Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar sem gefur barni sínu stein er það biður um brauð? Eða höggorm þegar það biður um fisk? Fyrst þér sem eruð vond hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann?Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir. Matt 7.7-12
Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð. Ég mun gefa þeim eitt hjarta og eina breytni svo að þeir sýni mér lotningu alla tíð, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá. Ég geri við þá ævarandi sáttmála um að ég snúi mér ekki frá þeim heldur reynist þeim vel. Ég legg guðsótta í hjarta þeirra svo að þeir víki aldrei frá mér. Ég gleðst yfir þeim og reynist þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti. Jer 32.38-41
Við erum hér saman komin í Dómkirkjunni í Reykjavík í tilefni af setningu Alþingis. Í rúm 1000 ár hefur sú góða venja viðhaldist að þingheimur komi saman við upphaf þings til íhugunar Guðs orðs og til bænagjörðar fyrir störfum löggjafarsamkomunnar. Megi svo verða um ókomna tíð, þingi og þjóð til heilla og blessunar.
Þær raddir heyrast þó að hér sé um úreltan sið að ræða, sið sem ekki sé við hæfi í því fjölmenningarsamfélagi sem við búum við. En varla skaðar það neinn, hverrar trúar sem hann kann að vera, að þeim sé beðið blessunar sem vandastörfum gegna í almannaþágu. Og hverjum stendur það nær en Alþingi að endurnýja, þó ekki sé nema árlega, með sýnilegum hætti þann sáttmála sem það sjálft gerði fyrir hönd þjóðarinnar við Guð vors lands á Þingvelli árið 1000 og enn er í fullu gildi.
Þingmenn þjóðveldisins voru ekki neinum vafa um mikilvægi þess sáttmála. Þeir skipuðu honum í öndvegi og gerðu hann að upphafi laga vorra, grunnstefinu sem öll önnur lagasmíð skyldi miðuð við og byggjast á.
Með því tóku þeir af skarið um það undir hvaða merkjum hin unga, frjálsborna þjóð skyldi ganga veginn fram. Þeir kusu hvíta Krist að leiðtoga. Þjóðin skyldi verða hans og hann Guð hennar. Hún skyldi láta af heiðnum siðum svo sem útburði barna og hverju öðru því sem stríðir gegn kærleiksboði Krists. Hún skyldi leggja af barnagælur á borð við þá sem Egill Skallagrímsson heyrði af munni móður sinnar og fékk honum löngun til að slást í hóp morðvarga og ótíndra þjófa sem víkingar voru nefndir. Þess í stað skyldu menn tileinka sér stefjamál kærleikans og kveða þau fyrir börn sín; tengja þau með þeim hætti mildiríkri hönd Guðs svo hann fengi að leiða þau, vernda og forða frá allri synd.
Það voru þingmennirnir, goðarnir, sem rótfestu kristinn sið í þessu okkar landi. Þeir gerðu það ekki aðeins með lagaboði heldur lögðu þeir grunninn að starfi kirkjunnar, þjóðkirkjunnar. Þeir lögðu henni til guðshús og tekjustofna, réðu til sín presta og margir þeirra urðu sjálfir prestar. Þannig stóðu þeir vörð mann fram af manni um þann sáttmála sem er upphaf laga vorra. En það var ekki átakalaust. Það tók sinn tíma fyrir Krist að vinna fólkið í landinu á sitt band, gefa því eitt hjarta og eina breytni. Hefndarlögmáli heiðninnar varð ekki ýtt til hliðar í einni svipan. Átök Sturlungaaldar er ljós vitnisburður um það. En það tókst, þó á því hafi ætíð verið einhverjar brotalamir.
Saga þjóðar okkar er dýrmæt lexía hverjum þeim sem hana skoðar opnum huga og án fordóma. Hún ætti að vera okkur sístætt íhugunarefni, svo hjálpleg sem hún getur verið við úrlausn þeirra verkefna sem við er að fást hverju sinni. “Að fortíð skal hyggja þá frumlegt skal byggja,” segir skáldið, og hollt er að minnast orða spámannsins Jesaja er hann segir: „Heyr orð að baki þér með eigin eyrum: Þetta er vegurinn, farið hann, hvort sem þér farið til hægri eða vinstri.“ (30.21)
Og Jesús bætir við og segir: „Veginn... þekkið þér,... Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið.“ Engum þeim sem kynnir sér sögu íslensku þjóðarinnar getur dulist það mikla andlega atgerfi sem hún hefur búið yfir í aldanna rás. Um afrakstur þess þarf ekki að fjölyrða svo mikilvægur sem hann er sjálfsmynd þjóðarinnar. Og sístætt undrunar- og þakkarefni er sá andlegi styrkur sem hún á öllum tímum hefur sýnt.
Það var fyrir hann, og stundum ekkert annað, sem henni tókst að þreyja margan kaldan þorrann og góuna; hörmungar 18. aldar, svo dæmi sé tekið, stóru bólu og móðuharðindin með allar sínar ólýsanlegu þrengingar, hungur, mannfall og fjárhagslegt hrun, sem gekk langt út yfir það sem við er að fást í dag.
En hvað var það þá sem gaf henni þennan styrk?
Hvað var það sem gaf þjóðinni okkar dug og dáð til að sigrast á erfiðleikunum og halda andlegu jafnvægi og reisn í gegnum þykkt og þunnt?
Það var trúartraustið. Það var trúin á Guð vors lands, sem lætur okkur allt ríkulega í té þegar við felum honum líf okkar og lán og fylgjum veginum sem leiðir okkur til hans.
Þetta traust átti fólkið í landinu upp til hópa til skamms tíma. Það var kjölfestan í mannlífinu. Guði var dagurinn helgaður þegar risið var úr rekkju. Í hans nafni var sérhver iðja og athöfn unnin. Og að kveldi stillti fólk hug sinn á bylgjulengd guðdómsins til að öðlast ró og frið fyrir hvíld næturinnar.
Fyrir bænarandann, fyrir Guðs góða anda, öðlaðist það styrk, innri ró og frið í sál.
Þetta er reynsla allra þeirra sem notið hafa.
Þess vegna er hin kristna arfleifð okkur svo dýrmæt. Þess vegna er svo mikilvægt að við rækjum hana og ræktum, stöndum vörð um sáttmálann sem gerður var á Þingvelli fyrir 1000 árum og skilum honum áfram í hendur komandi kynslóða.
Allur þorri landsmanna er þessa sinnis. Hinu er þó ekki að leyna, að margir hafa slitnað úr tengslum við arfleifðina dýru. Virðast hvorki þekkja grunnstef kristins siðgæðis né heldur vita hvar hjálp er að finna þegar andleg heill er í húfi. Láta ginnast af gylliboðum ýmiskonar og finnst sem þeir þurfi að flétta sér sín eigin haldreipi í lífinu, haldreipi sem síðan bresta hvert af öðru þegar á reynir eins og dæmin sanna.
Hér hefur eitthvað farið úrskeiðis, eitthvert það siðrof orðið sem mikil nausyn er á að bregðast við. Þá er ráð að líta yfir farinn veg og íhuga á hvaða grunngildum samfélagið er reist, hvað best hefur reynst og hvað helst skal varast. Við hverfum ekki til fortíðarinnar, en hún getur sýnt okkur veginn sem heilladrýgst er að ganga, hvort sem við stefnum til hægri eða vinstri. Hér á kirkjan okkar, kirkja þjóðarinnar mikið verk að vinna. Og þegar ég tala um kirkjuna okkar, þá á ég við fólkið í landinu, fólkið sem er skírt og fermt, fólkið sem vill hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Það er hin eiginlega kirkja. Við, sem valin höfum verið til forystu í þessari langstærstu fjöldahreyfingu landsins, erum aðeins þjónar þessarar kirkju, þjónar fólksins. Ábyrgð okkar er engu að síður mikil, úr því skal ekki dregið. Það skiptir vissulega miklu máli hvernig þjónar fólksins haga sínum störfum, hvað þeir álykta og hvað þeir boða í orði og verki. Hitt er þó ekki síður mikilvægt að sérhver meðlimur kirkjunnar ræki hlutverk sitt. Ekki síst þeir sem hafa uppeldishlutverki að gegna og þeir sem setja þjóðinni stefnumörk og mið, - að þeir gefi börnum sínum ekki steina þegar þau grátbiðja um brauð.
Nú, þegar við göngum héðan úr helgidóminum til þingsala, þá fylgir þingheimi bæn og blessun Guðs fyrir og yfir öll störf Alþingis. Bænin sú mun á komandi tíð enduróma í kirkjum landsins, nær 270 að tölu, frá ystu nesjum til innstu dala.
Hugfestið það, þingmenn góðir, að þjóðin ber ykkur á bænarörmum, og að yfir ykkur vakir Guðs góði andi, sem vill blessa ykkur hvert og eitt og leiða í ykkar ábyrðgarmiklu störfum svo þau megi verða til heilla landi og þjóð.
Megi blessun Guðs og náð vaka yfir Íslandi og öllum börnum þess.
Í Jesú nafni, Amen