Guðspjall: Jóh 6.47-51
Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir hefur eilíft líf. Ég er brauð lífsins. Feður ykkar átu manna í eyðimörkinni en þeir dóu. Þetta er brauðið sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.“ Þegar Kristur hafði mettað mannfjöldann nokkru fyrr þrengdi fólkið að honum og vildi gera hann að konungi. Hann vék undan. Hann hafnaði því að verða veraldlegur höfðingi, leiðtogi í veraldarvafstri þjóðar sinnar. Þegar Kristur er svo nokkru síðar í yfirheyrslu hjá Pílatusi og landstjórinn spyr: “Ertu konungur Gyðinga?” svarar hann: “Mitt ríki er ekki af þessum heimi.”
Nú líður á föstuna, það styttist til hinna stóru atburða á ferð Jesú Krist með lærisveinum sínum. Hann er á leiðinni upp til Jerúsalem til þess að vera þar við hátíðahöldin. Páskahátíðin var minningarhátíð um brottför Hebrea frá Egyptalandi þar sem þjóðin eða þjóðflokkurinn hafði verið í ánauð. Þangað stefndi hann enda þótt hann skynjaði heift og illsku presta og farísea gagnvart sér. Ástæður þess voru nokkrar. Hann var vinsæll. Allur fjöldinn kom til að hlýða á hann og heillaðist af boðskap hans. Aðalástæðan var þó vafalaust boðskapurinn sjálfur. Kristur flutti nýja kenningu. Og hver var hún? Stundum tölum við í predikunum bara um nýja kenningu en ekki það hvernig Kristur sá sitt hlutverk í því að vera sá sem uppfyllti spádómana. Hann kom með ný viðhorf inn í trúarheiminn. Hann boðaði og bauð frelsi frá lögmálsþrældómnum.
Gyðingaríkið var grundvallað á Móselögunum, Mósebókunum. Gyðingaríkið var guðstjórnarríki. Guð réði, konungurinn var sonur hans, sérstaklega útvalinn og smurður til þess að skipa málum þjóðarinnar. Eftir herleiðinguna var ekki um konung að ræða. Erlent yfirvald réð veraldarmálunum. Gyðingar töldu sig hins vegar æðsta allra þjóða, sérstaklega útvalda – og þeir væntu konungs sem myndi rétta hlut þeirra. Móselögin voru ekki aðeins kirkjuréttur Gyðinga heldur einnig veraldleg lög þeirra. Með algerri löghlýðni ávann fólk sér rétt til eilífrar sælu hjá Drottni, Jahve. Með þeirri löghlýðni sem fræðimennirnir og prestarnir boðuðu og farísearnir gengu lengst í að útfæra í eigin lífi, áttu þeir rétt á virðingu samborgaranna og áttu síðan einnig vísa himnavist sem þeir höfðu unnið sér fyrir.
Hin nýja kenning Jesú Krists gekk út á að aðskilja þetta tvennt. Hann vildi ekki samruna af veraldlegum og guðlegum réttindum. Lögin væru borgaraleg. “Mitt ríki er ekki af þessum heimi,” sagði hann. Þess vegna var eðlilegt að gjalda keisaranum skatt, samanber svar hans þegar fræðimennirnir lögðu gildru fyrir hann. Prestar, farísear og fræðimenn voru æðstir meðal þjóðarinnar. Með því að aðskilja ríkin tvö veraldlegt og andlegt – eins og Kristur gerði – myndu áhrif þessara valdastétta hverfa af veraldarsviðinu. Þarna var að mínum dómi stærsti áreksturinn milli Krists og ráðamanna þjóðarinnar. Þeir væntu veraldlegs konungs, Messías myndi verða eins og gömlu herkonungarnir 1000 árum fyrr, Sál, Davíð, Salómon. Kristur er sonur ungrar stúlku og trésmiðs í Nazaret. Varla var nokkur konungur þar að koma til “eignar sinnar” konungsríkisins. Með því að fara yfir málaferlin gegn Jesú Kristi er hægt að læra margt um sýndarréttarhöld aldanna. Og því miður einnig réttarhöld sem valdhafar nútímans setja á svið. Til þeirra er stofnað til þess að ljá því umbúnað sem valdhafinn vill koma til leiðar. Hann vill réttlæta gjörðir sínar, nota réttarkerfið til þess að ná fram markmiðum sínum. Þegar réttarhöldin yfir Jesú Kristi eru gaumgæfð kemur þetta vel í ljós. Öfundarmenn hans, fræðimenn, farísear og prestar þjóðar hans sneru fólkinu gegn honum. Þeir beittu til þess vitnum, sem höfðu verið keypt til þjónustu, það var liður í sviðsettum réttarhöldum, fyrst hjá Annasi og svo Kaífasi. Þeir æfðu leikinn áður en kom til þess að fara til Pílatusar með málið. Þeim gekk hins vegar illa að sanna ákærurnar frammi fyrir honum sem hafði vald til dauðadóms, Pílatusi. Kappsmál þeirra var að losna við Krist, fá hann dæmdan til dauða. Dauðarefsing lá við guðlasti og byltingarstarfsemi; það voru því ákæruatriðin, sem gyðingarnir notuðu. Þegar Pílatus, sem var lögfræðingur, skoðaði málið, sá hann strax að það var illa undirbúið, og að annað réð ákærum gyðinga en sannleiksást og hollusta við Rómverja. Hann var sjálfur sannfærður um að sakir væru engar. Kristur segir strax aðspurður að ríkið sem hann boði sé ekki af þessum heimi. Hann sé kominn til að bera sannleikanum vitni – og “hver sem er sannleikans megin heyrir mína rödd.” Pílatus sér þarna engar sakir, “Hvað er sannleikur” segir hann. Þetta tilsvar Pílatusar finnst mér oft misskilið og lítið úr því gert. Pílatus er að leita áþreifanlegra sannana, í áþreifanlegri sök. Hann er ekki kominn til að ræða um trúarheimspeki, eða trúmál yfirleitt. Rök og sannanir, sem til dómsfellingar var það sem hann leitaði. Hvorugt er fyrir hendi og þar með eru bæði sakarefnin fallin. Þá er málinu skotið til Heródesar. Í deilum hans við Arcelaus bróður sinn um rétt til ríkisins eftir dag föður þeirra, þann Heródes sem jólaguðspjallið greinir frá, höfðu farísear stutt Heródes. Þótt hann fyndi engar sakir heldur vildi hann ekki styggja faríseana en sendir hermennina með Krist til baka til Pílatusar. Áfram heldur Pílatus þeirri viðleitni sinni að fá lýðinn til að átta sig á sakleysi þessa bandingja. Sumir telja að Pílatus hafi verið að reyna að höfða til samúðar með þjáðum manni, með því að láta húðstrýkja Jesú og setja þyrnikórónuna á höfuð honum. E.t.v. fannst honum það mátulegt á þennan “sérvitring.” Allt kom fyrir ekki. Búið var að æsa fólkið til andstöðu við þennan mann, Jesú frá Nazaret. Þjóðin var í ánauð, hún var fátæk og mædd og þjökuð. Á slíkum tímum er auðvelt að æsa fjöldann til ofstækis. Slíkt ástand hefur iðulega verið notað til óhæfuverka. Allir ættu að geta séð samhengi þeirra hluta. Þarna var það þjóð sem hafði kveinkað sér undan harðýðgi herraþjóðarinnar, sem krafðist þess nú að rómversku yfirvöldin dæmdu mann til dauða án nokkurra saka eða sannana um það. Í sögu réttarfars og dómsmála leikur enginn vafi á því að dómsmorð eru mörg. Sókrates, Jóhanna af Örk o.fl. o.fl. Líflátsdómur Krists er dómsmorð, lögunum er misbeitt, þau verða tæki til ofbeldis og morðs en ekki tæki til varnar réttlætinu. Enginn vafi leikur á því, að bæði dómarinn og ákærendurnir vissu að hinn dómfelldi var saklaus. Sagan hefur svo sannað það. Hann starfar í heiminum og ennþá er boðskapur hans jafn skýr. Ennþá boðar hann ríkið sem hann kom með í heiminn, ríki kærleika, friðar, fegurðar. Ríki fyrirgefningar, miskunnsemi og réttlætis. Þar eigum við þegnrétt öll. “Hver sem er sannleikans megin heyrir mína rödd.” Amen