Kraftaverk á hverju ári.
Það var um borð í Herjólfi fyrir 6 árum síðan, að afloknu Landsmóti ÆSKÞ 2009, að þáverandi formaður sambandsins fékk þá hugmynd að Landsmót myndi einbeita sér að hjálparstarfi. Það voru óvissutímar í kirkjunni en það ár hafði sú þverstæðukennda staða komið upp að á sama tíma og verið var að segja upp fagfólki í barna- og unglingastarfi við söfnuði Þjóðkirkjunnar hafði skráning á Landmót ÆSKÞ aukist umtalsvert.
Margrét Ólöf Magnúsdóttir, djákni, kynnti hugmyndina fyrir stjórn sambandsins og sagði í kjölfarið að Landsmót kæmi til með að vaxa hratt á komandi árum. Trú Margrétar hefur sannarlega borið ávöxt og þetta verkefni sem á árum áður fór sjaldnast yfir 200 þátttakendur hefur nú orðið að viðburði sem fagnar metaðsókn yfir 680 unglinga og leiðtoga.
Þessi hópur á það sameiginlegt að taka þátt í æskulýðsstarfi safnaða um allt land og í Noregi og kemur í fylgd leiðtoga sem starfa í kirkjunum. Þessi vöxtur hefur orðið til þess að skipulagning og utanhald mótsins hefur orðið flóknara og undirbúningur hefst í raun áður en að fyrra mót er haldið þar sem næsta staðsetning er tilkynnt við mótsslit.
Öryggi þátttakanda skiptir þar mestu og þau sem koma að undirbúningi mótsins eru meðvituð um að gáleysi getur riðið Landsmóti ÆSKÞ að fullu. Það hafa margir andvarpað yfir því að þurfa að fylla árlega út leyfi til skimunar á sakaskrá eða að þurfa að staðfesta þátttöku mörgum vikum fyrir mót en aldrei er of varlega farið.
Viðburður sem þessi þætti mögulega ekki merkilegur í stærri hreyfingum en það sem einkennir undirbúning Landsmóts ÆSKÞ er að öll vinna við undirbúning og framkvæmd mótsins er sjálfboðin, utan þess að framkvæmdarstjóri sambandsins er í hálfu starfi og Landsmótsstjóri fær málamyndaþóknun. Alls eru um 50 manns sem gefa vinnu sína í þágu verkefnisins og Landsmót ÆSKÞ er því stærsta einstaka sjálfboðaliðaverkefni íslensku Þjóðkirkjunnar.
Annað sem einkennir mótið er að kostnaður við þátttöku er sá sami óháð búsetu, með þeirri undantekningu þó að íslenski söfnuðurinn í Noregi greiðir sjálfur flug til Íslands. Þannig er aðstaða þeirra sem sækja mótið langt að jöfnuð við þau sem þurfa að ferðast skemur en hár ferðakostnaður er þröskuldur fyrir þau sem eiga búsetu í minni sóknum út á landi.
Framtíð íslensku Þjóðkirkjunnar veltur á því hvernig að við sinnum börnum og unglingum þessa lands og það eitt mun skilgreina þá samstöðu sem sýnd verður kirkjustarfi á komandi árum. Í samfélagi þar sem æ flóknara verður að eiga farsæl unglingsár er það athvarf sem kirkjan getur veitt mörgum ungmennum lífsnauðsynleg. Það er umfjöllunarefni Landsmóts í ár, geðheilbrigði og geðsjúkdómar meðal ungs fólks, undir yfirskriftinni Geðveikt Landsmót.
Í fræðslustund á laugardagsmorgni var sagt frá þeirri vitunarvakningu sem er að eiga sér stað meðal þjóðarinnar um mikilvægi geðheilbrigðis. Kirkjan getur þar gert mikið gagn en hún býr yfir vítækasta neti ,,andans-ræktarstöðva” á landinu þar sem fræðslustarf, helgihald og guðsþjónustur kirkjunnar bera ávöxt í auknu geðheilbrigði þeirra sem sækja samfélag kirkjunnar. Farið var í gegnum messuliði með það fyrir augum að segja frá merkingu þeirra sem iðkunaræfingar í trúarlegu lífi. Miskunnarbæn er ákall um aðstoð, dýrðarsöngur þakkargjörð fyrir að Guð er ætíð til staðar þegar hans er leitað, þjónustu orðins fagnaðarboðskapur sem bjargar mannslífum, syndajátning verkfæri til reikningsskila og friðar og blessun útsending í heiminn til að láta gott af sér leiða.
Þá steig fram ung kona sem hefur verið hluti af æskulýðsstarfi Neskirkju frá fermingu, Marta Ferrer, en hún á að baki þá lífsreynslu að glíma við geðhvörf á unglingsárum. NeDó hópurinn reyndist henni athvarf á erfiðum tíma þar sem hún fékk og fær að vera hún sjálf, óháð því hvar hún er stödd í sjúkdómnum. Það kostar hugrekki að deila erfiðri reynslu og vitnisburður þessarar hugrökku ungu konu skildi tæplega 700 manna unglingahóp orðlausan. Loks talaði sálfræðingur um hagnýtar leiðir til að takast á við algengustu geðrænu vandamálin, kvíða, þunglyndi og reiði en Thelma Gunnarsdóttir er önnur þýðenda bókanna Hvað get ég gert?, sem kenna slíkar aðferðir börnum.
Þegar leið á daginn var síðan haldið Karnival, þar sem bæjarbúum er boðið að koma á mótið og taka þátt í söfnun ungmennanna, hæfileikakeppni, þar sem unga fólkið steig á svið og bar fram hæfileika sína og loks ball, þar sem var sannarlega kátt í Höllinni. Fljótt á litið gæti virst sem svo að mót sem þetta skilaði fyrst og fremst skemmtun og upplifun til unga fólksins en lofgjörð, einlæg fræðsla og bænahalds mótsins lætur engan ósnertan. Á þeim árum sem ég hef tekið í þátt í framkvæmd Landsmóts ÆSKÞ hef ég ítrekað séð þau fræ sem sáð eru í æskulýðsstarfinu verða að traustri trú, sem reynist unga fólkinu haldreipi í lífinu.
Textar þessa sunnudags gætu ekki átt betur við. Í 91. Davíðssálmi ber skáldið skjóli Guðs vitni með orðum sínum: Sá er situr í skjóli Hins hæsta og dvelst í skugga Hins almáttka segir við Drottin: „Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á.“ Páll Postuli lýsir starfi sínu í söfnuði Guðs sem gróðursetningu og vökvun en lofar Guðs fyrir vöxtinn: ,,Þannig skiptir það engu hver gróðursetur eða hver vökvar”, segir hann, ,,[þ]að er Guð sem skiptir máli, hann gefur vöxtinn.“
Loks segir Jesús í Jóhannesarguðspjalli: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans. Segið þið ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi ykkur: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru.” Haldi því einhver fram að kirkja Krists sé úreld og eigi ekki erindi við framtíðarkynslóð þessa lands, skora ég á hann að kynna sér og koma á Landsmót ÆSKÞ.
Framtíðin er björt og fagnaðarerindið lifir í hjörtum þeirra sem gefa sig að þeim boðskap að Guðs er til staðar fyrir þig, hverjar sem aðstæður þínar eru eða heilsa. Það vex sem að er hlúð.