Bonhoeffer

Bonhoeffer

Það er 9. apríl 2015. Við minnumst þess að einn hinn besti guðfræðingur og sálusorgari síðustu aldar, Dietrich Bonhoeffer var myrtur af nasistum á þessum degi fyrir réttum 70 árum í þann mund sem þeir töpuðu stríðinu.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
09. apríl 2015

Dietrich Bonhoeffer

Það er 9. apríl 2015. Við minnumst þess að einn hinn besti guðfræðingur og sálusorgari síðustu aldar, Dietrich Bonhoeffer var myrtur af nasistum á þessum degi fyrir réttum 70 árum í þann mund sem þeir töpuðu stríðinu.

Ég gat ekki látið vera að nefna það bæði í predikun á föstudaginn langa og á páskadag að ég hef mikið hugsað um það að undanförnu hvernig Bonhoeffer gat mætt dauða sínum í þeirri rósemi og yfirvegun sem kemur fram í skýrslu herlæknisins sem tilkvaddur var þennan morgunn sem hann var hengdur.

Læknirinn sagði frá því að hann hefði aldrei séð nokkurn mann mæta dauða sínum með þessum hætti. Hann hafi beðið stuttrar bænar og síðan gengið upp á pallinn rólegur og yfirvegaður. Hvernig gat hann það? Svar: Andinn kemur til manns, eins og mjúkt faðmlag Guðs, og með honum fullvissan um að Guð lætur þig ekki einan eftir. Ekki heldur í dauðanum.

Þetta svar byggi ég á því sem Bonhoeffer sagði sjálfur í predikun sem m.a. fjallaði um dauðann. Lauslega þýtt sagði hann þetta:

Dauðinn er einungis þeim hræðilegur sem óttast og hræðist. Dauðinn er ekki grimmur og skelfilegur, ef við mætum honum í kyrrð og rósemi og höldum okkur við Guðs orð. Dauðinn er ekki beiskur dauði, ef við erum ekki beisk. Dauðinn er náð, stærsta Guðs náð sem Guð gefur þeim sem trúa á hann.Dauðinn er mildur, dauðinn er ljúfur, dauðinn er mjúkur, dauðinn lokkar með himneskum krafti, þegar við vitum að hann er hliðið inn í heimkynni eilífðarinnar, inn í tjaldbúð gleðinnar, þar sem friðurinn ríkir að eilífu.

Lofaður sé Guð sem gaf okkur Dietrich Bonhoeffer og fyrir allt sem Bonhoeffer gaf okkur.

Blessuð sé minning hans.