Alþjóðleg samkirkjuleg bænavika, Dagur 1 Biðjum ávallt - Biðjið án afláts (1Þ 5.17)
Textar Jes 55.6-9 Leitið Drottins meðan hann er að finna, ákallið hann meðan hann er nálægur Sl 34 Vegsamið Drottin ásamt mér, tignum nafn hans einum hug 1Þ 5.(12a) 13b-18 Ég bið ykkur, systkin... Lifið í friði ykkar á milli... Verið ætíð glöð. Biðjið án afláts. Þakkið alla hluti því að það er vilji Guðs með ykkur í Kristi Jesú. Lk 18.1-8 Að biðja stöðugt og þreytast eigi – Guð mun rétta hlut sinna útvöldu sem hrópa til hans dag og nótt Í dag er fyrsti dagur í alþjóðlegri, samkirkjulegri bænaviku. Yfirskrift vikunnar að þessu sinni er: Biðjið án afláts (1Þess 5.17) og dagsins í dag á sömu lund: Biðjum ávallt. Þemu daganna sem í hönd fara eru öll tekin úr 5. kafla fyrra Þessalóníkubréfs og fjalla um staðfasta bæn, þakklæti, iðrun og umbreytingu, réttlæti, langlyndi, starf okkar til útbreiðslu fagnaðarerindisins, einhuga bæn og einingu kristninnar.
Að biðja, þakka og finna frið Áherslan á hina staðföstu bæn er mikilvæg. Hjá Jesaja spámanni (sjá Jes 55.6-9) lesum við: Leitið Drottins meðan hann er að finna, ákallið hann meðan hann er nálægur. Og í 18. kafla Lúkasarguðspjalls (Lúk 18.1-8) er dæmisaga Jesú um ekkjuna sem lét ekki rangláta dómarann í friði fyrr en hann hafði rétt hlut hennar. Nú er Guð ekki ranglátur dómari heldur kærleiksríkur faðir sem vill börnum sínum allt hið besta, enda snýr líkingin að okkur, ekki Guði. Við eigum að vera eins og þessi þrautseiga ekkja, biðja stöðugt og eigi þreytast því Guð mun rétta hlut sinna útvöldu sem hrópa til hans dag og nótt og það skjótt.
Þetta minnir á uppáhaldsvers okkar margra: Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú. (Fil 4.6-7)
Ef við stöndum frammi fyrir vanda er verklagið þetta samkvæmt postulanum: Gera sér grein fyrir hvert úrlausnarefnið er og bera fram ósk um lausn. Það er bæn. Taka síðan á móti lausninni úr hendi Guðs með því að þakka fyrir, jafnvel áður en nokkur breyting er sýnileg. Þakkargjörðin er einnig bæn. Og leyfa svo friði Guðs að umlykja allt okkar innra líf, tilfinningar og hugsanagang, hvað sem á gengur í hinu ytra. Það gerum við líka í bæn. (Þetta hljómar kannski dálítið líkt boðskapnum í The Secret/ Leyndarmálinu, en látið það ekki trufla ykkur – við vissum þetta áður!).
Hin stöðuga bæn er þannig síendurtekið ferli – eða ætti ég að segja lífsmáti? Á hverri stundu erum við stödd einhvers staðar í þessu ferli, frá því að gera Guði óskir okkar kunnar, yfir í að þakka bænheyrsluna til þess að finna frið Guðs innra með okkur. Þannig býr bænin í andardrætti okkar, hún er eins og súrefnið sem við öndum að okkur, stöðug lífgjöf og hreinsun.
Bæn í eitthundrað ár Í þessari bænaviku er það eining kristninnar sem er fyrirbænarefnið og hefur verið svo í eitthundrað ár. Það er eitthvað heillandi við það að taka undir bæn margra kynslóða, bæn sem langamma mín og langafi kunna að hafa beðið á sínum tíma, fyrri hluta 20. aldar. Fyrir um hundrað árum fór einmitt langafi minn, Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason, fyrir hópi manna úr nokkrum trúfélögum á Íslandi sem andmælti nýrri biblíuþýðingu þess tíma og báru þeir erindi sem erfiði, því umdeildu orðalagi var breytt til betri vegar. Einingunni var bjargað.
Í brennidepli bænar okkar er sem fyrr eining kristinna manna. Við biðjum þess að sá kærleikur sem Guð hefur kallað okkur til í Jesú Kristi sé sýnilegur og allar deilur mættu víkja. Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars, Jóh. 13.35. Og við þökkum fyrir það dýrmæta samfélag sem við eigum nú þegar, samfélag um bæn og lofgjörð í stórum hóp kristinna systkina af ótal kirkjudeildum og söfnuðum um víða veröld. Síðan meðtökum við frið Guðs inn í aðstæður kristninnar, frið og sáttargjörð í Jesú nafni.
Davíðssálmur 34 er einn af textum dagsins: Vegsömum Drottinn ásamt mér, tignum nafn hans einum hug. Bæn í einum hug og sameiginleg lofgjörð til Guðs er kjarni samkirkjulegs starfs. Það er sú eining sem við biðjum um án afláts, að öll séum við eitt (Jóh 17) í einum anda. Hvernig við högum skipulagi safnaða okkar er mismunandi og áherslur og kenningar að einhverju mæli líka. En þetta eigum við sameiginlegt að markmið okkar er að lofa Guð. Það er inntak lífs okkar, nátengt hinni stöðugu bæn, að vegsama Guð fyrir sköpunarverkið, fyrir kærleika hans sem birtist okkur í Jesú Kristi, fyrir nærveru hans í Heilögum anda.
Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.