Flutt 15. apríl 2018 í Hjallakirkju
Ég trúi á Guð sem er af holdi og blóði, Jesú Krist,
Guð sem varð manneskja eins og ég og gekk í skónum mínum
Guð sem fór sömu leið og ég og þekkir ljós og skugga
Guð sem neytti matar og leið hungur
Átti heimili og varð einmana
Var fagnað og bölvað
Var kysstur og hræktur
Var elskaður og hataður.
Guð sem tók þátt í gleðskap og sorgarstundum.
Guð sem hló og grét.
Þessi texti er hluti af trúarjátningu vonarinnar eftir Gerardo Oberman frá Argentínu, í þýðingu sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar.
Hefur þú einhvern tímann velt því fyrir þér, hvað felst í því að trúa á
Guð sem er af holdi og blóði. Guð sem kom í mannslíkama og tók á sig
allt sem felst í því að vera manneskja af holdi og blóði.
Hugsarðu frekar um Guð sem anda, andlega veru sem er svo ofar þínum skilningi að þú átt á stundum erfitt með að nálgast hann og sjá hann fyrir þér sem raunverulega nálægt þér, hér og nú í þeim aðstæðum sem þú ert að takast á við í dag.
Guð sem verður að fjarlægri yfirskilvitlegri hugmynd, óaðgengilegur og á engin tengsl við þitt daglega líf.
Það er ekkert skrýtið að í nútímanum sé erfitt að nálgast Guð og gera hann að lifandi veruleika þegar við skoðum söguna og rekumst á gamla heimsmynd þar sem hann var predikaður af kirkjunni sem fjarlægur himnahöfðingi sem stýrði guðlegri lyftu milli himnaríkis og helvítis og almenningur stóð hræddur hjá, óttasleginn um að fá frekar ferð niður en upp í dýrðina við ævilokin.
Við finnum Guð sem hefur verið rammaður inn í hugmyndir manna sem höfðu hag af því að gera hann að sínum og stýrðu þannig fjöldanum í guðsótta og ólæsi á það sem Guð raunverulega er og kom til að vera.
Ein af stærstu spurningum Guðfræðinnar á okkar tímum hljómaði þegar
heimsmynd okkar og allt sem við þekkjum hrundi í heimsstyrjöldunum
tveimur á síðustu öld. Þegar við stóðum, allt í einu frammi fyrir
hreinni illsku manneskjunnar og Guð sem átti að vera almáttugur og
algóður var allt í einu hvergi nálgægur til að grípa beint inn í
þjáninguna og neyðina sem við blasti.
Heimurinn stóð allt í einu varnalaus gegn hörmungunum og úr
útrýmingarbúðum Gyðinga í Auschwitz hljómuðu þessi orð gyðingsins Elie
Wiesel: Í Guðs bænum, hvar er Guð?
“Hvar er Guð” hljómaði í bakröddum heimsmyndar sem aldrei yrði söm á ný. Eftir allan þennan dauða og hrylling vissum við að eitthvað var endanlega farið.
Staðreyndin er sú að það er ekki hægt að endurvinna gamla guðsmynd inn í heim sem er ekki lengur til. Þar sem allt er orðið breytt og hugmyndafræðin hrunin og tilvistarspurningar verða meira krefjandi en nokkru sinni fyrr.
Í þeim aðstæðum erum við knúin til að endurskoða hugmyndirnar um okkur sjálf, lífið, umhverfið okkar og Guð.
Við erum allt í einu stödd í guðfræðilega flötum heimi þar sem við
uppgötvuðum að við vorum sjálf fullfær um að skapa helvíti á jörðu og í
þeim aðstæðum fer að þinnast í hópi dýrlinga og engla og enginn Guð
virðist í augsýn til að grípa inn í með táknum og undrum til að bjarga
okkur frá eigin sjálfskapaða óhugnaði.
Þegar staðið er frammi fyrir nýrri heimsmynd og nýjum veruleika felst ögrunin í því annað hvort að henda öllu þessu gamla út með baðvatninu og Guði með eða taka meðvitaða ákvörðun um að reyna að skilja það sem hefur gerst og spyrja þá um leið nýrra spurninga.
Í því samhengi spyrjum við ekki spurninga eins og “Hvað er Guð” eða “Hvað þarf ég að gera til að frelsast”.
Heldur getum við hafið ferlið á því að reyna finna Guð í heiminum hér og
nú og reynt að skilja saman hvernig áhrif hann hefur á okkur og okkar
líf í heimi sem oft er vondur og grimmur og miskunnar engum.
Þegar við spyrjum spurningarinnar stóru: Hvar er Guð?.
Getum við þá svarað um hæl: Guð er hér! Ef svo er, hvernig ætlum við þá að bregðast við því?
Það viðbragð er algjörlega undir okkur sjálfum komið.
Ein fallegasta frásögn Jóhannesarguðsspjalls er þegar sagt er frá því
þegar María Madgalena kemur að tómri gröfinni á fyrsta degi vikunnar og
grætur. Hún syrgir vin sinn, hann hefur verið færður í burt og hún veit
ekki hvar hann er.
Hún er í garði, við tóma gröf og Jesú sem hún telur vera
grasgarðsvörðinn spyr hana hví hún gráti. Hún útskýrir stöðu sína fyrir
honum og þá kallar hann hana með nafni og hún þekkir hann um leið.
Við höfum áður heyrt sögu í Biblíunni sem gerist í garði, þegar Adam
og Evu var búinn staður í paradís þar sem Guð gekk um og hlúði að sköpun
sinni en vegna eigin misgjörða var þeim hjúum varpað þaðan út og búinn
nýr staður á jörðinni.
Guð gekk um garðinn, var mitt á alls þess sem hann skapaði líkt og
grasgarðsvörður sem sinnir garðinum sínum, sáir fræjum í mold og bíður
þess að uppskeran verði góð.
Guð sem undirbýr jarðveginn, sáir og hlúir að og er mitt á meðal er stef sem hljómar í gegnum alla Biblíuna. Guð sem er annt um sköpun sína og vill að henni vegni vel.
Guð sem vegna mannfólksins ákvað að gerast manneskja, verða hold til að taka á sig allar okkar byrðar og alla okkar mennsku.
Hann kemur til þín og mín og segir: Ég vill vera hluti af þér og þínu lífi. Ég vill vera hluti af allri veru þinni, holdi þínu og blóði. Ég vill finna það sem þú finnur, upplifa það sem þú upplifir, þjást með þér, gráta með þér, borða með þér, gleðjast með þér og hlægja með þér.
Ef þú þiggur þessa gjöf hans, þá bíður hann þér hlutdeild í sér og þessa upplifun, að finna á eigin skinni að Guð er hér. Hér og nú með þér á heilögum stað sem er þitt líf.
Það þarf kjark til að þiggja þessa gjöf, vegna þess að hún er ólík öllum þeim gjöfum sem við hljótum í lífinu. Hún er ólík öllum þeim hugmyndum sem við gerðum okkur um Guð í gamalli úrelltri heimsmynd.
Gjöfin krefst þess að þú sért tilbúin til að skapa nýtt samfélag, nýjan grunn, nýjan garð þar sem við komum saman og hlúum að sköpuninni, jörðinni, umhverfinu og hvort öðru.
Sá merkilegi atburður gerist í holdtekjunni og í upprisunni að allt verður eitt, veruleikinn verður einn, andinn og efnið verða eitt, líkaminn, sálin og jörðin verða eitt.
Það merkir að við skiptum öll máli, sama hvaða við komum og hver við erum. Það merkir að við sem búum saman jörðina, þennan garð sem okkur er úthlutað látum okkur aðra og umhverfið okkar varða, Við göngumst undir það að vera alltaf vakandi fyrir aðstæðum sem vinna gegn fullri mennsku fólks og öllu því sem gengur á jörðina okkar.
Guð biður þig að vera vakandi fyrir umhverfinu þínu, þeim sem minna mega sín, fyrir þeim sem heimurinn hafnar á hverjum degi vegna fordóma, kúgunar, stríða og ofbeldis.
Krafa sem er mörgum erfið vegna þess að enginn er fordómalaus og það
að horfast í augu við eigin fordóma, valdsmennsku og dómhörku er
verkefni sem manneskjan á oft erfitt með að takast á við, það er þetta
að líta í eigin barm.
En þegar þú þiggur gjöf Guðs í Jesú að meðtaka líkama hans og upprisu
hans í holdi, þá verður hann hluti af þér og þú af honum. Þá mildar hann
tímann, hann mildar óttann og gefur þér von.
Hann lofar þér að fara aldrei frá þér, hann segir þér að það sem þú ert er gott. Líkaminn þinn er góður, tilfinningarnar þínar og þrár eru eðlilegar.
Allt sem þú ert er í lagi, í öllum þínum fjölbreytta breyskleika. Allt sem þú ert er hluti að því að vera manneskja og þú sem manneskja ert elskuverð.
Þá gildir einu hvort að líkaminn þinn er ungur eða gamall. Með Krist í hjartanu, blóðinu og holdinu átt þú heima í nýjum garði,
þú ert hluti af nýrri sköpun þar sem Guð gengur mitt á meðal, þekkir þig með nafni og þú ert hans.
Í þessum nýja garði, á fyrsta degi nýrrar sköpunar erum við kölluð
til ábyrgðar. Hugmyndin um upprisuna er ekki þægileg hugmynd því hún
speglar okkur og veru okkar og allt sem við þekkjum og vitum er snúið á
hvolf.
Hugmynd sem ekki hentar þeim sem fara með völdin hverju sinni og þeim
sem eiga hagsmuna að gæta á hverjum tíma. Því hún skapar andstöðu og
ögrar ríkjandi tíðaranda.
Upprisan bendir í átt að nýjum garði þar sem við berum öll ábyrgð á hvort öðru, umhverfinu okkar og sköpuninni allri.
Okkur er boðið nýtt upphaf, tækifæri til að gera hlutina betur en þeir
hafa verið gerðir og til að koma aðeins betur fram við hvort annað og
jörðina okkar, garðinn okkar.
Tækifæri til að minnka aðeins dauðann og angistina, til að aldrei verði aftur kallað úr sárri neyð: Hvar er Guð?.
Því við höfum fundið að hann er hér. Mitt á meðal okkar og hann umbreytir okkur hverju og einu, heimsmynd okkar og sýn á lífið. Guð sem gengur um garðinn sinn og sáir á hverjum tíma nýjum fræjum í mold og kallar okkur hvert og eitt með nafni og talar þannig inn í aðstæður okkar, inn í veruleikann okkar.
Við erum kölluð til að lifa þessu nýja lífi, þar sem endalok þess sem við áður þekktum, þurfa ekki að merkja endalok alls sem er heldur merkir þetta á óvæntan hátt nýtt upphaf.
Á fyrsta degi nýrrar sköpunar, þar sem allir hlutir verða nýir. Guð er hér með þér, sem garðyrkjumaður og hirðir. Hann kallar og okkar er að hlusta og meðtaka því við vitum að í kyrrunni og andvaranum er hann að gera alla hluti nýja.
Amen.