Vegir okkar í dag hafa legið hingað til kirkju. Við erum á sama vegi hér, og á þessum vegi mætir kirkjan okkur með Orði Drottins og andanum heilaga.
Vegirnir geta legið í margar áttir í lífinu. Tilboðin eru mörg.
Sálmaskáld Davíðssálma hvetur okkur til að biðja og ganga á Drottins vegi. ,,Fel Drottni vegu þína og hann mun vel fyrir sjá...”
Við sem játum kristna trú játum því að við séum á hans vegi. Við erum fólkið á vegi lífsins, þar sem Jesús Kristur er sporgöngumaðurinn.
Vegur kristninnar tengir upphaf og endi lífs hér í heimi.
Í skírninni er Guð að verki, þar tekur skaparinn, skapari heimsins við barninu í sinn söfnuð, sem er söfnuður lífsins og söfnuður eilífðar.
Í skírninni er einnig fræi trúarinnar sáð, sem foreldrar, skírnarvottar, aðstandendur og söfnuður allur ber ábyrgð á að vökva og næra. Vökvann er að finna í lífsins orði Biblíunnar, sálmum sálmabókar og í öðrum náðarmeðölum kirkjunnar.
Bænasamfélag og lestur við rúmstokkinn er kannski sú næring og fordæmi sem gefur hvað sterkastar stoðir undir tréi trúarinnar.
Fordæmi hinna fullorðnu skiptir miklu varðandi þátttöku og upplifun barnanna.
Einlæg bæn til Guðs skapara, lausnara og helgara í samfélagi heimilisins, er kannski ein dýrmætasta gjöf sem foreldri gefur barni sínu.
* * *
Á unglingaskeiði lífsins býður Þjóðkirkjan svo upp á fermingarfræðslu. Í henni ganga börnin veginn til móts við Guðsorð. Og það ákveða þau sjálf. Gjarnan er þeim fagnað að vori eftir viðburðarríkan vetur fræðslu og samfélags, þar sem þau hafa lagt sitt að mörkum til kristninnar, til kirkjunnar og til þátttöku í kirkjustarfi og fræðslu. Og er gott að hafa fagnaðarlætin í góðu samræmi við framlag barnanna sjálfra.
Á unglingsárunum er allt að gerast, líkaminn að breytast, hugurinn að þroskast, unglingurinn í dag verður fullorðinn á morgun. En þó langt því frá að vera orðinn fullorðinn.
Nauðsynlegt er fyrir unglinginn að fara sér hægt. Taka ekki alla krókana sem bjóðast á vegium heimsins, því margir þeir krókar og þau tilboð, leiða einungis til niðurbrots og ills.
Margar krossgötur bíða og nauðsynlegt er að styðja við, leiðbeina og fræða til að unglingarnir týnist ekki af vegi lífsins.
Tilboð heimsins geta verið varhugaverð, og þá sérstaklega á okkar tímum. Sumt er nauðsynlegt fyrir unglinga að prófa aldrei. Sumt er mikilvægt að geyma fram á fullorðins ár.
Þegar tvær manneskjur unnast, piltur og stúlka sem þroskast í karl og konu, þá veitir kirkjan þá helgu þjónustu sem hún hefur veitt í aldir, að gefa þau saman í hjónaband.
Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum er sá vegur fær þeim sem velja þá kærleikans og ábyrgðar leið. Aldurinn verður að vera nægur, sjálfræði og lögræði einstaklinganna beggja til staðar. Engar þvinganir eða aðrir meinbugir mega vera á þeim ráðahag. Skyldleiki hjónaefni má ekki vera meiri en lög gera ráð fyrir. Tvíkvæni er ekki leyfilegt, aðeins er leyfilegt að eiga einn eiginmann/ eiginkonu. Fjárræði verður að vera frágengið við fyrri maka, ef þannig stendur á. Og hjón eru karl og kona.
Hjónabandið er ekki fyrir alla. Skilnaðir sýna að erfitt reynist að standa við stóru orðin sem játað er við heilagt altari.
Jesús segir líka að hjónabandið sé ekki á allra færi. Í Matteusarguðspjalli segir Jesús þegar farísear freistuðu hans og spurðu um hjónabandið: ,,Hann svaraði þeim: ,,Þetta er ekki á allra færi, heldur þeirra einna, sem það er gefið. Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli, sem höndlað fær.””
Þessi orð Jesú Krists eru mikilvæg til skilnings á hjónabandi okkar kristinna manna. Nítjándi kafli Matteusarguðspjall er magnaður yfirlestrar í heild sinni.
Hjónabandið er ekki á allra færi heldur aðeins þeirra sem það er gefið frá Guði. Hverjir eru vanhæfir til hjúskapar frá fæðingu? Getur verið að þar eigi Jesú við þá sem fæðast samkynhneigðir?
Sumir eiga þess ekki kost af manna völdum, segir Jesús. Það geta verið þeir sem eru ófrjálsir sökum brota, eru í fangelsi. Eða vegna misþyrminga, annarra manna. Svo talar Jesús um þá sem gert hafa sig vanhæfa vegna himnaríkis. Eflaust á hann við þá sem ganga í klaustur, helga sig bæn og helgihaldi allt sitt líf.
Því má ekki gleyma að hjónabandið er í grundvallar atriðum veraldleg stofnun þar sem lagaramminn veitir öryggi og ákveðin grundvallarréttindi, en innihaldið er lífið sjálft. Í hvoru tveggja skiptir öllu að þar sé það kærleikurinn sem ráði hugsun orði og gerð.
Prestar hafa um aldir farið með það hlutverk í samfélagi okkar að gefa saman hjón. Þetta er eini löggerningurinn sem prestar hafa nú með höndum.
Ef ríkisvaldið ætlar að breyta þeim hjónavígsluskilyrðum sem kirkjan hefur haft að leiðarljósi í árþúsundir, er illt í efni.
Á hvaða vegi er þjóðin? Á hvaða vegi er ríkisvaldið?
Á hvaða vegi er kirkjan? Ætlar hún að feta nýjar slóðir, nýja vegi varðandi hjónabandið, skilning sinn á manneskjunni, framgang hennar og hlutverki, þeim skilyrðum sem sett hafa verið til hjónavígslu.
Varðandi það allt saman þá vona ég að Þjóðkirkjan beri gæfu til þess að slá skjaldborg utan um þá mikilvægu stofnun.
* * *
Við sem mætumst hér á veginum, í kirkju okkar Eyjamanna í dag, sem og aðrir sem vilja fylgja Jesús Kristi, heyra orð hans og biðja í hans nafni, það er okkar að tala því orði sem Kristur boðar. Það er okkar að lifa því lífi sem Kristur biður.
Ef við sem viljum vera á veginum hans, vegi lífsins, tölum ekki orði Krists, þá er kirkjan dauð. Þá er kirkjan komin af veginum.
Við verðum öll að bera honum vitni með orðum okkar, atferli og bænum.
,,Fel Drottni vegu þína og hann mun vel fyrir sjá.” Segir sálmaskáldið.
Hann mun sjá til þess að þú lifir lífinu í takt við fyrirætlun Guðs.
Páll postuli segir í Kólossabréfinu: ,,Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hver annan og fyrirgefið öðrum... . Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar... . Verðið þakklátir.
Þetta eru vörður á vegi kristninnar, þessi orð Páls sem iðulega eru lesin við hjónavígslur í Þjóðkirkjunni.
Að vera kristinn felur það í sér að lesa Guðs orð, lesa Biblíuna. Heyra hvað hún boðar, leyfa Orðinu að búa með sér alla daga, og taka við því með bæn og þakkargjörð.
Á þeim vegi á kirkjan að vera, því Orð Drottins er lifandi og virkt börnunum öllum til blessunar.
Ef það er ekki lesið er það sem dauður bókstafur fyrir okkar líf.
Kirkja Krists verður að glíma við Orðið, leyfa því að leiða alla umræðu og framgang samfélags okkar.
Það er kærleikans vegurinn sem Kristur býður okkur til. Hvernig eigum við að feta okkur þann veg?
Að mætast hér á helgum stað er mikilvægt. Játningin er grundvallaratriði, að játast kærleika Krists.
Játa trúna og iðka hana með bænagjörð og því að lesa Biblíuna.
Þannig verður trúin lifandi í okkar lífi. Þannig nærum við lífsandann í okkur sjálfum með því að vökva hann með vatninu úr lífsins lind.
Kirkjan er samfélag þess fólks sem er á vegi Krists.
Kristur leiðir okkur veginn heim, í kærleiks faðm Guðs.
Eins og hann ummyndaðist fyrir augum lærisveina sinna á fjallinu. Eins munum við í fyllingu tímans fá að líta hans dýrð og skæru náð.
* * *
Þegar barn fæðist, lítur þennan heim í fyrsta sinni, berum við það að náðarfaðmi Guðs í skírninni. Lífsins veginn fetum við síðan í samfélagi kirkjunnar, þar sem við söfnumst saman á helgum og hátíðum, til að fagna áföngum, til að minnast nærveru Guðs, og einnig til að kveðja látið samferðarfólk.
,,Lofaður sé Guð og faðir, Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum.”
Þau orð heyrum við bæði við skírnir barna okkar og þegar rekunum er kastað við moldun og leiðarlok.
Kirkjan gefur samhengi tilgangs og markmiðs þar sem við erum öll á sama báti, og vegurinn liggur heim.
Tíðarandinn hefur oft freistað. Heimurinn hefur svo oft viljað fanga athygli kirkjunnar. Og sökum þessa hefur kirkjuna án efa stundum borið af leið.
Hættan við það er sú að þá getur kirkjan misst sjónar af hinu himneska. Misst sjónar af því að Jesús er sonur Guðs.
Jesús Kristur er nefnilega sá sem Guð faðirinn segir um: ,,Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann.”
Hvernig hlýðum við á hann? Jú, á okkar vegi hér í kirkjunni, við stöndum upp er guðspjall er lesið. En sá vegur verður einnig að liggja inn á heimili okkar, þar sem helgihald, Biblíulestur og bænagjörð getur verið okkur handgengin.
Davíðssálmar eða guðspjöllin eru farsælir staðir til að byrja á þegar lesa á Biblíuna.
Sálmabókin okkar er einnig mikill fjársjóður sem góður er yfirlestrar og geymir fleira en sálma, því aftast í henni er bænabók. Í henni er að finna bænir fyrir hin ýmsu tilefni, morgun og kvöldbænir fyrir alla daga vikunnar.
Það er gott að lesa bænir, ekki bara leyfa hjartanu að ráða för heldur þiggja leiðbeiningu aldanna í kirkju og kristni.
Kirkjan er ekki af þessum heimi, eins og ummyndunar dagurinn boðar okkur.
En í heiminum er hún samt og verður að taka þar þátt, prédika, hlusta, svara, leiðbeina og fræða.
Þá verður einhver að vilja hlusta. Er fólkið á veginum kannski hætt að stefna í himneskar áttir, og hefur tekið tilboði heimsins? Tilboði heimsins sem felur það í sér að vegurinn endar í vegleysu. Ég held ekki, ég held við séum hér öll á sama báti, og fylgjum þeirri slóð sem liggur heim í kærleiksríki Guðs.
Að sækja kirkju er mikilvægur þáttur í ræktun trúarinnar. Í musterið sótti Jesús sjálfur og sagði að það væri sá staður sem honum bæri að vera á. Í kirkjuna hvetur hann því okkur, til samfélags við hvert annað og til samfélag við sig.
,,Fel Drottni vegu þína og hann mun vel fyrir sjá!” Er þemað hér í dag, leyfum Drottni að sjá vel fyrir þér og okkur öllum.
Jesús Kristur segir í Jóhannesarguðspjalli: ,,Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið, enginn kemur til föðurins nema fyrir mig!”
Á þeirri vegferð erum við sem kirkja, í samfélagi trúaðra á himni og á jörðu.