Margir á meðal fyrstu lesenda guðspjallanna þekktu Jesú persónulega, höfðu séð hann, hlustað á hann og verið með honum samvistum um lengri eða skemmri tíma, notið þjónustu hans og máttarverka og deilt með honum kjörum. Guðspjöllunum ber saman í meginatriðum um atburðarásina sem átti sér stað við gröfina í kirkjugarðinum á þriðja degi eftir dauða Jesú á krossinum.
Tímasetningin er samhljóða eða „mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás“., eins og segir í guðspjalli Markúsar sem hér var lesið.
Þess vegna er messað víða í kirkjum landsins og um heim allan árla morguns á páskadegi eins og við gerum hér.
Atburðalýsingin í guðspjöllunum við gröfina er nákvæm. Fyrstu heimildirnar um þennan atburð voru ritaðar innan tveggja áratuga frá því að gerst hafði. Sagan hefur í upphafi borist á meðal fólksins í samfélagi hinna fyrstu safnaða. Frá því er sagt í Postulasögunni hvernig söfnuðir mynduðust um reynslufrásagnir fólks af samvistum með Jesú á jarðneskum dögum hans. En það sem öllu breytti var þessi atburður við gröfina á þriðja degi eftir krossfestinguna. Upprisa Jesú Krists frá dauðum. Fyrstu viðbrögðin kvennanna við gröfina, og síðar einnig hjá lærisveinunum, eru svo mannleg. Undrun og skelfing. Hvað hefur eiginlega gerst? Þetta kom gjörsamlega í opna skjöldu. Gröfin var tóm.
Lúkasarguðspjall segir frá því, að þegar konurnar sögðu lærisveinunum frá því sem borið hafði við, „þá töldu þeir orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki“. Pétur hljóp því til grafarinnar, „skygndist inn og sá þar líkklæðin ein. Fór hann heim síðan og undraðist það, sem við hafði borið“.
Konur þóttu nú ekki merkilegir sendiboðar stórra tíðinda samkvæmt gildismati á þeim árum.
Það er svo sérstakt með stærstu viðburði í hinni kristnu sögu, að þar eru í lykilhlutverkum einmitt þau sem áttu minnst undir sér og þar sem síst skyldi, þvert á viðteknar venjur og jarðneskt skipulag þeirra tíma.
Dæmi um það eru konurnar við gröfina, fjárhirðarnir á Betlehemsvöllum, og börnin, sem hinir fullorðnu ráku frá Jesú, en hann tók þau í faðm sér og líkti þeim við Guðsríkið sjálft. Guð fer ekki í manngreinarálit eða lætur hégóma mannsins ráðskast með sig.
Og sögurnar allar af samskiptum Jesú við þau sem minnst máttu sín og hafa lagt grundvöll að siðrænum viðmiðunum um réttlæti og mannskilning og heilagan lífsrétt, að allir eru jafnir frammi fyrir Guði. Dæmisagan um miskunnsama Samverjann er táknræn fyrir það.
Sagan af upprisunni á páskadagsmorgni kom því ekki með boði frá veraldlegu valdi að ofan, heldur kom að neðan frá alþýðufólki sem reyndi atburðinn sjálft, sá með eigin augum gröfina tóma.
Sagan festi djúpar rætur og hefur haft meiri áhrif á mannlíf aldanna en nokkur önnur. Um það getur enginn efast. Hvað stendur þar að baki? Hvernig gat það gerst? Er það kraftaverk sem ómögulegt er að skýra með rökum mannlegrar skynsemi? Miklu afli hefur þó verið beitt um aldirnar, og oft með öllum ráðum og tækjum, til að úthýsa þessari sögu, afmá úr vitund einstaklinga og þjóða, og enn er það gert í mörgum heimshornum, og ekkert til sparað í þeim efnum.
Á Íslandi hefur oft verið efast um sannleiksgildi þessarar sögu og gildi trúarinnar í þjóðlífinu. Um miðja síðustu öld var t.d. aftur og aftur skrifað í í fjölmiðla, að kirkjan væri í andaslitrunum og ekkert eftir annað en að kasta rekunum. Maðurinn væri orðinn svo vitiborinn og fullkominn af sjálfum sér, að hann þyrfti ekki á Guði að halda.
Guð er dauður hefur hinn fullkomni maður samkvæmt skilningi sínum oft hrópað og skrifað um í löngum ritgerðum og bókum. Og er enn að og lætur ekki deigan síga. Ekkert nýtt er við það.
Samt hefur listin hvergi risið hærra í mannsanda sínum en einmitt í lofgjörðinni um sannleiksgildi upprisunnar. Hvort sem litið er til tónlistarinnar, bókmenntanna eða myndlistarinnar. Hvar væri menningin stödd án allra þeirra andans verka? Og siðir þjóða hafa miðað tilvist sína og atferli við inntak trúarinnar sem hvílir á sögunni um upprisuna. Það gerir dagatalið okkar, lögin og samskiptin í dagsins önn. Hvað veldur?
Þar vegur þungt persónuleg reynsla af sambandi Guðs og manns.
Þær eru margar sögurnar sem sagðar hafa verið í aldanna rás um mátt trúarinnar og nærveru Guðs á ögurstundum. Viðbrögð kvennanna við hina opnu gröf eftir krossfestingu Jesú eru einmitt fyrirmynd af reynslu svo margra í ýmsum óvæntum atvikum daglegs lífs. Pétur lærisveinn trúði konunum ekki fyrr en hann hafði sjálfur reynt með því að horfa inn í tóma gröfina.
Og sögurnar af Jesú í samfélagi samferðafólks vitna um upprisu í lífi svo margra, úr myrkrinu inn í ljósið, frá angist til velferðar og frá dauða til lífsins. Þetta var reynsla fólksins af samfélaginu með Jesú.
Að treysta Guði, sjá og reyna, finna fyrir nærveru hans og umhyggju, hafa þrek til að þakka og faðminn svo víðan og opinn að geti rúmað það allt. Þar blómgast reynslusjóður trúarinnar.
Sagan af upprisunni staðfestir svo rækilega að ekki ber allt upp á sama daginn í lífinu.
Það gerist í lífinu sem enginn maður gat reiknað með eða búist við samkvæmt viti sínu og skynsemi. Hver einasti maður hefur persónulega reynslu af slíkum aðstæðum. Ekki þarf veðrið til að staðfesta það, langtum fremur atburðir sem menn telja sig geta haft algjörlega á valdi sínu, en fóru allt öðruvísi en ætlað var og enginn bjóst við.
Það er svo ótalmargt í umhverfi okkar og atburðum sem aldrei verður til hlítar skilið eða útskýrt með skynsamlegum rökum. Ekki einu sinni eftir á.
Eigi að síður verðum við að treysta til að komast sæmilega af, ganga útfrá trausti í samskiptum. Traustið er hornsteinn allra samskipta okkar við samferðafólk og umhverfið. Við treystum því að sólin rísi að morgni, þó maðurinn geti engu um það ráðið, og viti í sjálfu sér afskaplega lítið um sólina, þó allt standi og falli með að hún haldi áfram að skína.
Það er reynsla okkar af sólinni sem vekur með okkur traust.
Sömuleiðis er það reynsla mannsins af Guði sem vekur traust. Í traustinu blómgast trúin þar sem Guð er nálægur í verkum sínum. Það staðfestir upprisa Jesú Krists frá dauðum. Þegar samferðafólk Jesú sá upprisuna í samhengi við verkin hans, dæmisögur og boðskap, þá upplaukst skilningur til trúar sem byggði á trausti reynslunnar.
Spurningin um hvernig gat þetta gerst með skýringum jarðneskrar vitundar varð samofin spurningunni: Treystir þú Guði? Ómálga barnið sem fæðist inn í þennan heim veit ekkert um veröldina og hefur hvorki vit né burði til að gera það. Allt sem barnið getur er að biðja og treysta, treysta ástríkum náðarfaðmi sem umvefur barnið og sér því farborða.
Sama gildir um dauðans dyr þar sem maðurinn fer alslaus héðan af jörð og enginn veit með skýringum jarðneskrar vitundar hvað handan grafar er og gerist. Það einasta sem megnar er að biðja, vona og treysta. Að þar er Guð líka með náðarfaðminn sinn sem tekur á móti og umvefur af miskunn sinni og kærleika.
Upprisa Jesú Krists er boðskapur um lifandi von. Þar reynir á trú í trausti sem opinberast í orðum Jesú: Því að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf sinn einkason svo hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.
Það var einmitt þetta sem konurnar við gröfina vitnuðu um í samræmi við reynslu sína. Þær treystu Guði og í fótsporum þeirra hafa kynslóðirnar gengið og fagnað á páskum af hjartans einlægni í lifandi trú. Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn.
Amen.