Kærleikurinn er heilsubót

Kærleikurinn er heilsubót

Kærleikurinn er góður fyrir hjartað. Vitað er að fólki með svonefndan A-persónuleika er mun hættara við að fá kransæðasjúkdóma en þeim sem flokkast undir B-persónuleika. A-fólkið er stressað, alltaf á ferðinni og að flýta sér. Tilfinningar á borð við kærleika, fyrirgefningu og samúð frelsa okkur frá því sem gagntekur huga okkar.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
21. maí 2007

Á vefsíðu þáttarins The Spirit of Things á ástralska ríkisútvarpinu ABC las ég áhugavert viðtal við Stephen nokkurn Post. Hann stjórnar stofnun sem rannsakar takmarkalausan kærleika (Institute for the Research on Unlimited Love) við læknadeild Case Western Reserve háskólans í Cleveland í Ohio. Post hefur meðal annars skoðað lífeðlisfræðilegar verkanir þess að vera góð manneskja. Sumar af niðurstöðum rannsóknanna eru birtar í bókinni Why Good Things Happen to Good People.

Kærleikurinn sem Post og samstarfsfólk hans vinnur við að rannsaka er ekki ást á tilteknum hlutum, t. d. rjómaís, heldur örlát og óeigingjörn gæska sem tengir fólk saman.

Kærleikurinn er góður fyrir hjartað. Vitað er að fólki með svonefndan A-persónuleika er mun hættara við að fá kransæðasjúkdóma en þeim sem flokkast undir B-persónuleika. A-fólkið er stressað, alltaf á ferðinni og að flýta sér. Tilfinningar á borð við kærleika, fyrirgefningu og samúð frelsa okkur frá því sem gagntekur huga okkar. Sýnt hefur verið fram á með vísindalegum rannsóknum að slíkar tilfinningar vinna gegn streitunni sem stjórnar lífi okkar. Rannsóknir vísindamanna sýna einnig að þegar við erum öðrum góð og látum okkur umhugað um fólkið í kringum okkur þá hefur það jákvæð áhrif á heilsu okkar.

Post sagði frá niðurstöðum skemmtilegrar rannsóknar sem birtust í nóvember á síðasta ári í hinu virta tímariti National Academy of Sciences í Bandaríkjunum. Þar sátu einstaklingar inni á rannsóknarstofu með mælitæki á höfðum sínum. Fyrir þá voru lagðir listar með ýmsum góðgerðarmálum og þeir beðnir að krossa við þau sem þeir gætu hugsað sér að styrkja með fjárframlögum. Í hvert sinn sem þeir krossuðu við eitthvert málefni urðu heilastöðvar virkar sem skammta út dópamíni, serótóni og öðrum efnum með með vellíðunaráhrif.

Félagsfræðingar hafa í marga áratugi talað um að sá sem hjálpar öðrum, til dæmis í 12 spora kerfi AA-samtakanna, öðlist við það betri batahorfur. Þetta er kallað Helper Therapy Principle. Frá árinu 1980 hafa sálfræðingar lýst fyrirbæri sem þeir kalla helpers high. Þar er um að ræða heita og fljótandi kennd sem fólk finnur þegar það hefur orðið öðrum að liði. Nú er taugafræðilegur grunnur þessarar tilfinningar fundinn.

Vísindamennirnir hafa einnig kannað gildi þess að vera þakklátur. Post greindi frá frægri rannsókn sem unnin var af þeim Robert Emans og Michael McCullogh. Viðfangsefnið var börn, tíu til tólf ára gömul. Þau voru beðin um að nota hálftíma í viku hverri til að skrifa niður á blað eitthvað um fimm hluti sem þau væru hvað þakklátust fyrir. Vísindamennirnir fullyrtu að við þetta hefðu börnin orðið hamingjusamari og kvíðaeinkenni hjá þeim minnkað.

Ef draga ætti saman helstu niðurstöður rannsóknanna mætti orða það þannig að fólk sem er örlátt og elskandi sé hamingjusamara en annað og sálfræðilega hraustara. Það hagnast lífeðlisfræðilega og allt bendir til að lífslíkurnar aukist.

Nánar