Lítil eins og sinnepsfræ

Lítil eins og sinnepsfræ

Á þeim krossgötum talar Biblían til okkar. Hún miðlar okkur þeirri hugsun að trúin er í lykilhlutverki til að leiðbeina okkur eftir þeirri braut. Og gengur enn lengra. Hún greinir á milli þeirrar trúar sem er eigingjörn og skeytingarlaus um hag náungans og svo hinnar sem ber ríkulegan ávöxt í þjónustu okkar og köllun. Þótt sú síðarnefnda kunni að vera lítil eins og sinnepsfræ – þá er hún lifandi og þar skilur á milli.

Við þurfum að ræða aðeins um leikinn á föstudaginn. Handbolti er ekki fyrir viðkvæma. Spennan er mikil og hraðinn óskaplegur. Það er í raun mesta furða að þessi íþrótt skuli ekki hafa sigrað heiminn nú þegar. Spekingarnir sitja í sófum um land allt og víðar og deila úrræðum í vörn og sókn. Sá sem hér talar er engin undantekning.

 

Að missa trúna

 

Eitt eiga þeir flestir sameiginlegt hvort heldur þeir stjórna liðum á gólfinu, lýsa leik á skjánum, hrópa á áhorfendabekkjum eða tuða í sófum og hægindastólum – það er sú fullvissa að til þess að lið geti sýnt sínar bestu hliðar þarf að hafa trú á verkefninu.

 

Þar er nú heldur betur snertiflötur við þennan vettvang hér. Leikmenn sem eru trúlausir á eigin getu, sjálfan málstaðinn og allt það sem æft hefur verið og skipulagt – eru afar ólíklegir til þess að ná árangri.

 

Við segjum gjarnan við fermingarbörnin – einkum þegar við undirbúum athöfnina að þau eigi að „sitja eins og sigurvegrar“. Þar er átt við að þau séu bein í baki, hakan vísi fram og axlir og bak séu ekki hokin og álút. Líkamstjáningin segir nefnilega mikið um það hvað okkur kann að finnast, hversu sannfærð við erum, hvaða möguleika við teljum okkur hafa á vellinum og já í lífinu.

 

Því þessi ferkantaði vettvangur þar sem rimman fer fram er um margt eins og lífið sjálft. Þar þarf að sækja á brattann, horfast í augu við mótlæti rétt eins og í tilverunni eru bjartir dagar og dimmir. Tímabil velgengni taka skyndilega enda og hreinlega ekkert gengur upp. Andstæðingurinn í þeirri viðureign er ekki endilega klæddur í gulan og bláan búning eins og þarna um daginn. Nei, hann getur verið ósýnilegur, stundum býr hann innra með okkur sjálfum – einhver vanmáttur sem skyndilega læsir um sig í sálinni og allt ætlar að fara á versta veg.

 

„Það er alveg greinilegt að leikmenn hafa misst trúna“ – segja þá spekingarnir.

 

Fullvissa um það sem menn vona

 

Þessir textar okkar fjalla um trú – hver á sinn hátt. Í pistlinum skrifar postulinn að trú sé „fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ Og í beinu framhaldi kemur einmitt fram að fyrir trú hafi menn hlotið náð fyrir augum Guðs. Hér gegnir trúin í raun svipuðu hlutverki og í átökum á leikvangi nú eða í lífinu. Hún horfir til framtíðar og trúmaðurinn lætur sannfæringuna bera sig áfram í gegnum hindranir.

 

En svo komum við að Guðspjallinu og það hefst á þessari frómu ósk postula Jesú: „auk oss trú!“

 

Er þetta ekki í samræmi við það sem fyrr er sagt? Er ekki mikil trú af hinu góða um leið og lítil trú dregur úr okkur máttinn? leiðir lítil trú ekki til þess að höfuðið slútir fram og hendur hanga með síðum? Já, hefði Jesús ekki átt að fagna þessari ósk vina sinna og lærisveina og töfra fram handa þeim heilmikinn skammt af þessum elexír sem trúin er? Þeim mun meira, þeim mun betra.

 

Mikil og lífvana?

 

Nei, þetta er ekki svona einfalt – ekki í samhengi kristinnar trúar. Þetta snýst ekki að endingu um trú eða trúleysi, litla trú eða mikla. Staðreyndin er sú að einhver skarpasta ádeila á trúarlíf fólks birtist okkur á síðum Biblíunnar. Þar finnum við skarpan tón sem beinist að trúarhegðun fólks, bænalífi, siðferði og ýmsu því öðru sem við getum tengt átrúnaði. Spámennirnir ganga fram af hörku gegn alls kyns trúarathöfnum sem höfðu þann tilgang að færa auðmönnum enn meiri velsæld. Þar mætir okkur sú hugsun að þegar kemur að átrúnaði og siðum – þá er ekki sama umbúðir og innihald.

 

Þetta er í raun inntakið í boðskap Biblíunnar. Í fjölgyðistrú var markmiðið að blíðka goðmögnin svo fólki myndi ganga allt í haginn. Sú iðja lifði góðu lífi meðal Ísraelsmanna, þótt þeir væru aðeins með einn guð. Gegn þessu beindu spámennirnir spjótum sínum. Þeir boðuðu aðra sýn. Fólk skyldi ekki færa fórnir á altarið í musterinu heldur áttu augu þess að beinast að bágstöddum. Ekkjan og munaðarleysinginn eru nefnd í sömu andrá og lifandi trú fólksins. Það eru þau sem eiga sér engan málsvara í hörðum heimi.

 

Umhyggja okkar í garð þeirra einstaklinga – það er sú fórn sem er Guði þóknanleg. Hósea talar um samskipti manns við Guð sem sáttmála. Þar verður spurningin ekki eingöngu sú, hvað fáum við frá Guði, heldur hvað það er sem við erum reiðubúin að leggja sjálf af mörkum. Svarið er skýrt: Guð vill að við gætum réttar hinna veiku, sköpum samfélag sem einkennist af réttlæti.

 

Já, hér er í raun kveðið við nýjan tón í sögu mannkyns og menningar. Andstæðingar kristinnar trúar hafa gjarnan haldið því fram að þar sé öllu snúið á haus miðað við það sem gildir í ríki náttúrunnar. Þar sé hið sterka ákjósanlegt en um leið beri að forðast það sem er veiklundað. Þetta átti einkum við eftir að Darwin setti fram kenningu sína um að fjölbreytileiki lífríkis jarðar ætti rætur að rekja til þess að hin hæfustu lifðu af og fjölguðu sér en þau sem ekki næðu því yrðu undir og hyrfu af spjöldum sögunnar.

 

Þótt tilgangur Darwins hafi ekki verið annar en að skýra veruleikann tóku ofbeldismenn upp þráðinn og réttlættu með þessu kynþáttahyggju og kúgun á heilu þjóðunum. Og nýttu hin nýfengnu sannindi til að vega að því siðferði sem Biblían boðar – þar sem veikleikinn er upphafinn í þeirri merkingu að tilgangur lífs okkar er að hlú að okkar minnstu systkingum. Sú er einmitt raunin og birtist hvað skýrast í því þegar sjálfur frelsarinn er negldur á kross sem þótti endurspegla hina algeru niðurlæingu og smánun í því umhverfi.

 

Já, „auk oss trú“ segja postularnir við Jesú. Jesús hafði greinilega engan áhuga á því að færa þeim risastóran skammt af trú – því trúin á ekki að vera stór og dauður klumpur sem er ekki annað en framlengin á eigingirni og sérhyggju. Þess vegna dregur hann fram hina algeru andstæðu: þetta agnarsmáa frækorn: mustarðskornið, sinnepsfræið. Þar er ekki umfanginu fyrir að fara en kornið er auðvitað lifandi. Það getur vaxið og eflst svo að fuglarnir geta leitað þar skjóls og fengið fæðu. Já, hér má segja að við séum komin í ríki náttúrunnar, þar sem tréð teygir úr sér og þar iðar allt af lífi.

 

Lítil en lifandi?

 

Þetta er einmitt lifandi trú þar sem ekki er spurt um að hvað ég vil frá Guði, heldur hvað Guð vill frá mér. Þess vegna setur Kristur fram þessa líkingu um þjóninn sem telur sig eiga rétt á toppþjónustu frá húsbónda sínum, bara fyrir það að vinna þau verk sem honum var ætlað að leysa af hendi. Hér er því vegið að þeirri hugsun að Guð sé einhver himneskur þjónn eða pöntunarlisti. Þess í stað beinir Jesús sjónum sínum inn að kjarna okkar tilveru og bendir á að við höfum ríku hlutverki að gegna í lífinu, sem miðar að því að vera verkafólk Guðs hér á jörðu.

 

Á íþróttavellinum eru taugar þandar og allt er lagt undir til að ná settum markmiðum. Það er ekki að undra að fólk leggi á sig löng ferðalög til að sjá slíkan viðburð, nú eða hrópa hvatningarorð eða fúkyrði úr sófanum heima þegar mest gengur á. Þar göngum við fram á krossgötur þessarar iðju og svo hinnar raunverulegu leitar mannsins að merkingu og tilgangi í sínu eigin lífi.

 

Á þeim krossgötum talar Biblían til okkar. Hún miðlar okkur þeirri hugsun að trúin er í lykilhlutverki til að leiðbeina okkur eftir þeirri braut. Og gengur enn lengra. Hún greinir á milli þeirrar trúar sem er eigingjörn og skeytingarlaus um hag náungans og svo hinnar sem ber ríkulegan ávöxt í þjónustu okkar og köllun. Þótt sú síðarnefnda kunni að vera lítil eins og sinnepsfræ – þá er hún lifandi og þar skilur á milli.