Lúk. 2.41.-52 (Jesús 12 ára) I Í frásögninni af Jesú 12 ára fáum við mjög mikilvægar upplýsingar um uppvaxtaraðstæður Jesú.
Fyrir það fyrsta fáum við þær upplýsingar að foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni og er Jesús hafði náð tilsettum aldri og þroska tóku þau drenginn með sér. M.ö.o. Jósef og María voru fólk sem iðkaði trú og menningu og gerðu ráðstafanir til þess að leiða börnin sín sér við hlið í þeim efnum. Með ferðinni til höfuðborgarinnar á hátíðinni var Jesús boðinn með inn í trúarsamfélag hinna fullorðnu sem sjálfstæður þátttakandi.
Eins sjáum við af sögunni að fjölskylda Jesú bjó við félagsauð, Jósef og María höfðu ástæðu til að treysta umhverfi sínu þegar þau fundu ekki drenginn að hátíðinni lokinni. Þau fóru heila dagleið áleiðis heim og leituðu hans meðal frænda og kunningja. Þetta er ekki léttvæg vitneskja. Í uppvaxtarumhverfi Jesú var gott fólk sem mátti reiða sig á.
Í þriðja lagi má okkur skiljast af sögunni að Jósef og María iðkuðu ekki skipandi eða víkjandi uppeldisaðferðir, heldur beittu þau leiðandi aðferðum í uppeldi sínu. Annars hefði Jesús ekki svarað móður sinni á þann hátt sem hann gerði, eftir að þau fundu hann þar sem hann sat á meðal lærifeðranna í musterinu. “Barn, hví gerðir þú okkur þetta! Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin!”
Við skulum hafa í huga að þegar María mælti þessi orð höfðu þau vakað í þrjá sólarhringa og í gegnum huga þeirra og líf höfðu farið allar þær skelfilegustu hugsanir sem farið geta um sál foreldris. Fas hennar hefur ekki verið neitt guðspjallafas. Hún hefur hrist drenginn og hrópað á hann, og svo hefur hún faðmað hann að sér og grátið, áður en hún hristi hann betur. En viðbrögð Jesú sýna að hann var á heimavelli í tilfinningalegum samskiptum og gat borið fram spurn sína og undrun: “Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?”
Í allri þessari miklu geðshræringu átti Jesús og foreldrar hans merkingarbær samskipti. Jesús var ekki skammaður niður svo að hann þegði eða tipplað á tánum í kringum hann með víkjandi hætti, heldur voru Jósef og María foreldrar sem leiddu börnin sín sér við hlið og voru samferða þeim, líka í tilfinningalegum efnum, eftir aldri þeirra og þroska. “Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn.” Segir guðspjallið “En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér.” Jesús hlustaði og hlýddi og María hlustaði innra með sjálfri sér á það sem hann hafði sagt, jafnvel þótt hvorugt þeirra hafi skilið það sem hann sagði, eins og fram kemur í sögunni. Jesús og foreldrar hans iðkuðu gagnkvæma hlustun. Þá lýkur sögunni á þessum fallegu orðum: “Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.”
Sagan af Jesú 12 ára er skráð í beinu framhaldi af fæðingarfrásögunni. Á sömu opnu í Biblíunni má lesa söng englanna á Betlehemvöllum sem útskýra klárlega í hverju náð Guðs er fólgin: “Dýrð sér Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun guðs yfir mönnum.” Náð Guðs er velþóknun á mönnum. Þannig er Guðs náð. Guð vill að manneskjur séu það sem þær eru.
En hvað er það að þroskast að visku og vexti og náð hjá mönnum? Það er að eiga umhverfi eins og við sjáum að Jesús átti. Að eiga leiðbeinandi umhverfi þar sem margt velviljað fullorðið fólk er samferða unglingnum félagslega og andlega og tilfinningalega. Barn sem lifir við gagnkvæma hlustun í uppeldi sínu þroskast að visku og vexti og náð náð hjá mönnum. II Nú fer fram mjög mikilvæg umræða um það hvernig við eigum að nálgast börnin okkar á hinum opinbera vettvangi. Margir telja að skólar og annar opinber vettvangur eigi að vera frír við lífskoðanir. Lífsskoðanir eigi að tilheyra einkasviðinu en á hinu opinbera sviði eigi að kenna staðreyndir.
Eitt getum við verið sammála um: við þurfum að ala börnin okkar upp saman. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Við erum öll opinberar persónur í þeim skilningi að við tilheyrum öll hinu opinbera sviði mannlífsins og við getum ekki alið börn upp innan veggja heimilisins eingöngu heldur er því nauðsyn á að tilheyra þjóðfélaginu líka. Um það er ekki deilt.
En er hægt að halda því fram að til sé einhver hlutlaus afstaða þegar kemur að lífsskoðunum? Skyldi vera til hópur sérfræðinga sem ekki hefur neinar lífsskoðanir heldur kann bara fræðin sín og getur hitt börnin okkar til að kenna þeim staðreyndir um stærðfræði, líffræði, sagnfræði, málvísindi, íþróttir og handverk, en gerir það án þess að byggja nálgun sína við börnin okkar á neinum lífsskoðunum? Ég verð að segja eins og er að ef barnið mitt eða unglingurinn væri í skóla þar sem starfaði fullorðið fólk sem ekki hefði neinar lífsskoðanir, þá tæki ég barnið umsvifalaust úr slíku umhverfi, því fólk án lífsskoðana er líklegt til að gera hvað sem er.
Vitum við ekki að það sem börn læra í skólum er ekki fyrst og fremst það sem kennarinn segir heldur meðtaka þau ekki síður það sem kennarinn er. Munum við ekki kennarana okkar betur frá grunnskólaárunum heldur en námsefnið sem þau voru að puða við að troða inn í höfuðið á okkur? Ég er hræddur um það. Og hverskonar fólk á að umgangast börnin okkar? Gott fólk. Þroskað fólk. Meðvitað fólk. Fólk sem veit hvers vegna það segir það sem það segir og gerir það sem það gerir. Fólk sem hefur vakandi lífsskoðanir og hefur haft fyrir því að móta þær. Slíkt fólk á að vera í uppeldis- og fræðslu störfum.
Ég er óssammála mörgu sem Vottar Jehóva halda fram. En ég var mjög ánægður með það að eitt barna minna skyldi læra hjá kennara sem var Votti Jehóva, og ég einmitt hvatti skólastjórnendur til þess að ýta eftir viðkomandi til að segja frá lífsskoðunum sínum.
Ég er óssammála mörgu sem siðrænir húmanistar halda fram, en ég óska þess eindregið að börnin mín fái að kynnast góðu trúlausu hugsandi fólki sem hefur meðvituð lífsgildi og byggir þau ekki á neinni trú á nokkurn guð.
Ég tel Hvítasunnumenn hafa rangt fyrir sér um ótal margt. En ég virði og met þá góðu ávexti sem af starfi þeirra og lífskoðunum spretta og á m.a.s. góða vini í þeirra röðum og tel ákjósanlegt fyrir börn að læra að þekkja þær lífsskoðanir og áherslur sem þar eru á ferðinni. Og þegar yngsta barn okkar hjóna fæddist báðum við góð hvítasunnuhjón sem við þekkjum að gæta eldri barnanna okkar. Við bjuggum þá í Vestmannaeyjum og áttum enga fjölskyldu í bænum, en þessu fólki treystum við ekki síst vegna lífsskoðana þeirra, þótt við séum ósammála ýmsu sem þau halda.
Á sama hátt vona ég að foreldrar í hópi siðrænna húmanista, búddista, kathólikka, ásatrúarmanna, aðventista og hverra annarra trú- og lífsskoðunarfélaga megi treysta því að ég umgangist börnin þeirra af virðingu og eigi ekkert erindi við þau annað en það að þau megi vaxa að visku og vexti vegna þeirrar náðar sem þau m.a. þiggi af mér sem fullorðnum og ábyrgum einstaklingi. Náð er gagnkvæm hlustun. Sá Guð sem við kristnir menn trúum á er náðugur guð. Kristin menning vill vera náðarsöm menning, þar sem fólk hlustar hvert á annað, gefur hvert öðru rými. Og það að hlusta á annað fólk og taka tillit til þess er ekki í því fólgið að hafa ekki skoðanir eða yppta bara öxlum þegar kemur að lífsgildum. Öðru nær. Við eigum að tala saman um lífsgildi okkar hvort sem þau eru byggð á opinberun af einhverju tagi og eru þ.a.l. trúarleg lífsgildi eða þau eru byggð á veraldlegri hugsun einni saman. III Vandi barnanna okkar er ekki sá að til sé ruglað fólk sem sé að reyna að troða inn í huga þeirra einhverjum skrýtnum hugmyndum um lífið og tilveruna. Það er ekki sú hætta sem steðjar að börnum og unglingum þessa lands. Betur að svo væri, liggur mér við að segja. Hættan sem að börnunum okkar steðjar er sú að það er ekki verið að tala við þau. Það eru að alast upp innan um okkur börn og unglingar sem koma út í lífið án þess að hafa lært samtal, og án þess að til þeirra hafi verið miðlað lífsgildum sem halda vatni.
Þessa helgi blasir við hópur ungra vanhirtra unglinga á forsíðu DV, sem vilja vera rasistar. Bara það hvernig þau standa á þessari mynd, bara líkamsstaða þeirra eins og hún blasir við þar sem þetta dagblað leyfir sér eina ferðina að ræna fólk sem ekki kann fótum sínum forráð ærunni, vitnar um reiði og ótta. Þessi börn eru engir bjánar. Þau eru ekki hrædd að ástæðulausu. Hvar er fólkið sem er að bregðast þessum unglingum? Það situr m.a. hér í þessari kirkju.
Samfélag okkar hinna fullorðnu er gráðugt og yfirborðslegt og það eru allir að flýta sér. Í dag stendur ungt fólk frammi fyrir veröld sem býður þau velkomin til samkeppni en ekki samfélags. Og ungt fólk sem elst upp við þá sóandi neyslumenningu sem við erum öll meira og minna þátttakendur í, sér enga glufu hvernig í ósköpunum þau eigi að ná að taka þátt í þessu öllu saman. Hvernig þau eigi að komast inn á húsnæðismarkaðinn? Hvernig þau eigi að tryggja sér laun til að standa undir þeim kröfum sem samfélagið gerir til þeirra um standard og gæði til þess að verða þeir sigurvegarar sem þeim er ætlað að vera. Í samkeppnismenningunni er bara pláss fyrir sigurvegara. Ef þú ert ekki ofan á þá ertu undir og þá ertu ekki með.
Það er löng hefð fyrir því í íslenskri menningu að hræða börn. Það getur hver maður séð sem ræðir við fólk sem ólst upp á öndverðri síðustu öld. Þá voru draugar og skottur og fjörulallar, nú eru það samkeppnin. Við fermum börnin vorið sem þau eru 14 í andrúmslofti samanburðar. Við útskrifum þau vorið sem þau eru 16 undir formerkjum samkeppninnar. Við látum þau velja sér skóla eftir persónulegum framavonum og látum framhaldsskólamenninguna þróast sem samkeppnisumhverfi, samanburðarumhverfi þar sem tapararnir fara eitt og sigurvegararnir fara annað. Svo erum við hissa á því að lýst sé eftir týndum unglingum í fjölmiðlum, að ungt fólk láti sig hverfa inn í vímu og jafvel inn í dauðann. Við erum voðalega hissa á því.
En höfum við spurst á við börnin okkar fyrir hvað þau eigi að lifa? Við viljum kenna þeim svokallaðar staðreyndir í skólum, gera þau samkeppnishæf, framleiða úr þeim markaðsvæna vöru svo þau fái laun, en erum við að leitast við að gera þau að fólki? Ég fullyrði að hin raunverulega menntun sé ekki í fyrsta sæti í íslensku samfélagi, og þar er ekki við skólana að sakast heldur okkur öll.
Menntun! Hvað er það? Sá sem hlýtur menntun er að mannast. Að menntast er að verða manneskjulegri og manneskjulegri, meiri og meiri manneskja með tímanum. Það er menntun. Menntun er ekki vitneskja um staðreyndir úr bókum nema að hluta til. Það eru rúmir tveir áratugir síðan dr. Páll Skúlason sagði við okkur nemendur sína þar sem við vorum að nema forspjallsvísindi að Háskóli Íslands væri í óðaönn við að útskrifa ómenntaða sérfræðinga á öllum sviðum. Ómenntaður sérfræðingur veit mikið um lítið. Ómenntaður sérfræðnigur kann að starfa en hann kann ekki að lifa.
Í menntunarsnauðu samkeppnissamfélagi gerist það sem áramótaskaupið skvetti framan í okkur þar sem við sátum tilbúin að láta hossa okkur eina ferðina og kitla hláturstaugarnar með því að hæðst yrði að helstu persónum og leikendum þjóðlífsins en þess í stað fengum við m.a. að heyra rödd gamalmennis bergmála eftir köldum og myrkum sjúkrahúsgangi: “Halló!... einhver!?” Og svo fengum við að horfa á okkur sjálf í gegnum augu þeirra útlendinga sem við höfum fengið hingað til að vinna fyrir okkur þau verk sem við viljum ekki snerta og búa í húsnæði sem við myndum ekki geyma skepnur í. IV Í Guðspjalli dagsins fáum við að sjá hvaða uppeldisaðstæður það voru sem gerðu Jesú frá Nasaret að þeim manni sem hann var, svo að hann gat reynst veröldinni Kristur. Það var ekki bara vegna þess að hann væri Guðs sonur heldur ekki síður vegna þess að hann var mannsonur. Hann átti fólk sem talaði saman og iðkaði gagnkvæma hlustun. Fólk sem lét sér ekki á sama standa. Fólk sem var samferða í andlegum og veraldlegum efnum og gerði ráð fyrir öllum kynslóðum.
Það hefur ekkert breyst að það eru slíkar uppeldisaðstæður sem börnin okkar þurfa og það er í þessháttar samfélagi sem við þrífumst vegna þess að við erum “homo sapiens”. Við erum þeirrar gerðar að við þurfum að finna tilgang með lífi okkar. Ef við ræktum ekki tilganginn, leitum hans og ræðum hann, ef við segjum ekki sögur, miðlum ekki gildum, - ef við leitum ekki að börnunum okkar, eins og Jósef og María leituðu og leituðu og leituðu í þrjá sólarhringa þar til þau fundu drenginn. Já, ef við erum ekki fólk sem leitar uppi börnin sín, þá munum við aldrei finna þau.
Því má það aldrei gerast að við reynum að hreinsa hið opinbera svið, hinn sameiginlega uppeldisvettvang, af lífsskoðunum og gildishlöðnum viðhorfum. Þá erum við að rupla og ræna börnin okkar og gamla fólkið okkar, því það er ekki til neitt hlutleysi. Það er ekki til nein hrein vísindaleg aðferð við að lifa. Hún er ekki til. Það er ekki til nein niðurstaða um lífið sem hægt er að bera á borð. Það er bara til líf. Við erum bara að lifa núna. Núna! Við erum bara á leiðinni. Við erum samferðamenn og verðum hvert um sig og saman að leita merkingar með þessu ferðalagi.
Trúin á Jesú Krist og samfélagið um hann og við hann hefur reynst vel. Persóna Jesú miðlar gildum sem vel hafa reynst. Þess vegna hefur líka mikið verið gert af því að misnota þau gildi. Þar skulum við líka vera raunsæ. En það breytir ekki þeim grundvelli sem Kristur er og orð hans og sá siður sem með honum kemur hvarvetna sem nafn hans er tignað í orði og verki.
Átakalínur nútímans eru ekki milli trúarbragða. Þau standa á milli guðlausrar græðgi annarsvegar og þeirra manngildishugsjóna sem Jesús Kristur m.a. hefur miðlað til þessarar veraldar. Og verum þakklát því fólki sem þar voru uppalendur. Verum þakklát frændum hans og vinum í Nasaret sem flest eru löngu gleymd. Þar voru sannar manneskjur, á ferð. Sannmenntaðar manneskjur. Verum þakklát henni Maríu sem kunni að hlusta og honum Jósef sem var slíkur faðir, þótt fátt sé um hann vitað, að Jesús vissi ekkert annað ákall betra til Guðs en að segja abba, - pabbi! Og tökum okkur til fyrirmyndar það samfélag sem þannig reyndist slíkur uppeldisvettvangur að Guðs sonur gat orðið heiminum Kristur.