Þessi trúarjátning er skráð í upphafsorðum þjóðsöngsins eftir sr. Matthías Jochumsson og tjáir einingu þjóðar á íslenskri jörð með kristnum sið. Sá tónn var fyrst gefinn á Þingvöllum fyrir rúmum 1000 árum. Þjóðsöngurinn stendur með stjórnarskránni eins og hornsteinn undir sið og menningu, stjórnmálum og félagslífi í landinu. Þannig hefur vonin sem felst í bæninni með lokaorðum þjóðsöngsins verið frumglæðir velferðar á Íslandi: “verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár, sem þroskast á Guðs ríkis braut”.
Er þörf á “þjóðlagaþingi” núna til að endurskoða þjóðsönginn, ekki vegna þess að sumum finnst erfitt að syngja lagið, heldur af því að einhverjir sætta sig ekki við hinn skíra og trúarlega boðskap sem í söngnum felst? Stendur vilji til þess að afhelga þjóðlífið og útrýma Guði úr allri vitund, og með valdi ef ekkert annað dugar? Hefur kristin trú reynst þjóðinni skaðleg og hættuleg?
Afhelgun í nánd?
Í athyglisverðri bók eftir sr. Sigurjón Árna Eyjólfsson, Ríki og kirkja, sem kom út hjá Íslenska Bómenntafélaginu árið 2006, er einmitt tekist á við slíkar kjarnaspurningar sem felast í sambúð trúar og þjóðar, Guðs og manns. Höfundur veltir m.a. fyrir sér hvort það sé í raun mögulegur valkostur að til verði fullkomlega afhelgað samfélag þar sem ekki verði hægt að tengja Guð við eitt né neitt. Sú umfjöllun vekur krefjandi spurningar: Hvar ætlar maðurinn þá að leita sér uppsprettu og viðmiða í siðrænum efnum, listin að þroskast andlegum metnaði, menningin að sjá út yfir fjötra líðandi stundar og stjórnmálin að miða hugsjónir sínar? Hvað verður þá til taks sem reynist nógu burðugt til að sameina þjóð einum rómi í blíðu og stríðu?
Siðbót í menntun
Í kjölfar lútherskrar siðbótar á Íslandi varð þjóðin læs og skrifandi, bæði konur og karlar. Siðbótin setti alþýðumenntun í öndvegi og prestum kirkjunnar var falið að sjá um uppfræðsluna. Þannig var trú og menntun samofin um aldir. Svo var á flestum sviðum þjóðlífsins líka og er enn víða fast í sessi íslenskra hefða. Vígsla opinberra mannvirkja samofin Guðsorði, bæn og blessun, einnig skip, vinnustaðir og hátíðleg tímamót í menningar-og félagastarfi. Í almanakinu felst máttugur boðskapur þar sem ævi og verk Jesú Krists stjórna skipulagi daganna og gefa þeim tilefni og inntak. Trúartáknin eru mörgum persónulega hjartfólgin hvort sem er kross eða engill, Kristsmynd eða Biblía. Og kirkjan, sem er máttarstólpi gróandi menningar, hefur sameinað fjölskylduna á stærstu stundum í athöfnum sínum um aldir í skírn og fermingu, hjónavígslu og útför samhliða rótgrónu helgihaldi. Viljum við útrýma þessu? Þeir sem segja sig úr Þjóðkirkjunni og standa utan kristinna trúfélaga biðja um það.
Afskiptaleysið dugar ekki
Þjóðlíf þróast eins og vilji fólks stendur til. Það getur hvort tveggja gerst með aðgerðum og afskiptaleysi. Veruleikinn þróast hratt og allt er breytingum undirorpið. Afskiptaleysi almennings í þjóðlífsbreytingum hefur látið margt yfir sig ganga í gegnum tíðina og ekki spyrnt við fótum fyrr en of seint. Kristin trú verður ekki áfram gildandi þáttur í sið og menningu þjóðar nema kirkjan standi traustum fótum og almennur vilji standi til þess með virkum og afgerandi hætti. Afskiptaleysið dugar ekki til að þjóðsöngurinn verði áfram hornsteinn íslenskrar siðmenningar, svo gróandi þjóðlíf með þverrandi tár þroskist á Guðs ríkis braut.