Hiti, sviti og þreyta eru þau orð sem lýsa best líðan minni þegar við komum loks til Taize í suðurhluta Frakklands þann 22.júlí síðastliðinn. Taize er lítið þorp sem hverfist um klausturreglu sem stofnuð var af bróður Roger Schutz árið 1940. Bróðir Roger var af svissneskum uppruna og stofnaði samfélagið á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar en þorpið lúrir og lætur lítið yfir sér í hinu fræga Búrgúndí héraði þar sem vínræktin blómstrar. Reglan er alþjóðlegt, samkirkjulegt bræðrasamfélag sem telur um 60 bræður á staðnum en 100 í heild því nokkrir eru starfandi um víða veröld. Bræðurnir lifa við veraldlega fátækt og mega ekki þiggja persónulegar gjafir eða fjárstuðning, með þessum hætti getur enginn utanaðkomandi aðili sett starfi þeirra skorður svo þeirra veraldlega fátækt er á vissan hátt vísir að frelsi, þeir eiga sig sjálfir. Þá er mikil áhersla lögð á bænasamfélagið og hafa Taizebænir og Taizesöngvar haft áhrif á helgihald kristinna um allan heim og finnast m.a. í okkar íslensku sálmabók. Ég veit að þetta hljómar allt mjög spennandi og framandi sem það vissulega er þó spennustigið sé alla jafna ekki mjög hátt þarna í Taize eða a.m.k ekki streitustigið, við getum orðað það þannig að undirrituð hafi keyrt á vegg þegar hún kom og uppgötvaði að lífið þarna snerist bara um að biðja, borða og hlusta í 35 til 8 stiga hita. Ég er enn að vinna úr þessari reynslu og mynda mér skoðun á henni. Á vissan hátt fannst mér þetta mjög erfitt, en á sama tíma var ég svo meðvituð um hvað þetta væri mér hollt, að lifa svona fábrotnu lífi í eina viku staðfesti fyrir mér hvað líf mitt er í raun háð veraldlegum gæðum. Ég væri ekki að segja satt ef ég héldi því fram að maturinn hafi verið góður í Taize, ég væri líka að smyrja á söguna ef ég segði að svefnaðstaðan hefði verið draumi líkust, lítill fúinn kofi með kojum og þunnum dýnum og köngulóm og drekaflugum og bjöllum og fleiri lífverum þannig að ef ég væri haldin messíasarkomplexum þá gæti ég hæglega farið að líkja þessu við gripahúsið í Betlehem en ég ætla mér ekki þangað enda ljóst að þolgæði mínu og Maríu er ekki saman að jafna. Bænastundirna í Taize voru stórkostlegar, kirkjan ótrúlega praktísk bygging sem bauð upp á þann möguleika að loka af vistarverur með nokkurs konar bílskúrshurðum þannig að fólk gæti spjallað í minni hópum en opna svo allt svæðið í eitt alrými sem getur hæglega rúmað 5000 manns og það var gert þrisvar á dag í morgun, hádegis og kvöldbænum. Bænastundirnar byggðust á ritningarlestrum á mörgum tungumálum og Taizesöngvum þar sem einn bræðranna sá um forsöng og öll hersingin tók undir en þessa viku voru um 3000 manns þarna hvaðanæva úr heiminum. Það var „gæsahúðarmóment „að upplifa þetta í fyrsta sinn, hvernig allt þetta fólk sem alið er upp í mismunandi menningaheimum, trúarbrögðum, efnahag, af ólíkum kynþáttum, kynhneigð, aldri og heilsufari sameinaðist í angurværum söng þar sem góður Guð er tilbeðinn með einföldum endurtekningum sem allir geta lært og sungið. Það var svolítið eins og að ganga inn í Opinberunarbókina að taka þátt í þessum stundum, þær voru dvalarinnar virði sem og hitt að eiga samtal við bræðurna. Einn þeirra varð sérstakur vinur okkar Íslendinganna, bróðir Stephen frá Bretlandi sem lifað hefur í reglunni í 30 ár. Það er rétt að taka það fram að við fórum átta saman út, við séra Sunna Dóra ásamt sex ungleiðtogum héðan úr Akureyrarkirkju sem öll eru á nítjánda aldursári, flottir krakkar sem hafa alist hér upp í æskulýðsstarfi og eru nú að blómstra sem myndugir leiðtogar í barnastarfinu. Bróðir Stephen fannst unga fólkið okkar frábært og fyndið, „ hvað finnst ykkur best og verst við Ísland“ ? Spurði hann yfir hópinn, einn drengjanna, íþróttamaður mikill, bjartur yfirlitum og beinn í baki svaraði „well we in Iceland are so unique“ þá færðist bros yfir andlit bróður Stephen og í brosinu mátti greina húmor fyrir þessum ánægðu eyjaskeggjum sem töldu allt hið besta finnast á Fróni og ég er ekki frá því að það hafi líka verið eitt það besta sem ég upplifði á staðnum, að heyra unglingana okkar vera svona þakklát fyrir það sem þau eiga og hafa, því nægur er víst bölmóðurinn sem þessi kynslóð fær að heyra í opinberri umræðu meðal okkar sem eldri erum. Þau voru sko ekkert að biðjast afsökunar á sjálfum sér og mér fannst það bara fínt, ég held að Stephen hafi líka þótt það gott, a.m.k fengum við orðsendingu frá honum á brottfarardegi þar sem hann lýsti yfir áhuga sínum og bræðranna á því að heimsækja okkur hingað til Akureyrar. Við skildum náttúrulega eftir heimilisfang, símanúmer og netfang kirkjunnar og þau orð að þeir væru alltaf hjartanlega velkomnir hingað, ekki væri verra að halda eina alvöru, orginal Taizemessu í Akureyrarkirkju og bjóða þeim svo að borða á Bautanum. Ég er mjög þakklát fyrir þessa reynslu, að dvelja undir verndarvæng bræðranna í Taize, ég komst að svo mörgu um sjálfan mig og Guð. Ég komst vissulega að því að ég myndi sennilega lifa af án styrjuhrogna og humars, ég komst að því að vondur matur venst mjög vel, ég komst að því að líkaminn getur aðlagast örþunnum dýnum og að drekaflugur eru bara nokkuð vinalegar. Ég komst að því að bróðir Roger sá sem stofnaði regluna á sínum tíma hafði rétt fyrir sér með það að allar manneskjur geti fundið samhljóm í einum Guði jafnvel þó sá Guð hafi mismunandi heimilisfang eftir löndum, menningu, viðmiðum og gildum. Að það er eitthvað til sem heitir Kærleikur sem reynist frumkraftur lífs og við þráum öll að finna. Ég komst að því að hann nær í gegnum vondan mat, frumstæð húsakynni og sameiginlega sturtuaðstöðu með öðrum 3000 einstaklingum. En ég komst líka að því að minn Guð sem birtist í Jesú Kristi býr í heiminum, þar sem fólk er að lifa mjög flóknu og oft þjáningarfullu lífi, þar sem menn mætast í vanmætti sínum og reyna að lifa af við ólíkar aðstæður. Kristur er alltaf á vettvangi, hann er aksjónmaður, hann er auðvitað líka í Taize en ég er ekki viss um að það séu endilega aðalbækistöðvar hans, ég held að hann sé þar sem fólk á síst von á að finna hann já þar sem hann getur skapað möguleika úr ómöguleika. Eins og í sorginni sem hefur knúið svo harkalega dyra hér í bæ síðustu daga, hann er hér hann Jesús, að skapa eitthvað úr hinu ómögulega, svo syrgjendur geti með tímanum risið upp og haldið áfram að lifa og njóta. Hann er að störfum við að líkna og leiða fólk saman, af því að það er það eina sem hægt er að gera núna, engin tekur sorgina frá þeim sem hefur misst, enginn lagar það sem orðið hefur, en við getum verið samferða í því að finna til, í því að minnast , í því að hlusta, í því að vona og í því að vera. Það er það eina sem við getum núna á meðan Jesús er að skapa möguleika úr ómöguleika, líf úr dauða, von úr angist. Svo dag einn kemur sólin og lýsir upp landslagið og þó það sé breytt þá er það samt fallegt. Ég hef komist að því að ég ætla ekki að ganga í klaustur þó ég virði svo mjög ákvarðanir þeirra sem það gera, ekki síst bræðranna í Taize sem byggja samfélag sitt og starf á því að leiða saman ólíka hópa fólks, af ólíkum trúarbrögðu, menningu, aldri og aðstæðum. Ég hef komist að því að heimurinn er fullur af óþarfa drasli en hann er líka fullur af tækifærum til að kynnast Jesú í margskonar myndum, og að þar liggur fegurð trúarinnar, að geta mætt honum þar sem síst varir og vitnað upprisu í ómögulegum aðstæðum.
Hið mögulega úr hinu ómögulega
Flokkar