Með nýjum samningi ríkis og þjóðkirkju um gagngjald ríkisvaldsins fyrir
fornar kirkjujarði sem það tók við í áföngum á öldinni sem leið var farið inn á
nýja braut í samskiptum þessara stofnana. Samkomulagið setur kirkjuna í alveg
nýtt samhengi, þar sem hún er nú orðin fjár síns ráðandi. Það er því hálfu
brýnna en áður að vinda bráðan bug að því að endurskoða núgildandi
þjóðkirkjulög (nr. 78/1997). Ella er hætt við að markmið samkomulagsins renni
út í sandinn en það felst í að tryggja þjóðkirkjunni stóraukið fjárhagsleg
sjálfstæði (sjá t.d. pistilinn Tímamót í
samskiptum ríkis og kirkju hér á síðunni). Gildandi þjóðkirkjulög eru aftur
á móti allt of bindandi og gera kirkjunni erfitt um vik að nýta hið nýfengna
frelsi á framsækin máta.
Vissulega hefur það vafist fyrir þjóðkirkjunni að endurskoða lögin en tilraunir í þá veru hafa nú staðið yfir í rúman áratug án árangurs. Margt hefur verið til trafala. Mestu hefur þó valdið að ekki hefur verið gengið út frá nægilega skýrum kirkjuskilningi við lagasmíðina.
Með kirkjuskilningi er hér einfaldlega átt við svar við spurningunni: Hvað
vill þjóðkirkjan vera í nánustu framtíð? En í því felst einmitt forsendan sem
ganga verður út frá við endurskoðun laganna.
Samkvæmt gildandi þjóðkirkjulögum er þjóðkirkjan upp mýkt og létt nútímavædd útgáfa af ríkiskirkju fyrri tíma eða „state church light“ eins og þekktur, erlendur fræðimaður á sviði kirkju – og trúarbragðaréttar lýsti henni fyrir nokkrum árum! Er framtíð í slíkum kirkjuskilningi á hinni hraðfara öld breytinga sem 21. öldin virðist ætla að verða ekki síst á sviði trúmála? Eða vill þjóðkirkja e.t.v. vera „sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni“ eins og segir í upphafsmálsgrein núgildandi laga? Vill hún hugsanlega vera eitthvað þarna mitt á milli? — Vonandi kemur hún ekki til með að sniðganga frelsið sem í nýja kirkjujarðasamkomulaginu felst og skilgreina sig sem stofnun með það að aðalmarkmiði að skaffa guðfræðingum þægilega innivinnu. Það gerir hún með því að leggja áfram rækt við það sem margir telja að einkenni hana nú öðru fremur þegar þeir lýsa henni sem „prestakirkju“. Í þessu sambandi má líka spyrja: Vill lútherska kirkjan í landinu halda áfram að vera þjóðkirkja?
Á hverju sem
veltur um tengsl þjóðkirkjunnar við ríkisvaldið skiptir mestu að hún haldi
lifandi og virkum tengslum við þjóðina. Ef kirkjan nýtur trausts fólksins í
landinu; ef það heldur áfram að leita til hennar út frá eigin fjölbreyttu
forsendum í skini og skúrum daglegs lífs; ef það merkir að hún miðlar boðskap
sem hefur gildi í breytilegum aðstæðum hverdagsins og gagnvart áskorunum
framtíðarinnar, verður evangelísk-lútherska kirkja áfram þjóðkirkja hvernig sem
laga- og stjórskipunarlegri stöðu hennar er háttað. Að þessu hlýtur kirkjan að
keppa.
Ný þjóðkirkjulög þurfa því að vera einföld og sveigjanleg og tryggja kirkjunni umfram allt sem mest sjálfræði um hvernig hún byggir upp stjórnkerfi sitt og þróar starfshætti sína við síbreytilegar aðstæður. Í þessu efni mega þunglamaleg lög ekki binda hendur hennar og standa í vegi fyrir þróunarstarfi, m.a. því hvernig kirkjan skilgreinir störf og stöður innan sinna vébanda. Í framtíðinni hlýtur að skipta máli að kirkjan hafi á að skipa fjölbreyttum teymum fólks með mismunandi menntun, reynslu og þjálfun til að mæta þeim fjölbreyttu áskorunum sem hennar hljóta að bíða. Kirkjan verður að þróast úr stofnun yfir í söfunuð eins og Lúther keppti að á sinni tíð.
Þarf kirkjan samt að stofnunarvæðast?
Þrátt fyrir að
mikið ríði á að þjóðkirkjan öðlist sem mest fjárhagslegt og lagalegt frelsi til
að þróa sveigjanlega starfshætti út frá sinni eigin sjálfsmynd eða
kirkjuskilningi er það þó svo að nýja kirkjujarðasamkomulagið kallar á stóraukna
stofnunarvæðingu á einu afmörkuðu sviði.
Í framtíðinni hlýtur kirkjuþing, æðsta stjórn þjóðkirkjunnar, að fara með fjárveitingarvaldið í kirkjunni líkt og það gerir nú þegar. Til að verða fært til þess þarf að byggja upp trausta framkvæmdastjórn sem heyrir undir þingið. Eitt fyrsta vekefni henna hlýtur svo að vera að þróa deililíkan til að leggja til grundvallar við skiptingu þeirra fjármuna sem úr verður að spila milli hinna ýmsu starfseininga kirkjunnar þar sem gætt er gagnsæis, faglegra sjónarmiða og ráðdeildar.
Eitt af hlutverkum þessarar framkvæmdastjórnar hlýtur að verða að semja um kaup og kjör við starfsmenn þjóðkirkjunnar bæði vígða og óvígða. Hún verður því að hafa armslengdar fjarlægð frá hinn vígðu yfirstjórn kirkjunnar og njóta frelsis gagnvart henni. Við endurskoðun þjóðkirkjulaganna skipir því miklu að búa vel um hnútana á þessu sviði en koma jafnframt í veg fyrir spennu milli framkvæmdastjórnar og/eða framkvæmdastjóra kirkjunnar og biskupsembættisins svo dæmi sé tekið. Framkvæmdastjórnin verður að virða guðfræðileg sjónarmið og hin vígða forysta fjárhagsleg rök. — Til þess að samvinnan gangi smurt þrátt fyrir þau menningarlegu mæri sem oft virðast liggja milli þessara tveggja heima — hins hugræna og hagræna — þarf alveg kláran kirkjuskilning til að allir stefni í sömu átt.
Vandi kirkjuþings
Ljóst er að
kirkjuþings bíða mörg og krefjandi verkefni á komandi misserum við að vinna úr
þeirri nýju stöðu sem upp er komin í
kjölfar nýja kirkjujarðasamkomulagsins. Þar skiptir endurskoðun og
einföldun þjóðkirkjulaganna mestu máli. Fyrst verður þó að skerpa á
kirkjuskilningnum sem hlýtur að verða gagnráðurinn í hinni nýju kirkju sem nú
er í deiglunni.