Í febrúarmánuði 1996 komu fram ásakanir um kynferðisbrot á hendur þáverandi biskupi. Í viðbrögðum kirkjunnar á þeim tíma rak sig hvað á annars horn. Ef til vill var það ekki undarlegt í ljósi þess að þarna var um æðsta embættismann kirkjunnar að ræða; engar skýrar vinnureglur voru þá til um hvernig ætti að fara með ásakanir af þessu tagi. Þá gerist það árið 2009 að dóttir fyrrum biskups leitar til biskups og kirkjuráðs og vill koma á framfæri erindi er varðar samskipti föður hennar við hana. Víst er að margvísleg mistök voru gerð varðandi erindi Guðrúnar Ebbu. Þetta veit alþjóð. Úr hófi dróst að henni væri veitt formleg áheyrn eða erindi hennar svarað skriflega; engu að síður var rætt við Guðrúnu Ebbu. Karl Sigurbjörnsson biskup hefur skýrt aðkomu sína að máli þessu og beðist hefur verið afsökunar á því er miður fór. Komið hafa fram háværar kröfur um afsögn biskups Íslands vegna þeirra mistaka sem gerð hafa verið.
Mjög hefur verið sótt að embætti og persónu biskups Íslands. Því skal haldið til haga, að Karl biskup lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum í embætti að koma á verkferlum og úrræðum varðandi möguleg kynferðisbrot á kirkjulegum vettvangi.
Mér þykir það ekki sanngjörn krafa að biskup segi af sér vegna þessa máls, og reyndar fráleit, þrátt fyrir þau mistök sem urðu í málsmeðferð. Það var aldrei ætlunin að þagga mál niður. Rannsóknarnefnd kirkjuþings fjallaði um þessi mál öll og fann að málsmeðferð. Ekki var þó talið að um þöggun, eða tilraun til þöggunar væri að ræða. Það breytir þó engu um þá staðreynd að þetta mál, ásamt með úrræðaleysi kirkjunnar árið 1996, er kirkjunni til vansa. Þessi harmlegu mál eru sannarlega ekki eitthvað sem á að sópa undir teppið, heldur taka alvarlega og læra af þeim harða lexíu, endurheimta tiltrú og traust.
Það er ekki auðvelt að vera í forystu í opinberri stofnun á Íslandi í dag. Við lifum á miklum vantrauststímum, óvissutíð. Margir þeir sem bera sár eftir efnahagshrun og hafa verið ranglæti beittir eru óviljugir að treysta nokkrum. Það er vel skiljanlegt. Á óreiðutíma í lífi þjóðar þarf kirkjan að einbeita sér að verkum sínum og viðfangsefnum í boðun og þjónustu sem aldrei fyrr. Enginn biskup hefur verið óumdeildur í starfi og oft um þá gustað, en Karl biskup hefur reynst traustur og góður leiðtogi kirkju sinnar, heill og sannur. Megi svo vera áfram.
Úrsagnir úr kirkju og afleiðingar þeirra. Úrsögnum úr þjóðkirkjunni hefur fjölgað undanfarin misseri og ár. Ástæður þess kunna að vera margvíslegar, en ein megin ástæðan eru þau hörmulegu mál er hér hafa verið rakin.
Sjálfsagt taka margir ákvarðanir í skyndingu, í stundarreiði eða hneykslan; þannig erum við öll einhvern tíma. En leysir það vanda kirkju að segja sig úr lögum við hana, hafi maður á annað borð einhverja taug til hennar ? Er ef til vill heppilegra að leggja sitt af mörkum til að gera kirkjuna betri, vinna að siðbót og uppbyggingu ? Kirkjan er vitaskuld trúarleg stofnun, en til að hún virki, geti veitt þjónustu og skjól, þarf hún fjármuni, líkt og önnur þau fjölmörgu ágætu samtök er vinna að almannaheill.
Úrsögn úr kirkjunni bitnar einvörðungu á heimasókninni, þannig að sóknargjöld þess einstaklings er hverfur úr þjóðkirkjunni renna í ríkissjóð í stað þess að fara í sjóð sóknarinnar, nema hann kjósi að ganga í annað trúfélag. Sóknargjaldið er í dag kr. 698 á mánuði. Í þeim efnahagsþrengingum sem gengið hafa yfir þjóð okkar hafa sóknargjöldin verið skert um nærfellt fjórðung frá árinu 2009. Ef við bætast úrsagnir úr þjóðkirkjunni harðnar enn á dalnum. Erfiðara verður fyrir sóknarnefndir að sinna nauðsynlegu viðhaldi, greiða af lánum er tekin voru vegna framkvæmda og standa skil á launum starfsfólks og þar með halda uppi öflugu safnaðarstarfi.
Þeir sem kjósa að standa utan kirkju ættu að líta í eigin barm. Þannig er, að utankirkjumenn fá alla kirkjulega þjónustu er þeir leita eftir. Ég er ekki áskrifandi að Stöð 2. Því á ég enga heimtingu á að sjá dagskrá þeirrar stöðvar er ég kveiki á sjónvarpinu. Á kirkjulegum vettvangi er þessu öðru vísi farið. Evangelisk- Lúthersk kirkja er þjóðkirkja á Íslandi og hefur þann sjálfsskilning, sem hún bindur einnig í regluverk sitt, að hún þjóni um land allt og öllum þeim er til hennar leita; við sem berum ábyrgð á kirkjulegri þjónustu spyrjum aldrei um trúfélagsaðild, eða gerum hana að skilyrði þegar til okkar er leitað um þjónustu. Þannig er auðvelt að segja sig frá kirkjunni, láta gjöldin renna í ríkissjóð frekar en til heimakirkju og sóknar, en þiggja samt þjónustu alla.
Á hverri tíð þarf kristin kirkja aðhald og gagnrýni. Ecclesia semper reformanda, kirkja í linnulausri siðbót, voru orð siðbótarmannsins Marteins Lúthers um þá kirkju er hann vildi sjá. Það eru orð að sönnu. Í játningum kristinna manna segir: Ég „..trúi á heilaga, almenna kirkju“. Almenn er kirkjan vegna þess að hún er allra. Heilög er kirkjan vegna Drottins Jesú Krists; ekki vegna okkar er leitumst við að þjóna að henni. Að standa álengdar fjær og gagnrýna er auðvelt. En það er heldur ekkert svo erfitt að stíga fram, bjóða krafta sína í þjónustu við Guð og menn og gera kirkju sinni vel. Víður er verkahringurinn og viðfangsefnin mörg.