Ætli nú sé ekki tími til að ræða um ofbeldi? Þetta andstyggðarorð ber stöðugt á góma í umræðu daganna þegar ofbeldisverk eru á forsíðum.
Heimsfriður og heimilisfriður
Borgir brenna austur í Úkraínu og fólk flýr heimkynni sín. Máttleysi okkar og vanmáttur eru nánast áþreifanleg. Það ætti ekki að koma á óvart því sá er einn fylgifiskur valdbeitingar. Völd eru takmörkuð gæði. Þegar einn hrifsar þau til sín finnur annar fyrir valdleysi sínu.
Það er samt alltaf tilefni til að líta sér nær. Þó ekki væri nema til að fá aukinn skilning á viðfangsefninu og hugleiða þau vandamál sem eru okkur ef til vill aðgengilegri til lausnar.
Því jafnvel við, sem búum „svo langt frá heimsins heljarslóð“, eins og Hulda orti þekkjum andstyggð þess þegar aflsmunum er beitt til að knýja aðra undir vilja sinn og sölsa undir sig takmörkuð gæði. Hér á Íslandi sýna rannsóknir að heimilin eru vettvangur helmings allra ofbeldisverka. Einstaklingar hafa undanfarið stigið fram og greint frá því hvernig þau máttu þola andleg eða líkamleg fangbrögð. Það er sístætt viðfangsefni samfélags að vinna á slíku böli og tryggja á heimilið sé sá vettvangur kærleika og öryggis sem því ber að vera.
Sannarlega er munur á því að skapa vígvöll á heimili, leggja undir sig líf fólks með líkamsburðum eða þrúgandi þögn – og svo hitt að ræna landi með vopnum. En í grunninn birtir hvort tveggja okkur skuggahliðar mennskunnar þar sem litið er á verðmætin sem góss, feng sem ofbeldisfólk reynir að sölsa undir sig.
Hrifsarar og gjafarar
Hér er freistandi að gægjast ofan í djúp sálarinnar. Sálfræðingurinn og metsöluhöfundurinn Adam Grant fjallar í bók sinni Give and Take um þrenns konar hugarfar sem fólk getur tileinkað sér í samskiptum við aðra og mér finnst greining hans eiga erindi við okkur á þessum tímum.
Hann kallar þau ,,takers“ sem lifa lífinu með þeim hætti sem að ofan er lýst. Heimurinn er vígvöllur þar sem þau leitast við að hrifsa til sín sem mest af takmörkuðum gæðum. Þeim fylgja líka átök og streita hvort heldur það er innan veggja heimila, í fyrirtækjum eða öðrum skipulagsheildum og já stundum verða heilu þjóðfélögin fyrir þeirri ógæfu að velja sér til forystu leiðtoga sem eru einmitt þetta – hrifsarar.
Grant lýsir næst hugarfari þeirra sem hann kallar „matchers“. Jafnararnir eru þau sem leitast vissulega ekki eftir ránsfeng í lífinu en samskipti við aðra draga öll dám af viðskiptum. Þar er ekkert gefið og ekkert gefið eftir. Allt snýst um það að þeir fái örugglega aftur það sem þeir lögðu sjálfir fram. Stefnuskrá þeirra er einhvern veginn á þessa leið: „Ég legg eitthvað af mörkum með þeim skilyrðum að ég fái í það minnsta það sama til baka.“
Loks eru það þau sem hann kallar „givers“. Þau líta hvorki á fólk sem tæki til að ná fram öðrum markmiðum né heldur keppinauta eða samningsaðila. Þau spyrja sig ekki að því hvernig prófjöfnuðurinn lítur út eftir að hafa deilt stundum og gæðum með öðru fólki. „Sælla er að gefa en þiggja“ sagði Jesús og Gjafararnir lifa eftir sömu meginreglu. Þeir láta af hendi meira en þeir taka á móti.
Er það ekki ávísun á persónulegt þrot og verður það ekki hlutskipti þeirra að hrifsarar og jafnarar muni að endingu skilja þau eftir slipp og snauð?
Nei, það er öðru nær segir hugsuðurinn og styður mál sitt með vísan í ýtarlegar rannsóknir og gögn. Gjafarnir byggja nefnilega upp gæði sem hinum reynist um megn að reisa. Það er það sem hann kallar, netverk – samfélag fólks sem tileinkar sér sömu hugsun og skynjar að lífið býður upp á verðmæti sem verða ekki vegin og metin á þeim vogarskálum sem hinir miða við. Að endingu standa þeir uppi sem sigurvegarar.
Þetta er eitt af því sem heillar við skarpa hugsuði. Þeir geta sett fram hugmyndir sem í fyrstu hljóma sem mótsagnir eða skýjaborgir.
Krossinn er þverstæða
Páll postuli talar inn í þær sömu aðstæður í pistlinum sem hér var lesinn. Þar talar hann um krossinn þetta merkilega tákn kristinna manna og lýsir því hvaða viðbrögð sögur af hinum krossfesta Kristi vekja hjá áheyrendum.
„Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs.“ Og hann talar einmitt um hina hverfulu speki vitringa síns tíma. „Guð ákvað að boða sem er heimska í augum manna og frelsa þá sem trúa“
Það er nefnilega hneyksli og heimska í augum margra að miðla hugsjóninni um hinn æðsta og mesta sem deyr niðurlægður og yfirgefinn á krossi. En eins og postulinn bendir á þá býr þar að baki viska sem kann að standa framar öllu því sem takmarkaður hugur manna ályktar og telur vera satt og rétt.
Krossinn er vissulega þekkt tákn í mörgum menningarheimum og trúarkerfum. Í einfaldleika sínum er hann eins og hugleiðing um stöðu manneskjunnar í l lífinu. Lágréttir ásarnir vísa til hliðar og geta skírskotað til samfélagsins sem er í kringum eintaklinginn. Sá lóðrétti er skorðaður niður í moldina, það er sjálf jarðtengingin samband okkar við náttúru og rætur. Svo er það ásinn sem bendir upp – minnir á það hvernig manneskjan horfir til æðri veruleika. Gríska orðið yfir þessa manninn –anþrópos merkir orðrétt – sá sem horfir upp. Íslenska orðið gumi er svo af sömu rót og það latneska homo – og vísar til orðsins hummus sem merkir mold. Krossinn fangar þessar tengingar á einstakan hátt.
Þetta tákn verður eins og manneskjan í hnotskurn, samfélagið hennar, jarðtenging og hugsjónir. Það minnir okkur á stöðu okkar í mannheimum og gagvart æðri verðmætum. Hvert er hlutverk okkar og hvaða áhrif höfum við á þessum tíma sem okkur er úthlutaður? Sannarlega svarar fólk því með ólíkum hætti eins og dæmin sanna. Er hlutverk okkar að hrifsa, að passa upp á að aðrir hrifsi ekki frá okkur – eða eigum við mögulega köllun sem er dýpri og á einhvern hátt náttúrulegri en það sem í fyrstu kann að virðast?
Köllun sem verður hrifsurum og jöfnurum eins og hneyksli eða bara rakin heimska?
Sjálfur lýsti Jesús hann afstöðu sinni á einum stað með þessum orðum:
Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar.
Þessi orð áttu eftir verða fylgjendum hans leiðarljós og í þeim birtist okkur eins og yfirlýsing þeirra leiðtoga sem keppa eftir því að bæta heiminn, umhverfi sitt og bæta líf systkina sinna. Þetta er þverstæða þeirrar hugsunar sem að sumra mati er fásinna. Að leiðtogi geti verið þjónn. Að gjafir leiði til blessunar og farsældar óháð því hvernig allt jafnast út um síðir.
En hugsunin ristir enn dýpra og ávarpar skuggahliðar lífsins við erum svo áþreifanlega vör við á tímum óvissu og ófriðar. Hún horfir niður í svart myrkur ofbeldis og ójafnaðar og þar mætir okkur ekki upplýstur fyrirlestur eða fræðileg úttekt. Mitt í þeim heimi bendir kristin trú á þetta sterka og sammannlega tákn sem krossinn er.
Fyrir kristnum mönnum hafði krossinn jú enn dýpri merkingu en í öðrum trúarkerfum. Hann vísar til þjáningar og dauða Jesú Krists, þessa atburðar sem við minnumst á föstudeginum langa en á þessum tíma sem er framundan í kirkjunni, föstunni, hafa kristnir menn hugleitt merkingu þess atburðar.
Áskorin krossins
Krossinn spyr um heiminn, grimmd hans og þrautir, spyr um eðli tilverunnar og minnir okkur á hversu viðkvæm hún er. Þar birtist Kristur sjálfur í miðjunni þar sem öll þjáningin á sér stað. Þar birtist hinn æðsti okkur í fullkomnu bjargarleysi, uppréttur og nakinn. Hann hrópar í örvæntingu og sársauka með sama hætti og þau öll hafa gert í gegnum söguna sem þurfa að kenna á himinhrópandi órétti: „Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“
Svona hrópa þau á strætunum í Úkraínu þegar vígvélarnar æða um göturnar og eira engu. Þetta er ákall þeirra sem þola þrautir og kvíða í umhverfi sem á að vera griðarstaður.
Krossinn ávarpar brotna veröld og sundraðan heim. Þar mætir Guð manneskjum sem stynja undan ágangi spilltra og hrokafullra drottnara. Í guðspjallinu gengur Jesús með lærisveinum sínum eins og sannur leiðtogi en leiðin liggur ekki til landvinninga og kúgunar þeirra sem minna mega sín. Krossinn er áfangastaðurinn þangað sem þeir stefna.
Og krossinn skorar á okkur. Við sem eigum rætur í moldinni, við sem erum hluti af samfélaginu sem stendur okkur til beggja handa, við sem horfum upp til æðri verðmæta og gilda – hvað gerum við þegar ofbeldismenn vaða uppi? Viðbrögð okkar þurfa að vera afdráttarlaus og skýr, líkn til þeirra sem óréttinn þola. Og hann krefur okkur um að setja þeim valdhöfum skorður sem seilast langt út fyrir sín mörk.