„Um hvað er hann eiginlega að tala?!?“ Þessa setningu hef ég margoft heyrt í huga mínum í gegnum árin og þá oftast þegar ég er í kringum fólk sem er að ræða hluti sem ég er alls ekki vel að mér í. Ég man að þetta spratt upp í hugann á mér þegar ég byrjaði í háskólanámi, þá fór ég að heyra orð og orðfæri sem ég var bara alls ekki vanur að heyra. Það var kannski þá sem ég hugsaði líka „Hvað er ég eiginlega að gera hérna!“ En ég fann að þetta var eitthvað sem ég þurfti að gera og mig langaði að gera. Og hérna stend ég í dag og er búinn að lesa yfir ykkur texta sem þið hugsanlega skiljið ekkert hvað þýðir og hugsið jafnvel „um hvað er hann eiginlega að tala“. Já ég er að tala til ykkar, væntanleg fermingarbörn. Ég ætla því að endurtaka það sem ég sagði í upphafi messunnar: Verið velkomin í kirkjuna. Verið velkomin í kirkjuna YKKAR. Þetta er ykkar kirkja. Hingað getið þið leitað ef ykkur vantar hjálp við eitthvað, eða þið viljið gleðjast yfir einhverju. Kirkjan er ekki steinklumpur sem er bara opin á sunnudagsmorgnum. Við sem störfum innan kirkjunnar erum tilbúin að hjálpa öllum þeim sem vilja fá aðstoð af einhverju tagi og þar ég ekki bara við um okkur prestana heldur ætla ég að leyfa mér að halda að kirkjuvörðurinn okkar og organistinn séu einnig boðin og búin án þess þó að ég hafi spurt þau áður en ég gekk hérna í stólinn.
Já þið eruð hingað komin því nú fer að hefjast undirbúningur að fermingunni. Fermingin, dagurinn sem þið eruð eflaust farin að bíða spennt eftir á meðan foreldrar ykkar finna kannski fyrir einhverjum kvíða, og ekki bara kvíða fyrir deginum sjálfum heldur því sem kemur eftir ferminguna. Það er nefnilega á þessum tíma sem þið eruð sögð komast í fullorðinnamanna tölu. Þetta gerist svo ógurlega hratt að það borgar sig vart að blikka augunum… eða það finnst foreldrum ykkar að minnsta kosti. En ég veit ekki hvort þið kæru fermingarbörn séu sammála, því ég ætla að giska á að ykkur finnist tíminn vera svo lengi að líða. Þetta augnablik sem ég er að tala um gerist eflaust mjög hægt hjá ykkur. Í ykkar augum gerist þetta augnablik í „slow motion“.
Á þessari augnabliks stundu getur svo mikið gerst að það þarf stundum lítið til að við stígum í vitlausa átt og förum útaf sporinu, að við villumst. Við getum blindast í þeim siðferðisskoðunum sem við höfum alla jafna, og gert eitthvað sem við sjáum eftir en viljum bæta fyrir. Það á þeirri stundu sem við stoppum og spyrjum okkur hvort við getum snúið blaðinu við, bætt fyrir orðinn hlut og jafnvel fengið fyrirgefningu. Þá er gott að eiga Guð sem föður, föður sem ávallt er tilbúinn að hlusta, aðstoða og fyrirgefa eða eins og segir í Lexíu dagsins:
Sæll er sá sem á Jakobs Guð sér til hjálpar og setur von sína á Drottin, Guð sinn, hann sem skapaði himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem er ævinlega trúfastur. Hann rekur réttar kúgaðra, gefur hungruðum brauð. Drottinn leysir bandingja, Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta, Drottinn verndar útlendinga, hann annast ekkjur og munaðarlausa.
Já, Guð hefur gert og gerir enn svo margt fyrir okkur. Jesús Kristur er frá honum kominn. Jesús var sendur til okkar mannanna af Guði til að frelsa okkur. Hann gerði meira en það, hann til dæmis færði okkur nýtt boðorð eins og hann orðaði það en hann sagði: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.“ Það er margt merkilegt sem Jesús sagði og gerði en um hann munum við spjalla um í vetur og fræðast meira um.
Meðfram fermingarfræðslunni munu væntanleg fermingarbörn sækja messur. Með messusókninni gefst þeim kostur á að kynnast því trúarlífi sem fer fram í sókninni og kynnast öðrum trúbræðrum og –systrum. Ég vil því hvetja foreldra til að gefa sér tíma til að mæta með börnum sínum í messur og eiga samfélag með þeim þar. Ég minntist á kirkjuna áðan en í kirkjum landsins er að finna fjölbreytta og öfluga dagskrá. Kristin trú og um leið kirkjan fylgir okkur frá vöggu til grafar. Allar helstu gleðistundir lífs okkar eiga sér stað í kirkju: skírn, ferming, gifting og í öllum þessum athöfnum erum við að óska eftir að Jesús Kristur fylgi okkur eftir. Og ekki bara að fylgja okkur eftir, að hann verði okkur samstíga, að hann samgleðjist með okkur á gleðistundum og styðji við okkur gegnum þær raunir sem við þurfum að ganga í gegnum. Við finnum fyrir samhyggð. Við finnum fyrir að Jesú er ekki sama, hann vill vera til staðar og vill vera öxlin sem við getum hallað okkur upp að. En hann gerir líka meira. Hann gefur okkur von. Hann gefur okkur trú. Í gegnum hann finnum við styrk til að takast á við erfið verkefni sem og verkefni líðandi stundar sem ekki síst þurfa á styrk Jesú að halda. Í lok Guðspjallstextans segir Jesús við manninn sem snéri aftur eftir að hafa læknast „Trú þín hefur bjargað þér.“ Þessi orð koma svo sannarlega við hjartað á mörgum því styrkur bænarinnar getur verið mikill, mörgum bænaáköllum hefur verið svarað af Guði. En eins og kemur fram í Guðspjallinu þá kemur aðeins einn til baka eftir lækninguna og þakkar Guði fyrir. Ég held að þetta sé ekkert óalgengt í dag, að það séu aðeins 1 af hverjum 10 sem þakkar Guði fyrir þá hjálp sem hann veitti í gegnum erfiðleika. Það vill nefnilega gerast að við gleymum að þakka fyrir okkur, við hrópum eftir hjálp, hrópum á Guð. Þegar lækningin er yfirstaðin þá gleymum við Guði.
Guð er nefnilega ekki eins og eitthvað áhugamál, það er ekki hægt að grípa til hans þegar við höfum ekkert betra en gleyma honum þegar eitthvað annað kemur í staðinn og okkur finnst við ekkert þurfa á honum að halda.Ég velti því stundum fyrir mér hvort Guði finnist hann vera eins og barnið sem eignaðist allt í einu fullt af vinum þegar hann fékk flottasta leikfangið í bekknum en varð jafn fljótt vinafár þegar það hætti að vera nýtt og spennandi. Við verðum að muna að hafa Guð með okkur alla tíð, alltaf, jafnvel þótt eitthvað komi fram sem virðist mjög spennandi. Guð er nefnilega alltaf tilbúinn að fylgja okkur.
Er erfitt að átta sig á því hvað ég er að tala um? Það getur verið en það er mín von og trú að þegar kemur að fermingardeginum munu þið ekki hugsa „Um hvað er hann eiginlega að tala?!?“ heldur munu þið hugsa „Já, ég skil hvað þú ert að tala um.“ Amen.
Sálmur 146, Gal. 5.16-24, Lúk. 17.11-19