Gleðigangan og Jesúvagninn

Gleðigangan og Jesúvagninn

Hvað er svona merkilegt við þennan vagn? Upp á honum er alls konar fólk. Karlar, konur, samkynhneigt fólk, gagnkynhneigt, tvíkynhneigt, transgender fólk, ungt og gamalt fólk í öllum regnbogans litum. Nú sé ég hann! Hann stendur þarna í miðjum hópnum með dillandi mjaðmir, diskóband um höfuðið og röndótt axlabönd. Hann sést þó varla fyrir öllu dansandi og syngjandi fólkinu á vagninum.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
12. ágúst 2012
Flokkar

Gleðigangan Ég fylgist með gleðigöngunni úr fjarlægð. Skrautlegir vagnarnir, bílarnir, mótorfákarnir, fólkið, tónlistin, dansinn. Allt er þetta svo hressandi og skemmtilegt að stífasta fólk getur ekki annað en dillað sér í takt við tónlistina.

En hvaða vagn er þetta? Hann er ekki jafn stór og vagninn hans Palla eða jafn skrautlegur og margir þessir flottustu. En hann sést vel og það er eitthvað við hann. Hann er vel skreyttur og fullur af fólki, já og stöðugt bætist við þegar nýtt fólk hoppar upp á pallinn. Það er nóg pláss fyrir alla.

Hvað er svona merkilegt við þennan vagn? Upp á honum er alls konar fólk. Karlar, konur, samkynhneigt fólk, gagnkynhneigt, tvíkynhneigt, transgender fólk, ungt og gamalt fólk í öllum regnbogans litum.

Nú sé ég hann! Hann stendur þarna í miðjum hópnum með dillandi mjaðmir, diskóband um höfuðið og röndótt axlabönd. Hann sést þó varla fyrir öllu dansandi og syngjandi fólkinu á vagninum.

Hvílík gleði! Hvílíkt stuð!

Hann dansar þarna á vagninum í öllum litum regnbogans. Hann er hvorki í bláu né bleiku. Hann passar ekki inn í staðalímyndirnar og hefur aldrei gert.

Jesús og staðalímyndirnar Jesús passaði aldrei inn því hann var ekki meðvirkur. Hann gekk ekki um í musterinu með falskt bros á vör og verslaði sér eitthvað fallegt af söluborðunum og fór svo inn í eldhús og baktalaði sölufólkið. Nei, hann sagði það sem honum fannst. Hann velti um borðum og sagði fólki að hundskast út og fara að hegða sér eins almennilega.

Ég sé þetta fyrir mér. Fólkið undrandi og kannski svonlítið hrætt og hann rauðan í framan af reiði. Hann var svo sem ekkert vanur að æsa sig. En hann var vanur að segja það sem honum fannst. Hann sætti sig ekki við óréttlæti þó oft hefði sjálfsagt verið þægilegra að spila bara með en að vera leiðinlegi gaurinn. Hann hefði aldrei passað inn í staðalímyndir. Hann hefði sjálfsagt grátið á almannafæri yfir ofbeldinu á útihátíðinni í stað þess að segja að hátíðin hafi gengið vel fyrir utan nokkrar nauðganir, misþyrmingar og fjölda fíkniefnabrota. Hann hefði aldrei sætt sig við að transfólk fengi ekki að heita nöfnum sem passar við þeirra sanna kyn. Hann hefði aldrei sætt sig við að sumt fólk fengi að ganga í hjónaband en annað ekki. Hann hefði staðið uppi á einum flottum Jesúvagni í Gleðigöngunni og fagnað því hvað samkynhneigt-, tvíkynhneigt- og transfólk hefur náð langt í réttindabaráttu sinni. Hann hefði staðið þarna með fánann sinn og glaðst yfir því að við erum að skilja það betur og betur að öll fáum við pláss í þessum heimi.

Réttindabaráttan og staðalímyndir Kannski hefur þessi áhersla á gleðina í menningu samkynhneigðra og hið jákvæða, komið þeim svo langt sem raun ber vitni enda er gleðin líklega beittasta vopnið þegar allt kemur til alls. Það er frekar ótrúlegt að hugsa til þess í dag að aðeins eru fáir áratugir síðan samkynhneigt fólk þurfti að flýja land til þess að geta lifað eðlilegu lífi.

Því miður er ekki sömu sögu að segja um allan heim en Ísland er meðal þeirra landa sem standa fremst þegar kemur að réttindamálum samkynhneigðra. Nú fyrir helgi olli tónlistarkonan Madonna miklum usla þegar hún lét í ljós stuðning sinn við réttindabaráttu samkynhneigðra í Rússlandi en þar eru réttindamál samkynhneigðra meðal annarra skammt á veg komin.

Undanfarið hefur réttindabarátta transfólks verið nokkuð í umræðunni en þau eiga lengra í land með að ná fullum lagalegum réttindum og skilningi fólks á aðstöðu sinni er snýst um kynvitund.

Á fyrsta degi Hinsegindaga var heimildamyndin ”Hrafnhildur” frumsýnd. Myndin fjallar um Hrafnhildi sem fæddist með karlkyns æxlunarfæri og fékk ekki að vera kona fyrr en hún komst í kynleiðréttingu fyrir þremur árum. Hrafnhildur segist hafa þurft að berjast við staðalímyndir alla tíð. En þar sem hún fæddist í karlkyns líkama var ætlast til að hún hegðaði sér eins og samfélagið er búið að ákveða að drengir eigi að gera.

Staðalímyndir er líklega ett besta vopnið til að viðhalda fordómum gagnvart fólki. Við erum öll merkt við fæðingu með bleiku eða bláu. Þar með vita allir hvernig á að umgangast okkur svo hægt sé að ýta okkur vel inn í ferköntuðu hólfin sem okkur eru ætluð. Annað hólfið er bleikt en hitt er blátt. Þar lærum við fljótt hvernig við eigum að vera til þess að vera normal og passa inn.

Leikfangaframleiðendur vita þetta. Fatahönnuðir eru með þetta á hreinu. Walt Disney kvikmyndasamsteypan græðir stórar upphæðir á þessari tvískiptingu og ekki má gleyma rithöfundum sem skrifa stráka- og stelpubækur.

Leikfangaframleiðandinn Lego veit hvernig á að græða á staðalímyndunum og hefur nú búið til bleika línu fyrir stelpur en allt annað Lego er fyrir stráka. Þ.e. þetta ”venjulega”.

Snyrti og hárgreiðsluvörur fyrir börn eru miðaðar við stelpur því strákar eiga ekki að dunda sér við að mála sig eða greiða. Stelpur læra það aftur snemma að þær eiga að vera sætar.

Hvað gerist síðan þegar þú finnur þig ekki í Disney myndunum eða bleika kjólnum ?

Hvernig bregðast krakkarnir á leikskólanum við stelpunni sem ekki vill vera prinsessa eða stráknum sem valdi sér bleik stígvél?

Jú, þau gera grín að þeim því að samfélagið allt kennir börnunum að svoleiðis á þetta að vera og þau ná í bleika eða bláa límmiðann og líma hann á barnið og bjarga því frá að vera öðruvísi.

Gleðigangan Sá Jesús sem birtist okkur í guðspjalli dagsins í dag veit að oft þarf að berjast fyrir réttlætinu og hann lagði sitt af mörkum. Hann var manneskja sem fann til og þorði að sýna tilfinningar. Hann reiddist og syrgði en hann gladdist líka enda kom hann í heiminn með gleðiboðskapinn um Guð.

Eftir stutta stund verður Freyja Sól fermd. Hún hefur búið í Barcelona undanfarin ár og henni þótti vel við hæfi að fermast í Gleðimessu. Kæra Freyja, þú hefur nú þegar hoppað upp á vagninn með Jesú og ert með honum í Gleðigöngu lífsins en ætlar að staðfesta það upphátt í dag í áheyrn fjölskyldu, vina, safnaðarins hér í Grafarvogi og í áheyrn útvarpshlustenda.

Það stórkostlega við að vera með á vagninum hans Jesú sem dreginn er af Guði, er að þá ertu búin að gefa Guði leyfi til að vera þátttakandi í þínu lífi og kippa þér upp á vagninn aftur ef þú einhvern tíma fellur af honum.

Til hamingju með þessa ákvörðun!

Ég er enn að fylgjast með göngunni. Það bætist stöðugt í hópinn á Jesúvagninum. Ég sé þig og þig. Og þig. Þarna er gott að vera. Gleðimegin í lífinu.

En allt í einu rennur upp fyrir mér ljós! Ég sé ekki bara homma og lesbíur, transfólk, klæðskiptinga og gagnkynhneigt fólk. Ég sé þig og mig. Ég sé manneskjur sem eru ekki í tveimur kössum, einum bleikum og öðrum bláum. Ég sé fólk í öllum regnbogans litum. Manneskjur.

Og ég er sannfærð um að Guð sem er ást, ljós og hið góða í heiminum er ánægð með fólkið sitt í dag. Amen.