Jesús var að kenna á hvíldardegi í samkundu einni. Þar var þá kona nokkur. Í átján ár hafði hún verið sjúk. Hún var kreppt og alls ófær að rétta sig upp. Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: „Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!“ Þá lagði Jesús hendur yfir hana og jafnskjótt gat hún rétt úr sér og lofaði Guð.En samkundustjórinn reiddist því að Jesús læknaði á hvíldardegi og mælti til fólksins: „Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna ykkur og ekki á hvíldardegi.“
Drottinn svaraði honum: „Hræsnarar, leysir ekki hver ykkar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns? En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?“ Þegar Jesús sagði þetta urðu allir mótstöðumenn hans sneyptir en allt fólkið fagnaði yfir öllum þeim dýrðarverkum er hann gerði. Lúk 13.10-17
Hún er konan sem finnst hún vera fín með varalit þegar hún finnur rétta litinn. Hún fer stundum í stutt pils og háa hæla og setur á sig naglalakk þegar hún hefur tíma.
Þessi kona er ekki drusla en hún tekur þátt í druslugöngunni í sumar vegna þess að hún vill fá að klæða sig eins og hún vill. Hún vill fá að upplifa sig fína án þess að það þýði að hver sem er megi áreita hana eða nauðga henni.
Þessi kona hefur kannski verið beitt ofbeldi. Hún hefur jafnvel orðið fyrir kynferðislegri áreitni af valdamiklum karli sem á valdamikla vini.
Konan hefur ekki hugsað sér að bera skömmina lengur. Hún vill skila henni aftur til ofbeldismannsins jafnvel þó að það þýði að hún verði að berjast gegn valdamiklum mönnum í áratugi. Hún er hætt að líta í eigin barm í leit sinni að ástæðu ofbeldisins.
Þessi kona ætlar ekki að láta kenna sér um ofbeldið! Hún er ekki fórnarlamb. Hún er brotaþoli.
Þessi kona er allt of stór hluti kvenna í heiminum. Hún er kannski móðir þín, systir, dóttir eða eiginkona.
Þessi kona er ánægð með að Alþingi Íslendinga hafi, fyrir nokkrum dögum, lögleitt „austurrísku leiðina“ en í henni felst að nú er leyfilegt að fjarlægja ofbeldismann af heimilinu í stað þess að brotaþolarnir, oftast konur og börn, neyðist til að flýja heimili sitt.
Hún vill ekki bera syndir heimsins ein.
Hver réttir hana við?
Eru það valdamenn sem segjast ekki geta tekið afstöðu og vilja styðja ofbeldismanninn um leið og þeir segjast styðja hana?
Er það fólkið sem segir: ”Henni var nær að klæða sig svona ögrandi” eða ”Hún er bara svo óspennandi að hún þarf að spinna upp svona sögur” eða ”Ætli hún vilji ekki bara pening”.
Eða eru það valdamennirnir sem afsegja sér valdinu, ganga til hennar, taka í höndina á henni, horfa í augu hennar og segja: ”Fyrirgefðu mér, ég vissi ekki betur þá en ég veit betur nú”?
Það er erfitt að rétta sig við eftir að hafa verið kengbogin í 18 ár. Það er nánast ómögulegt fyrir hana að rétta sig við þegar umhverfið/samfélagið liggur á bakinu á henni og heldur henni niðri. Það er svo erfitt fyrir umhverfið/samfélagið þegar einhver sem alltaf hefur verið kreppt, ákveður að rétta úr sér. Taka sér nýja stöðu.
Það er Jesús sem réttir konuna við. Hún gerir það ekki ein. Þegar hún hefur verið rétt við, reist upp getur hún hvort sem er sett á sig varalit, farið í skó með hæl og sett á sig naglalakk eða farið í gúmmístígvél við gallabuxur og lopapeysu, því hún er frjáls. Hún veit að hún ber ekki syndirnar ein.
Hún veit að þetta er ekki henni að kenna.
Þegar þessi kona hefur verið rétt við þá fær hún mikið vald. Hún getur rétt við önnur sem kreppt eru og kengbogin. Hún getur rétt við þau sem kannski eru bognust af öllum. Valdafólkið sem ekki getur viðurkennt vanmátt sinn.
Hún getur reist þau við…en þau verða þá að taka í útrétta hönd hennar og leyfa henni að horfa í augu sér og segja: ”Ég fyrirgef þér” vegna þess að þú trúðir mér.
* * *
Þessi prédikun var flutt í Grafarvogskirkju á kvennréttindegi, 19. júní. Hún var flutt af þremur prestsvígðum konum og er í þremur hlutum:
Guðrún Karlsdóttir: Hver er kreppta konan I Sigrún Óskarsdóttir: Hver er kreppta konan II Kristín Þórunn Tómasdóttir: Hver er kreppta konan III