Það var mögnuð stund sem ég upplifði á þvertrúarlegri friðarsamkomu í Hallgrímskirkju, þegar biskupinn okkar bauð andlegum trúarleiðtoga Tíbeta til samfundar við trúarbrögð og almenning á Íslandi.
Lotningin fólks á meðal og fjöldinn í kirkjunni var óraunverulegur í algerri þögninni þegar þessi gamli maður talaði. Og hann brosti!
Hann sagði svo margt á einfaldan hátt, eins og það að framtíðin væri ekki til, aðeins órætt tóm sem væri okkur enn ókunnugt. Hann sagði að vonin væri mikils virði og til þess að eignast innri sátt þyrftum við að finna til samkenndar með náunga okkar... Merkilegt hvað þetta minnir mig á orð annars manns sem uppi var við upphaf tímatals okkar. Hann sagði okkur einnig að samkenndin væri mikilvæg, að öll værum við mikilvæg, að ekkert okkar væri síðra sökum kyns, uppruna eða trúarbragða. Þessi vinur minn sendir mér vonargeisla í hjartað hvern morgun er ég vakna og aftur og aftur allan daginn. Jarðneskt líf sitt helgaði hann kærleikanum til náungans, þ.e. alls fólksins í kringum hann. Honum helga mörg okkar líf sitt.
Það er þetta með vonina. Hún er okkur einmitt svo mikilvæg í dag, þegar óvissan knýr dyra hvað eftir annað og við höfum varla náð að melta upplýsingar þegar nýjar koma í ljós. Vonin er það sem knýr okkur áfram, drifkrafturinn sem gerir okkur enn sterkari. Þó getur vonin lítið ein og sér, en með vinum sínum trúnni og kærleikanum eru henni allir vegir færir.
Draumalandið. Öll held ég að við upplifum landið okkar sem draumaland. Náttúran okkar er hrein og óspillt þegar við erum stödd á réttum stöðum, en þegar betur er að gáð, er það algerlega á okkar ábyrgð hvort landið okkar heldur áfram að vera það draumaland sem við eigum í hjörtum okkar og segjum erlendum vinum okkar frá. Þegar ég bý ytra, er mér tíðrætt um hreina loftið okkar, um óspillta náttúruna og um lága glæpatíðni. Í ljósi heimildarmyndarinnar vinsælu um stóryðjuframkvæmdir í landinu og einnig í ljósi fréttaflutnings bregður mér stundum þegar ég hugsa um það hvort hér sé hugsanlega um óskhyggju að ræða af minni hálfu. Sjálf hef ég ekki farið mikið um hálendið og því geri ég mér ekki fulla grein fyrir þeim spjöllum sem þegar hafa verið unnin. Sterkasta upplifun mín af eyðileggingu náttúru var þegar ég bjó í Neskaupstað sem barn. Eftir snjóflóðið 1974 þurfti að byggja þar nýja síldarbræðslu. Henni var valinn staður rétt handan götunnar þar sem ég bjó í Miðhúsum, innsta húsinu í bænum. Fallega fjaran mín og allur sá heimur sem henni fylgdi hvarf á skömmum tíma og í stað hennar reis stór og ósjáleg verksmiðja. Ég var fegin að flytja úr því húsi. Síðan þá hef ég verið sólgin í að ganga fallegar og ósnortnar fjörur. Af þeim eigum við nóg á Íslandi. Má þar t.d. nefna Barðaströndina eða Rauðasand sem líklega er ein magnaðasta strandlengja landsins.
Allt er þetta sköpun Guðs og alls staðar erum við boðberar boðskapar Krists. Sandarnir, fólkið og fallega landið okkar ættu að vekja með okkur þá sterku von sem við þörfnumst til að stuðla að þeim veruleika sem við viljum búa við um ókomna en ófyrirsjáanlega framtíð.