Hvað segir ferðasaga þín?

Hvað segir ferðasaga þín?

Segðu mér ferðasögu þína og þá kemur í ljós hver þú ert. Guð segir þér ferðasögu sína til að þú vitir hver Guð er. Fastan er hentugur íhugunartími. Varpaðu lífssögu þinni upp á skjá hugans og berðu svo söguna þína fram fyrir hinn mikla ferðafrömuð og fararstjóra.

Hann tók þá tólf til sín og sagði við þá: Nú förum vér upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum. Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa.

En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það, sem sagt var. Lúk. 18. 31-34

Hvað segir ferðasaga þín?

Hvert ætlar þú? Ferðaskrifstofurnar senda þessa dagana stórkostlega bæklinga um allar ferðirnar, sem eru í boði. Plúsferðir sendu bækling í gær, Flugleiðir líka, San Fransisco heillar. Svo komu bæklingarnir frá Heimsferðum og Úrval Útsýn í gærkvöldi og morgun.

Fyrir nokkrum árum voru það fyrst og fremst sumarleyfaferðir við Miðjarðarhaf, sem voru auglýstar. En nú eru boðnar ferðir um allan heim, á öllum árstímum, lúxusferðir á skipum um öll heimsins höf, hnattferðir með einhverjum spennandi áfangastöðum í Austurlöndum fjær. Haustferðir og borgaferðir, sérferðir og furðuferðir, lögfræðingaferðir, læknaferðir, kvennaklúbbaferðir og Kanarí. Allt í boði og flest spennandi. Stór hluti þjóðarinnar á fleygiferð, ekki aðeins innan lands heldur í fjarlægum menningarkimum. Við sjáum jafnvel á messusókninni að Kanarítíminn er hafinn, mörg þeirra sem sækja Neskirkju reglulega eru erlendis. Kannski ættum við Nessöfnuður að fara að halda úti guðsþjónustum suður á Kanarí því svo margt af okkar sóknarfólki er þar syðra. Alveg værum við prestarnir til í að vísitera og messa í þeirri annexíu einstaka sinnum!

Fastan er ferðalag

Fastan er að byrja. Við erum líka á ferð í tíma, miðja vegu milli jóla og páska. Kirkjualmanakið litar tíðir og stemmingu. Í hinum vestræna heimi er fólk að skemmta sér þessa helgi, með áti, drykkju, karnivalgöngum og sprelli. Þennan morgun ráða timburmen víða og kannski þrekið til kirkjugöngu ekki mikið! Við eigum okkar útgáfu af föstuundirbúningi í mynd bolludagsins og sprengidags. Svo gengur sjö vikna fasta í garð á öskudegi. Þá hefst gangan Jesú og kirkju hans til Jerúsalem. Það er mikil ferð, sem hefur verið túlkuð, lifuð og endursögð með fjölbreytilegu móti. Passíusálmar er ein útgáfan.

Jesúferðin – upp til Jerúsalem

Í dag er Jesús í hlutverki fararstjóra. Hann er á ferðafundi með lærisveinunum og segir þeim að nú sé komið að því að halda í hann. Litla Jesúferðaklúbbnum finnst það spennandi. Þeir eru að fara í höfuðborgareisu. Vissulega er ekkert áhlaupaverk að rjúka þangað. Allt er upp á móti, enda segir Jesús þeim: “Nú förum við upp til Jerúsalem.” Borgin liggur hátt, í um 800 metra hæð. Til að fá tilfinningu fyrir þeirri hæð er er ágætt að muna að það er nærri hæð Esjunnar. Jesús í fjallaferð.

Frásögn af ferðafundinum er undarleg. Fararstjórinn gefur mjög nákvæmar upplýsingar um hvernig ferðin muni þróast en ferðarfélagarnir skilja ekkert. Þeir eru með hugann við allt annað en raunveruleikann, sem Jesús kynnir þeim. Þeir vilja gjarnan upplifa eitthvað stórkostlegt. Einhverjir töldu, að Jesús myndi verða hinn pólitíski frelsari Gyðinga og þessi ferð yrði fyrsta alvöru atlagan gegn Rómverjum. Þeir hafa haft fulla trú á að þessi mikli ræðusnillingur og kraftaverkamaður myndi snúa sig - og þá - út úr öllum hugsanlegum klípum.

Stórslysaferð

Fararstjórinn segir, að ferðin verði með eftirfarandi móti: Allt sem sagt er í gömlum spádómum um Mannsoninn muni rætast. Hann verði framseldur, hæddur, misþyrmt, á hann verði hrækt, hann húðstrýktur, líflátinn og síðan muni hann rísa upp að nýju á þriðja degi! En um viðbrögð ferðafélaganna segir: “Þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.”

Þetta er eitthvert kostulegasta ferðaupphaf sem ég hef heyrt um. Hefur þú einhvern tíma heyrt um að heill ferðahópur hafi lokað eyrum gagnvart ferðaráætlun? Viltu ekki vita hvernig fyrirhuguð ferð er skipulögð? Myndir þú fara í ferð, ef stjórnandinn spáði ofsóknum, að hann yrði limlestaður, hæddur og síðan líflátinn? Ég myndi ekki treysta mér í slíka höfuðborgarferð!

Tími íhugunar en ekki sjálfspíslar

Krossinn var borinn inn fyrir kór og prestum. Krossburðurinn er til að minna okkur á hvað kirkjan er, fyrir hvað hún stendur, hver ferðaáætlun kristins lýðs er. Krossinn er ferðarlýsing og tákn. Síðan blasir krossinn við okkur alla messuna og talar til okkar. Svo byrjar fastan hjá okkur og við förum í þessa ferð um föstutímann, með Jesú. Hvernig verður þín ferð þessa föstu?

Á fyrri tíð föstuðu menn til að skerpa íhugun, ganga á vit hinum dýpri trúarlega veruleika. Tilgangur föstunnar var ekki að pína sjálfan sig með því að nota ekki fæðu, heldur að minnka fæðu til að skerpa hina andlegu sjón. Meinlæti af hörkutaginu hefur engan trúarlegan tilgang. Kristnin er veislutrú og leggur áherslu á lífið og gleðina. Fastan er ekki og á ekki að vera skuggalegur tími depurðar og sorgar yfir vonsku mannanna, eigin illsku eða gæskuskorti. Fastan er fremur tími til að skoða líf, starf, stöðu, gerðir, boðskap og sögu Jesú. Er það ekki saga elsku og gæsku?

Á föstutímanum er Jesús á leið til Jerúsalem og við erum á þeirri fjallgöngu með honum. Fjallgönguferðir eru skemmtilegar. En hins vegar var fararstjórinn handtekinn á fjallstoppnum og síðan líflátinn. En sá myrki vonskutími hófst ekki fyrr en að kvöldi skírdags. Vafalaust hefur Jesús verið angistarfullur á ferðinni, en pínan hefst ekki að fullu fyrr en í kyrruviku, á skírdegi fyrir páska. Leyfum depurðinni að bíða þess tíma.

Ferðasögur

Ferðir enda og við segjum sögur af ferðunum. Ferðasögur eru sérstaklega áhugaverðar og ég held að slíkar sögur segi ekki bara hvernig ferðir hafa verið, heldur líka mikið um afstöðu fólks til eigin lífs og hvernig það lifir. Ferðasaga þín er sem spegill þíns lífs - segir hver þú ert!

Rosalegar ferðasögur um kortastuld, svikula ferðaskrifstofu, slæmt veður í sólarlöndum, lélega þjónustu, drykkfelda og hávaðasama ferðafélaga, matareitrun og svo framvegis eiga auðvitað stundum við eitthvað að styðjast. Slys og veikindi eru eitt, en þegar sama fólkið lendir alltaf í slíkum hörmungum og harmkvælum er illa komið.

Svo eru hin, sem segja töfrandi undrasögur sem fylla eyrun af músík, nefið af lykt, og hugann af fögnuði: "Þetta var dásamleg ferð, við upplifðum svo margt. Landslagið var heillandi. Ljósaskiptin voru ljómandi, dans skugga og sólstafa með ólíkindum. Lyktin þrungin og áleitin, skerpti ímyndunaraflið. Augnaráð fólksins var sérstætt. Dýpt menningarinnar snart djúpt.” Það er lífs-þyrsta og glaða fólkið sem miðlar okkur svona sögum af hinu hrífandi, gefur af örlæti sínu, stráir lífsgulli sínu.

Fólk sem segir frá skemmtilegum ferðum og litríkum ævintýrum er auðvitað ekkert fullkomið. Það lendir í djúpum sorgum í lífinu eins og aðrir og verður fyrir sjúkdómum og missi líka. En það hefur í sér þessa aukavídd, þennan bónus að geta upplifað perlur á sorgarhafsbotni, ljósbrot í myrkri, augnablikshamingju í hremmingum, séð hið hlálega í grafalvarlegum aðstæðum, - í stuttu máli numið hið dýrlega í veröldinni.

Ferðasagan þín segir hver þú ert

Hin, sem ekkert eiga nema sorglega ferðasögu eru oft að tjá fremur persónuleg vandkvæði, depurð eigin lífs fremur en ferðar. Hvaða sögu segir þú af ferðum þínum? Staldra við og spyrðu þig um ástæður og samhengi. Hvað veldur því, að þú segir svona sögur en ekki öðru vísi? Sorglegar sögur þarf að segja, depurð þarf að tjá. En það er ekki heppileg leið til að leysa sálarháska að segja sorglega ferðasögu! Eru ferðir þínar, göngur þínar, gleðilegir lofsöngvar um lífið og gjafara lífsins - eða er líf þitt þitt heldur hræðslusmáferðir um kringlur bana og depurðar?

Ferðasaga þín er þinn eigin spegill, sem þú þarft að bregða upp, skoða vandlega til að íhuga og greina hvert líf þitt er. Hún er daggardropi litrófs þíns og safnar og sýnir vel hver þú ert.

Ferðasaga Guðs – hver Guð er

Ferðasögur eru með ýmsu móti. Föstusagan er einn kafli í stórsögu, sem Guð hefur sagt um sig, ferðasögu, sem á sér upphaf í elsku til þín, vilja til að ganga með þér á þinni för. Það er saga um makalausa för um mennskan móðurlíkama konu, uppvöxt í mannheimi, mannkyni í gleði og sorg, gæsku og grimmd, reynslu af þér og mér og síðan hvernig allar ferðasögur mannanna komu saman í krossi á hæð, angist og dauða. Þeirri sögu lauk þó ekki á Golgatahæð heldur hélt hún áfram í grafhýsi, steinveltu, furðu lostnu fólki sem sviptist úr sorg í gleði. Það er ekki saga um lélegt hótel Jörð, töpuð kort og leiðinlega ferðafélaga, heldur um að lífið er gott, litríkt, ástríkt, vonbjart, svo skemmtilegt og mikilfenglegt. Það er ferðasaga Guðs, sem allar smásögur okkar mega ganga upp í.

Hver ert þú? Hver er ferðasagan þín? “Tilvera okkar er undarlegt ferðalag” segir Tómas. Notaðu föstuna til að varpa þinni lífssögu upp á skjá hugans, segðu fólkinu þínu hver þú ert og hvað þú upplifir og berðu svo söguna þína fram fyrir hinn mikla ferðafrömuð og fararstjóra, sem hefur tjáð þér sína sögu í fyllingu lífs - dauða og síðan lífs.

Segðu mér ferðasögu þína og þá kemur í ljós hver þú ert. Guð segir þér ferðasögu sína til að þú vitir hver Guð er.