Samkvæmt Morgunblaðinu í gær hefur verð á áli í heiminu, ekki verið hærra í átján ár. Ætla Íslendingar þá að byggja fleiri álver, ráðast í fleiri virkjanaframkvæmdir? Það lítur út fyrir það, en hvað með okkar einstaka land, hvað með hið lífsnauðsynlega andrúmsloft? Svo ekki sé talað um annað! Fleira úr Mogganum. Breskir stjórnmálaskýrendur segja líklegt að Tony Blair ætli að sitja áfram á forsætisráðherrastóli í Bretlandi, þrátt fyrir ósigur flokksins í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Hefur Tony Blair setið á friðarstóli? Hvernig eiga komandi sveitastjórnarkosningar eftir að fara á Íslandi, í Vestmannaeyjum? Ég lá svolítið í Mogganum í gær! Skrifað var undir friðarsamning í Darfur í Súdan, og vonast er til að stríðandi fylkingar haldi þann frið og þróunin verði í lýðræðisáttir, þar sem frelsi og manngildi fá að njóta sín. Við biðjum að sú verði raunin. Að lokum að öðru máli sem stendur okkur nærri, sem viðgengst á mörgum heimilum í Vestmannaeyjum, sem og á landinu öllu, og vekur áhyggjur margra. Piltar skoða klám og stúlkur eru fyrri til kynlífs, segir í niðurstöðum nýrrar rannsóknar um kynhegðun ungs fólks og kyferðislega misnotkun sem Barnaverndarstofa og Rannsóknir og greining kynntu í gær. Þær niðurstöður vekja óhug og áhyggjur hjá manni, og mikilvægt er að samfélagið sé meðvitað um þá menningu og neyslu klámefnis sem viðgengst hjá ungu fólki í dag. Hvernig er samskiptum kynjanna háttað? Hvaða ímyndir og fyrirmyndir hafa unglingarnir? Erum við hin fullorðnu í stakk búin að ræða þessi mikilvægu mál? Hvernig á að bregðast við? Þau eru margslúngin viðfangsefni nútímans. Upplýsingaflæðið er svo gríðarlegt og möguleikarnir að fylgjast með ólíklegustu hlutum óendanlegir. Spurningin vaknar: Er svo mikið upplýsingaflæði alltaf af hinu góða? Kunnum við að vinna úr upplýsingum? Með allar þessar myndir í huga er gott að vita og trúa því að Guð starfar í heiminum. Það er nú meiri sólardagurinn í dag! Náttúran öll ber þess vitni að Guð er til. Sumarið er handan hornsins, fuglar farnir að syngja í mó og lundinn kominn heim. Alls staðar skartar náttúran þessum táknum og merkjum að lífið sigrar, þrátt fyrir allt. Annar Jesaja, lexía dagsins, ávarpaði Ísrael í útlegð með boðskap um von og gleði. Þar er borin saman endurkoma úr útlegð og hinn nýji Exodus. Hér sem víðar í Biblíunni er að finna tilvísun aftur til sögunnar um brottförina frá Egyptalandi. Hér birtist tenging milli atburða fortíðarinnar og óvissutíma framtíðarinnar. Óvissan fylgir manninum ávallt. Stórar spurningar brenna á: Ber okkur gæfa til að nýta og varðveita landið okkar og auðæfi á farsælan máta? Hverjar verða niðurstöður sveitastjórnarkosninga í vor? Næst friður í heiminum? Eru unglingar dagsins í dag að skaðast á neyslu kláms og ofbeldisefnis í sjónvarpi og tölvum? Í hinu nýja og framandi er bæði að finna von en einnig ótta mannsins sem þráir stöðugleika og stjórn. Í slíkri stöðu er gott að vita að Guð starfar í heiminum. Eins og segir í lexíunni: ,,Sjá, nú hef ég nýtt fyrir stafni, það tekur þegar að votta fyrir því sjáið þér það ekki?" (Jes. 43:18) Biblían bendir til Guðs og gefur okkur færi á að starfa á vegi sannleikans. Boðskapur Ritningarinnar getur fært okkur dug og þor til að takast á við erfið verkefni dagsins, þannig að þau komist í farsæla höfn. Með ólík trúarbrögð heims í huga má Biblían hins vegar aldrei verða að vopni í hendi mannsins. Í heimi bókstafshyggju er sú hætta sérstaklega fyrir hendi, þar sem heilög ritning er ekki túlkuð heldur notuð sem vopn í baráttu við önnur trúarbrögð. Vitið þið að talið er að bókstafshyggja sé sú grein guðfræði og trúarlífs sem vex hvað mest ásmegin í heiminum í dag? Þá á ég við bókstafshyggja bæði innan kristninnar sem og innan annarra trúarbragða, svo sem Múhameðstrúar. Slík afstaða býður hættunni heim. Slík afstaða getur verið fordæmandi og kúgandi, þar sem rætur ofbeldis geta náð festu og dafnað. Skilningur á gömlum textum, og þar með helgum textum, krefst ávallt ákveðinnar túlkunar. Taka verður tillit til þess menningarlega samhengis sem við lifum í dag, sem og þess samhengis sem textinn er skrifaður inn í. Taka verður tillit til ólíkra tungumála og þeirra takmarkana sem þýðingar hafa í för með sér. Síðan verður að hafa í huga, að sá sem les hefur áhrif, sá sem heyrir leggur mat og hefur áhrif, og þannig mætti lengi telja. Augljóst er að meðferð helgra texta er vandmeðfarin, en mikilvæg. Í grundvallaratriðum eru manneskjur heimsins allar jafnar, og einnig jafnar í takmörkunum sínum. Allar manneskjur eiga það líka sameiginlegt að leita tilgangs og merkingar, og vera að glíma við stór verkefni umhverfis, stjórnmála, lífs og tilgangs. Biblían er lifandi orð sem geymir veginn að sannleikanum. Getur verið að í rótum annarra trúarbragða leinist líka sannleikur? Það er ekki ólíklegt! Mikilvægt er því að hlusta og virða önnur trúarbrögð og það sem heilagt er fyrir þeim manneskjum sem tilheyra þeim trúarbrögðum. Innan annarra trúarbragða er einnig reynt að nálgast þann veruleika að hið æðra sé til. Flest trúarbrögð hafa það að marki sínu að finna vilja hins æðri máttar. Hins vegar er eins mikilvægt að við þekkjum okkar kristna grundvöll, og stöndum fast á honum. Í kristninni er fólgin leið sátta, fyrirgefningar, virðingar, mannhelgi og friðar. Slíkt á ávallt að vera okkar leiðarljós. Biblían má aldrei verða tæki til kúgunar eða niðurlægingar. Orð sannleikans sem Biblían geymir, verður virkt þegar það er lesið og iðkað með þá sannfæringu að Guð starfar í heiminum. Síðan starfar Guð! Síðan starfar Guð í heiminum! Alls staðar, alltaf. Guð ritningarinnar kallar lærisveina sína til ábyrgðar, okkur hér í fortíð nútíð og framtíð. Eins og segir í Hebreabréfinu þá eigum við að stefna eftir því að játa Guð með hjálpsemi og velgjörð, samhliða því að lofa nafn hans og biðja. Því Guð starfar í heiminum og vill fá verkamenn til starfa í ríki sitt. Í lokaversunum tveimur í Hebreabréfinu krefur Jesús manninn um að færa fórnir, ekki dýra- eða matarfórnir, heldur fórnir í lofgjörð (sjá Hós. 14.3), góðum verkum og í því að deila því sem við höfum, með öðrum (Róm. 12.1). Þessar fórnir Nýja sáttmálans eigum við stöðugt að færa. Samkvæmt Gamla sáttmálanum voru fórnir færðar á ákveðnum tímum, við ákveðin tækifæri, en hjá kristnum mönnum stígur stöðug lofgjörðarfórn til himna. Við eigum að biðja án afláts, fyrir réttlátari heimi, fyrir þeim sem fara með opinber mál samfélagsins, fyrir ungu kynslóðinni, og fyrir okkur að öðlast kjart, dug og þor að geta tekist á við stóru mál tilverunnar, stóru mál dagsins í dag. Að biðja án afláts felur það í sér að við hvert fótmál lífsins, eigum við bæn í brjósti eða á tungu. Hvort sem við erum í bílnum á leið til vinnu, þegar við mætum manneskju á götu, þegar við göngum upp á Helgafell, Eldfell, Heimklett eða í Ystaklett. Ávallt skulum við vera með þeim bænarhuga, og veita þá lofgjörðarfórn. Guðspjall Jóhannesar er ljóðrænast af guðspjöllunum fjórum. Textinn sem lesinn var hér áðan, um nærveru Jesú geymir mörg stef. Eitt þeirra vil ég taka upp hér í þessum fáu orðum. ,,Innan skamms" hefur gríðarlega mikið vægi í þessu samhengi. Jesús sagði að hann myndi nú ,,innan skamms", og vísar í þeim orðum til síns Guðlega og mannlega eðlis. Hið fallega dæmi um fæðingahríðir konunnar í textanum, þar sem erfiðleikarnir snúast í fönguð, þegar barn er fætt, skilst af öllum menningarheimum og trúarbrögðum um víða veröld. Samanburðinum er lýst í framhaldinu: Þjáningarfullar aðstæður geta snögglega breyst í gleðiatburð og þá gleymist öll þjáningin. Huggunina er að finna í fagnaðarerindinu um Jesú Krist, dauða hans og upprisu. Það má líka orða það svo: Skýin hylja sólina en sólin er samt til staðar. Eins má segja að hin ýmsu vandamál hylji ásjónu Krists fyrir okkur, en hann er samt til staðar. Og að verki í heiminum, öllu lífi til góðs og grósku. Í Davíðssálmi 30 segir: "Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni." Annar staður í Biblíunni sem geymir svipaðan boðskap segir: (Jes. 54.7) "Skamma stund yfirgaf ég þig, en með mikilli miskunnsemi tek ég þig að mér." Og Páll segir í Róm. 8.18: "Ég lít svo á, að ekki séu þjáningar þessa tíma neitt í samanburði við þá dýrð, sem á oss mun opinberast." Ísraelsmenn syrgðu en Drottinn leiddi þá aftur í land þeirra. Lærisveinarnir syrgðu en Jesú reis upp frá dauðum. Drottinn segir stöðugt: Ég mun aldrei sleppa þér né yfirgefa þig. Ég mun bjarga þér, frelsa, þú ert minn. Ég vil bæta hér við örlítilli sögu um hvaðan hjálpin kemur - sama hversu vandræðin eru mikil, erfiðleikarnir okkar, og gröfin er djúp þá er hjálp Drottins alltaf við höndina. Maður nokkur féll í gryfju og komst ekki hjálparlaust upp úr henni. Heimspekingur gekk þar hjá og sagði: "Þú heldur bara að þú sért í gryfju." Farísei kom þar að og sagði: "Það eru bara slæmir einstaklingar sem falla í gryfju." Bókstafstrúarmaðurinn sagði: "Þú átt skilið að vera þarna." Meþódistinn sagði: "Við komum með örlítinn mat og klæði fyrir þig svo þér liði vel í gryfjunni." Bjartsýnismaðurinn sagði: "Þetta gæti verið verra." Og svartsýnismaðurinn sagði: "Bíddu bara, þetta á eftir að versna!" Jesús Kristur sá manninn, rétti fram höndina og dró hann upp úr gryfjunni. Þegar við höfum þá trú að Guð muni vel fyrir sjá og elski, þá færir það okkur frið, jafnvel þó við þekkjum ekki framtíðina til fullnustu, því endirinn er okkur ljós. Í glímunni að nýta og vernda, umhverfi og náttúruauðlindi. Í pólitísku argaþrasi, og með afbrigðileg birtingarform kynlífs og samskipta kynjanna sem börnin nálgast á neti og víðar, skulum við vera samverkamenn Drottins og biðja, boða og þjóna, með því að láta gott af okkur leiða. Við þekkjum endinn á öllu, Drottinn mun sigra að lokum, réttlæti Guðs nær fram að ganga. Það er boðskapur Biblíunnar, trú lærisveinanna, á þeim vegi sannleikans skulum við ganga. Enginn tekur þann gleði fögnuð frá hinum trúaða. Því ekkert getur gert okkur viðskila við þann kærleika Guðs. Amen.