Guðspjall: Lúk. 15.1-10 Lexia: Mika 7. 18-19 Pistill: 1. Pét. 5. 6-11
"Vertu hugrakkur og gleymdu ekki Guði". Þessi athyglisverðu orð mælti Jóhannes Páll páfi af munni fram í samkirkjulegu guðsþjónustunni á Þingvöllum. Þá var hann að vitna í orð sveitakonu héðan af Íslandi sem var að tala við son sinn. Þessi kona var móðir Jóns Sveinssonar prests og rithöfundar með meiru sem gerði garðinn frægan í útlöndum. Jón fékk þessi orð móður sinnar í veganesti er hann hélt út til náms. En hann lauk guðfræðiprófi og tók kaþólska prestsvígslu. Það er ekki hægt að segja annað en að hann hafi ekki gleymt heilræðum móður sinnar og gleymt Guði. Og hann hafði nægilegt hugrekki til þess að koma sér á framfæri með sínar ritsmíðar. Þær lifa góðu lífi löngu eftir að sr. Jón hélt á fund skapara síns.
Páfanum er líkt og sveitakonunni mikið kappsmál að Íslendingar gleymi ekki Guði. Hann minntist á það að á íslenskum sveitaheimilum hefði trúfræðsla verið í hávegum höfð hér áður fyrr. Víða voru húslestrar á kvöldin að afloknu löngu dagsverki þar sem Guðs orð var íhugað og sálmar lesnir eða sungnir.
Það er alveg rétt. Nú eru aðrir tímar og gömlu guðsorðabækurnar hafa vikið fyrir óheilbrigðara íhugunarefni sem skilur ekkert eftir sig og er engum til uppbyggingar. Páfinn gerir sér grein fyrir þessu eins og við.
Í nýlegri könnun sem gerð var til þess að komast að því hver hefði haft mest áhrif á trú einstaklinga kom fram að íslenskar mæður hefðu haft þar mest áhrif. En nú bregður svo við samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar að færri mæður kenna börnum sínum bænir en áður og því síður feður.
Samkvæmt þessu má ætla að trúfræðsla á íslenskum heimilum fari hnignandi. Þetta er alvarlegt umhugsunarefni vegna þess að reynslan sýnir að ekkert veganesti er betra fyrir börn út í lífið en barnslegt traust á Guð.Í því er mikill kraftur fólginn því að það hefur áhrif á hjarta Guðs föður. Þau börn sem hafa hlotið haldgóða trúfræðslu heima hjá sér gleyma ekki Guði svo auðveldlega er þau vaxa úr grasi og takast á við vandamálin er lífinu fylgja.
Þau mannanna börn sem enga trúfræðslu fá eru líkt og týndir sauðir sem hafa villst frá hjörðinni og eru umkomulausir.
Guðspjall þessa drottins dags er lesið var frá altarinu fjallar einmitt um týnda sauðinn í dæmisögu er Jesús sagði lærisveinum sínum er hann leitaðist við að bregðast við athugasemd farisea og fræðimanna er sögðu um hann sjálfan: "Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim".
Jesús fór ekki í manngreinarállit líkt og farisearnir og fræðimennirnir gerðu. Þeir töldu sig lifa í einu og öllu samkvæmt vilja Guðs með því að hlýða bókstaf lögmálsins. Þeir töldu að þeir yrðu órhreinir ef þeir hefðu samneyti við lægstu stéttir þjóðfélagsins sem héldu ekki lögmál Móse. Þess vegna höfðu þeir ekkert samneyti við þá.
Jesús átti oft í útistöðum við þessa menn sem töldu sig vera réttláta í augum Guðs. En hann reyndi að leiða þeim fyrir sjónir að lögmálið um kærleikann væri æðst. Og því bæri að framfylgja því hvað sem það kostaði. En þeir vildu engu kosta til af eðlilegum ástæðum. Þeir töldu sig ekkert þurfa þess með, lögmálsverkin nægðu þeim.
Jesús hins vegnar kostaði öllu lífi sínu ti. En með þeim hætti háði fagnaðarerindið til sem flestra. Hann notaði hvert tækifæri sem bauðst til þess að sýna kærleika í orði og verki. Og margt undursamlegt gerðist hvar sem hann fór. Hann fyrirgaf syndir, gaf blindum sýn, læknaði sjúka, lamaðir fengu máttinn aftur. Þannig má lengi telja.
Jesús reisti ótalmarga við og gerði þeim grein fyrir því að Guð hefði réttlætt þá sökum takmarkalausrar elsku sinnar í garð mannanna. Þannig náði frelsarinn til margra týndra sauða af húsi Ísraelsætt sem tilheyrðu lægstu stéttum þjóðfélagsins í Palestínu. Þessar stéttir gerðu sér grein fyrir því að allir væru syndugir og hefðu brotið af sér gegn Guði í orðum, hugsunum og verkum.
Þess vegna náði fagnaðarerindið svo vel til þeirra. Ótalmargir iðruðust synda sinna og tóku á móti fyrirgefningu fyrir orð frelsarans Jesú Krists.
Hann varð óumræðilega glaður í hjarta sínu þegar hann gat mætt þörfum þó ekki væri nema eins týnds sauðs og hjálpað honum og leitt hann inn í trúarsamfélag við Guð.
Þetta sýnir að sérhver einstaklingur er afar dýrmætur í augum Guðs. Gleðin á himnum er meiri yfir einum syndara sem gerir iðrun en yfir níutíu og níu réttlátum er ekki telja sig hafa iðrunar þörf.
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að syndin er raunveruleg í mannlegu lífi. Þegar talað er um synd í Nýja testamentinu er það gert á mjög ljósan og raunhæfan hátt. Jesús nefnir syndi reins og græðgi, morð, öfund, hórdóm, frillulífi, þjófnað, ljúgvitni, lastmæli og fleira mætti týna til. Þessar syndir eru flestar augljósar í þjóðfélögum nútímans, einnig hér á landi.
Þegar menn vakna til vitundar um eigin synd þá hefja þeir gjarnan baráttu gegn ákveðnum syndum í lífi sínu. Sú barátta er erfið vegna þess að syndirnar vilja skjóta upp kollinum að nýju. En Guð ber hinn iðrandi syndara á örmum sínum eins og dæmisagan sýnir og hjálpar honum að sigrast á syndum sínum, einni af annarri.
Pistill dagsins undirstrikar þessi orð en þar segir: "Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð. Auðmjúkið yður því undir Guðs voldugu hönd til þess að hann á sínum tíma upphefji yður. Varpið allri áhyggju yðar á hann því að hann ber umhyggju fyrir yður".
En getum við losnað við syndir okkar í eitt skipti fyrir öll? Skiptir ekki öllu máli að sigrast á hinum ýmsu syndum sem við vitum um?
Að sjálfsögðu eru til einstakar syndir sem hægt er að sigrast á með því að beita viljanum og sannarlega er það svo að okkur er ætlað að verjast syndinni einnig á þann hátt. En syndin liggur dýpra en svo að það sé einfalt mál að losna við hana.
Jesús segir: Frá hjartanu koma vondar hugsanir eins og morð, hórdómur, þjófnaður. Hjartað er einhver innri kjarni í veru okkar sem veldur því hver við erum og hvernig við komum fram. Þegar sagt er að frá hjartanu komi hinar vondu hugsanir merkir það að þær eiga sér rætur í innstu veru okkar. Hjartað ætti að vera helgidómur þar sem Guð á sér bústað. En einmitt þar eiga hinar vondu hugsanir sér rætur. Hjartað ætti að vera hreint en einmitt þaðan kemur það sem saurgar manninn, segir Jesús.
Af þessu leiðir að þær eru ekki eins mikilvægar og ætla mætti þessar ytri syndir sem við teljum okkur geta losnað við með viljann einan að vopni. Vissulega eru allar syndir mikilvægar, ekki síst þær sem snerta samband okkar við aðra menn, einkum ef kærleikurinn ríkir ekki. Það sem snertir náunga okkar er alltaf mikilvægt. En allar slíkar syndir benda dýpra, inn að innstu rótum hjartans. Hún er svo nærtæk þessi hugsun að okkur sé nauðsyn að punta svolítið upp á eigin heilagleika með því að losna við verstu sýnilegu gallana. Við teljum okkur jafnvel trú um að við séum orðin ljómandi hrein og ágæt frammi fyrir augliti Guðs, aðeins ef okkur tekst að lostna við eitthvað af sýnilegum syndum. En ég fullyrði að barátta við syndina á þessum grundvelli er ekki mikils virði og hefur sáralitla þýðingu. Ástæðan er sú að það sem liggur dýpra og tengist innstu veru okkar ræður því hvernig syndin birtist.
Þess vegna skiptir máli að koma auga á þessar syndir sem liggja dýpst í fylgsnum hjartans. Hugsum okkur t.d. synd eins og öfund. Við öfundum e.t.v. félaga okkar eða nágranna sem gengur betur en okkur og þetta ræður allri afstöðu okkar til hans. Höfum við reynt að taka öfundina burtu? Þá höfum við komist að raun um það að það er erfitt vegna þess hve djúpt öfundin liggur. Eða viljinn til að fyrirgefa þeim sem hafa gert manni rangt til. Höfum við í sannleika reynt að fyrirgefa þeim sem hefur komið illa fram við okkur? Ef við höfum reynt það vitum við hve erfitt það er vegna þess að særindin og hatrið liggja svo djúpt. Eða löngunin til að trana sér fram, til að vera sá sem allt snýst um. Reynum að losna við þessi atriði úr hjörtum okkar og þá komumst við að raun um hve kirfilega þau sitja föst. Ég nefni einnig óhreinleika, aurasýki, ágirnd, valdasýki, hégómaskap, dugleysi og illt umtal. Þessi svokölluðu innri atriði ráða lífi okkar í miklu ríkara mæli en við gerum okkur grein fyrir. Þau ráða því
hvernig við komum fram við aðra og hvað afstöðu við tökum við hinar ýmsu aðstæður.
Ritningin segir að syndin sé mikil bæði í einstaklingum og í mannkyni öllu. Hún segir að allir menn séu seldir undir vald syndarinnar. Við syndgum ekki vegna þess að við erum öðruvísi en aðrir heldur vegna þess að við erum eins og aðrir. Við eru fædd inn í syndina. Það er það sem guðfræðin kallar erfðasynd. Syndin er voldug af því að hún á sér svo djúpar rætur í manninum.
Ef við komum ekki auga á þetta þá er það vegna þess að við notum eigin mælikvarða en ekki mælikvarða Guðs.
Mælikvarði Guðs í okkar garð er hið tvíþætta kærleiksboðorð: "Að elska Guð með öllu því góða sem hann hefur gefið okkur og náungann eins og okkur sjálf". Við erum hins vegar of upptekin af því að elska okkur sjálf til þess að okkur sé unnt að fylgja þessu boðorði.
Þetta lögmál Guðs kærleika er óhagganlegt.
Síðar meir skal allt fram í dagsljósið, allt sem við höfum brotið gegn lögmálinu. Öll synd okkar, leynd og ljós birtist fyrir augliti hins alvísa Guðs, hins heilaga Guðs og þar fær hún sinn dóm.
Þess vegna veit hinn krisni maður að eigi að vera einhver von fyrir okkur þarf Guð að sýkna. Þú skuldar 10000 talentur. Greiddu þær eða þér verður varpað í fangelsi og átt þaðan ekki afturkvæmt fyrr en þú hefur greitt hinn síðasta eyri.
En hér hljómar fagnaðarerindið, einmitt til þeirra sem ekki geta greitt og viðurkenna það, - fagnaðarerindið um uppgjöf saka vegna Jesú. Hann hefur greitt skuldina, hann hefur friðþægt fyrir syndina, hann hefur fjarlægt reiði Guðs.
Þá komum við auga á annan heilagleika en okkar eiginn: Þ.e. fullkomna hlýðni Jesú við vilja Guðs og heilaga og saklausa þjáningu hans og dauða okkar vegna. Þá setjum við allt okkar traust á það sem hann hefur gert og gleymum okkar eigin réttlæti. Þá verður náð Guðs okkur mikils virði. Þar sem syndin jókst flóðin náðin yfir enn meir.
Það skiptir máli að við komum auga á að þetta merkir ekki aðeins að við urðum einu sinni kristin, urðum Guðs börn af náð einni saman vegna Jesú. Þetta hefur miklu dýpri merkingu. Þetta merkir að við fáum leyfi til að lifa í náðinni, vera undir náð eins og Páll postuli segir.
Náðin á að ríkja yfir okkur, þ.e.a.s. við erum borgarar í ríki náðarinnar þar sem hennar lög og reglur gilda.
Syndir okkar og ósigrar geta ekki ógilt náð Guðs okkur til handa, að hann hefur gert mig og þig að sínu barni og lítur til okkar í náð vegna Jesú sem úthellti blóði sínu fyrir okkur, í okkar stað. Alls ekkert sem menn gera getur haggað því sem Jesús gerði með dauða sínum og upprisu. Við erum og verðum syndarar sem fyrir náð Krists erum og verðum heilög og réttlát frammi fyrir Guði. Það er þetta sem Lúther á við þegar hann segir að hinn kristni maður sé samtímis réttlátur og syndari. Frá gruggugri lind hjartna okkar streymir stöðugt flóð nýrra synda. En vegna Jesú getum við samt sem áður hvílt í þeirri vissu að við erum Guðs börn og átt djörfung okkar í því.
Í dag þjáist heimurinn sem Guð elskar á ýmsan máta. Heimurinn liggur í syndum sínum og blæðir vegna þjáninga sinna. Efnahagslíf íslensku þjóðarinnar er í rúst vegna óhagstæðra ytri aðstæðna, vegna misvitra ákvarðana ráðamanna á erfiðleikatímum, vegna ágirndar mannanna og aurasýki. Þjóðin hefur eytt langt umfram efni.
Fjármagnskostnaðurinn er að sliga alla atvinnustarfsssemi í landinu. Gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja aukast með alvarlegum afleiðingum fyrir margar fjölskyldur. Fæstir vlja kannast við eigin mistök í lífi og starfi og kenna öðrum um. Vantraustið grefur um sig orðastælurnar sem ganga á milli manna eru til einskis gagns. Sundrungarástand ríkir í þjóðfélaginu sem er að draga allan mátt úr þjóðinni.
Þrátt fyrir hinar mörgu drýgðu syndir leyfir Guð okkur að lifa undir náð sinni. Hin íslenska þjóð sem hefur búið við kristinn sið í landinu síðastliðin þúsund ár í dag kölluð til þjónustu við náungann til líkama og sálar. Ekki í sjálfsánægju og fyrirlitningu á öðrum heldur í auðmýkt og kærleika. Þannig leitar Guð uppi hina týndu sauði og finnur þá um síðir og vinnur hugi þeirra og hjörtu með góðu fréttunum um náð Guðs og kærleika í garð allra manna.