Gleði aðventunnar

Gleði aðventunnar

Aðventa er ekki bara bið eftir einhverju heldur líka ákvörðun um að láta gott af sér leiða. Ég er ekki viss um að merking orðsins verði skýrð mikið betur en gert er í sögu Gunnars Gunnarssonar.

Gleðinnar hátíð, fæðingarhátíð frelsarans er í nánd. Fjórði sunnudagur í aðventu er runninn upp og tilhlökkun vegna jólanna fer vaxandi hjá flestum, ungum sem öldnum. Lexía þessa sunnudags, pistill og guðspjall eiga það sameiginlegt að þar koma við sögu hugtökin gleði og fögnuður enda er yfirskrift dagsins – Jólagleðin nálgast.

Í þessari hugvekju minni hyggst ég gera að umtalsefni þrjú meginatriði með vísun í biblíutexta dagsins og stöðu okkar í kirkjuárinu. Þessi atriði eru: (1) Átrúnaður gleðinnar – (2) Boðberar og brautryðjendur kristninnar – (3) Aðventan.

Átrúnaður gleðinnar

Í lexíu dagsins úr 12. kafla Jesajaritisins er m.a. að finna þessi orð: „Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“

Og í pistlinum úr 1. Jóhannesarbréfi voru rifjuð upp ýmis atriði þess sem opinberað hafði verið um samband hinna frumkristnu við föðurinn og son hans Jesú Krist og í kjölfar þess segir: „Þetta skrifum við til að fögnuður vor verði fullkominn.“

Loks hefur guðspjall dagsins að geyma orð Jóhannesar skírara sem segist hafa verið sendur á undan Kristi, gleðjist mjög við rödd hans og bætir við: „Þessi gleði er nú mín að fullu. Hann á að vaxa en ég að minnka.“ Enginn átrúnaður er kenndur við gleði nema kristin trú. Mannkyninu hefur verið fluttur margur háleitur lærdómur og margvísleg göfug kenning en aðeins eitt evangelium eins og fagnaðarerindið kristna var löngum nefnt. Og þetta sérkenni kemur vel fram í þeim textum sem heyra til þessum degi kirkjuársins. Lexía, pistill og guðspjall tala öll um gleði og fögnuð. Og vel þekkt eru orð postulans Páls sem sagði eftirminnilega í Filippíbréfinu: „Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum“ (Fil 4.4-5).

Og í aðdraganda þeirrar fagnaðarríku hátíðar sem nú fer í hönd keppist fólk við að skapa andrúmsloft gleði, leitast við að gleðja ekki bara sína nánustu heldur í anda kristinnar trúar að gleðja og liðsinna þeim sem eiga um sárt að binda eða standa höllum fæti í lífinu. Því sannarlega helst fagnaðarerindi kristninnar í hendur við ábyrgð gagnvart náunganum í sem víðustum skilningi, karla og konur, aldna og unga, útlenda og innlenda. Einn af hornsteinum kristninnar er boðið um elskuna til Guðs sem stendur í órofa sambandi við kærleika til náungans. Guðstrúnni fylgir m.ö.o. siðferðiskrafan þar sem kærleikurinn er í öndvegi.

Boðberar og brautryðjendur kristninnar

Guðspjallið talar um Jóhannes skírarar sem þann sem sendur er. Vel má kalla skírarann brautryðjanda kristninnar, eða undanfara svo notað sé íþróttamál. Þó að guðspjöllin fjögur greini ekki frá Jóhannesi skírara með nákvæmlega sama hætti eru þau sammála um það hlutverk hans að hann hafi verið kallaður og sendur á undan Kristi. Í guðspjalli dagsins er haft eftir Jóhannesi: „Ég er ekki Kristur heldur er ég sendur á undan honum.“ Í 1. kafla Lúkasarguðspjalls kemur fram að Jóhannes var sonur Sakaría prests í Jerúsalem og Elísabetar konu hans. Hún og María móðir Jesú voru frændkonur. Og meðan Jesús var enn í móðurlífi var það Elísabet sem fyrst allra játaði hver það var sem María gekk með. Og Sigurbjörn Einarsson biskup komst vel að orði er hann sagði: „Þessar tvær konur eru kirkjan í fæðingu“. En hér beinum við um stund sjónum að syni Elísabetar, Jóhannesi skírara, vegna hins mikla brautryðjendastarf hans.

Markúsarguðspjall byrjar á því að vitna í Jesajarit Gamla testamentisins sem kynningu á upphafi fagnaðarerindisins: „Ég sendi sendiboða á undan þér, hann á að greiða þér veg. Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gerið beinar brautir hans“ (Mark 1.3; Jes 40). Ekki fer á milli mála að guðspjallamaðurinn heimfærir orðin um sendiboðann uppá Jóhannes skírara sem hafi komið fram í óbyggðinni og boðað mönnum að láta skírast til fyrirgefningar synda (Mark 1.4). Tengsl skírarans við óbyggðina hafa vakið upp hugmyndir, m.a. kynntar af Benedikt 16. páfa, um að Jóhannes hafi verið tengdur trúarhópi Esseana sem haldið höfðu út í óbyggðina og stofnað eins konar klaustursamfélag í Kúmran við Dauðahafið þaðan sem runninn er einhver merkasti og mikilvægasti handritafundur 20. aldar er þar fundustu í hundraðatali – um miðja síðustu öld -biblíuhandrit á hebresku, flest um 1000 árum eldri en þau handrit sem flestar biblíuútgáfur í nútímanum byggðu á.

Jóhannes stendur í hefð spámanna Gamla testamentisins og lifði á því einu sem óbyggðirnar höfðu að veita honum. Hann er í senn brautryðjandi og boðberi hins kristna boðskapar, er hann vísar á Jesú sem þann sem koma skal. En í prédikunartexta dagsins sagði Jóhannes um Jesú: „Hann á að vaxa en ég að minnka.“

Í guðspjalli dagsins segir að þetta hafi gerst áður en Jóhannesi hafi verið varpað í fangelsi. Þannig að arfsögnin þekkir til andstreymis sem hann varð fyrir og raunar einnig píslarvættis hans. Í Gamla testamentinu, hinum hebresku ritningum, sjáum við víða að þeir sem kallaðir eru af Guði, það á bæði við um Móse og spámanninn Jeremía, færast í fyrstu undan, upplifa sig of unga, ekki nægilega mælska eða sjá önnur tormerki á að hlýða kallinu, hafa líklega skynjað að hin guðlega köllun hefði erfiðleika í för með sér eins og raun varð á. Engin frásögn er af slíkum andmælum Jóhannesar skírara en köllunarstarf hans var sannarlega enginn dans á rósum því að hann mátti líða fyrir köllun sína og brautryðjendastarf.

Lindir hjálpræðisins og sr. Friðrik Friðriksson

Flestar þjóðir eiga sér áhrifamikla boðbera og brautryðjendur kristninnar. Lexía dagsins hefur að geyma orð sem minna okkur á einn slíkan hér á landi, sem sannarlega munaði um við ávöxtun og útbreiðslu hins kristna boðskapar.

Þar á ég við æskulýðsleiðtogann kunna sr. Friðrik Friðriksson sem gerði versið úr 12. kafla Jesajaritsins sem er hluti af lexíu þessa dags að einkunnarorðum sínum, þ.e.: „Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“ Áhrif sr. Friðriks á trúarlíf þessa lands á 20. öld eru meiri en flestra annarra. Um sr. Friðrik sagði Gylfi Þ. Gíslason prófessor og ráðherra að hann hefði verið einn mesti áhrifamaður aldarinnar. Hann hafi verið svo einlægur trúmaður, og svo gagntekinn af trú sinni að hún hafi mótað allt líf hans, öll orð hans og allar gerðir. „Kristin trú var ekki þáttur í sálarlífi hans, ekki hluti af honum, heldur hann sjálfur, hann allur“ skrifaði Gylfi ráðherra.

Sr. Friðrik tengdi textann um „lind hjálpræðisins“ við lindina í Vatnaskógi, þar sem sumarbúðir KFUM voru fyrst starfræktar árið 1923 og hafa stöðugt eflst síðan. En jafnframt benti sr. Friðrik réttilega á að í Ritningunni eru teknar margar samlíkingar af uppsprettum og streymandi lindum, en allar streymi þær úr uppsprettu hins lifanda vatns, þeirri uppsprettu sem Jesús talar um er hann segir: „Hvern þann sem drekkur af vatninu, sem ég mun gefa honum, mun aldrei að eilífa þyrsta, heldur mun vatnið sem ég mun gefa honum, verða í honum að lind, er sprettur upp til eilífs lífs“ (Jóh 4.14). Þannig sé Jesús uppsprettulindin eina; frá honum streymi allar lindir hjálpræðisins. Þegar sr. Friðrik síðan rekur hverjar þær uppsprettulindir eru, nefnir hann fyrst „Guðs orð“ í heilagri ritningu, síðan bænina og þriðju lindina sér hann í kvöldmáltíðinni. Loks er fjórða lindin samfélag trúaðra og kristilegur félagsskapur. En á þeim vettvangi hafa fáir Íslendingar lagt meira af mörkum en sr. Friðrik. Auk stofnunar KFUM og K , þess áhrifamikla og mikilhæga félagsskapar, kom hann t.d. að stofnun knattspyrnufélaganna Vals í Reykjavík og Hauka í Hafnarfirði. Jóhannes skírari og sr. Friðrik Friðriksson áttu það sameiginlegt að vera brautryðjendur hins kristna boðskapar. Báðir hlutu þeir köllun til starfa og báðum varð þeim mjög ágengt í því köllunarstarfi sínu. Jóhannes kom fram í óbyggðum Júdeu en sr. Friðrik, kom heim að loknu starfi í Danmörku, með áhrifamesta kristna æskulýðsstarfið sem borist hafði hingað, og það hófst meðal drengja í Reykjavík í ársbyrjun 1899 við stofnun KFUM. Báðir vildu Jóhannes skírari og sr. Friðrik umfram allt leiða fólk til fundar við frelsarann Jesú Krist.

Aðventa

Fjórða aðventukertið, sem við tendrum í dag, kallast englakertið. Það minnir á að það voru englarnir- en á hebresku er sama hugtak notað um engla og sendiboða – sem fluttu fjárhirðum gleðitíðindin fyrstum manna á Betlehemsvöllum samkvæmt jólaguðspjallinu.

Og í samhengi aðventu og fjárhirða kemur fljótt í hugann Aðventa hin vinsæla skáldsaga Gunnars Gunnarssonar, sem margir lesa reglulega á aðventunni, ár eftir ár, m.a. sá sem hér talar.

Aðventa Gunnars er í meginatriðum sannsögulegs efnis byggð á frásögum af frægum svaðilförum Benedikts Sigurjónssonar, öðru nafni Fjalla-Bensa, á Mýrdalsöræfum og einkum þó eftirleitarferð sem hann fór í desember 1925. En sagan Aðventa er ekki fyrst og fremst saga af íslenskri hetjulund. Miklu fremur eða a.m.k. allt eins er hún kristin dæmisaga, um breytni eftir Kristi, að feta í fótspor hans. Það sýna hinar ríkulegu vísanir í Biblíuna, þó að sannarlega sé hægt að njóta sögunnar án þess að hafa þær hliðstæður svo mjög í huga. Í grunninn virðist þessi fallega saga mjög efnislítil: „Maður þvælist með hundi og hrút um öræfin í desember, leitar að kindum, hreppir slæm veður en kemst lifandi til byggða,“ eins og bent hefur verið á. En svo snilldarlega er unnið úr efninu að úr varð vinsælasta og útbreiddasta skáldsaga Gunnars. Og þar gegnir hinn trúarlegi þáttur ekki litlu hlutverki, t.d. hið biblíulega stef hirðis og hjarðar. Í raun er skáldsagan Aðventa gott dæmi um áhrif Biblíunnar og kristninnar trúar í bókmenntum og menningu okkar Íslendinga yfirleitt.

Það er vert að gefa gætur að því er Benedikt íhugar hugtakið aðventu. Þar segir svo í skáldsögu Gunnars: Hann „tók sér orðið í munn af stakri varfærni, þetta mikla, hljóðláta orð, svo furðulega annarlegt og þó um leið innfjálgt, sennilega það orð er snart hann dýpra en öll önnur. Hverju það bjó yfir var honum að vísu alls ekki ljóst, nema að það fól í sér að einhvers væri vant en eftirvænting á næsta leiti, undirbúningur einhvers betra —það fór ekki á milli mála. Eftir því sem árin færðust yfir hann var sem allt hans líf væri orðin ein aðventa. Því að hvað var líf hans, rétt á litið, hvað var líf mannsins á jörðinni, ef ekki ófullkomin þjónusta, sem helgaðist af bið eftir einhverju betra, eftirvænting, undirbúningi – þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða.“ Og tökum eftir niðurlaginu hér. Aðventa er ekki bara bið eftir einhverju heldur líka ákvörðun um að láta gott af sér leiða.

Ég er ekki viss um að merking orðsins verði skýrð mikið betur en gert er í sögu Gunnars Gunnarssonar. Örugglega kemur mörgum í hug dæmisaga Jesú af góða hirðinum undir lestri Aðventu Gunnars og það er engin tilviljun. Meira að segja nefndi Gunnar mun styttri frumgerð sögu sinnar á dönsku einmitt Góða hirðinn. Sjálfur sagði Jesús um sig: „Ég er góði hirðirinn, góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina“ (Jóh 10.11). Árlega leit Benedikts í Aðventu að eftirlegukindum er óvenjulegt dæmi um hvernig íslenskur einstaklingur býr sig undir þá hátíð ársins sem í huga okkar flestra er mestur ljómi yfir. Minnistætt dæmi sem leiðir hugann að fórnarlund og kærleika. Góðum og gildum kristnum hugtökum.

Við skyldum hugleiða það vel í hverju jólaundirbúningur okkar ætti helst að vera fólginn, hvernig við verjum aðventunni best. Upplagt er að taka sér Biblíu í hönd á aðventunni og hugleiða gildi hinnar kristnu trúar, hver sé boðskapur jólanna og hver kjarni hinnar kristnu trúar og kristins siðar. Gleði trúarlífsins, sem hér var vakin athygli á, er ekki fólgin í einhvers konar heimsflótta, þvert á móti, vitneskjunni um að njóta leiðsagnar æðri máttar og sú leiðsögn leggur okkur skyldur á herðar. Áherslan hvílir á þjónustu við aðra, dýr og menn, og þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða. Þjónusta ofar eigin hag.

Nokkuð ber á því að hnjóðað sé í kirkjuna nú um stundir og er það tæpast nýmæli að hún sé gagnrýnd. Sannarlega er kirkjan ekki yfir gagnrýni hafin en oft virðist manni sem þeir sem mest gagnrýna hafi afar litla innsýn í starf kirkjunnar og mættu e.t.v. spyrja sjálfa sig hvað þeir hafi lagt af mörkum á því sviði sem gagnrýnt er. Mig langar í staðinn að nefna fáein atriði úr lofsverðu starfi kirkjunnar sem vakið hefur athygli mína nú á aðventunni sem oftar.

Fangaprestur þjóðkirkjunnar hefur í samvinnu við Grensássöfnuð sett upp undanfarin ár svokallað Englatré í Grensáskirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu. Á trénu hanga engillaga spjöld með leyninafni barns sem á foreldri í fangelsi. Kirkjugestir taka með sér spjald og koma með jólapakka í kirkjuna. Barnið mun svo fá óvænta gjöf frá einhverjum í söfnuðinum. Þetta er gert til að gleðja börnin og minna fólk á að fangar eiga líka börn og að staða þeirra er misjöfn.

Hjálpræðisherinn, sú gagnmerka kristna hreyfing, mun nú eins og um langt árabil bjóða útigangsfólki og öðrum sem eru hjálpar þurfti eða vilja þiggja að koma til jólafagnaðar á aðfangadag, þar sem boðið verður upp á mat og jólagleði.

Hér er líka ástæða til að nefna mjög vel hugsað og heppnað verkefni sem gengur undir heitinu „Jól í skókassa“ alþjóðlegt verkefni sem KFUM og K hefur haldið utan um hér á landi síðan 2004 og felst í því að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að senda þeim jólagjafir. Margar kirkjur leggja þessu verkefni lið og í ár munu vel á 6. þúsund skókassar hafa farið héðan til fátækra barna í Úkraínu. Hjálparstofnun kirkjunnar vinnur nú sem endranær mikið og gott starf í þágu þeirra sem eru hjálpar þurfi utan lands og innan og þar gefst okkur öllum tækifæri til að leggja hönd á plóg.

Þá skyldum við ekki gleyma hina ríkulega menningarstarfi kirknanna. Aðventutónleikar um allt land. Síðast í gær sat ég hér í troðfullri Seltjarnarneskirkju á tónleikum sem haldnir voru undir yfirskriftinni „Jólaljósin ljóma“, flutt íslenskt og erlend jólalög, og það var við hæfi þegar kórstjórinn í kynningu á lokalaginu „Hjálpum þeim“ stóð upp og minnti okkur á stíðshrjáða íbúa Aleppo í Sýrlandi og tileinkaði lagið þeim íbúum sem enn eru þar á lífi.

Og loks skal það sagt að mjög stór hluti af starfi presta þessa lands og samverkamanna þeirra fer fram í kyrrþey og er ekki hrópað á torgum þar sem haldið er utan um fólk í angist þess og neyð, í sálgæslu á nóttu sem degi, starfsrækslu sorgarhópa, fjölbreytilegt starf með börnum og öldruðum o.sf.rv.

Sjálfur er ég ekki prestur en tel mig þekkja býsna vel til starfsemi kirkjunnar, og vil tjá prestum virðingu mína og þakklæti fyrir gott og mikilvægt starf þeirra. Og sem kristinn maður tel ég mig að sjálfsögðu til kirkjunnar. Alltaf má betur gera en kannski ættum við að hugleiða orð Karls Barths, eins kunnasta guðfræðings 20. aldar, sem sagði: „Við skulum ekki gagnrýna kirkjuna svo mjög, við skulum heldur vera kirkjan!“ Og þar sem talið barst hér í aðeins í lokin að gagnrýni á kirkjuna er rétt og skylt að þakka öllum þeim fjölmörgu sem stöðugt styðja hana með nærveru sinni, sjálboðaliðsstarfi, fjárframlögum eða á annan hátt. Og hér í Seltjarnarnessókn er rétt og skylt að þakka gott samstarf við bæjaryfirvöld sem unnið hafa vel með okkur og stutt við bakið á kirkjunni svo um munar.

En meginefni þessarar hugvekju minnar var þríþætt: Kristindómurinn sem átrúnaður gleðinnar – frumherjar kristni með dæmi af Jóhannesi skírara og æskulýðsleiðtoganum sr. Friðriki Friðrikssyni og loks aðventan, bæði hin trúarlega skáldsaga Gunnars Gunnarssonar og jólafastan með einkennum sínum nú um stundir.

Lokaorð mín sæki ég í fyrsta erindi hins fallega aðventusálms Helga Hálfdánarsonar prestaskólakennara sem sunginn var svo kröftuglega af Selkórnum hér áðan þar sem boðuð er koma Jesú Krists, konungs dýrðarinnar.

Gjör dyrnar breiðar, hliðið hátt. Þú Herrans kristni, fagna mátt, því kóngur dýrðar kemur hér og kýs að eiga dvöl hjá þér.

Amen.