Kirkjuverðlaun og kvikmyndahátíðir

Kirkjuverðlaun og kvikmyndahátíðir

Í fyrsta pistli mínum um Gautaborgarhátíðina og kvikmyndaverðlaun sænsku kirkjunnar kynnti ég stuttlega verðlaunin og hátíðina. Í framhaldi af því langar mig til að beina kastljósinu að kirkjulegum kvikmyndaverðlaunum.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
03. febrúar 2006

Í fyrsta pistli mínum um Gautaborgarhátíðina og kvikmyndaverðlaun sænsku kirkjunnar kynnti ég stuttlega verðlaunin og hátíðina. Í framhaldi af því langar mig til að beina kastljósinu að kirkjulegum kvikmyndaverðlaunum.

Á Norðurlöndum hefur sænska kirkjan haft frumkvæði á þessu sviði. Kvikmyndaverðlaun hennar voru fyrst veitt árið 2002. Mér er ekki kunnugt hver átti frumkvæði að þessu, en veit það þó fyrir víst að Gautaborgarstifti, ekki síst fyrir tilstuðlan prestins Mikael Ringlander, hefur lengi verið til fyrirmyndar hvað samræðu kvikmynda og kirkju varðar.

Hér á landi hefur rannsóknarhópurinn Deus ex cinema staðið fyrir afar þróttmiklu starfi á sviði guðfræði og kvikmynda frá árinu 2000. Hópurinn var stofnaður 4. júlí á því ári og síðan þá hafa meðlimir hópsins staðið fyrir vikulegum seminörum um guðfræði og kvikmyndir, gefið úr þrjár bækur um þessi mál, fjallað um meira en 400 kvikmyndir á vef hópsins (www.dec.hi.is) og staðið fyrir fjölda málþinga, fyrirlestra og námskeiða.

Margir meðlimir Deus ex cinema eru jafnframt virkir í kirkjulegu starfi og víst er að Þjóðkirkjan hefur að mörgu leyti verið opin fyrir þessu samtali guðfræði og menningar. En það er spurning hvort ekki sé tími til kominn að stíga fleiri skref. Ein leið til þess gæti verið að koma á fót verðlaunum af svipuðu tagi og sænska kirkjan veitir í Gautaborg. Kannski er lag að gera það nú þegar aftur er að verða til kvikmyndahátíðamenning á Íslandi.

Mér dettur tvennt í hug og vil varpa því fram til umræðu á þessum vettvangi:

Annars vegar að veita verðlaun á annarri af stóru hátíðunum tveimur, í apríl-maí eða september-október. Verðlaunin mætti tengja við verðlaun sem eru/verða veitt á þeim hátíðum.

Hins vegar að fá kirkjurnar á Norðurlöndum til að standa saman að verðlaunum í tengslum við kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs. Um þau keppa vandaðar myndir frá öllum Norðurlöndunum. Slík verðlaun gætu fengið mikla alþjóðlega athygli.

Svo er auðvitað spurning hvort eitt þarf að útiloka annað.