Rætt er um aðskilnað ríkis og kirkju og réttmæti framlaga á fjárlögum til Þjóðkirkjunnar. Mig langar að benda á mikilvægt atriði í því sambandi.
Það fyrirkomulag hefur verið lögfest að íslenska ríkið greiði laun presta og starfsmanna biskupsstofu sem varanlegt endurgjald fyrir þær eignir í húsum, jarðeignum og ítökum sem ríkið tók umsjón með á árunum 1907 og 1997. Gerð var um þær vönduð skrá og á það var lagt mat hvers virði þær eignir hafa verið. Á það var svo fallist á Alþingi árið 1997 að réttmæt arðgreiðsla af þeim væri sem næmi þeim launum sem greidd voru 138 prestum og 18 starfsmönnum biskupsstofu samkvæmt launaskrá ríkisins 1. janúar 1998.
Matið var huglægt og þótti sumum í hærra lagi þá en síður á bólutímanum fyrir Hrun en aftur núna, og svona mun það sveiflast til eftir jarðeignamarkaði. Hafa má þó í huga að í tölu þessara jarðeigna voru afar verðmæt byggingarsvæði á höfuðborgarsvæðinu og öðrum þéttbýlisstöðum sem og að verðmæti lands er ávallt líklegt til að aukast til lengdar litið.
Þessar eignir höfðu orðið til í aldanna rás og til þess ætlaðar að kosta kirkjustarf í landinu. Fyrr var það fyrirferðameiri þátttur þjóðlífsins en nú er, en allt hefur færst í aukana og sumt fremur en Þjóðkirkjan. Það er athyglisvert að ræða við vini í nýjum kirkjum í Pókot í Keníu td og horfa með þeim yfir leiðir til þess að kosta uppihald presta, byggingu og viðhald kirkna, fátækrahjálp og kostun stjórnar kirkjunnar. Valið verður að búa til höfuðstól í jarðeignum í hverri sókn jafnframt því sem fjár er aflað til kirkjubygginga og þarfa bágstaddra. Þeir munu svo setja mannanna mörk á það verkefni sem ekki eru öll jafn falleg, en það gildir um allt, ekki bara kirkjumálefni. Þess vegna reynum við að vanda okkur og læra af mistökum fyrri tíðar manna og vara okkur á mannlegri náttúru.
Fleiri kirkjusamfélög mættu njóta þessa arfs með Þjóðkirkjunni eftir minni meiningu en það er við stjórnvöld að etja um það. Það mundi ekki skekkja heildarmyndina. Reglan gæti verið að öll trúfélög fengju laun starfsmanns þegar aðild væri orðin um 2000 manns og fjölgaði svo með hverjum 5000 manns sem við bættust eins og gildir um Þjóðkirkjuna.
Og nú vík ég að lýðræðisþættinum í þessu fyrirkomulagi. Það þarf ekki að hafa áhyggjur af réttmæti þessa því fólkið í landinu ákveður með aðild sinni að trúfélagi hver fær að njóta þessa höfuðstóls sem þjóðin myndaði á sínum tíma. Fækki í Þjóðkirkjunni þá fer féð með fólkinu. Þjóðkirkjan tapar presti fyrir hver 5000 sem í henni fækkar, eins og hún hefur notið þess á undanförnum áratug að fá prest fyrir hver 5000 sem í raðir hennar hafa bæst.
Sem sagt þjóðin ákveður „með fótunum“ hver skuli njóta jarðeignanna sem kirkjan á með sanni og ríkið geymir. Allir menn sjá að viska Salómons býr í þessu fyrirkomulagi og því ekkert um það að deila frekar. Við getum því snúið okkur að öðrum viðfangsefnum eins og td því hvort prestarnir þurfi eitthvað að vera starfsmenn ríkisins út af þessu.