Hvað segir maður við 78 ára gamla móður sína þegar hún býðst til að gefa manni nýútkomið Ljóðaúrval Jónasar Hallgrímssonar með þeim tilmælum að ég tali um þjóðskáldið í jólaræðunni. Auðvitað segir maður já, bæði af því að bókin er falleg en ekki síður vegna þess að þegar mamma segir eitthvað með viðlíka þunga í röddinni þá mótmæli ég ekki. Mamma er nefnilega mikill aðdáandi Jónasar Hallgrímssonar og hann er henni svo hjartfólginn að þegar hún og pabbi bjuggu á Hólum í Hjaltadal linnti hún ekki látum fyrr en búið var að koma legsteini yfir gröf Þóru Gunnarsdóttur með lokaerindinu úr ljóði Jónasar Ferðalokum letruðu á steininn. Leiðir þeirra Jónasar og Þóru lágu nefnilega saman forðum á ferð norður yfir heiðar og er talið að með þeim hafi tekist miklar ástir en faðir Þóru lagðist gegn því að hún gengi að eiga fátækan skólapilt og skáld og því giftist hún Halldóri presti í Laufási sem var einmitt faðir Björns Halldórssonar sem orti jólasálminn fagra „Sjá himins opnast hlið.“ Þóra bjó síðar á Hólum og er grafin í kirkjugarðinum þar, beint fyrir framan dyr hinnar öldnu dómkirkju. Mamma upplifði þessa sögu mjög sterkt og kannski ekki síst fyrir það að hún var búin að sitja báða þessa staði Laufás og Hóla sem tengdust Þóru svo sterkt. Mamma er raunar svo hrifin af skáldskap Jónasar og viðkvæm fyrir sögu hans að þegar 10.000 króna seðillinn kom út á dögunum með mynd af skáldinu dreif hún sig þegar í stað í næsta bankaútibú til að verða sér út um seðilinn og gefa yngsta afkvæminu, bara af því að þetta var Jónas Hallgrímsson. Þannig að ég er bara nokkuð sátt við Jónas þessi jólin og tel að hann hafi frekar aukið á gleði mína frekar en hitt. Þó verður ekki framhjá því litið eins og móðir mín benti á um leið og hún afhenti mér seðilinn að það er í raun mjög grátbroslegt að þessi bláfátæki raunamaður skyldi enda framan á verðmætasta peningaseðli sem prentaður hefur verið hingað til. Já maðurinn sem hvílir í týndri gröf í Assistenskirkjugarðinum í Kaupmannahöfn. Maðurinn sem fékk ekki að eiga ást lífs síns. Var komið í fóstur til vandalausra aðeins sjö ára gamall eftir að faðir hans Hallgrímur drukknaði í Hraunsvatni og lést svo sjálfur af sárum sínum eftir að hafa hrasað niður stiga í íbúð sinni í Kaupmannahöfn og fótbrotnað, hann var aðeins þrjátíu og sjö ára gamall þegar hann lést en skyldi eftir sig þvílíka andlegar gjafir sem hafa nært þjóðina í rösklega 160 ár. Nei Jónas hefði ekki órað fyrir að verða myndefni á 10.000 krónaseðli í fjarlægri framtíð, 10 þúsund krónur er sjálfsagt meira en hann hefur aflað á heilli ævi sem var auðvitað alltof stutt. En menningarlegu verðmætin sem hann skildi eftir fyrir komandi kynslóðir þau verða aldrei metin til fjár. Sjálfsagt hefur því verið líkt farið með Maríu og Jósep að þau hafa ekki séð fyrir sér þar sem þau hímdu í gripahúsi í Betlehem, hún með bullandi jóðsótt og hann dauðans stressaður að taka á móti barninu að þau ættu eftir að fást í ýmiskonar útgáfum um allan heim árið 2013 , bæði úr gulli, silfri og postulíni og jafnvel í ætum útgáfum því hvað finnst ekki í sælgætisbúðunum í hinni stóru Ameríku? Og svo Jesúbarnið sjálft, frelsari mannkyns, ætli honum finnist ekki sérstakt að sjá að í dag bera menn og konur um allan heim krossa um hálsinn og suma svo dýra og gimsteinum skreytta að það hálfa væri nóg? Það er að vísu mjög falleg hefð að bera kross um hálsinn og ég er viss um Jesú þyki vænt um það og er glaður að þetta upprisutákn sé svo víða sýnilegt og fólki hjartfólgið. Það myndi enginn bera kross um hálsinn í dag ef Jesú hefði ekki risið upp og gert lífið að sigurvegara. Ég veit að ykkur finnst kannski mjög undarlegt að heyra mig segja frá því hvar ég mætti jólabarninu fyrst á þessari aðventu og hvar ég fann ylinn frá því og þennan þykka kærleika sem er næsta áþreifanlegur. Ég fann það hér upp í kirkjugarði þar sem ég átti stund með foreldrum sex barna og ungmenna sem hafa kvatt þennan heim á síðustu tveimur árum. Við hittumst um kvöld og gengum á milli leiðanna, tendruðum friðarljós og lögðum á hvert og eitt þeirra, mynduðum hring í kringum leiðin og báðum bænar frá hjartanu þar sem við bárum fram fyrir Guð sorgina, söknuðinn en líka þakklæti og gleði vegna þess sem var og býr áfram í minningum og í elskandi hjörtum eftirlifenda, já það eru þessi tengsl sem aldrei rofna og ná langt út yfir gröf og dauða. Þessi andlegu ómetanlegu gæði sem fylgja því að vera manneskja. Svo stóðum við í snjómuggunni á bílaplaninu við suðurenda garðsins, drukkum heitt kakó, föðmuðums og óskuðum hvert öðru gleðilegra jóla. Þegar fólk hefur lifað svo óbærilega sorg sem er að missa barnið sitt, öðlast jólin allt aðra merkingu. Þau hverfa alla leið til upprunans, já til hinna fyrstu jóla og þess vegna fékk ég í þessum annars sárum aðstæðum að taka á móti Jesúbarninu í gegnum hjörtu og sálarlíf foreldranna. Það er pínu erfitt að útskýra þetta. En það sem gerist er að öll ytri umgjörð sem oft krefst svo mikils undirbúnings og fjárútláta verður ósýnileg. Ekki hjákátleg því hið ytra er oft tjáning mannsins á hina innra, ekki síst ef það er innan hófstilltra marka. En þið vitið hvernig það er þegar við setjumst að borðum á aðfangadagskvöld eftir langa aðventu, undirbúning, hlaup og stress og jólin ganga í garð, þá munum við ekki stundinni lengur af hverju við gerðum okkur þetta allt svona erfitt og mikluðum í huga okkar. Mér leið eins og ég væri strax sest við borðið á aðfangadagskvöld þar sem ég stóð þarna í garðinum um miðjan desembermánuð með syrgjandi foreldrum. Og það er bara vegna þess að stundin var helg já eins og stundin sem við lifum akkúrat núna. Stundin var helg, hún var frátekin fyrir hin djúpu tengsl sem jólin snúast á endanum um. Barnið í jötunni er holdgervingur þeirra tengsla sem gefa lífi okkar gildi og fylla það tilgangi. Barnið í jötunni er ástin sem við berum til fólksins okkar, ekki síst okkar eigin barna, og þegar hópur foreldra sem á þá sáru reynslu sameiginlega að hafa horft á bak börnum sínum kemur saman til að minnast og deila tilfinningum sem enginn getur fyllilega skilið nema sá sem hefur reynt, þá verður maður eins og fjárhirðarnir forðum sem krupu við jötu Jesúbarnsins fullir lotningar af því að Jesúbarnið er þessar helgu tilfinningar, sorg og gleði, systurnar tvær hin skilgetnu afkvæmi kærleikans. Ég deili ekki þessari stund í garðinum til að fylla ykkur sektarkennd yfir að hafa beint sjónum ykkar að ytri gæðum í aðdraganda jóla, af því að það geri ég auðvitað sjálf og tel eðlilegt sem þátttakandi í samfélagi sem hefur ýmsa hefðir og siði sem gleðja og næra. Nei ég ákvað að veita ykkur hlutdeild í þessari reynslu svo við getum í sameiningu séð að jólin eru þegar öllu er á botnin hvolft andleg gæði sem sýna sig jafnvel best í sárum og erfiðum aðstæðum þar sem fólk heldur jafnvel að þau muni ekki koma. En þau koma, bara með öðrum hætti og þó að hinn ytri veruleiki geri kröfur á gleði og tilhlökkun þá er það nú einu sinni svo að á hinum fyrstu jólum þegar barnið fæddist í Betlehem réðu aðrar tilfinningar ríkjum, jú vissulega gleði yfir fæðingu barns en líka kvíði og sorg vegna alls þess sem ógnaði tilvist þess og tilvist foreldranna ungu sem áttu ekkert nema ást og trú í hjarta sínu. Já jólin koma og þegar þau koma þá finnurðu að þau eru svo mikið mikið meira en minjagripur um persónur og leikendur á Betlehemsvöllum, þau eru lifandi , ný og sönn í hvert einasta sinn. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Fann Jesúbarnið í kirkjugarðinum
Flokkar