Kirkjan þorir

Kirkjan þorir

Ég er stolt yfir því að tilheyra kirkju sem setur jafnréttismál á oddinn. Ég er stolt yfir að tilheyra kirkju sem þorir að tala máli þeirra sem tilheyra minnihlutahópum. Ég er stolt yfir því að kirkjan okkar skuli ekki fara í manngreinarálit og gefa öll þau sem elska hvert annað saman í heilagt hjónaband hvort sem þau eru gagnkynhneigð eða samkynhneigð.
Flokkar

Náð sé með okkur öllum og friður frá Jesú Kristi Drottni okkar og frelsara og gleðilega Hólahátíð! Fyrir rúmum tveimur vikum stóð ég á tindi Mælifellshnjúks hér í Skagafirði í heiðskíru veðri. Það var bæði sýn til jökla og eyja. Við okkur fjallagörpunum blöstu Eiríksjökull og Baula í vestri, Kerlingafjöll, Langjökull og Hofsjökull í suðri, eyjarnar dularfullu á Skagafirði til norðurs og blómlegar byggðir Skagafjarðar til austurs. Ég hugsaði með mér hvað við erum rík íslenska þjóðin að eiga svona fallegt land, sérstaklega þegar það er sólu baðað. Öll þessi óspillta náttúra og þau lífsins gæði sem við eigum. Þegar ég kom niður af fjallinu og hversdagslífið tók við eftir endurnærandi göngu langaði mig ekki til að halda áfram að lesa bókina sem ég var að lesa og hafði gripið huga minn síðustu dagana á undan. Þetta var bókin Ríkisfang Ekkert eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur. Mig langaði ekki til að láta hana minna mig aftur á hvað veröldin er grimm og hvað sumar þjóðir þurfa að búa við mikið ofbeldi og endalausan ótta. Ég leitaði að einhverju öðru til að lesa, en bókin lét mig ekki í friði. Ég vissi að ef ég héldi lestrinum áfram myndi ég komast að því að palenstínsku konurnar sem bókin fylgir eftir myndu fá hæli á Íslandi.

Lífið sem þær lýstu í Bagdad í stríðinu og síðan lífið í flóttamannbúðunum í Al Waleed var skelfilegt.. Stöðugar sprengingar, fyrirvaralausar árásir á óbreytta borgara, aldrei óhætt að fara út fyrir hússins dyr. Þrátt fyrir það að ég vildi helst ekki vita hvernig heimurinn er hélt ég áfram að lesa bókina af því að ég vissi að hún endaði vel. Ég vissi að konurnar komust til Akraness með börnin sín. En auðvitað var það ekki endirinn á sögu þeirra. Við tók erfitt aðlögunarferli og menningaráfall, engin kryddlykt í búðunum þó þar væri allt til alls. Milli línanna var svo óttinn um þau sem ekki komust í frelsið og allsnægtirnar eins og dóttir einnar þeirrar sem var 17 ára og fékk ekki að koma með af því að hún var gift. Engar undantekningar voru gerðar frá meginreglunum. Einstæðar mæður skyldi það vera sem hingað fengu að koma með börnin sín og engir karlmenn.

Óréttlæti heimsins blasir alls staðar við og Jesús grætur eins og hann gerði í guðspjallinu sem lesið var hér áðan. Jesús grætur yfir heiminum. Jesús grætur vegna allra þeirra sem eru særðir, óréttlæti beittir og kúgaðir. Jesús grætur yfir börnum sem seld eru í kynlífsþrælkun, Jesús grætur yfir börnum sem seld eru í vinnubúðir til auðhringja og er svo drekkt þegar þau eru orðin of þreytt til að vinna. Jesús grætur yfir fólki sem reynir að flýja frá Líbýu á litlum bátum og deyr úr þorsta á leiðinni. Jesús grætur núna yfir þjóðarmorðinu í Sýrlandi. Jesús grætur yfir mörgu úti í hinum stóra heimi sem er óralangt frá Mælifellshnjúk í Skagafirði, en Jesús grætur líka yfir okkur hér á Íslandi. Hann grætur yfir hælisleitendum sem ekki fá hæli hér á landi, þó við höfum hér nóg pláss og fullt af hjartarými, hælisleitendum sem eru bara fólk eins og við og börnin okkar. Jesús grætur yfir fórnarlömbum heimilisofbeldis á Íslandi og öllum þeim sem líður illa vegna óuppgerðra til finninga, sorgar, reiði og gremju.

Jesús hafði tilfinningar.

Jafnvel þó við höfum myndina af fæðingu hans í dýrðarljóma jólanna þá fæddist hann við ömurlegar aðstæður þar sem fólk hafði ekki pláss fyrir konu í barnsnauð. Hann óx upp við að vera hundeltur af yfirvöldunum og þurfti að vera á flótta fyrstu ár ævi sinnar. En hann óx upp til fullorðisára og þróaði með sér tilfinningalíf sem var í djúpum tengslum við hann sjálfan. Hann var bæði glaður og sorgmæddur. Hann vakti með öðrum bæði gleði og sorgartilfinningar. Hann var manneskja af holdi og blóði, sem þekkti það sjálfur að vera svikinn, vissi hvernig það var að láta tala illa um sig. Hann vissi að honum voru brugguð launráð og hann grét. Hann grét alveg eins og við grátum þegar lífið er okkur andstætt.

Öll grátum við þegar við vitum að það er talað um okkur á bak. Við grátum þegar ósætti verður í kringum okkur og við grátum þegar okkur er hafnað. Gráturinn er gjöf frá Guði eins og allar aðrar tilfinningar. Guð gaf okkur grátinn eins og hláturinn til að fá útrás fyrir ákveðnar tilfinningar. Sumum finnst vont að gráta, öðrum finnst það gott.

Mér finnst gott að gráta. Það losar um spennu sem stundum hleðst upp innra með mér. Og ég þakka Jesú um leið fyrir það að hann grét líka. Þá finnst mér hann gráta með mér. Þá finnst mér hann skilja hvernig mér líður. Reyndar finnst mér hann alltaf skilja hvernig mér líður af því að ég get talað við hann um allt. Af því að hann er alltaf hjá mér og gefur kraft til að halda lífinu áfram. Hann er alltaf hjá mér með anda sinn, sem reisir mig við að nýju með krafti sínum, sem gefur mér kjark.

Stundum græt ég af gleði. Það er svo margt sem hægt er að gleðjast yfir. Í dag græt ég af gleði yfir kirkjunni okkar. Mér finnst kirkjan okkar svo óendanlega dýrmæt og allt fólkið sem myndar hana og vinnur fyrir hana. Á ferð okkar hjóna um Hólastifti í vor kynntumst við stórkostlegu fólki sem myndar grunnstoðir kirkjunnar, fólki sem er að vinna kirkjunni gagn alla daga, fólki sem þráir að Guð fái að snerta sem flesta. Á þessum ferðum fylltist ég stolti yfir kirkjunni minni. Ég er stolt yfir því að tilheyra kirkju sem setur jafnréttismál á oddinn. Ég er stolt yfir að tilheyra kirkju sem þorir að tala máli þeirra sem tilheyra minnihlutahópum. Ég er stolt yfir því að kirkjan okkar skuli ekki fara í manngreinarálit og gefa öll þau sem elska hvert annað saman í heilagt hjónaband hvort sem þau eru gagnkynhneigð eða samkynhneigð. Yfir því er ég bæði stolt og glöð. Ég er stolt yfir því að tilheyra kirkju sem hefur hlustað á kvennaguðfræði, guðfræði sem leggur áherslu á margvíslegar myndir Guðs í Biblíunni bæði karlmyndir og kvenmyndir, guðfræði sem sýnir að guðsmyndin hefur áhrif á jafnrétti kynjanna, Ég er stolt að tilheyra kirkju sem hefur valið tvo kvenbiskupa á einu ári, konur sem lærðu kvennaguðfræði undir handarjaðri fyrstu prestvígðu konunnar á Íslandi sr. Auðar Eir Vilhjálmsdóttur. Mikið samgleðst ég henni í hjarta mínu í dag.

Jesús grætur , en hann hlær líka og gleðst yfir öllu því góða sem kirkjan er að gera. Hann gleðst yfir öllu því fjölbreytta starfi sem unnið er með börnum og unglingum, í öldrunarstarfi, í tólf sporahópum og sorgarhópum, í æðruleysismessum og æskulýðsmessum og í kvennakirkjunni. Hann gleðst yfir því starfi sem kirkjan er að vinna á sjúkrahúsum og í fangelsum, meðal heyrnarskertra og fatlaðra, en hann grætur yfir því að til séu öfl í þjóðfélaginu okkar sem vilja halda kærleiksboðskap hans frá börnum og skólastarfi.

Kristur kom í þennan heim til að efla kærleika á meðal okkar. Hann kom til að sýna bæði mér og þér að kærleikurinn sigrar alltaf að lokum. Það sýndi upprisa hans. Upprisa Jesú Krists á páskadagsmorgunn þegar Jesús Kristur sigraði dauðann sýnir okkur enn þann dag í dag að Jesús er með okkur og leyfir ekki hinu illa að sigra. Því getum við örugg haldið mót framtíðar, jafnvel þótt í móti blási og treyst Guði fyrir því að boðskapur hans muni lifa. En við verðum að taka þátt í því starfi. Við verðum að kenna börnum okkar boðskap hans og leyfa þeim að þekkja mátt kærleikans til að heimurinn verði betri.

Ef við kennum ekki börnunum okkar að biðja, gerir enginn það. Ef við kennum ekki börnunum okkar það sem Jesús kenndi lærisveinum sínum gerir enginn það. Ábyrgð okkar er því mikil, okkar allra sem höfum borið börnin okkar til skírnar og falið þau góðum Guði. En kirkjan er öllum þeim til trausts og halds í þessu mikla hlutverki að koma kærleiksboðskapnum áfram til næstu kynslóðar. Þess vegna er barna- og unglingastarf kirkjunnar langmikilvægasta starfið, sem við vinnum að saman.

Hús mitt á að vera bænahús, segir Jesús í niðurlagi guðspjallsins eftir að hann hefur hrundið um borðum þeirra sem vildu gera hús hans að ræningjabæli. Við Íslendingar eigum mörg bænahús. Víðs vegar um landið eru einstaklega fallegar kirkjur, sem er vel við haldið þrátt fyrir sílækkandi sóknargjöld. Í þessum kirkjum út á ystu nesjum og inn í þröngum dölum upplifir fólk sínar heitustu tilfinningar, -tilfinningar gleði og sorgar. Í kirkjunum víðs vegar um landið er trúarþörfinni einnig fullnægt, trúarþörfinni, sem er sú vídd mannlegra tilfinninga sem við tölum alltof sjaldan um. Að upplifa okkur sjálf frammi fyrir skapara okkar sem elskar okkur og er alltaf til staðar fyrir okkur gefur okkur tilgang með lífinu og traust sem við getum byggt allt annað á. Í kirkjum landsins er sérstakur staður fyrir þennan fund okkar við Guð þó að sjálfsögðu getum við talað við Guð hvar og hvenær sem er.

En þó við getum talað við Guð hvar sem er þá skulum við koma til kirkju eins og við höfum gert í dag hvenær sem við höfum tækifæri til. Þar upplifum við hina samfélagslegu hlið trúarinnar. Að lofa Guð með öðrum gefur nýja vídd, að tala við Guð með öðrum fyllir okkur innri gleði. Sá íslenski siður sem við þekkjum svo vel að vilja eiga sína trú fyrir sig er góður út af fyrir sig, en kirkjan býður upp á samfélag í gleði og sorg og ekki síst í hversdagslífinu. Hús mitt á að vera bænahús segir Jesús. Í kirkju höfum við tækifæri til íhugunar. Kristin íhugun hefur verið stunduð á kyrrðarsetrum víðs vegar um landið, hér á landi helst á hinum forna biskupsstóli í Skálholti.

Hér á Hólum í Hjaltadal er tilvalinn staður til að hafa kyrrðardaga, enda hefur íhugun og bæn verið stunduð hér á þessum stað í yfir 900 ár. Á íslenskum sumardegi er gott að koma heim til Hóla eins og verið hefur um aldir. Við skulum láta þennan dag marka spor í þá sögu að efla staðinn til íhugunar og bæta og til að efla kirkjuna um allt land svo börnin okkar og barnabörn getið notið þess sem Kristur hefur kallað okkur öll til: að gera heiminn örlítið betri í dag en hann var í gær.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.