Bartímeus, Bartímeus sem sá ekki, en sá þó betur en flest okkar, því að hann sá „son Davíðs“, Jesú sem er Kristur og Messías þeirra sem játa trú á hann. Einn af fyrstu mönnunum sem sá Jesú og það sem Jesús stóð fyrir var fatlaður maður, einn þeirra sem samfélagið mismunaði og smættaði á dögum Jesú og enn í dag.
III. Síðasta sumar var sýnd frönsk bíómynd í íslenskum bíóhúsum. Myndin ber nafnið „The Intouchables“ og segir frá ríkum manni Philippe sem er bundinn við hjólastól. Hann þarf mikla hjúkrun og er að leita sér að aðstoðarmanni. Til hans kemur ungur atvinnulaus maður af afrískum uppruna sem heitir Driss og sækir um stöðuna án nokkurra vona eða væntinga. Hann er orðinn vanur að vera atvinnulaus og dettur ekki í hug að nokkur taki upp á því að ráða hann. Driss fær stöðuna, ekki vegna þess að hann sýni nokkra tilburði til að vera hæfur aðstoðarmaður. Hann kann ekkert fyrir sér í hjúkrun, hann er kæruleysislegur og virðist líklegur til vandræða á öllum sviðum. En hann hefur einn hæfileika, ákveðna sýn á veruleikann sem gerir hann óendanlega mikilvægan. Þessi hæfileiki er algerlega hulinn unga manninum sjálfum og fólkið sem að Philippe stendur skilur ekkert í því hvers vegna hann hefur Driss í vinnu. Hæfileiki unga mannsins, viðhorf hans er það að hann tekur ekki eftir fötlun ríka mannsins. Driss vorkennir ekki hinum fatlaða manni. Hann kemur fram við hann á nákvæmlega sama hátt og hann kemur fram við allar aðrar manneskjur. Og það er einmitt þessi "byltingarkennda" hugsun, þessi sýn á jafnrétti fatlaðra og ófatlaðra sem er svo undureinföld, falleg og skynsamleg, sem gerir unga manninn að mikilvægum aðstoðarmanni og enn mikilvægari vini.
Ungi maðurinn glímir við alls konar erfiðleika sjálfur, kynþáttamismunun, stéttaskiptingu, félagslega erfiðleika í fjölskyldunni. Þessir tveir verða vinir, þar sem hvor um sig yfirstígur girðingar samfélagsins í garð þeirra sem eru öðruvísi á einhvern hátt.Þeir sjá hver annan. Þeir læknast af samfélagslegri sjónskekkju.
Hvað skyldi Jesús hafa hugsað þegar hann horfði á Bartímeus?
Skyldi hann hafa þurft að kafa gegnum sína eigin fordóma, fordóma sem samfélagið hefur innrætt honum frá blautu barnsbeini? Og ég vil túlka söguna á þann hátt að Jesús hafi líka séð Bartímeus, Bartímeus Tímeusarson. Hann sá ekki Bartímeus blinda, þann Bartímeus sem er skilgreindur út frá fötlun sinni, heldur miklu fremur manninn Bartímeus sem er einstök sköpun Guðs með öllum öðrum manneskjum án tillits til fötlunar eða ófötlunar. Það er sá Bartímeus sem Jesús spjallar við sem jafningja, sá Bartímeus sem Jesús vill gera eitthvað fyrir, þjóna og þykja vænt um. Og þess vegna kallar Bartímeus Jesú Rabbúní, meistara sinn, því að meistarinn hafði séð hann og skilið. Jesús var trúr þeirri hugsun að allar manneskjur væru dýrmætar og að við ættum að þjóna og hjálpa hvert öðru í stað þess að vorkenna eða labba framhjá. Hann opnaði Bartímeusi hugmyndafræðilegt aðgengi. Aðgengi að samfélaginu. Aðgengi að öðru fólki. Aðgengi að Guði.
Við tökum þátt í slíkri baráttu fyrir reisn og göfgi hvers annars með því að berjast fyrir slíkum sáttmálum og ganga eftir því að þeir séu virtir. En baráttan fyrir virðingu og reisn náungans er ekki aðeins byggð á opinberum skjölum og reglugerðum. Hún er líka einstaklingsbundin og persónuleg, vegna þess að virðingin fyrir öðru fólki er ekki aðeins altæk, heldur sértæk, beinist að tilteknu fólki á tilteknum tíma í tilteknum aðstæðum. Við getum sagt öll réttu orðin, aðhyllst allar réttu skoðanirnar en samt brugðist öðru fólki þegar við mætum því, vorkennt í stað þess að standa með, verið köld og harðbrjósta þegar umhyggju var þörf, sokkið í meðvirkni og undanlátssemi þegar við þurftum að setja öðrum mörk. Reyndar erum við alltaf að klúðra einhverju, því ekkert okkar lifir fullkomnu lífi eða sýnir af sér hina fullkomnu breytni. Það leysir okkur ekki undan því að reyna og reyna aftur að sýna öðru fólki virðingu og elska það eins og okkur sjálf og Guð með, eins og tvöfalda kærleiksboðorðið segir okkur. Það leysir okkur ekki undan því að rækta með okkur hugmyndafræðilegt aðgengi, því í því felst virðing fyrir öllu fólki án tillits til fötlunar, kyns, litarháttar, kynhneigðar, stéttar, aldurs, efnahagsstöðu eða allra annarra girðinga sem mismunandi samfélag setur upp í heila okkar.
Á þeirri Jeríkógöngu, þeim krossferli sem elskan til Guðs og náunga markar dag hvern gengur Jesús með okkur. Hann opnar okkur aðgengi, breytir viðhorfi okkar og hugarfari. Hann horfir í augun á Bartímeusi Tímeusarsyni, Philippe, Driss sem er ég og þú og segir: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig, þig kæra mannvera sem ert undursamlega sköpuð og ert dýrmæt í augum Guðs, þig sem ert fötluð og ófötluð og Guðs útvalda barn?“. Og við svörum:
„Rabbúní, að við fáum aftur sjón.“
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.