I
„Enginn er máttugur af eigin afli.„ Fyrri Samúelsbók segir okkur merka sögu. Í upphafi er lýst hjónabandsraunum Hönnu og Elkana sem áttu heima í borg einni í Efraímsfjöllum. Þeirra stærsta raun var sú að þau gátu ekki eignast barn. Á hverju ári fóru þau til borgarinnar Síló þar sem musterið var. Þá var Elí prestur og „sat á stól sínum við dyrastafinn í musteri Drottins.” Eitt sinn er þau voru komin til Síló lá barnleysið svo þungt á Hönnu að hún gat ekki nærst. Hún stóð upp frá borðum, fór inn í musterið og „gekk fram fyrir auglit Drottins.” segir orðrétt. “Full örvæntingar bað hún til Drottins og grét sáran. [...] Hún bað lengi frammi fyrir Drottni og á meðan fylgdist Elí með munni hennar en Hanna baðst fyrir í hljóði. Af því að varir hennar bærðust án þess að rödd hennar heyrðist hélt Elí að hún væri drukkin og sagði við hana: ‘Hversu lengi ætlar þú að láta sjá þið drukkna? Láttu renna af þér’ Hanna svaraði: ‘Nei, herra. Ég er aðeins örvingluð kona og hef hvorki bragðað vín né áfengt öl. Ég hef aðeins létt á hjarta mínu fyrir Drottni. Líttu ekki á [mig] sem úrhrak. Ég hef talað svona lengi af sorg og örvæntingu.’ Elí svaraði og sagði: ‘Farðu í friði. Guð Ísraels mun veita þér það sem þú baðst hann um.’” Hanna fór leiðar sinnar, byrjaði aftur að borða og var ekki lengur döpur í bragði.
Þannig var aðdragandinn að fæðingu Samúels sem varð síðasti dómari Ísraelsþjóðarinnar, en svo nefndust andlegir leiðtogar hennar áður en hún fékk sér konung. Og lexía dagsins er lofsöngur Hönnu er hún þakkar Guði þungun sína og í dag hljómar sá lofsöngur við hliðina á lofsöng Maríu Guðsmóður. Það besta sem hægt er að gera við þessi ljóð er að gefa sér heila kvöldstund og lesa þau upp aftur og aftur. Hér eru á ferð margslungnir textar tveggja barnshafandi kvenna. Þeir eru djúpir og háir, fullir af persónulegri nánd og tilfinningu í bland við klassíska valdapólitík. Þeir eru annars vegar hlaðnir eintaklingsbundinni reynslu af því hvernig Guð mætir fólki og hins vegar vitneskjunni um það að þessi sami Guð leiðir rás veraldarinnar og lætur sinn vilja verða hvað sem hroka mannanna líður.
Hanna hefur bæn sína og ég sé hana fyrir mér halda um sér þegar hún segir:
„ Hjarta mitt fagnar í Drottni. [...] því að ég gleðst yfir hjálp þinni.”
María byrjar sinn lofsöng og segir:
„Önd mín miklar Drottin og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum. Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar„
Hér er hið persónulega og nálæga. Hér er vitundin um Guð sem mætir manninum í smæð hans og heyrir þörf hans. Þessi Guð sem ég má kalla minn. Guð minn, minn Guð!
Hanna mælir:
„Hreykið yður ekki í orðum, sleppið engum stóryrðum af vörum því að Drottinn er vitur Guð, hann metur verkin. Bogi kappanna er brotinn en örmagna menn gyrðast styrkleika. Saddir selja sig fyrir brauð en hungraðir þurfa þess ekki.”
María syngur: „Máttarverk hefur [Drottinn] unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum en látið ríka tómhenta frá sér fara.„
Heyrir þú samhljóminn í þessum orðum? Sérðu hvernig þessar sterku, ófrísku andans konur taka veröldina í munn sér og snúa henni á hvolf? Heyrir þú pólitík Drottins? - „Bogi kappanna er brotinn en örmagna menn gyrðast styrkleika.” „Drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja,..”
Þessar tvær konur, Hanna og María, konurnar sem báru Samúel og Jesú í heiminn, segja það sama. Lofsöngur þeirra ómar öld fram af öld og lýsir því hvernig valdi Guðs er varið. Guð stendur gegn dramblátum en horfir á almannaheill.
II
Í beinu framhaldi af lofsöng Hönnu er ástandinu í musteri þjóðarinnar lýst svo:„Synir [prestsins] Elí voru þrjótar og skeyttu ekki um Drottin. Prestarnir breyttu þannig við almenning að í hvert sinn sem einhver færði sláturfórn og kjötið fór að sjóða, kom þjónn pretsins með þrítenntan gaffal í hendi. Hann stakk gafflinum ofan í pottinn, ketilinn, kerið eða kirnuna og allt, sem upp kom á gafflinum, tók prestrinn handa sjálfum sér. Þannig fórst þeim við alla Ísraelsmenn sem komu til Síló.”
Ef einhver maldaði í móinn mæltu þjónar prestanna: “Láttu mig fá það strax, annars tek ég það með valdi.” Og orðrétt segir um prestana sem voru synir Elí: „Synd þessara ungu manna frammi fyrir augliti Drottins var mjög mikil.” (I Sam. 2.12-17)
Sagan segir svo frá að Hanna hafði heitið Drottni því að gefa honum son sinn ef hún mætti ala barn. Samúel fæddist og er hann var vaninn af brjósti kom hann til Elí prests og óx upp í musterinu sem helgiþjónn klæddur línhökli sem hann fékk nýjan á hverju ári er móðir hans kom til að færa fórn sína. Og í þriðja kafla sögunnar er hin fræga lýsing á því er Drottinn kallaði á Samúel og því lýst hvernig Samúel lærði að þekkja rödd Guðs og verða spámaður hans.
Árin liðu og allur Ísraelslýður viðurkenndi Samúel sem spámann sinn og dómara sem flutti þeim orð og vilja Guðs. En svo fór um syni Samúels eins og syni Elí, er þeir áttu að feta í fótspor föður síns og þjóna fólkinu í nafni Drottins, að þeir urðu „ágjarnir, þágu mútur og hölluðu þar með réttinum.”(I Sam. 8.3) „Þá söfnuðust allir öldungar Ísraels saman, komu til Samúels og sögðu við hann: ‘Þú ert orðinn gamall og synir þínir feta ekki í fótspor þín. Þú skalt því setja okkur konung eins og allar aðrar þjóðir hafa.
Hér verða hin stóru þáttaskil í sögu Gamla Testamenntisins.
Lýðurinn sem Guð hafði leyst undan oki Faraós og gert að sínum lýð með sáttmálanum sem staðfestur hafði verið með boðorðunum 10, þessi þrælkaði lýður sem Móse hafði leitt út undan refsivendi valdsins stóð nú og bað um að fá þetta sama vald yfir sig aftur.
Samúel gekk fram fyrir Drottin og Drottinn svaraði: „Hlýddu kröfu fólksins og gerðu allt sem það biður um. Þjóðin hefur ekki hafnað þér heldur hefur hún hafnað mér sem konungi sínum.” (8.8.)
Samúel flutti lýðnum orð Drottins og sagði: „Konungurinn, sem á að ríkja yfir ykkur, hefur þennan rétt: Hann sækir syni ykkar, setur þá á stríðsvagna sína og hesta og þeir hlaupa á undan vagni hans. Hann gerir syni ykkar að liðsforingjum yfir þúsund mönnum eða flokksforingjum yfir fimmtíu. Hann lætur þá plægja akra sína, vinna við uppskeruna, smíða vopn sín og búnað stríðsvagna sinna. Hann sækir dætur ykkar til að búa til smyrsl, elda og baka. Hann tekur af ykkur bestu landspildurnar, víngarðana og olíulundina og fær hirðmönnum sínum. Hann tekur tíund af afrakstri kornakra ykkar og víngarða og fær hirðmönnum sínum og höfðingjum. Hann sækir þræla ykkar og ambáttir, bestu uxa ykkar og asna og tekur til sinna nota. Hann tekur tíund af fénaði ykkar og þið verðið þrælar hans. Þá munuð þið kveina undan þeim konungi sem þið hafið kosið en Drottinn mun ekki bænheyra ykkur.“ Fólkið vildi ekki hlusta á það sem Samúel sagði. Þvert á móti sagði það: „Nei, við viljum hafa konung yfir okkur. Við viljum vera eins og allar aðrar þjóðir.” (8.11-20)
III
Vissir þú að Gamla Testamenntið er rannsóknarskýrsla? Bókum þess 39 talsins var safnað saman eftir að Jerúsalem hafði fallið og stór hluti þjóðarinnar herleiddur til Babyloníu. Hér er á ferðinni rannsókn á því hvernig þjóð ratar í glötun. Jafnframt er þeirri fullvissu borið vitni að góður Guð gefst aldrei upp því að undir niðri og þegar öllu er á botninn hvolft, eins og Hanna og María gera sér að leik í ljóðum sínum, þá er
„Bogi kappanna [...] brotinn en örmagna menn gyrðast styrkleika.
Saddir selja sig fyrir brauð en hungraðir þurfa þess ekki. [...]enginn er máttugur af eigin afli.”
„Miskunn [Drottins] við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns.” bætir María Guðsmóðir við ljóðmæli stöllu sinnar.
„Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum en látið ríka tómhenta frá sér fara.”
Þær vissu það þessar tvær. Þessar sterku trúarhetjur, Hanna og María.
Þær vissu það!
Amen.
Textar:
1Sam 2.1-10
Róm 8.38-39
Lúk 1.46-56