Að trúa á upprisuna er ekki spurning um rökræðu. Upprisutrú fæðist með lífsreynslu. Mér hefur alltaf þótt flókið að segja börnum píslar og páskasöguna og kannski vil ég að svo sé, það væri svo sárt að sjá lítið andlit kinka skilningsríkt kolli við að heyra um krossfestingu Krists og upprisu það segði mér að barnið væri búið að reyna meira en eðlilegt getur talist, eins og hún Hudea, litla fjögurra ára stúlkan í Atmeth flóttamannabúðunum í Sýrlandi. Þegar blaðaljósmyndari mundaði vél sína og hugðist taka af henni mynd rétti litla stúlkan upp báðar hendur til merkis um að hún gæfist upp. Hún hélt að ljósmyndarinn væri að miða á hana byssu. Myndin er nístandi opinberun þeirrar skelfingar sem þúsundir barna lifa við í okkar veröld. Þessi stúlka myndi hugsanlega kinka kolli ef ég segði henni frá föstudeginum langa og píslargöngu Krists en ég vona svo heitt að hún fái líka að reyna upprisu lífsins.
Ég veit ekki hversu oft ég hef lesið upprisufrásögn Markúsar um konurnar sem koma að gröfinni og eru að ræða það sín á milli hvernig þær eigi að velta steininum frá grafarmunnanum „ en hann var mjög stór.“ Þessi frásögn er oft lesin við útfarir, ég veit ekki hvað það er en þessi partur um steininn hefur orðið mér sérstaklega hugleikinn hin síðari ár. Pæling kvennanna um hvernig þær eigi að velta frá steininum stóra. Þegar þær koma upp að gröfinni þá stendur hún opin og góðu fréttirnar skína út um grafarmunnann eins öfugsnúið og það hljómar. Þennan morgun skein sólin út um gröfina af því að þannig er upprisan. Það að guðspjallið tiltaki þessar vangaveltur kvennanna um steinninn sé stór og kannski óhagganlegur finnst mér vera skilaboð um að upprisan sé alltaf á forsendum reynslunnar, það er vissulega hægt að segja frá henni en hún verður ekki lifandi nema við fáum sjálf að sjá hina opnu gröf og uppgötva að það er aðeins vonin ein sem getur velt frá steininum, því hann er alltaf jafn stór.
Upprisan er þungamiðja kristinnar trúar. Þegar ég var yngri og að ég hélt gáfaðari gældi ég í alvörunni við þá hugmynd að hafna upprisunni og gera fjallræðu Jesú að mínu lífsakkeri, af því að fjallræðan er gáfuleg og það er auðvitað meira töff, að vera gáfulegur en tilfinninganæmur. Ég var stundum svolítið örg út í hann Jesú að geta ekki haldið kúlinu alla leið, að hann skyldi þurfa að taka þessu U beygju þarna þegar flestir voru farnir að fatta að hann væri snillingur. Föstudagurinn langi meikaði kannski sens í þeim skilningi að þjáningin er áþreifanleg og stundum er hún gáfumerki en þessi upprisa á páskadagsmorgni var einhvern veginn ekki alveg að gera sig, mér fannst þessi steinn alltof þungur. Þarna var ég ekki búin að reyna upprisuna og sjá hvað hún er víða og hvað hún er áþreifanleg, já rétt eins og þjáningin. Upprisan er ekki bara vonin um líf eftir hinn líkamlega dauða, upprisan er hvatning Guðs til okkar um að halda áfram þrátt fyrir allt og allt. Ræðan sem flugmaður Germanwings hélt yfir farþegum á leið frá Hamborg til Kölnar daginn eftir hið hræðilega flugslys í Ölpunum var upprisuboðskapur. Flugstjórinn stóð í farþegarýminu og talaði um hvernig slysið snerti hann og alla áhöfnina og um hversu illa þeim liði en þau væru samt þarna af fúsum og frjálsum vilja og að þau ætluðu sér að koma öllum heilum heim. Hann ávarpaði ótta fólksins, hann deildi sorg sinni, hann hughreysti og loks hóf hann vélina á loft. Af hverju heldur fólk áfram þegar svo hræðilegir atburðir hafa gerst að engan skyldi undra þó menn legðu niður störf eða hétu því að stíga aldrei fæti aftur upp í flugvél, ég meina þessi vél hefði líka getað hrapað. Þetta er saga af sálrænni upprisu. Fólk heldur áfram vegna þess að vonin og trúin á hið góða er svo undur sterkt afl, svo miklu sterkara en hið illa sem hræðir og hamlar.
Brjóstabyltingin er annað nýlegt dæmi um upprisu, félagslega upprisu. Ungar konur í íslensku samfélagi tóku sig saman á dögunum og sendu skömminni langt nef. Gjörningurinn var valdefling, frá upphafi vega hefur kvenlíkaminn verið á forræði skammarinnar. Brjóstabyltingin hafnar valdaleysi kvenna yfir eigin líkama, valdaleysi sem birtist ekki bara í líkamlegu ofbeldi sem er stærsti heilsufarsvandi kvenna í heiminum í dag heldur líka í hinni þöglu kúgun sem birtist í ósamþykktum myndbirtingum og dreifingu á netinu, gjörningur sem hlotið hefur heitið hefndarklám. Í frumvarpi til laga um breytingu á hegningarlögum þar sem fjallað er um refsingu við hefndarklámi er eftirfarandi skilgreiningu að finna:
„Hefndarklám felur í sér dreifingu eða birtingu á myndum eða myndskeiðum án leyfis þess sem á myndefninu er og sem er til þess fallið að valda viðkomandi tjóni eða vanlíðan eða er lítilsvirðandi fyrir hann. Oft er um að ræða nektarmyndir eða bersýnilega kynferðislegar ljósmyndir og/eða myndskeið af einstaklingi. Hefndarklám dregur nafn sitt af því að myndefninu er stundum dreift í hefndarskyni að loknu ástarsambandi en jafnframt getur verið um að ræða dreifingu myndefnis sem einstaklingur hefur sent í góðri trú. Síðustu missiri hefur mikil umræða verið um hefndarklám, bæði hér heima og erlendis. Í apríl sl. birtist m.a. frétt þess efnis að á erlendri spjallsíðu væru íslenskir karlmenn að skiptast á myndum af fáklæddum íslenskum stúlkum. Þær yngstu væru á fjórtánda aldursári og fram kom að hundruð mynda af íslenskum stúlkum væru komnar inn á spjallsíðuna. Þá virðist raunin vera sú að konum í áberandi stöðum í samfélaginu, t.d. í kvikmyndaleik, hefur verið að því er virðist kerfisbundið ógnað með dreifingu á myndefni af þeim sem er til þess fallið að lítillækka og kúga. Alheimssamfélagið hefur brugðist við, umræðan hefur verið mikil og niðurstaðan er sú að í raun í sé um kynferðisafbrot að ræða.“ (www.althingi.is)
Brjóstabyltingin slær vopnin úr höndum þeirra sem ætla að kúga konur með nekt þeirra, að koma fram nakinn á líkama eða sál og segja hér er ég með mín brjóst, með mína samkynhneigð, með mína kvíðaröskun, vefjagigt, geðhvörf eða athyglisbrest er valdefling. Þú ætlar ekki að láta aðra um matreiða stöðu þína eða stilla áttavitann, þú ætlar að vera fyrri til því þá er ekki um neinar fréttir að ræða. Hvíslið, hneykslunin, hótunin um stöðusviptingu breytist í mjóróma væl undan þunga sannleikans sem hefur lagst yfir landið eins og snjóhula, hvít og fersk.
Ég er svo stolt af hugrekki og samstöðu þessara ungu kvenna sem neita að líða undan þögninni, þær eru ekki að ögra heldur mótmæla því versta sem gerist í samskiptum fólks. Við eigum að standa með þeim og hrópa húrra og leggja pálmagreinar á veginn eins og fólkið í Jerúsalem þegar Jesús reið þar inn á asnanum af því að hann vissi að valdníðslu yrði aldrei svarað með hroka heldur hugrekki.
Upprisan er þungamiðja kristinnar trúar. Upprisutrú fæðist með reynslu það er reynslan af lífinu sem færir steininn frá grafarmunnanum, það eru allar litlu lífssögurnar um fólkið sem þorir að vona í erfiðustu aðstæðum mannlegrar tilveru. Fólk sem gengur 150 kílómetra á flótta undan stríði eins og Hudea litla og mamma hennar í Sýrlandi. Fólkið sem sest upp í flugvél daginn eftir hörmulegt flugslys og velur að treysta áhöfninni. Fólk sem berar brjóst sín og sál til að mótmæla fordómum, ofbeldi og þöggun. Nei upprisan er kannski ekki gáfuleg en hún er sönn.