Hugsjónin um kirkjuna sem þátttökusamfélag byggist á því að efla leikfólkið í kirkjunni og gera framlag þess sýnilegt. Ný sýn á sjálfboðaliðastörf í kirkjunni opnar leið frá hefðbundnum hugmyndum um umönnunar- og forsjárkirkju þar sem kirkjan er lokað pýramídasamfélag vígðra, til kirkju sem kallar alla til að þjóna og blómstra, eftir þeim gjöfum og hæfileikum sem Guð gefur þeim.
Þjóðkirkjan hefur alltaf notið þjónustu þeirra sem ekki taka umbun og laun fyrir störf sín. Til sveita eru það til að mynda allir þeir sem hirða um guðshús og -garða, allar sóknarnefndirnar og kirkjukórarnir sem leggja sitt af mörkum til að sinna praktískum málum og helgihaldi kirkjunnar. Í þéttbýlinu þar sem aðstæður eru fyrir fjölbreyttara safnaðarstarf sinnir ólaunað starfsfólk ýmislegri þjónustu sem gerir söfnuðum kleift að halda úti öflugu starfi.
Efling sjálfboðaliðastarfa í kirkjunni snýst ekki um fjárhagslegan ávinning og sparnað, heldur er hún leið kirkjunnar til að vera lifandi og öflug hreyfing myndugs fólks. Þátttökukirkjan lítur ekki fyrst og fremst til að uppfylla þarfir hinnar kirkjulegu þjónustu sem slíkrar heldur til gjafa og hæfileika þeirra sem vilja láta gott af sér leiða.
Þátttökukirkjan er vettvangur fólks sem vill leggja sitt af mörkum til að láta gott af sér leiða fyrir samfélagið. Þannig er uppfyllir hún köllun hins kristna manns til þjónustu við Guð og náungann. Þátttökukirkjan uppfyllir líka ábyrgð okkar á boðun. Því hver sá sem finnur vettvang til þess að vera virkur í kirkjunni, fær tækifæri til þess að mæta trúnni á nýjan hátt. Það er verkefni kirkjunnar að opna sig enn frekar fyrir þessum nýju sjálfboðaliðum og búa til tækifæri og aðstæður þar sem gáfur þeirra og hugðarefni fá að njóta sín.
Nánar