Bartímeus hittir Jesú

Bartímeus hittir Jesú

„Hvað viltu að ég geri fyrir þig“ spurði Jesús Bartímeus. Með þessari spurningu er hann að skora á hann að orða það sem hann þráir. „Bartímeus segðu ósk þína við mig, tjáðu þig, opnaðu huga þinn og hjarta og settu orð á það sem þig langar mest til að ég geri.“
fullname - andlitsmynd Ragnheiður Sverrisdóttir
26. febrúar 2013
Flokkar

24. febrúar 2013. Flutt í Tómasarmessu í Breiðholtskirkju. Texti: Mark. 10.46-52.

I. Hvað viltu að ég geri fyrir þig?

„Hvað viltu að ég geri fyrir þig“ spurði Jesús Bartímeus. Með þessari spurningu er hann að skora á hann að orða það sem hann þráir. „Bartímeus segðu ósk þína við mig, tjáðu þig, opnaðu huga þinn og hjarta og settu orð á það sem þig langar mest til að ég geri.“ Bartímeus hafði ekki miklar væntingar um að staða hans mundi breytast en síðan að hann heyrði um Jesú og að hann gæti læknað fólk vaknaði hjá honum von. Von um betra líf þar sem hann gæti séð fyrir sér sjálfur og þyrfti ekki að betla. Nú var tækifæri lífs hans komið. Jesús vissi að Bartímeus þráði mest af öllu að sjá.En hann spyr samt „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“ Hann svarar því Jesú: „Að ég fái aftur sjón“. Hann vissi hvað það var frábært að geta séð því hann segir: „Að ég fái AFTUR sjónina.“ Hann vissi líka hversu mikill missir það er að verða blindur. Verða háður öðrum og neyðast til að betla sér til lífsviðurværis. Í Tómasarmessum fáum við tækifæri til að orða óskir okkar í bæn og það er hlustað á bænaefni okkar og það sem við þráum að segja við Guð. Okkur býðst að skrifa bænarefni niður eða að fá einhvern til að biðja með okkur. Einnig getum við kveikt á kerti og beðið bænar í hljóði. Það er eins með okkur og Bartímeus að það að orða þrá okkar er gott fyrir okkur. Það þroskar okkur og gefur okkur tækifæri til að hugsa skírar um það sem liggur okkur á hjarta. Þetta er leið sálgæslunnar. Í sálgæslu þurfum við að orða það sem er innst inni og við þorum ekki alltaf að segja við aðra. Messan getur verið sálgæsla fyrir okkur ef við viljum nota hana þannig. Hér verður þetta svo áþreifanlegt þegar við stöndum upp og göngum að bænastöðunum. Við förum beinlínis til að tjá hug okkar og þrár. Það gerir bænir okkar enn sýnilegri, áþreifanlegri. Það getur enginn lesið hugsanir okkar. Við verðum að tjá þær. Stundum höldum við að við höfum sagt eitthvað en í raun ekki gert það. Í viðtali sem hjón voru í vegna samskiptaörðugleika töluðu þau um samband sitt og maðurinn sagði að sér þætti vænt um konuna sína. Þá var hann spurður: Hefurðu sagt henni það? Svarið var:„nei, sennilega ekki í mörg ár.“ Hann var hvattur til að gera það og hann sagði við hana að sér þætti vænt um hana, já elskaði hana. Það breytti samskiptum þeirra. Henni þótti vænt um að hann sagði þetta, henni hlýnaði um hjartaræturnar því hún saknaði þess lengi að hafa ekki heyrt hann segja þetta. Hún hélt þess vegna að honum þætti ekki lengur vænt um sig. En nú orðaði hann það sem hann hugsaði. Nú gat hún líka orðað hugsanir sínar og tjáð ást sína. Okkur langar örugglega til að muna að segja það góða sem við hugsum en ekki bara þegja og halda að fólk lesi hugsanir okkar. Þetta getum við lært af samtali Jesú og Bartímeusar. Þó Jesú hafi sjálfsagt vitað hvað Bartímeus vildi gaf hann honum tækifæri til að tjá ósk sína. Þessari spurningu er einnig beint til okkar: „Hvað vilt þú að Jesús geri fyrir þig?“ Segðu honum hvers þú þarfnast í bæn. Þú þarft að orða bæn þína, segja hvers þú væntir og hvað þú þráir.

II. Miskunna þú mér

Þegar Bartímeusar heyrir að Jesú er að nálgast hann hrópar hann: „Sonur Davíðs Miskunna þú mér.“ Þessa bæn höfum við þegar beðið í dag. Við höfum sagt Guð, Miskunna þú mér. Þetta er bæn sem orðar að við þráum miskunn, náð, hjálp. Þegar við tökum þátt í guðsþjónustu fáum við hjálp við að orða bæn okkar um miskunn. Við fáum að syngja hana og ég held að stundum upplifi maður að maður hrópi og biðji af öllum lífs og sálarkröftum. Frá innstu hjartans rótum. Hvers vegna biðjum við um miskunn? Ég held að svarið sé að við séum að biðja um miskunn í lífi okkar og þeim aðstæðum sem við erum í hverju sinni. Aðstæður okkar eru ólíkar frá einum tíma til annars. Stundum eru þær góðar og við erum ekki að glíma við neitt erfitt – bara þetta venjulega að vera manneskja í hversdagslegu lífi. En það koma dagar þar sem bænin um miskunn Guðs er það eina sem við þráum og megnum að tjá með orðum. Miskunn í erfiðum aðstæðum okkar eða annarra. Stundum er ekkert annað að gera – og það eina sem við getum stunið upp. „Miskunna mér, miskunna ástvini mínum, miskunna hrjáðum heimi.“ Í messunni segjum við þetta nokkrum sinnum. Þannig hjálpar messan okkur að tjá okkur, orða það að við þráum miskunn í lífi og dauða. Kannski einmitt í dauða. Allir kynnast erfiðum veikindum á lífsleiðinni og oft fæst lækning og við biðjum gjarnan um það – eins og Bartímeus. En frammi fyrir dauðanum biðja margir um miskunn – ekki af því að það haldi að viðkomandi deyi ekki. Nei, einmitt vegna þess að viðkomandi er deyjandi þá biðjum við um miskunn fyrir þann sem er á förum frá okkur. Miskunn um að þjáningum linni og að viðkomandi fái að kveðja lífið í sátt við Guð og menn. Að fá svar við miskunnarbæn sinni á slíkri stundu er stórkostleg gjöf.

III. Hann kallar á þig

Yfirskrift þessarar messu er „Hann kallar á þig“. Ég hef hins vegar mest verið að tala um viðbrögð Bartímeusar og okkar við orðum Jesú um hvað við viljum að hann geri fyrir okkur. Við heyrum þetta kall í mörgum frásögum t.d. orðin „Fylg þú mér.“ Við verðum að bregðast við því annað hvort með því að fylgja honum eða ekki. Það er sagt um Bartímeus að hann hafi fylgt Jesú á ferðum hans eftir að hann fékk sjónina. Hann gat fylgt Jesú í lifandi líf en fylgd okkar er oft innra ferðalag þar sem við fylgjum Jesú og tilbiðjum hann. Það er líka ytra ferðalag þar sem við framkvæmum vilja Jesú með því að boða fagnaðarerindið í orði og verki. Jesús sannaði orð sín með því að sýna kærleika. Stundum finnst mér kærleiksverk Jesú sýna okkur að það er til þriðja sakramentið – sakramenti kærleikans. En sakramentin okkar kirkju eru skrínin og kvöldmáltíðin. Í þeim sakramentum þiggjum við náð og miskunn Guðs en þegar við sýnum öðrum kærleika erum við að gefa – gefa af því að við höfum þegið og fengið frá Guði. Þegar Guð kallar á þig er hann að bjóða þér að vera við hlið þér, vera samferða þér. Jesús bað fólkið í kringum sig að kalla á Bartímeus fyrir sig. Og það sagði við hann: „Jesú kallar á þig.“ Bartímeus var ekki seinn á sér að koma til hans og það var stærsta stundin í lífi Bartímeusar og nýtt upphaf . Hann var ekki lengur í myrkri heldur gat séð og það fyrsta sem hann sá var maðurinn Jesús sem einnig var sonur Guðs. Það var Jesús sem kallaði á Bartímeus og þannig er það enn í dag að Jesús kallar á fólk til fylgdar við sig. Verum eins og Bartímeus, fylgjum Jesú og tjáum elsku okkar til hans með bæn og beiðni ásamt þakkargjörð. Amen.