Hann var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa, og sat að borði. Þá kom þar kona og hafði alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Hún braut buðkinn og hellti yfir höfuð honum. En þar voru nokkrir, er gramdist þetta, og þeir sögðu sín á milli: Til hvers er þessi sóun á smyrslum? Þessi smyrsl hefði mátt selja fyrir meira en þrjú hundruð denara og gefa fátækum. Og þeir atyrtu hana. En Jesús sagði: Látið hana í friði! Hvað eruð þér að angra hana? Gott verk gjörði hún mér. Fátæka hafið þér jafnan hjá yður og getið gjört þeim gott, nær þér viljið, en mig hafið þér ekki ávallt. Hún gjörði það, sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrirfram smurt líkama minn til greftrunar. Sannlega segi ég yður: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess, sem hún gjörði, til minningar um hana. Mark. 14.3-9
Æ, það er ekki textinn um pálmana í dag. Ekkert talað um mannfjöldann, sem veifaði pálmagreinum sínum. Ekkert um meistarann, sem neitaði að setjast á frísandi stríðsfákinn. Ekkert á þessum sunnudegi um hann, sem hneykslaði öll sem gerðu pólitíkina að möndli tilveru sinnar og vonuðust til að Jesús Kristur yrði stjórnvald og uppreisnarleiðtogi gegn Rómverjum. Jesús var næmur á atferli, bað um asna til að ljóst væri að þar færi ekki herforingi, heldur maður friðarins. Hann hafði kærleikann að vopni og hin fyrirlitnu að samferðarrfólki. Burðardýrið var tákn friðar en ekki stríðs. Múgurinn veifaði greinum, en fór sjálfsagt að gruna að hann væri kannski ekki alveg í sambandi við raunpólitík þessi Jesús. En æ, þetta er ekki texti dagsins og þó er þetta pálmasunnudagur. Í upphafi vikunnar þegar ég fór að íhuga prédikunarstefin þótti mér súrt að hafa enga pálma.
Hvað er þá í boði í dag í textasafni kirkjunnar? Það svonefnd B röð, en það eru þó ekki neinir annars flokks textar! Lexía og pistill, sem Elín las áðan eru myndrænir og einhver myndi segja kvenlegir. Jesajatextinn er um vonbrigði og von, um lófa Guðs sem er skorinn nafni hinna fyriheitnu. Fyrr gleymir móðir en Guð. Síðan kemur þessi lyktarsterki texti úr síðara Korintubréfi. Páll tjáir okkur, að við séum sem lykt Jesú Krists, ilmur frelsarans, að við eigum að varast að vera ilmur dauðans, eða eigum við að segja náfnykur.
Smyrslakonan
Í fjórtánda kafla Markúsarguðspjalls eru engir pálmar, enginn asni, enginn múgur og engin pólitík til að grufla í heldur veisla í Betaníu, sem var n.k. Kópavogur, var í nágrenni Jerúsalem. Jesús var þar gestkomandi hjá Símoni líkþráa. Líkast til hefur hann verið orðinn heill en borið nafnið, sem hafði bundist við hann sjúkan.
Nafnlaus kona kom í húsið með buðk, eins og þessi dýrindis smyrslakrukka er kölluð í guðspjallsextanum. Ekki er vitað hver hún var eða hvað hún hét, en af líkum sögum í guðspjöllunum hafa ýmsir ætlað að þar hafi verið María Magdalena, sem er reyndar alls ekki sjálfgefið og jafnvel ólíklegt. Konan nafnlausa braut glasið og hellti úr því. Hún uppskar skammir. Hvers vegna að sóa smyrslunum?
Tíminn fyrir páska var góðgerðatími, tími hjálparstarfs meðal Gyðinga, tíminn til að styðja hina fátæku og hrjáðu. Því var spurt af hverju þessi smyrsl væru ekki seld og andvirði færi til í félagshjálpina. En Jesús kom til varnar konunni og minnti á, að hún gerði vel: Fátæka hafið þið alltaf meðal ykkar, þið getið alltaf stutt þá, en mig hafið þið ekki hjá ykkur með sama hætti. Smyrslakonan gerir vel, hún smyr mig til greftrunar. Er hér verið að fjalla um rétta smyrslanotkun í Israel, er þetta um kosmetík Gyðinga?
Dauðateikn
Engir pálmar, enginn múgur, bara kona með krem. Af hverju? Jú, við getum alveg skilið að þessi texti komi kyrruviku við. Niðurstaða Jesú er að hún geri vel að smyrja sig til greftrunar. Já, undirbúningurinn fyrir dauðann. Asnareiðin var auðvitað spámannlegt atferli Jesú. Hann hefur líka verið með hugann við allt táknmál ferðar til dauða. Pálmarnir voru konungsveifur og múgur með pálma var höfðingjahylling. Lærisveinarnir gátu sætt sig við að Jesús væri vinsæll. En þeir höstuðu á konuna og skildu ekki að smurning var merkingarþrungið atferli. Konungar voru smurðir til konungsdóms. Messías, heiti lausnara Ísrels, þýðir hinn smurði. En líka þessu umhverfði Jesús. Ekki vildi hann gangast við hinum gyðinglega konungdómi. Hjálpartæki konungsdómsins urðu að dauðateiknum og undirbúningi greftrunar.
Sjálfhverfur?
Textinn truflar. Hvaða persónueigindir tjáir Jesús? Var Jesús að tapa sér í sjálfsupphafningu, var hann að missa sjónar á öllu öðru en eigin ágæti, eigin ferð og eigin hlutverki? Þetta voru ekki neinar venjuulegar snyrtivörur sem konan kom með. Hún hafði ekki keypt þetta í Fríhöfninni, ekki í Hagkaup eða á markaðnum. Smyrslin voru einstök, framleidd af mestu kremsnillingum þátíðar, sem fluttu inn hráefnið frá Indlandi og bjuggu um dýrmætið í ambúlu, lokuðu glerhúsi, sem þurfti að brjóta eins og meðalaglös í gamla daga. Verðið er í frásögur fært, glasið kostaði sem svarar árslaunum verkamanns. Þess vegna urðu lærisveinarnir svo æstir, þeir hafa greinilega verið vel heima í snyrtivörubransanum.
Við vitum að hinum sjálfhverfu finnst eðlilegt að njóta alls hins besta. Var Jesús algerlega innfallinn í sjálfan sig, upptekinn af sér, þegar hann heimilaði konunni að sulla árslaunum á höfuð sér? Hann, sem alltaf var svo umhugað um aðra, meira en sjálfan sig.
Einmitt þarna erum við komin að djúpi textans. Alltaf verða einhverjir til að gagnrýna rismikil verkefni. Þegar miklu er til kostað er gripið til fátæklingarakanna. Runar er það svo að þau sem hafa hæst í gagnrýni og vilja að fátækum sé fremur hjálpað gefa jafnan minnst. Vissulega getum við ímyndað okkur, að Jesús hafi séð að konunni gekk gott til. Hann hefur kannski vitað að konan las aðstæður rétt, vissi að hann var á dauðaleið og vildi smyrja Jesú með kreminu, sem hún hafði ætlað sjálfri sér til eigin dauðasmurningar. Við ættum að horfa fram hjá aukaleikurunum í textanum, lærisveinunum, og horfa á atferli konunnar. Hún kemur með ótrúleg dýrmæti, eys þeim yfir Jesú og hann þakkar fyrir sig og sér í afstöðu og atferli hennar dýrmæti sem hann játar.
Hin guðlega sóun
Rósa Blöndals, rithöfundur, talaði einu sinni um að sköpunaratferli Guðs væri best lýst með orðunum “guðleg sóun.” Hún átti við, að Guð er örlátur, ríkulegur og yfirljótandi í verki sínu. Er ekki allt dálítíð ýkt í sköpunarverkinu? Hefðum við menn í skynsemi okkar talið nauðsynlegt að lífríkið væri svona fjölbreytilegt? Er ekki fjöldi skordýrategunda óþarflega mikill? Er nokkur þörf á svona miklu bitmýi í veröldinni, eins og sveitarstjórn Grímsness og Grafnings hefur komist að. Eru öfgarnir í hita, veðurfari og flekahreyfingum ekki heldur miklir? Er nokkur þörf fyrir allar víddir geimsins, þar sem milljónir sólna eru fyrir hvert sandkorn á jarðarkringlunni? Er þetta ekki alveg ofrausn? Jú, ef við horfum frá sjónarhóli þröngsýnnar hagfræði? Þetta er hin guðlega sóun, yfirfljótandi ríkidæmi Guðssköpunarinnar. Ef við hugsum ekki um fátækrapólitík til forna eða í samtíma heldur um, að Guð var í heimi var smurning konunnar ríkulegt andsvar við að hinn stóri og dýrlegasti kom. Þó hann hefði verið smurður með kjarnaolíum fimmtíu sólna hefði það ekki verið ósæmilegt. Þar hefði verið svarað með einhverju í takt við hið guðlega ríkidæmi, hina guðlegu elsku, hina guðlegu sóun. Við ættum kannski að æva okkur í að lesa texta Biblíunnar frá nýjum sjónarhól, hinum guðlega og stóra.
Allt afstætt - háð
Gyðingar hafa haft mikil áhrif á sögu mannkyns. Viðfangsefni gyðinglegra sjáendanna hafa verið mismunandi og sjónarhólar. Einhver hnytinn skýrði efni þeirra svona:
Móses sagði að lögmálið væri allt.
Jesús sagði að elskan væri allt.
Marx sagði að efnahagslífið væri allt.
Freud sagði að kynlífið væri allt.
En Einstein sagði að allt væri afstætt!
Allt afstætt, allt tengt, allt háð einhverju öðru? Getur verið að svo sé í lífi okkar, í þínu lífi líka? Hvað merkir þinn sjónarhóll og hver er grunnur hans? Ertu sammála Marx að kapítalið sé möndull tilverunnar? Eða er Freud þinn lagsbróðir. Er löghyggjan í grunni þínum? Eða ertu kanski post-modernisti, öll gildi á floti í fljóti tímans? Getur verið að við ættum við upphaf kyrruviku að hætta að blaka pálmunum, stoppa algerlega, tæma hugann og spyrja okkur sjálf hvort við séum lágkúruleg í lífi okkar og trúarefnum. Erum við að leggja smáaura til Jesú og kirkju hans en mættum alveg gefa allt og ávinna þar með allt, veita honum allt sem okkar er til að ganga inn í nýja tilveru?
Hvað þýðir hin smáa afstaða, sem fer á mis við ríkidæmið? Lítil saga til skýringar. Einu sinni sat betlari í Indlandi við veginn. Fólk gekk hjá og sumir sáu aumur á manninum og réttu honum nokkur hrísgrjón til að hann hefði mat. Stundum ákskotnuðust honum líka peningar. Einu sinni sá betlarinn skrúðgöngu nálgast. “Nú ber vel í veiði” hugsaði hann. “Þetta er líklega prinsinn. Hann hlýtur að gefa mé eitthvað!” Fólkið kom nær og betlarinn æpti. Vissulega var prinsinn á ferð, staldraði við og fór til betlarans. En í stað þess að gefa bað prinsinn betlarann um að gefa sér hrísgrjón! Betlarinn varð hvumsa við og sagði af þröngu, hagnýtu hyggjuviti: “Ég get það ekki því ég verð að borða eitthvað.” Prinsinn bað aftur og hnugginn og reiður tók betlarinn þrjú hrísgrjón og rétti fram. Prinsinn tók þau og síðan upp pyngju sína og rétti betlaranum þrjá gullmola og hélt sína leið. Betlarinn var yfirkominn af flónsku sinni og veinaði: “Af hverju gaf ég honum ekki öll grjónin?”
Gleðiskert eða auðug
Við getum sem best spurt okkur sjálf: Erum við smæðarleg í lífsafstöðu okkar? Af hverju erum við svo naum í lífsgleði okkar? Af hverju teljum við fram svo fá grjón þegar einkenni lífsins er ríkidæmi, gleði, fögnuður, ótrúlegir möguleikar, vonarefni, framtíð? Hver er lífshagfræði þín? Hver er gleði þín? Þröng eða guðlega mikil?
Hún bar ekkert nafn, konan í guðspjallinu. Hún var “No-name face” Israels og kom með dýrustu snyrtivörur heimsins, ekki fyrir sig, heldur til að bera á hann sem var allt. Hún átti elsku til hans, hún hafði gert hann að möndli tilverunnar, kosið hann eins og segir í Hallgrímssálminum (sem lesið var úr fyrr í messunni og er nr. 27). Ekkert var of gott fyrir hann sem hún elskaði. Hún bar honum krem, honum sem gat sléttað allar hrukkur heimsins. Þar með varð hún orðinn boðberi hins guðlega drama um veröldin er ekki smá heldur stór, að andleg naumhyggjan er slæm en andleg auðhyggja er lofleg. Að tilvera manns er vera til Guðs. Ekkert í andsvari mannsins við Guðsverkinu er of stórt, engin fórn er of mikil.
Hún gaf mikið en ávann allt. Hvaða tré veifar þú við þessum Kristi á asnanum? Hvaða smyrslaker brýtur þú? Er það lífsker þitt, eru það fordómar þínir, venjur þínar, höft þín og varnir? Smyrslin sem þú getur smurt Jesú með við upphaf kyrruviku geta verrið trúrækni, hógværð, elska til hans og opnun gagnvart hinu stóra guðlega drama. Betra er ekki til, meira er ekki mögulegt, en það er flott andsvar við honum sem situr í húsi Símeons og bíður þín.
Prédikunin var flutt í Neskirkju á pálmasunnudegi, 20. mars 2005.