Guðspjallið Matt. 9.1-8
Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: "Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar."Hið illa og afstaðan Postullega trúarjátningin, sem við fórum með áðan, byrjar með játningunni á Guð föður. Við sögðum: “Ég trúi á Guð föður, almáttugan skapara himins og jarðar...” Í dönsku kirkjunni var fyrir löngu bætt framan við afneitun á hinu illa. Danska útgáfan var í mínum uppvexti notuð í KFUM og K og þá hófst játningin svona: “Ég afneita djöflinum, öllu hans athæfi og öllum hans verkum. Ég trúi á Guð, föður, almáttugan skapara...” og svo framvegis. Íslensk kona hélt á barnabarni sínu undir skírn í Danmörk og presturinn sagði, að hann myndi spyrja fólk, fyrir hönd barnsins, hvort það játaði einstökum trúarjátningarinnar í skírnarathöfninni. Svo byrjaði prestur. “Afneitar þú djöflinum, öllu hans athæfi og öllum hans verkum.” Konan kunni dönsku, en brá við þessa óvænta byrjun, enda hafði hún aldrei verið í KFUK. Hún svaraði því prestinum: “Nej, det gör vi ikke i Island!” Er það svo að við afneitum ekki hinu illa heldur leyfum því að fljóta með? Er allt leyfilegt, er allt á floti? Ekki óska ég eftir að við notum dönsku játninguna, en vörn gegn öllu illu er hins vegar afar meðmælanleg í lífinu.Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: "Hann guðlastar!"
En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: "Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar' eða: ,Statt upp og gakk'? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér" - og nú talar hann við lama manninn: "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!"
Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.
Guð last - síðastur? Spekingarnir sögðu við sjálfa sig: Þessi Jesús guðlastar. Þeir voru fræðimenn síns tíma, vissu hvað væri ásættanleg hegðun og hvað ekki. Regluverk Gyðinga var skýrt og á hreinu hvenær menn fóru yfir strikið, gerðu eitthvað eða sögðu sem Guði væri ekki þóknanlegt. Þeir vissu, að gott væri að fyrirgefa, en að fyrirgefa syndir vissu allir, Jesús líka, að væri að setja sig í sæti Guðs. Það væri guðlast. Jesús var forhertur og hið meinta guðlast hans svo ítrekað, að hann var ofsóttur og líflátinn að lokum. Guðlast og líflát hafa löngum farið saman.
Prédikunarefnið í dag er guðlast. Strákur einn var spurður hvað það væri. Hann var ekki alveg viss og fór að hugsa um hvað þetta last þýddi. Komst að þeirri niðurstöðu að það hlyti að vera enska orðið last og merkingin væri, að Guð væri síðastur!
Last – síðastur, guðlast - Guð í lokin! Eða hvað?
Niðrandi tal um Guð Orðabækurnar, slangurorðabókin meðtalin, kannast ekki við svona hugvitssamlegan málblending! Orðabókin skýrir merkinguna - tala óvirðulega um Guð, lasta Guð, hafa Guð að spotti. Þessi skilningur, sem flestir munu hafa lagt í hugtakið, tengist túlkun á boðorðinu: “Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.” Um aldir hefur verið reynt að sporna við bölvi fólks með því að benda á að ragnið væri brot á fyrsta og öðru boðorðinu. Hugtakið guðlast hefur löngum verið óvirðulegt, niðrandi tal um Guð.
Lífið lá við Guðlast var svo alvarlegur glæpur meðal hinna fornu Hebrea að refsað var með dauða. Í þriðju Mósebók 24.16 er sagt að sá er fremji guðlast skuli grýttur og þar með líflátinn. Á þessari aftökuhefð voru þær lögskýringar Gyðinga grundaðar, sem voru notaðar gegn Jesú til að dæma hann.
Býzantíski keisarinn, Justinianus 1, sem uppi var á sjöttu öld hins kristna tímatals tók upp dauðarefsingar við guðlasti. Fjöldi þjóða fylgdi þessu fordæmi. Englendingar afnámu ekki dauðarefsingu vegna guðlasts fyrr en á sautjándu öld og Skotar ekki fyrr en á þeirri átjándu.
Ég held, að flestir sagnfræðingar séu sammála um, að þessi refsiharka hafi ekki verið vegna Biblíuhlýðni eða trúarástæðna heldur fremur vegna stjórnmála og valdavarnar. Árás á trúargildi var jafnan túlkuð, sem árás á ríkjandi samfélag og stjórnvöld. Trú og siður voru eitt. Guðlast var samfélagslast. Guðlast var níð um samfélag og ekki liðið. Refsingin var hörð og oft dauði.
Vestrænar þjóðir hafa sem betur fer lagt af dauðarefsingar við ógætilegu hjali. Við njótum nú mannréttinda, sem eru ávöxtur margra alda frelsisbaráttu. Við njótum frelsis til trúariðkunar og frelsis til tjáningar. Þau dýrmæti hafa ekki sprottið upp þrautalaust. Réttindin hafa sprottið upp á akri kristinnar kirkju og í skjóli kristinnar kenningar. Kristin kenning leggur áherslu á dýrmæti hverrar manneskju og mannréttindabálkar eru í samræmi við elskustefnu kristninnar. Frelsi einstaklingsins er dýrmætt og því má ekki fórna þó að því sé sótt úr ýmsum áttum.
Íslenskt guðlast Ekkert íslenskum lögum bannar beinlínis guðlast. En í almennum hegningarlögum eru ákvæði, sem úrskurða þá athöfn refsiverða, sem smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags (125 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940). Árið 1984 féll dómur í Hæstarétti sem m.a. er kenndur er við tímaritið Spegilinn. Í Speglinum hafði verið gert grín að altarissakramentinu og dómurinn taldi umfjöllun blaðsins refsiverða. Af dómsorðunum má líka ráða, að það sé refsiverð háttsemi að grínast með kjarnaatriði tiltekinnar trúar eða trúfélaga.
Fyrr og síðar hefur margt verið sagt, skrifað og flutt í útvarpi og birt í sjónvarpi, sem hefur verið á mörkum hins siðlega. En fleiri dómar hafa ekki gengið í guðlastsmálum - mér vitanlega. Það er gott. Samfélagið verður ekki Guði þóknanlegra, tillitssamara og betur meðvitað þótt guðlastsdómar væru felldir. Þvert á móti. Ofsóknir fólks hafa aldrei eflt ríki elskunnar í heiminum. Hefðum við verið bættari ef Helgi Hóseasson, mótmælandi Íslands, hefði verið dæmdur fyrir guðlast? Nei og hann ekki heldur. Hefðum við verið bættari ef Spaugstofumenn hefðu verið sektaðir eða fangelsaðir fyrir trúarlegan glannaskap á kirkjulegum hátíðum fyrir og síðar? Nei, ekki þeir heldur og Guði allra síst verið sómi sýndur.
Matthías og trúartúlkunin Í fyrradag kom út spennandi bók um skáldprestinn Matthías Jochumsson. Hann var á sínum tíma úthrópaður fyrir guðlast, en varð áður en yfir lauk metinn fyrir að þora að velta um trúarsteinunum og taka afleiðingum af menningarstraumum síns tíma. Á gamals aldri var hann að verðleikum sæmdur heiðursdoktorsnafnbót í guðfræði við HÍ. Hinir trúarlegu byltingamenn, spámenn, hugsuðir hafa löngum þurft að þola andóf, kærur og andróður. Munum að staldra við, dæma ekki menn fyrir nýjungar. Þröngsýnir og hræddir menn eru fljótir til lasts en gætum að. Reynum anda, skoðanirnar og talsmátann. Það er allur munur á hatursfullu lasti og elskuríkri nýsköpun þó hægt sé að ruglast á einstaka hugmyndum og skoðunum. Hugurinn, afstaðan, skiptir máli.
Bullið og lágkúran Við skoðun á veraldarvefnum sést vel hversu margir landsmenn okkar tala niðrandi um Guð, hnjóða í trúarlegt atferli, lasta trúarkenningar einstaklinga og trúfélaga og smána trúarefni með ýmsum hætti. Ef saksóknari hefði ekki annað þarfara að gera væri hægt að sækja marga til saka. Sem betur fer eltir embættið ekki kjánaskapinn.
Mér hefur orðið nokkurt umhugsunarefni hvað valdi að svo margir láti vaða á súðum, sendi frá sér efni sem getur meitt og sært trúmenn með ýmsum hætti. Smekkleysan flæðir um æðar netsins. Er þetta bara sóðakjaftur illa gefinna unglinga? Niðurstaða mín er, að megnið af skætingi í garð trúar og trúarefna eigi sér rætur í slæmum smekk og lélegu skopskyni, sem fer því miður oft saman.
Margir hafa gert sér leik að klæmast með hið trúarlega. Life of Brian er ein útgáfa og myndaröðin um Pú og Pa önnur. Líklega kemur talsvert af þeim aur, sem skvett er yfir trúarlendurnar, úr vondri bernskureynslu, óuppgerðri reiði í garð einhverra, sem voru vond ásjóna uppeldisaðila, valds eða trúarstofnunar. Það sem sýnist vera guðlast er kannski stundum birtingarmynd eða tjáning óuppgerðar reiði í garð vonds foreldris eða hamingjusnauðrar bernsku?
Trúleysingjar Síðan er svo sá hópur þeirra, sem trúir ekki á Guð, en hallmæla ekki átrúnaði, trúmönnum og einstökum kenningum. Þessir tala um trúleysi sitt með rökum, oftast með yfirvegun og án þarfar til að ofsækja trúmenn eða tala niður til þeirra. Þessi hópur hefur sjaldnast verið ofsóttur sem guðlastarar og um þá verður ekki rætt frekar í þessu samhengi.
Heilagleikinn hverfur Af hverju skyldi ég tala um guðlast? Í sálgæslu síðustu ára hef ég séð inn í heima þjáningar. Einkenni margra brotinna fjölskyldna og líðandi einstaklinga er tóm eða skortur. Ég var lengi að átta mig á í hverju vöntunin væri fólgin, af hverju markaleysið væri svo skefjalaust, af hverju allt flyti, af hverju allt væri leyfilegt með óumflýjanlegum endi óhamingju og áfalla. Aðstæður fólks eru vissulega mismunandi, en mér sýnist einkenna líf margra þessara að þau skorti gildi, tilfinningu fyrir að til er dýpri réttur en einstaklingsrétturinn eða og máttur hnefans.
Margt af þessu fólki hefur ekki lært að gera nægilega skarpan greinarmun á réttu og röngu, greina mikilvæg gildi frá yfirborðsgildum, hefur sumt ekki hlotið djúpa elsku sem veganesti bernskunnar og skilur ekki muninn á spennu og ást, aga og frelsi, grunnþörfum og yfirboðsþáttum, inntaki og yfirborði.
Af hverju hafa hæðir og lægðir lífsins flast svona út í lífi fólks? Niðurstaða mín er, að heilagleikinn hafi horfið úr lífi svo margra, vitundin um að til eru gildi sem eru algild, sem eru æðri einstaklingnum, og þar með að til er Guð sem er regindjúp elskunnar í veröldinni og berst fyrir að fólk meti sjálft sig mikils, meti annað fólk sem guðlegt dýrmæti, sem ekki megi fara öðru vísi með en sem undur lífsins. Sá Guð er líka skapari alls og vill að við umgöngumst lífið sem heilagar gjafir, en ekki einnota drasl í þágu skyndikynna og skyndinota.
Allt leyfilegt? Nietzsche skrifaði á sínum tíma: "Gott ist tot, Gott ist tot. Wir haben ihn getötet." Og Dostojevskíj minnti á að: “Ef Guð er ekki til er allt leyfilegt.” Ef Guð hverfur úr lífi fólks og þjóða er hætta á að á nokkrum kynslóðum hverfi gildin, hverfi munur góðs og ills, hverfi siðgreind fólks og þar með verði allt flatt. Allt flýtur. Kannski er aðeins eitt aðalgildi eftir, réttur einstaklingins. Tjáningarfrelsið verður þar með sem næst heilagur réttur, sem ekki má takmarka? Kristnin hafnar því að tjáningarfrelsi lifi í einhverju limbói, sé einhver ofurréttur sem ekkert megi hrófla við eða takmarka. Tjáningarfrelsið má ekki verða sem guðlegt gildi, sem allt annað verði að lúta. Mér sýnist, að í lífi of margra Íslendinga séu þau gildi að rýrna, sem ekki eru í þágu einstaklinganna sjálfra. Þegar gildagrunnurinn springur verða slys í lífi fólks.
Hvað er þér heilagt, hver eru gildi þín? Er eitthvað sem skiptir þig algeru máli? Þar er hið trúarlega í lífi þínu. Ef þú hefur ekkert af slíku fer allt á flot. Allir verða þá viðfang samkeppni, allir á bullandi siglingu á sjó eigin langana, reyna að fróa eigin sjálfi og duttlungum. Er nema von að mörgum líði illa í slíku tómi, er nema von að fólk sökkvi?
Tala, gera - vera “Hann guðlastar” hugsuðu fræðimennirnir þegar Jesús fyrirgaf syndir. Þeir vissu að enginn mátti fyrirgefa syndir nema Guð. Jesús reyndi þá og spurði: Hvort er auðveldara að segjast fyrirgefa syndirnar eða reisa manninn upp? Orð eða verk. En þar sem Jesús læknaði manninn snarlega var komið að hinni spurningunni um fyrirgefningu syndanna. Þar urðu þeir síðan að svara að nýju. Ef hann væri fær um að lækna gæti kannski verið, að þar færi maður með mátt himinsins í sér? Guðlegur!
Hvað gerum við? Er guðlastið bull annarra eða nær okkur en við höldum. Við þurfum stöðuglega og á hverjum degi að ákvarða hvaða gildi við höldum í heiðri, hvaða veröld við viljum gista og hvernig við viljum umgangast aðra. Við eigum fæst á hættu að vera dæmd fyrir guðlast. En í samskiptum við fólk, í afstöðu til náttúrunnar, í lífsdansi okkar fellum við þó stöðugt dóma. Ef við ekki höldum gildi í heiðri, ef við ekki virðum mannlíf og sköpun, guðlöstum við. Þegar dýpst er skoðað hæðum við Guð ef við ekki viljum eiga samskipti við þennan ástmögur sem umvefur okkur.
Hundeltum ekki þau sem guðlasta. Jafnvel þau eru trúarlífi mikilvæg því þau sýna okkur gilda- samskipta- og orðræðu-þroska samfélagsins. Hugum fremur að guðlastinu í okkur sjálfum. Höfnum öllu illu en munum að Guð er síðastur. Getur verið að við þurfum að heyra skilgreiningu stráksins, að Guð sé last, síðastur. Sá Guð, sem ég þekki, hefur góðan húmor og gleðst yfir sprikli manna, sköpunarverkinu. Það er trú kristinna manna, að Guð muni leysa að lokum úr kreppum og leiða mál til góðs. Það verður veröldinni guð”last” - Guð síðastur, Guð hinsti veruleiki. Dómar hans eru réttir og við ættum að vanda líf okkar til að vera réttu megin og njóta náðar í þeim ágæta Hæstarétti.
Amen
19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð - A-röð. Prédikun í Neskirkju við Hagatorg, Reykjavík, 22. október 2006.
Lexían Es. 18.29-32 Og þegar Ísraelsmenn segja: ,Atferli Drottins er ekki rétt!' - ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt? Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar. Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn? Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, - segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa."
Pistillinn Ef. 4.22-32 Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.
Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir. Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi. Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er. Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra. Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins. Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.