Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: "Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar."Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: "Hann guðlastar!"
En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: "Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar' eða: ,Statt upp og gakk'? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér" - og nú talar hann við lama manninn: "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!"
Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald. Matt. 9.1-8
I
Ég trúi að margur hafi fyllst gleði yfir því frábæra frumkvæði borgaryfirvalda sem varð opinbert í þarsíðustu viku, að setja á fót friðarstofnun í Reykjavík með Höfða sem táknrænan fundarstað. Persónulega er ég fagnandi yfir þessum áformum, vegna þess fyrst og fremst að þessi ákvörðun knýr okkur Íslendinga til þess að horfa í eigin barm. Þú getur ekki boðað annan frið en þann sem þú sjálfur iðkar. Eigi friðarstofnun í Reykjavík að hafa eitthvert gildi í þágu stríðandi afla í veröldinni þá verður raunverulegur friður að ríkja í samskiptum okkar sjálfra. Eitt af því yndislega við Ísland og íslenska mennigu er heiðarleikinn. Jafnt þegar kemur að kostum og löstum er íslensk þjóð heiðarleg. Það stafar þó ekki af því að við séum öðrum þjóðum fremri að dyggðum, við erum bara svo fá og svo sýnileg. Hér helst engum uppi að látast, hvorki almenningi né yfirvöldum.
II
Hvað segir nú Biblían um frið? Hvernig talar kristin hefð um þetta mikilvæga málefni?
Svo vill til að ekki þarf lengi að rannsaka ritningarnar til þess að finna það helsta. Manstu eftir englunum í sjálfri jólasögunni? Fjárhirðarnir stóðu agndofa og heyrðu þá boða jólin og syngja: ‘Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum,’ (Lúk.2.14) Við erum óvart stödd í annari aðalsögu Biblíunnar. Hin er sagan af upprisu Jesú. Og frétt jólanna hefst á skilaboðum um frið á jörð.
Við skulum ekki ímynda okkur að hér gildi tilviljanir. Óháð því hverju fólk annars trúir, getur enginn haldið því fram að hugtakanotkun Guðspjallanna sé dutlungafull eða frásagnirnar fálmkenndar í uppbyggingu sinni. Sú staðreynd að orð englanna á Betlehemsvöllum eru: ‘Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum,’ gerir það að verkum að hugtakið friður er grundvallarhugtak í kristinni trú.
III
Það hefur áður heyrst hér af þessum stóli að á bak við fornhebreska hugtakið Shalom, sem við þekkjum og merkir frið, er gríðardjúp hugsun. Í Gamla testamentinu má glöggt sjá, þótt ég reki það ekki núna, að friður er miklu meira en kyrrð og spekt. Í Biblíulegri hugsun merkir Shalom það ástand þar sem lífið hefur vaxtarskilyrði. Nákvæmlega þessi sama hugsun er innbyggð í söng englanna, því þegar þeir eru búnir að syngja megin erindið: ‘Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum,’ þá bæta þeir við einni hendingu, svo að í heild hljóðar textinn svona: ‘Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.”
Í þessu eru skýr skilaboð frá Guði. Dýrðin er hans og friðurinn skal vera mannanna, og forsenda Guðs fyrir þessu öllu er tilfinningalegs eðlis; hann hefur velþóknun á fólki. Önnur aðal frétt trúarinnar er því sú, að Guð hefur velþóknun á fólki. Svo einfalt er það, og um leið svo afdrifaríkt. Með komu Krist á jörð er staðfest með einhliða aðgerð að friður, þ.e.a.s. góð vaxtarskilyrði fyrir manneskjur, skuli ríkja á plánetunni. ‘Mér líkar við ykkur!’ segir Guð, og fæðist sem einn af okkur.
Hvað á að kalla svona innkomu? Getum við nefnt það velviljaða yfirtöku? Gætum við sameinast um þá túlkun að jólin séu fréttin um velviljaða yfirtöku Guðs á veröld sinni, þar sem hann lýsir yfir friði á jörð af þeirri einföldu ástæðu að honum líkar við fólk...? Mér þykir það ekki fráleit hugsun.
IV
Þú tekur e.t.v. eftir því að ég tala ekki þannig að Guð sé að reyna að koma á friði og að hann sé jafnframt að leitast við að tryggja dýrð sína á himnum. Nei, englar jólanna lýsa yfir dýrð Guðs og friði með mönnum, og gefa þá einföldu skýringu að Guð hafi velþóknun á mannfólkinu. Hér er ekki um viljayfirlýsingu að ræða heldur yfirtöku. Hér er ekki talað um óskir heldur staðreyndir. Ástæðan liggur í seinni fréttinni, frétt páskanna. Á meðan yfirskrift jólanna gæti hljóðað svo: ‘Guði líkar við fólk!’ Þá mætti orða yfirskrift páskafréttarinnar á þessa leið: ‘Jesú eru gefin öll völd!’
Á sama hátt og Guð ávarpar okkur á jólum og segir ‘Mér líkar við ykkur!’ þannig ávarpar Jesús Kristur okkur á páskum og segir: ‘Allt vald er mér gefið!’
Það er í ljósi upprisunnar, í ljósi sigursins yfir öllu þvingunarvaldinu í veröldinni og í ljósi þess að sjálfur dauðinn er að velli lagður, að fregn jólanna er svo afdráttarlaus sem raun ber vitni. Hin vinsamlega yfirtaka Guðs á veröldinni sem varð að veruleika við fæðingu Guðs sonar í heiminn, varð augljós og óafturkræf á páskadagsmorgni. Þess vegna er friður raunhæf hugmynd í þessum heimi.
V
Þeim þótti það fráleitt, faríseunum í guðspjalli dagsins, þegar Jesús ávarpaði lamaða manninn og lýsti því yfir að syndir hans væru fyrirgefnar. Í augum þeirra var þessi maður bölvaður af Guði, fyrst hann var veikur. Veikindi voru álitin merki um slaka stöðu, ekki bara félagslega eins og hér hjá okkur, heldur voru veikindi þá líka talin merki um slaka andlega stöðu. Hinn veiki var útskúfaður félagslega og andlega. En Jesús flutti honum fagnaðarerindi trúarinnar og var í raun að segja við hann: ‘Veistu að Guði líkar við þig?!’ Frammi fyrir öllum sem litu niður á þennan sjúka mann, ávarpaði Jesús hann með virðingu. ‘Það er að marka líf þitt! Þú ert fullgild manneskja í mínum augum,’ var hann að segja. ‘Guð hefur velþóknun á þér, þú mátt njóta friðar, Þú mátt hafa vaxtarskilyrði sem manneskja í veröldinni.’
Sérðu aðferð Jesú? Finnur þú og sérð hvernig hann tengir saman frið og réttlæti? Svona er þetta í allri Biblíunni. Svona er kristin hugsun. Friður og réttlæti haldast í hendur, en ranglæti leiðir til dauða.
VI
Ítrekað tala spámenn gamla testamenntisins um þá trúarvissu að Guð krefst réttlætis af mönnum, um leið og þeir vara við afleiðingum ranglætis. Við heyrðum lesið úr Esekíel spámanni áðan. Í sama kafla er þessi lýsing:
‘Hver sá maður sem er ráðvandur og iðkar rétt og réttlæti... sem engan undirokar og tekur ekki neitt frá öðrum með ofbeldi, sem gefur brauð sitt hungruðum og skýlir nakinn mann klæðum, sem heldur hendi sinni frá því sem rangt er og dæmir rétt í deilumálum manna, sem breytir eftir boðorðum mínum.. ..með því að gjöra það sem rétt er, - hann er ráðvandur og skal vissulega lifa, segir Drottinn Guð.’ (Esek. 18.5,7-9) Og skömmu síðar kemur hvatningin sem við heyrðum lesna frá altarinu áðan: ‘Varpið frá ykkur öllum syndum ykkar, er þið hafið drýgt í gegn mér, og fáið ykkur nýtt jarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þið deyja, Ísraelsmenn? Því að ég hef ekki velþóknun á dauða nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa.’ (Esek. 18.31-32)
Friður og réttlæti haldast í hendur, en ranglæti leiðir til dauða. Þetta veit kristin kirkja.
Og hvatning Páls postula var flutt áðan í beinu samhengi: ‘Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.” (Ef. 4. 22-24)
VII
Skilaboð kristinnar trúar inn í friðarmálin sem svo mjög brenna á veröldinni er ekki einhver samningatækni sem nota mætti inni í Höfða með góðum árangri. Hér er ekki einhver gleymd aðferðafræði sem komið hefur sér vel á liðnum öldum en fallið í gleymsku og gott væri að dusta rykið af, því margt sé gott sem gamlir kveði. Nei, skilaboð kristindómsins eru þær fréttir að Guði líkar við fólk og með velviljaðri yfirtöku hefur hann gefið Jesú allt vald og lýst yfir friði í veröldinni. Valdið sem friðinum spillir er því ekki eiginlegt vald og alls ekki endanlegt. Ófriður er veröldinni ekki eðlilegur lengur, því hið rétta eðli heimsins er Shalom, - ástandið þar sem lífið á vaxtarskilyrði. Verkefni mannanna í þessum heimi, vilji þeir ekki deyja, er það að stunda réttlæti og þá mun friðurinn vaxa fram. Og þetta réttlæti verður stundað með því að hætta við gömlu aðferðirnar, sem felast í völdum og yfirráðum eins yfir öðrum, en ‘endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.’
Friðarleiðin sem kristin kirkja þekkir og boðar er sú, að íklæðast Jesú Kristi, hinum nýja manni, og lúta valdi hans. ‘Hann er okkar friður!’ segir Páll í sama bréfi, 2. kafla. (Ef. 2.14)
Þá mun okkur skiljast að enginn vinnur stríð, að einungis er hægt að vinna frið. Þá munum við ekki lengur sætta okkur við skipulagða mismunun heldur þrá jöfnuð í þjóðfélaginu og rétta hlut barna, öryrkja, aldraðra, kvenna og útlendinga hið snarasta. Þá munum við saman leita sátta við náttúruna og hætta að misbjóða henni. Þá munum við opna friðarsetur í landi okkar þangað sem þjóðirnar munu koma til að læra frið og réttlæti, af því að þau sjá okkur iðka það.