Fer það í taugarnar á þér að Guð skuli vera góður?

Fer það í taugarnar á þér að Guð skuli vera góður?

Dæmisagan miðlar sem sagt því að guðsríkið lýtur öðrum lögmálum en ríkja í mannheimum. Þar gilda ekki sömu forsendur og í daglegu lífi okkar hér á jörðu, vegna þess að gæska Guðs, er miklu ríkari en nokkur getur ímyndað sér.

Prédikun í Bústaðakirkju, 1. sd. í níuviknaföstu, 13. febrúar 2022 kl. 13


Lexía: Jer. 9:22-23

Pistill: 1. Kór. 9.24-27

Guðspjall: Mt. 20:1-16

 

Biðjum:

Ó, birt mér þá bæn sem að beðið ég get

svo berist mitt lof að Guði.

Og kenn mér þá ósk sem æskja ég skal

svo verði´ allt mitt líf í Guði

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Sögurnar í sjónvarpinu

 

Mörg okkar höfum fylgst agndofa með Verbúðinni síðustu vikurnar. Síðasti þátturinn, að sinni, er í kvöld. Frábærir þættir, heimildarvinnan góð og útfærslan skemmtileg. Kvótakerfið til umfjöllunar, mannlífið á landsbyggðinni, í sjávarplássunum, á þeim tímum er löggjöf um okkar sameiginlegu auðlind í hafinu, tók breytingum. Þættirnir eru í senn góð afþreying en einnig snerta þeir á sameiginlegum málum okkar, vekja spurningar um stöðu samfélagsins, skiptingu gæðanna og réttlæti.

 

Sviðsmynd þáttanna er Ísland verbúðanna fyrir áratugum síðan, en þrátt fyrir þá gömlu sviðsmynd, Soda Steam tækjanna, veggfóðranna, axlapúðanna og gólfteppanna, þá vakna á sama tíma spurningar um okkar sameiginlegu viðfangsefni dagsins í dag.

 

Það er einmitt það sem góðar sögur geta gert, varpað nýju ljósi á viðfangsefnin og hugðarefnin sem við erum að fást við þá og þá stundina, haft áhrif á mannlífið, haft áhrif á þjóðlíf, skiptingu gæðanna, réttlæti og fleira sem skiptir okkur máli.

 

Sögurnar í kirkjunni

 

Frásögur Biblíunnar virka eins. Þær miðla sameiginlegri reynslu mannkyns, sem mannkyn hefur öðlast í gegnum árþúsundin. Á síðum Biblíunnar má finna glímu mannkyns í aldanna rás, við samtíma sinn. Til að skilja sögurnar og dýptina sem þar er að finna, er gott að þekkja ögn samtímasögu textanna, þekkja tungumálið sem þeir eru upprunalega skrifaðir á, vera meðvitaður um ýmis félagsfræðileg atriði mannlífsins, sálfræði og löggjöf, þekkja sögu og menningu, þróun og nýsköpun, og svo nánara samhengi þess texta sem til umfjöllunar er. Allt þetta hjálpar til við skilning á því sem hinar sameiginlegu frásögur miðla.

 

Stóra spurningarnar

 

Flestar sögur, sem ná að hjörtum okkar, fjalla á einhvern máta um lífið, verðmætin í lífinu, forgangsröðun og jafnvel skiptingu hinna sameiginlegu gæða. Þættirnir Verbúðin draga fram lífið í sjávarplássum á Íslandi á níunda áratug síðust aldar. Ég þekki það sjálfur að hafa farið 10-11-12 ára með föður mínum í siglingar erlendis, til Rotterdam, Antverpen og Hamborgar, ég var einmitt 10 ára, árið 1983. Ekki varð ég hins vegar var við ferðatöskur fullar af erlendum gjaldeyri í þeim ferðum, en stundum var eitthvað flutt til landsins sem ekki fékkst í verslunum á Íslandi. Einnig starfaði ég sjálfur í fiskvinnslu, á Seyðisfirði árið 1993, þar sem ég starfaði við að trimma kola, eitt sumar. Ekki bjó ég þó í verbúð, þótt hún hafi verið til. Svo fór ég túr sem háseti á Bylgjunni frá Vestmannaeyjum, löngu síðar.

 

Allt var þetta mikil og mótandi lífsreynsla.

 

Lífsreynsla kynslóðanna sem mætir okkur í textum Biblíunnar er einnig um þetta, lífið, viðfangsefni daganna, upphaf lífsins og stundum endi, verðmætin og skiptingu gæðanna. Glímuna sem þar má finna er glíma fólks við samtíma sinn, en einnig glíma fólks við kraftana í heiminum, og hvernig mannfólkinu ber gæfa til að lifa á friðsaman og farsælan máta.

 

En það er einmitt viðfangsefni Biblíunnar, hvernig við lifum lífinu hvern dag, á sem farsælastan mátan. Hvernig við lifum og verjum tímanum sem okkur er gefinn hér á jörð.

 

Þegar textar Biblíunnar og frásögur eru skoðaðar með gleraugum fræða og sögu, tungumáls og þekkingar, auk þess sem við lesum textana í bæn, opnast okkur leiðir til að leyfa þeirri blessun sem þeim fylgja, að hafa áhrif á líf okkar og samtíð.

 

Guð er góðgjarn

 

Spurning húsbóndans í dæmisögu Jesú, í guðspjalli dagsins er hreint stórkostleg:

Sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn? 

 

Þvílík spurning.

 

Húsbóndinn í dæmisögunni á auðvitað að vera Guð.

 

Texti guðspjallsins er dæmisaga um verkamenn í víngarði. Þar er fjallað um skiptingu gæðanna, þar sem gangur þessarar stuttu dæmisögu, stríðir að mínu mati verulega í bága við réttlætiskenndina hjá manni.

 

Þeir sem unnið höfðu hörðum höndum og borið uppi hita og þunga dagsins, fá nákvæmlega sama kaup og þeir sem voru rétt nýmættir til vinnu, komu á síðustu stundu, komu á elleftu stundu, eins og segir í dæmisögunni.

 

Til að skilja dæmisöguna þurfum við að líta til samhengis textans. Af hverju segir Jesús þessa dæmisögu?

 

Eilíft líf

 

Jesús segir þessa dæmisögu í samhengi þess að ungur maður spyr hann hvernig hann geti öðlast eilíft líf.

 

Rétt er að athuga að með þeirri spurningu er ungi maðurinn ekki að velta fyrir sér hvað tekur við að þessu lífi loknu, þ.e.a.s. í dauðanum. Fólk á þessum tíma var ekki endilega svo upptekið af þeim spurningum, það var meira að velta fyrir sér hvernig best sé að lifa lífinu, hér og nú. „Eilíft líf“ var leið á þeim tíma til að tjá líf í fullri gnægð, þ.e.a.s. spurning unga mannsins fjallaði um hvernig hann gæti lifað lífi sínu til fullnustu, hér og nú.

 

Samtal Jesú og unga mannsins hljóðar svo:

 

Þá kom maður til Jesú og spurði: „Meistari, hvað gott á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ 17 Jesús sagði við hann: „Hví spyr þú mig um hið góða? Aðeins einn er góður. Ef þú vilt inn ganga til lífsins þá haltu boðorðin.“
18 Hann spurði: „Hver?“
Jesús sagði: „Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, 19 heiðra föður þinn og móður og þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“
20 Þá sagði ungi maðurinn: „Alls þessa hef ég gætt. Hvers er mér enn vant?“
21 Jesús sagði við hann: „Ef þú vilt vera fullkominn skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum og þú munt fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér.“
22 Þegar ungi maðurinn heyrði þessi orð fór hann brott hryggur enda átti hann miklar eignir.
23 En Jesús sagði við lærisveina sína: „Sannlega segi ég ykkur: Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki. 24 Enn segi ég: Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
25 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta urðu þeir steini lostnir og sögðu: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
26 Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þess en Guði er ekkert um megn.“
27 Þá sagði Pétur við hann: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum við hljóta?“
28 Jesús sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur: Þegar Guð hefur endurnýjað allt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu munuð þið, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. 29 Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá allt hundraðfalt aftur og öðlast eilíft líf. 30 En margir hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.“ (Mt. 19: 16-30)

 

Þannig lýkur því samtali. Þarna er margt að finna, ýmislegt kunnuglegt, boðorðin tíu, úlfaldann og nálaraugað, og svo einnig þetta sem svo gjarnan er kennt við kristnina:  Hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.

 

Þá í kjölfarið segir Jesús þeim þessa dæmisögu um verkamennina og víngarðinn, denarann í daglaun, sem allir fá óháð því hvenær þeir mættu til vinnu.

 

Það er eitthvað við þessa dæmisögu sem stríðir gegn réttlætikenndinni hjá manni. Við erum vön því að framlag manns og umbun fari saman, þ.e.a.s. að vinnuframlagið sé reiknað til tekna, það var þannig þegar ég starfaði í frystihúsinu, einnig þegar ég var á sjónum. Það er þannig í mannlífinu.

 

Þess vegna skiljum við svo vel forsendur dæmisögunnar, við skiljum þetta samhengi um verkamennina og víngarðinn, sem væri kannski frekar í okkar íslenska samhengi, sjómenn og sjávarfangið.

 

Hvað þýðir þetta öfugsnúna réttlæti?

 

Hvað þýðir þetta öfugsnúna réttlæti?

 

Það má segja að dæmisagan lyfti upp ábyrgð hvers og eins verkamanns. Þeir semja um laun og fá umsamið kaup. Annað á í raun ekki að skipta máli.

 

Þessi litla saga sem Jesús segir er dæmisaga, þ.e. hún hefur dýpri merkingu en samkvæmt orðanna hljóðan, sagan skal heimfærð upp á eitthvað annað.

 

Dæmisagan lýsir því kannski fyrst og fremst að guðsríkið er allt öðruvísi en ríki þessa heims. Samhengi denarsins, sem voru líklega hófleg daglaun, undirstrika þetta einnig. Dæmisagan miðlar sem sagt því að guðsríkið lýtur öðrum lögmálum en ríkja í mannheimum. Þar gilda ekki sömu forsendur og í daglegu lífi okkar hér á jörðu, vegna þess að gæska Guðs, er miklu ríkari en nokkur getur ímyndað sér. Hans er einnig valdið til að veita hinum síðustu líkt og hinum fyrstu. Þess vegna er víngarðseigandinn í þessari dæmisögu, sem er eins og áður segir táknmynd fyrir Guð, ólíkur öllum hugsanlegum mannlegum víngarðseigendum.

 

Daglaunin fyrir einnar stundar vinnu má þannig skilja sem táknmynd fyrir kröfu Guðs um réttlæti, sem lítur til þess sem manneskjan þarfnast fremur en þess sem manneskjan á skilið, samkvæmt mannlegum mælikvörðum.

 

Boðskapur dæmisögunnar er því sá að Guð muni vel fyrir sjá, gagnvart öllum sem þiggja boð hans um að starfa í hans víngarði, eða þjóna í hans nafni.

 

Guð mun vel fyrir sjá. Guð mun veita af gnægð sinni, gæsku og kærleika, allt sem við þörfnumst, til að lifa lífinu í fullri gnægð, sé litið til textans sem á undan fór, um unga ríka manninn. Hann hafði allt, hafði farið eftir boðorðunum, en skorti samt eitthvað, sem hann vildi öðlast frá Jesú. Jesú vísaði honum leiðina, en sá ungi, ríki, vildi ekki sleppa tökum á auðæfum sínum. Hann valdi frekar réttlæti heimsins, heldur en réttlæti Guðs og miskunn þess sem allt gefur, þar með líf í fullri gnægð. Hið veraldlegu auðæfi, virðast, samkvæmt þeim texta, ekki endilega tryggja allt sem við þörfnumst, það þekkjum við jú. Guð einn, gefur allt, af miskunn sinni og kærleika, allt frá öndverðu, einnig á tímum Jesú, og enn þann dag í dag.

 

Leið mannsins að þeim gnægtarbrunni miskunnar, gæða og réttlætis, er leið auðmýktar, lítillætis, náungakærleika og góðvildar.

 

Boðskapur dæmisögunnar getur einnig slegið á kvíða og áhyggjur, því Guð mun vel fyrir sjá, og tryggja að við öðlumst það sem við þörfnumst. Stundum finnst okkur við eiga eitthvað skilið, og kannski er það rétt samkvæmt hinum mannlegu, veraldlegu mælikvörðum. En ef við sækjum það fast, að öðlast það sem við eigum skilið, þá getur verið að við fórnum því sem við þörfnumst. Þá getur verið að við göngum frá gnægtarborði Jesú niðurlút, líkt og ungi ríki maðurinn sem spurði Jesú um það hvernig hann gæti lifað lífinu í fullri gnægð.

 

Það er viska og lærdómur sem sagan veitir, lærdómur sem við getum tileinkað okkur og látið hafa góð áhrif á líf okkar og samfélag. Auðmýkt, góðvild og kærleikur.

 

Bænavers Hauks Ágústssonar í sálmi 921 finnst mér orða þetta mjög vel:

 

Ó, birt mér þá bæn sem að beðið ég get

svo berist mitt lof að Guði.

Og kenn mér þá ósk sem æskja ég skal

svo verði´ allt mitt líf í Guði

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

 

Takið postullegri kveðju:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.