Jesús var að kenna á hvíldardegi í samkundu einni. Þar var þá kona nokkur. Í átján ár hafði hún verið sjúk. Hún var kreppt og alls ófær að rétta sig upp. Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: „Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!“ Þá lagði Jesús hendur yfir hana og jafnskjótt gat hún rétt úr sér og lofaði Guð.En samkundustjórinn reiddist því að Jesús læknaði á hvíldardegi og mælti til fólksins: „Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna ykkur og ekki á hvíldardegi.“
Drottinn svaraði honum: „Hræsnarar, leysir ekki hver ykkar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns? En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?“ Þegar Jesús sagði þetta urðu allir mótstöðumenn hans sneyptir en allt fólkið fagnaði yfir öllum þeim dýrðarverkum er hann gerði. Lúk 13.10-17
Hver er kreppta konan?
Ég sé fyrir mér mynd. Hún ber titilinn „Einstæð móðir“ og er eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur. Hún sýnir konu sem stendur eilítið gleið, heldur á tveimur bónuspokum og horfir beint í augu áhorfendans. Hún er nakin, fyrir utan svarta sokka sem ná upp á læri og svarta támjóa skó. Axlir og brjóst eru svolítið sigin og sköpin vel snyrt. Hún er hversdagshetja sem mætir okkur hvorttveggja í reisn sinni og lægingu.
Ég hugsa: Kannski er þetta kreppta konan. Hún er konan sem lifir í og fæst við afleiðingar kreppunnar á Íslandi. Hún hefur þurft að standa undir afborgunum lána sem hækkuðu upp úr öllu valdi, tekið á sig launaskerðingu og hækkanir á lífsnauðsynjum - eða kannski missti hún vinnuna eins og svo margir karlar og konur hafa undanfarið á landinu okkar og á hreinlega í erfiðleikum með að láta enda ná saman.
Kannski er hún konan sem þurfti ekki bara að horfa upp á efnahagskerfi landsins síns hrynja, heldur einnig trúverðugleika stofnana sem hafa það hlutverk að vera sameiningartákn og leiðarljós til góðra hluta í lífinu. Hún er kreppt vegna þess að í umhverfinu hennar hefur tæknileg færni og köld efnishyggja lengi borið gildameðvitund sem metur rétt og rangt, ofurliði. Skólagangan gerði hana hæfa í faginu sínu - en gaf henni ekki tækin til að meta ábyrgð og skyldur í ólíkum aðstæðum daglegs lífs. Hún fór út í lífið án þess að fá í veganesti kennslu í siðfræði, lífsleikni, trúarbragðafræði, kristnum fræðum eða heimspeki - vegna þess að trú og lífskoðanir þykja ekki þess virði að fá pláss í opinberu rými og almennu skólakerfi.
Ofurtrú á framgang, samkeppni og efnisleg gæði eru það sem kreppa þessa konu. Og hún getur ekki rétt sig upp.
Eða kannski fór hún út í lífið með slæma reynslu af einhverjum sem töluðu við hana um Guð og trúna. Kannski var einhver sem misnotaði traust hennar í kirkjunni og var ekki góð fyrirmynd. Kannski var lögð á hana neikvæð og ljót mynd af henni sjálfri - fyrir það að vera hún sjálf. Fyrir það að vera kona. Og hún getur ekki rétt sig upp.
Kannski hefur ljóta og kreppta myndin sem hún burðast með af henni sjálfri snúist upp í virðingarleysi gagnvart öðrum systrum og bræðrum. Kreppan á Íslandi snýst ekki fyrst og fremst um efnahagsmál - heldur um myndina sem við berum í hjartanu af okkur sjálfum og þeim sem í kringum okkur eru. Kreppan er að bera ekki virðingu fyrir sjálfri sér og öðrum. Það er það sem kreppir okkur, konur og karla, og við getum ekki rétt okkur upp.
Hvað er það sem reisir okkur við?
Það er afkreppandi þegar okkur er mætt sem manneskju sem er mikils virði. Það er afkreppandi þegar við erum virt fyrir það sem við erum, fyrir það hvernig okkur líður, ekki hvort við erum í valdastöðu eða eigum réttu vinina. Við erum allt í lagi.
Þegar kreppir að skulum við muna að í augum Guðs erum við falleg, góð og þýðingarmikil. Einstæða móðirin er dóttir Abrahams sem Jesús segir við: "Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!" Þú ert laus, þú ert frjáls. Þú getur rétt þig upp.
Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.
* * *
Þessi prédikun var flutt í Grafarvogskirkju á kvennréttindegi, 19. júní. Hún var flutt af þremur prestsvígðum konum og er í þremur hlutum:
Guðrún Karlsdóttir: Hver er kreppta konan I Sigrún Óskarsdóttir: Hver er kreppta konan II Kristín Þórunn Tómasdóttir: Hver er kreppta konan III