Leikvangur þýska knattspyrnuliðsins Schalke 04 var byggður árið 2001. Áhangendur félagsins telja heimavöll sinn þann flottasta, alla vega í Evrópu. Fleiri geta tekið undir það, enda er leikvangurinn eiginlega heill heimur, tækniundur með hreyfanlegum grasvelli, veitingastöðum, ráðstefnumiðstöð og aðstöðu fyrir blaðamenn, svo nokkuð sé nefnt.
Auk þess er þar kapella. Í Evrópu eru það aðeins Gelsenkirchen, heimaborg Schalke, og knattspyrnuborgin Barcelona, sem hafa vígðan stað á fótboltavelli.
Kapellan á Veltins-leikvanginum (nefndur eftir bjórgerð) í Gelsenkirchen var hönnuð af þýska listamanninum Alexander Jokisch. Að innan er hún öll svört og hvít eins og fótbolti. Altaristaflan er mörg þúsund svört strik sem mynda ótal litla krossa á hvítum fleti. Krossavefurinn gæti auðvitað líka verið net í marki. Við altarið eru ellefu súlur, jafnmargar og leikmenn í fótboltaliði. Súlurnar plús presturinn, þegar hann er kominn fyrir altarið, er annað lið, sjálfur lærisveinahópurinn.
Í kapellunni fer fram samkirkjulegt helgihald og þar er bæði skírt og gift, en helgidómurinn er líka griðastaður í síharðnandi heimi alþjóðlegrar atvinnuknattspyrnu, þar sem óskaplega mikið er í húfi, fyrir leikmenn, þjálfara, eigendur, dómara, blaðamenn og áhangendur. Kapellan er gott og áþreifanlegt dæmi um samvinnu kirkjunnar og íþróttahreyfingarinnar. Hún er samt langt frá því að vera það eina trúarlega á þessum leikvangi.
Það má nefnilega með góðu móti flokka knattspyrnu til trúarbragða. Jafnvel þótt við segðum að guð sé ekki til staðar í boltanum er þar eitthvað, sem er tilbeðið. Þar er veröld, sem lýtur eigin rökum. Þar eru heilagir staðir, veglegri en kirkjur og moskur. Þar eru helgidagar, þegar fram fara leikir. Kraftaverk gerast á vellinum, mörk eru skoruð með ómögulegum hætti á lokasekúndunum. Goðsagnir skapast, átrúnaðargoð og hetjur, sem aldrei að eilífu gleymast. Menn fara í pílagrímsferðir, syngja baráttusöngva og sigursálma, stíga gleðidansa, tala tungum fylltir andanum, skrýddir helgiklæðum í litum liðsins síns og fagna goðum sínum veifandi fánum. Hrópandi sjónvarpsprédikarar lýsa því sem fyrir augu ber, greina það sem er að gerast og miðla öðrum af þekkingu sinni á hefðinni.
Og viljir þú komast í hóp hinna sanntrúuðu verður þú að uppfylla ákveðin lágmarksskilyrði. Þú verður að læra fræðin. Vita hvenær menn eru rangstæðir. Temja þér ákveðið hugarfar til félagsins. Sýna hollustu og tryggð. Mæta á völlinn og upplifa samfélagið. Verða hluti af heildinni, leggja til röddina í hvatningarkórinn og lyfta upp höndunum í risabylgjunni.
Innan um sextíuþúsund manns á tröllvöxnum knattspyrnuvöllum heimsins ert þú kominn í annan heim og á nýtt tilverustig. Þá tilfinningu þekkja allir sem farið hafa á alvöru leiki.
Upp, upp, mín sál! Bless, bless, öll vandamálin heima!
Trúin er hreint ekki úrelt í nútímanum enda segjum við, áhangendur trúarbragðasögulega skólans, að maðurinn sé ólæknandi trúarvera.
Þau sem ekki trúa því ættu að fylgjast vel með HM í sumar.
Góða skemmtun!
[poll=4]