Þegar heimskautafarinn norski Roald Amundsen var á leiðinni með mönnum sínum í tveimur flugvélum til norðurheimskautsins forðum daga þá fórst önnur vélin. Þá var allt undir því komið hvort hin vélin gæti borið alla mennina. Öllu, sem nauðsynlegt var, urðu þeir að fórna. Amundsen átti ljósmyndavél sem hann vildi helst ekki skilja við sig. Þeir reyndu aftur og aftur að koma vélinni á loft en án árangurs. Urðu þeir að losa sig við æ fleiri muni og að endingu varð Amundsen líka að leggja myndavélina í sölurnar. Hann hafði haft hana með sér á mörgum ferðalögum. Og nú gat flugvélin borið þá.
Í guðspjalli dagsins segir frá ríkum ungum manni sem átti miklar eignir. Hann var e.t.v. einn af fjárfestum sins tíma sem hugsaði um líkamlega heilsu sína með því að fara út að skokka sér til heilsubótar. Hann var ekki að hlusta á hlaðvarps tónlist í eyrunum á meðan hann var að hlaupa eins og unga fólkið gerir í dag. Hann hlustaði á eigin hugsanir og talaði kannski upphátt við sjálfan sig. Hann hlustaði á hljóðin í umhverfinu. Hann heyrði í skordýrunum og úlföldunum. Það er ekki skrifað í guðspjallinu hvaðan hann kom eða hversu lengi hann var búinn að hlaupa eða hver endanlegur áfangastaður yrði. En hann hafði nægan tíma til að hugsa meðan hann hljóp. Hann var trúaður maður og þekkti lögmálið og boðorðin og hafði leitast við að halda þau með því að koma vel fram við náungann. Hann var þakklátur Guði fyrir að hafa verið gjafmildur í sinn garð og gefið sér miklar eignir og ríkidæmi.
Á skokki sínu hugsaði hann kannski um hvernig hann gæti tryggt sér áframhaldandi örlæti Guðs í sinn garð inn í eillífðina.. Hann heyrði að Jesús, meistarinn var að kenna fólki í nágrenninu. Kannski vildi hann fá fullvissu um það frá meistaranum sjálfum að hann hefði ekki brugðist nokkrum einstaklingi á vegferð sinni í gegnum lífið. Kannski vonaðist hann til að Jesús myndi klappa sér á bakið og segja. ,,Haltu áfram með þitt góða starf.” Hann reiknaði alls ekki með að Jesús myndi krefjast nýrra hluta af sér.
Þegar Jesú var að leggja af stað að lokinni kennslu sinni þá ávarpaði ungi maðurinn hann og spurði: ,,Góði meistari. Hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?”
Jesús minnti ríka manninn á að enginn væri góður nema Guð. Síðan innti Jesús unga manninn eftir því hvort hann hefði haldið boðorðin í því skyni að fá hann til að hugsa á yfirvegaðan hátt hvort hann hefði breytt rétt í lífinu. ,,Þú skalt ekki mann deyða, drýgja hór, stela, bera ljúgvitni,heiðra föður þinn og móður” En ungi maðurinn greip fram í fyrir honum og sagðist hafa haldið öll boðorðin frá æsku. Hann var hreinn af ytri syndum og hafði að eigin sögn haldið öll boðorðin sem sneru að mannlegum samskiptum.
Mér finnst ríki maðurinn nokkuð drjúgur með sig í svörum sínum. Við erum sammála um það að þessi maður hafi vissulega verið heiðarlegur og réttsýnn maður þrátt fyrir sína galla. Engu að síður hafði hann brennandi spurningu fram að færa sem hann hafði kannski velt fyrir sér á harða hlaupi sínu í gegnum lífið. ,,Á ég eilífa lífið víst ef ég kem vel fram við náunga minn eða þarf ég að gera eitthvað meira?” Og hvað þá?
Það er athyglisvert að Jesú skyldi í upptalningu sinni undanskilja fyrstu boðorðin sem sneru að þjónustu ríka mannsins við Guð. Jesús horfði á ríka manninn með ástúð og kærleika og sagði. ,,Þig skortir aðeins eitt. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.” Jesú gaf í skyn að ríka manninum væri áfátt í þjónustu sinni gagnvart Guði sjálfum en síður gagnvart fólkinu sem hann umgekkst. Hann sagði hins vegar að enginn gæti orðið nógu góður til að hann ætti eilífðina skilda. Það væri ekki hægt að vinna sér inn eilíft líf með því að vera góður við aðra.
Þegar Jesús kallaði lærisveina sína til þjónustu þá sagði hann yfirleitt á þessa leið: ,,Komið og fylgið mér.“ Það er engin heimild til um það að Jesús hafi krafið fiskimennina að selja báta sína áður en þeir gátu fylgt honum. Lærisveinarnir Símon og Andrés áttu áfram hús sitt í Kapernaum og systurnar Marta og María áttu lika hús sitt í Betaníu þótt þær fylgdu Jesú eftir. Það er hvergi minnst á það að Jesús hafi krafið tollheimtumanninn að skila til baka illa fengnum gróða sínum áður en hann kallaði hann til að fylgja sér. Margt auðugt fólk átti eftir að feta í fóspor Jesú á tímum hans án þess að það yrði krafið um að láta auðæfi sín af hendi.
Hvers vegna setur Jesús þá fram þessa kröfu gagnvart þessum tiltekna ríka manni? Það eru tveir möguleikar.
Í fyrsta lagi þá bendir allt til þess að eignir mannsins hafi verið honum mjög mikilvægar, jjafnvel mikilvægari en eilífa lífið. Hann fann til öryggis sem eignamaður og vildi kannski ekki láta það af hendi.
Í öðru lagi þá liggja leiðir Jesú og ríka mannsins saman stuttu eftir að mennirnir færðu börnin til Jesú og hann sagði við þá:,,Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.”
Ríki maðurinn er ólíkur þessum börnum. Þau voru fátæk en hann ríkur. Þau voru upp á aðra komin en hann var sjálfstæður. Þau höfðu enga stöðu eða völd en hann hafði bæði. Þau bjuggu aðeins við öryggi þeirra sem sýndu þeim umhyggju en hann virkar öruggur í sínu ríkidæmi. Kannski er Jesús einfaldlega að fara fram á það við hann að verða eins og barn frammi fyrir Guði, svipta sjálfan sig veraldlegum hlutum sem hafa gefið honum öryggi til að hann gæti svo fundið þetta öryggi í Guði?
Það getur vel verið að Jesús hafi sérsniðið þessa kröfu að þessum einstaka ríka manni til að mæta andlegum þörfum hans.
Okkur finnst krafa Jesú í garð ríka mannsins harkaleg í ljósi þess að hann hafði uppfyllt boðorðin um að elska náunga sinn. Var það ekki nóg?
Jesús krafðist þess að ríki maðurinn léti auð sinn af hendi og gæfi andvirðið fátækum. Það gat hann ekki hugsað sér. Jesús sjálfur yfirgaf dýrð himnanna til að verða mönnum líkur.
Postulinn Páll minnir okkur á í bréfi sínu til Filippímanna að Jesús hafi sjálfur ekki farið með það sem feng sinn að vera Guði líkur, hann hafi svipt sig öllu, tekið á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur.
Jesús er á leiðinni til Jerúsalem til móts við örlög sín, dauða á krosssi. Í ljósi þessa er krafa Jesú ekki ósanngjörn. Var Jesús kannski að segja við ríka manninn að til þess að eiga eilíft líf í vændum þá þyrfti hann að hætta að líta á það sem feng sinn að vera ríkur og eignamikill maður. Þess í stað skyldi hann taka upp kross sinn og fylgja sér? Hafði Jesú ekki sagt? ,,Hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarerindisins mun bjarga því.”
Var ríki maðurinn tilbúinn að selja eignir sínar og gefa fátækum til að hann gæti fylgt sér allt til dauðans á krossi? Ef hann gerði það ekki þá gæti auður hans virkað eins og helsi.
Jesús sagði í raun og veru við hann: Ungi maður, ef þú vilt eignast hlutdeild í eilífu lífi, ef þú vilt læra að elska skilyrðislaust, ef þú þráir að höndla ríki Guðs þá skaltu losa þig við allar veraldlegar eigur þínar, seldu þær, gef þær fátækum. Þegar þú ert orðinn frjáls þá skaltu koma til mín og feta í fótspor mín.
Ríki maðurinn ákvað að fara ekki að ráðum Jesú heldur hélt á braut hryggur í bragði og Jesús virti þessa ákvörðun hans. Auður ríka mannsins kom í veg fyrir að trú hans yrði líf hans og sáluhjálp. Hann elskaði eignir sínar meira en fjársjóðinn á himnum.
Í goðafræði Grikkja er sagt frá Akkilesi. Hann var hvergi hægt að særa nema í hælinn. En þar fékk hann það sár sem dró hann til dauða. Akkilesarhæll ríka mannsins var ríkidæmi hans og auður.
Hver er okkar Akkilesarhæll? Er það sjálflægni okkar og níska? Er það versta sárið í íslenskri þjóðarsál sem erfitt er að græða og meðhöndla?
Að eiga auð er tákn um mikla blessun. Ríki maðurinn gerði sér það ljóst en ég er ekki viss um að hann hafi gert sér ljóst að þess vegna væri meira krafist af honum en ella. Við íslendingar erum auðug þjóð og við erum flest aflögufær. Það er líka mikil ábyrgð í því fólgin að eiga miklar eignir. Ábyrgð stórfyrirtækja er mikil í þjóðfélaginu og hinna efnameiri einnig að gefa með sér til góðra málefna.
Heimskautafarinn Roald Amundsen lagði sína dýrmætustu eign, myndavélina sína, í sölurnar til að flugvélin færist ekki með þá félaga innan borðs. Hver er okkar dýrmætasta veraldlega eign? Er það íbúðin okkar? Getur verið að hún standi okkur fyrir þrifum gagnvart sambandi okkar við náungann og Guð? Hvað skyldi nú gerast ef við myndum losa okkur við hana og taka upp nýja og einfaldari lífshætti? Að eiga mikinn auð getur gert okkur ónæm gagnvart venjulegum þörfum folks í kringum okkur. Getur verið að auðurinn geri okkur blind á mannlega þætti í fari okkar sjálfra og telji okkur trú um að við séum síður háð öðrum? Það er gömul gáta sem segir: „Hvað skortir ríkan mann, sem fátækur maður hefur nóg af?“ Hvað skyldi nú svarið vera? Svarið er auðvitað, - ,,Ekkert.“ Því að ríki maðurinn á nóg af öllu og skortir ekkert en fátæki maðurinn skortir allt og á því ekkert.
Vertu fórnfús, sagði Jesús við unga manninn. Láttu ekki jarðneskan auð þinn blinda þig. Láttu hann frá þér fara í þágu þeirra sem eru hjálparþurfi. Færðu fórnir sem þú finnur virkilega fyrir. Þá hlýtur þú margfalda blessun frá Guði. Í þessu er einn af leyndardómum guðsríkisins fólginn. Ef við gefum tíund af launum okkar til fátækra, til Hjálparstarfs kirkjunnar eða til Kristniboðssambandsins þá fáum við það margfalt til baka með ýmis konar blessun.
Sjálfselska okkar gerir það að verkum að við erum ekki tilbúin að færa fórnir í þágu ríkis guðs. Við erum ekki tilbúin að staldra við og þroskast andlega. Þess í stað höfum við ríka tilhneigingu til að hlaupa með unga manninum í gegnum lífið án þess að líta til beggja hliða, án þess að staldra við og spyrja: Hvers vegna er ég að þessu veraldlega brölti?
Við erum yfirleitt þrælbundin og heft af veraldlegum eigum okkar. Við ættum þess í stað að íhuga að temja okkur meiri nægjusemi í þessu vafstri okkar og gefa meira með okkur en við höfum gert og deila eigum okkar með öðrum í ríkari mæli. Nú er svo komið að við íslendingar erum farnir að henda fleiri nýtilegum hlutum en við gerðum árið 2007, ári fyrir hrun..
Ég hef fundið til mikillar gleði og mikils frelsis að hafa getað gefið ýmsa nýtiega hluti til Rauða krossins og marga poka með efnum í sumar og haust.
Undanfarið hef ég tekið upp iðju að nýju sem er mér kær sem er listmálun. Ég er að hugsa um að mála málverk af nál í regnbogans litum. Hvað er eitt af því sem einkennir nálina? Jú, það er nálaraugað. Ég þarf ekki að mála úlfaldann því að ég vil frekar að áhorfandinn ímyndi sér að hann sé sjálfur úlfaldinn. Flestir þekkja þessa setningu Jesú úr guðspjalli dagsins: ,,Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.”
Við getum ekki fyrir eigin verk eignast eilíft líf. Það dugar ekki að selja íbúðina okkar og gefa andvirðið fátækum til að eiga eilífa lífið víst. Við þurfum á náð Guðs að halda til að eignast eilífa lífið. Og það byrjar ekki þegar við deyjum heldur hefst það við skírnina þegar Guð íklæðir okkur réttlætisskrúðanum og gerir okkur að sínum börnum. Þá hefst eilífa lífið sem varir út yfir gröf og dauða, inn í ríki eilífðarinnar og lífsins. Við erum þess vegna bara ínokkuð góðum málum þegar kemur að eilífðarmálunum. En minnumst þess þó jafnan að á líkklæðunum eru engir vasar. Í himnaríki eru öllu snúið á hvolf frá því sem við eigum að venjast í þessu lífi. En er það ekki bara eitthvað sem við getum þá farið að hlakka til?
Við getum ekki tekið með okkur myndavélina okkar, listmálara pensilinn eða aðrar veraldlegar eignir. Við erum jafnframt minnt á það að þótt auður í samfélagi okkar geti komið eiganda sínum framar í virðingarstigann í íslensku þjóðfélagi þá er öllu snúið við í himnaríki. Ég hef haft af því fregnir að þar muni hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.
Þess vegna er ágætt að halda sig við auðmýktina í þessu lífi og vera vakandi gagnvart þörfum fátækra hér landi. Ég held ég setji nú bara punktinn hér á þennan ræðu striga og segi amen eftir efninu.
Sighvatur Karlsson settur héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra flutti þessa predikun í Breiðholtskirkju 20 október 2019, 18 sunnudag eftir þrenningarhátíð