Guðspjall: Lúk 16.1-9 Enn sagði Jesús við lærisveina sína: „Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann og var honum sagt að ráðsmaðurinn sóaði eigum hans. Ríki maðurinn lét kalla ráðsmanninn fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta er ég heyri um þig? Gerðu grein fyrir störfum þínum því að þú getur ekki verið ráðsmaður lengur. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gera fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég hvað ég geri til þess að menn taki við mér í hús sín þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni. Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu. Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu. Og húsbóndinn hrósaði svikula ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins. Og ég segi ykkur: Notið hinn rangláta mammón til þess að eignast vini sem taki við ykkur í eilífar tjaldbúðir þegar hann er uppurinn.
Geirmundur heljarskinn og Atli þræll
Landnámsmaðurinn Geirmundur heljarskinn nam land í Dölunum og á Hornströndum. Hann var höfðingi mikill, stórauðugur að lausafé og kvikfé, og fór um lönd sín eins og konungur væri með fjölmenni. Á Hornströndum hafði hann þræla yfir búum sínum. Atli í Fljóti var einn þessara þræla. Einn veturinn skaut hann skjólshúsi yfir skipbrotsmanninn Vébjörn sygnakappa og skipshöfn hans alla, en þau voru á flótta undan noregskonungi. Bað hann þau engu launa vetrarvistina, því að varla mundi Geirmund mat vanta. Þegar þeir Geirmundur og Atli fundust, spurði Geirmundur, “hví hann var svo djarfur, að taka slíka menn upp á kost hans”. “Því”, svaraði Atli, “að það mundi uppi meðan Ísland væri byggt, hversu mikils háttar sá maður muni verið hafa, að einn hans þræll þorði að gera slíkt að honum forspurðum”. Geirmundur svaraði honum, að fyrir tiltæki þetta skyldi hann þiggja frelsi og bú það, er hann varðveitti.”
Hér sjáum við hvernig Atli þræll spilar á hégómagirnd Geirmundar til að bjarga eigin skinni. Þessi frásögn úr Landnámu er stutt, en í henni er neisti, sem við fellum okkur við. Við dáumst að þeim sem eru kænir og kunna að koma vel fyrir sig orði, geta bjargað sér, jafnvel á annarra kostnað. Atli kitlaði hégómagirnd Geirmundar og komst upp með það. Ekki kunna menn skýringar á því hvers vegna Atli þræll þorði að gera slíka hluti aðrar en þær, að telja hann hafa verið höfðingborinn mann sem Geirmundur hafði hneppt í þrældóm. Venjulegir þrælar hefðu án efa verið höggnir fyrir minni sakir.
Svikuli ráðsmaðurinn
Í guðspjalli dagsins kynnumst við manni í svipaðri stöðu. Hann er ráðsmaður sem hefur verið settur yfir eigur húsbónda síns. Hann er sakaður um að bruðla og sóa þeim. Húsbóndinn krefur hann um skýrslu en tilkynnir honum uppsögnina um leið. Þessi dæmisaga fjallar um það hvernig við mætum kringumstæðum, sem eru óumflýjanlegar. Hún fjallar um það hvernig á að undirbúa sig undir framtíðina.
Ráðsmaðurinn fór yfir stöðuna og fann aðferð til að bjarga eigin skinni. Hann lætur skuldunautana niðurfæra skuldir um 20 og 50 %. Þetta eru hreinar afskriftir. Þar með gerði hann skuldunautana skuldbundna sér, því hver vildi ekki fá lækkun stórrar skuldar? Þeir hafa án efa spurt hvort þeir geti ekki gert eitthvað fyrir hann eða húsbóndann í staðinn. Þá hefur ráðsmaðurinn komið með tillögu, sem þeir gátu ekki hafnað. Ja, hann færi aðeins fram á, að skuldunauturinn gerði honum greiða í staðinn. Greiði fyrir greiða. Ráðsmaðurinn tryggði eigin framtíð. Þegar húbóndinn heyrði hvernig ráðsmaðurinn hafði nýtt möguleika sína gat hann ekki annað en hrósað honum fyrir kænsku, þó hann gæti ekki hrósað honum fyrir siðferðið. Hann hafði komið ár sinni verulega vel fyrir borð í vonlausum aðstæðum. Húsbóndinn hrósar ráðsmanninum fyrir klókindi, en meira er ekki sagt. Allar vangaveltur, um hvers eðlis viðskiptin hafi verið eða hvers vegna ekki er getið um að svikuli ráðsmaðurinn hafi verið lögsóttur, verða því aðeins getgátur.
Flestir eru sammála um að vandasamt geti verið að leggja út af þessari dæmisögu. Hún skiptir heiminum ekki í svart og hvítt, góða og vonda. Jesús tekur dæmi af svikulum ráðsmanni og hvetur áheyrendur sína til að hafa hann að fyrirmynd að nokkru leyti en ekki öllu. Jesús tekur undir að ráðsmaðurinn hafi verið svikull. En það þurfi samt ekki að koma í veg fyrir að hann geti verið fyrirmynd á einhverju sviði í lífi sínu. Einhverjir kunna að eiga erfitt með slík atriði og vilja gjarna að hlutirnir séu einfaldari, vondir séu vondir og því ekki fyrirmynd og góðir séu góðar fyrirmyndir.
Undirbúðu framtíðina
Aðalatriði dæmisögunnar er: Vertu forsjáll og undirbúðu framtíðina á meðan þú getur. Hér má útleggja á tvennan hátt: Það er skynsamlegt og hyggilegt að ganga frá sínum andlegu málum. Gæta þess að samband okkar við Guð sé í lagi. Það þurfum við að gera af sama kappi og lýst er í guðspjallinu. Í öðru lagi: Við eigum að nota gjafir Guðs, hæfileika okkar, eignir og peninga, eins og Drottinn vill. Í ljósi fagnaðarerindisins eigum við að hjálpa bágstöddum, snauðum og sjúkum. Við eigum að vera í heiminum sem þjónar réttlætisins, ávaxta okkar pund af krafti. Með öðrum orðum að elska Guð og náungann.
Jesús hvetur áheyrendur sína til að undirbúa framtíðina og nefnir hinar eilífu tjaldbúðir. Hann kallaði eftir því að áheyrendur hans notuðu sama kraft og útsjónarsemi og svikuli ráðsmaðurinn í að tryggja framtíð sína í hinum eilífu tjaldbúðum. Þær eru trúin, þau verðmæti sem eru eilíf. Líf Jesú snerist um þetta. Hann kom með þann boðskap að himnaríki væri í nánd. Að guðsríki væri líkt og perla fólgin í akri. Það væri eftirsóknarvert að selja allt sem maður ætti til að eignast þann akur og þar með perluna. Hann sagði okkur að velja mjóa veginn, því sá vegur lægi til lífsins, en hinn breiði til glötunar. Sjálfur sagðist hann vera vegurinn, sannleikurinn og lífið. Í öllu beindi hann sjónum manna að sér og sínu erindi. Hjá honum væri lífið að finna. Hann og faðirinn himneski væru eitt. Trúið á Guð og trúið á mig, sagði hann, hjarta yðar skelfist eigi né hræðist.
Söfnuðirnir og framtíðin
Mig langar í framhaldinu að fjalla um söfnuðina og framtíð þeirra. En afkoma þeirra snertir okkur öll. Um aldir hefur kirkjan verið farvegur trúariðkunar á Íslandi. Þó svo þjóðkirkja hafi aðeins verið stjórnarskrárbundin í rúma öld, hefur samstaða kirkju og þjóðar verið að mestu leyti góð. Það hefur ríkt góð samstaða um hvernig meiri hluti þjóðarinnar vill haga lífi sínu á hátíðar- og sorgarstundum lífsins. Við kirkjulega skírn, giftingu og útför er lífsskoðun beint í trúarlegan farveg. Við áföll veitir kirkjan þjónustu, sem samstaða hefur verið um langt út yfir trúfélags- og lífsskoðunaraðild. Kirkjan hefur tekist á herðar þær skyldur að vera til taks sem hluti af almannavörnum hvenær sem er. Það er ekki óeðlilegt þegar tæp 80% tilheyra þjóðkirkjunni og enn fleiri öðrum kristnum trúfélögum. En það hefur verið keppikefli kirkjunnar að veita faglega hjálp og stuðning. Samt er þetta aðeins hluti þjónustu kirkjunnar. Hennar meginstarf hefur verið að sinna trúarlegri þjónustu, boðun fagnaðarerindisins, menningu, kærleiksþjónustu og trúarlegu uppeldi. Til þess að öll þessi þjónusta geti gengið eru söfnuðir kirkjunnar dreifðir um allt land. Þeir hafa með höndum mikla starfsemi, sem útheimtir bæði kirkjur, safnaðarheimili og starfsfólk. Sóknargjöld eru rekstrarfé safnaðanna. Ríkið hefur tekið að sér innheimtu þessara félagsgjalda. Um það gilda ákveðnir samningar milli ríkis og kirkju. Í kjölfar hrunsins fór ríkisstjórnin fram á við kirkjuþing að taka þátt í niðurskurði á ríkisútgjöldum. Voru sóknargjöldin, sem eru í eðli sínu félagsgjöld en ekki skattar, lækkuð. En nú hefur komið í ljós að sú lækkun var langt umfram lækkanir hjá ríkisstofnunum. Nú er svo komið að nokkrir söfnuðir eru komnir í þrot en aðrir ramba á barmi gjaldþrots. Tæp 70 % safnaða náðu ekki endum saman árið 2010. Starfsfólki hefur verið fækkað eða laun lækkuð og viðhaldi frestað. Organistum hefur verið sagt upp, kórar lagðir niður, starfi meðal aldraðra hætt og heimsóknarþjónusta lögð niður, svo tekin séu dæmi um hagræðingu. Niðurskurðurinn hefur því komið niður á grunnstoðum í starfi safnaðanna, en því miður sérstaklega á barna og unglingastarfi, sem kirkjan hefur lagt mikla áherslu á að sé í hæsta gæðaflokki. (Sjá skýrslu nefndar um áhrif niðurskurðar fjárveitinga á starfsemi þjóðkirkjunnar). Ef þjóðkirkjan á að geta sinnt grunnþjónustu í starfi safnaðanna verður leiðrétting sóknargjalda að eiga sér stað. Það er ekki eðlilegt að söfnuðirnir beri meiri byrðar en aðrir. Ég kalla eftir réttlátri leiðréttingu svo unnt sé að halda úti nauðsynlegu safnaðarstarfi. Framtíð safnaðanna er í húfi og hið mikilvæga starf sem þeir sinna um allt land.
Jesús Kristur hvetur okkur til að huga að framtíðinni. Hann hnýtir saman guðstrú og náungakærleika. Hvorugt getur verið án hins. Sá sem játar kristna trú á að keppa að eilífri velferð sinni um leið og hann blessar náunga sinn. Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður, um aldir alda. Amen.