(Á undan prédikun flytur Helga Möller lagið Íslenska konan e. Ómar Ragnarson og Billy Joel. Og bara svo því sé haldið til haga þá var flutningur hennar hreint frábær. Takk fyrir það, Helga!)
Í aðdraganda þessarar guðsþjónustu hef ég verið að segja fólki að hún Helga Möller muni syngja lagið Íslenska konan og mig langi að gera því skil í prédikun á konudegi. Ég hef skynjað að allir hafa skoðun á þessum sterka texta og grípandi laglínum. Allir þekkja lagið Íslenska konan og muna eftir því vegna þess að það hreyfir við einhverju mikilvægu innra með okkur. Ég heyrði þá sögu í vikunni að þegar Ómar Ragnarsson hefði fregnað lát móður sinnar hafi hann verið staddur einhvers staðar akandi úti á landi. Þá hafi hann lagt bíl sínum út í vegarkant og ort þennan texta. Eins var mér sagt að þetta væri lagið sem íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu væri látið hlýða á áður en það færi út á völlinn. Það gildir einu hvað satt er, sagnirnar verða til og viðhaldast vegna eigin gildis og bera vitni um þann stað sem ljóð og texti á í vitund fólks. Það er eitthvað þarna, eitthvað sem er alveg satt.
Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér hún heitast þig elskaði og fyrirgaf þér.
Hér er rætt um aðalatriði og frumþarfir sem eru okkur öllum sameiginlegar. Að vera faðmaður, vera elskaður og vera fyrirgefið. Ég þekki ágæt hjón sem nýlega skildu að skiptum. Hann er með hundinn. “Fær ekki hundurinn Oxítósín?” spyr konan sinn fyrrverandi annað slagið. Það mun vera líffræðileg staðreynd að dýr og menn framleiða mikilvægt boðefni sem nefnt er Oxítósín þegar þau njóta góðs faðmlags. Þetta eru húmorísk skilnaðarhjón. – Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér. Það er ekki bara tilfinningamál heldur líka köld staðreynd að við þurfum hlýtt faðmlag. – Hún heitast þig elskaði og fyrirgaf þér. Já, orðin ganga beint inn að kviku sálarinnar. Ást og fyrirgefning eru aðalatriði.
Með landnemum sigld’ún um svarrandi haf hún sefaði harma, hún vakt’er hún svaf. Hún þerraði tárin, hún þerraði blóð. Hún er íslenska konan sem allt á að þakka vor þjóð.
Hún var ambáttin hljóð, hún var ástkonan rjóð, hún var amma svo fróð, athvarf ummrenningsins, inntaka hjálpræðisins, líkn frá kyni til kyns.
Ég fann lagið inni á YouTupe í flutningi Pálma Gunnarssonar. Þar hafa rétt tæp 20 þúsund hlustað. Það má þakka fyrir ef 200 manns lesa þessa prédikun á vefnum. Það er einhver sannleikur varðandi sögu konunnar í landi okkar sem hér er tjáður og virtur og svo kemur þetta líka frá Ómari Ragnarssyni og okkur þykir einfaldlega vænt um karlinn og vitum að hann er heill og ærlegur maður.
Hún þraukaði hallæri, hungur og fár. Hún hjúkrað´ og stritaði gleðisnauð ár. Hún enn í dag fórna sér endalaust má. Hún er Íslenska konan sem gefur þér allt sem hún á.
Ef höfundur þessara hendinga væri ekki Ómar Ragnarsson heldur t.d. einhver þekktur valdamaður í íslensku samfélagi, hvaða áhrif hefði það á skilning okkar á þessum texta? Og hvað ef höfundurinn væri annálaður tækifærissinni í viðskiptum og ástamálum?
Hún er brúður sem skín Hún er barnsmóðir þín Hún er björt sólarsýn Hún er ást hrein og tær Hún ar alföður kær Hún er Guðs móðir skær
Texti er ekki til í tómarúmi. Hann á sér upphaf og samhengi. Það heilaga sjónarhorn á konur sem hér er viðrað er vand með farið og það er ekki sama hver talar eða hlustar.
Ómar slær hér á viðkvæma strengi og orð hans bera því vitni að hann þekkir inntak hjálpræðisins, sjálfan leyndardóm fórnarinnar, og sér þann leyndardóm kristallast í sögu íslenskra kvenna.
Núna er annar sunnudagur í páskaföstu og kristið fólk um allan heim rifjar upp fórn Jesú sem gaf heiminum líf sitt og er öllum mönnum skjól og skjöldur og hlíf, svo notað sé orðalag Ómars. Tökum eftir því að flest það sem hann segir um Íslensku konuna í þessum texta gildir um Jesú Krist sem fórnaði sér fyrir alla. Jesús gaf lífið sitt til þess að við mættum lifa, hann var öllum allt og fórnaði sér. - Hvað fleira er um Jesú að segja? Hvað gerði hann fleira en að fórna sér? Hann var slíkur sagnamaður að enn fellur á þögn er orð hans heyrast. Skaplistamaður var hann þvílíkur að hann hreinsaði musteri og snaraði út andrúmslofti hroka og reiði með óvæntum andsvörum og ferskum hugmyndum. Og svo stóð hann frammi fyrir Pílatusi og horfði beint í augu hans sem jafningja. Frjálsari hefur enginn maður verið en fanginn Jesús. Það er þess vegna sem dauði hans var fórn en ekki sóun. „Þótt hann væri sonur Guðs lærði hann að hlýða með því að þjást.” segir í pistli dagsins. Þjáningin sem Jesús lifði og hlýðnin eða auðmýktin sem hann sýndi átti sér stað í fullu frelsi. „..ég legg líf mitt í sölurnar til þess að ég fái það aftur.” Útskýrir Jesús í Jóhannesarguðspjalli. „Enginn tekur það frá mér, ég legg það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur. Þetta hefur faðir minn boðið mér.“ (Jóh. 10.17-18)
Og loks þegar móðirin lögð er í mold þá lýtur þú höfði og tár falla á fold. Þú veist hver var skjól þitt og skjöldur og hlíf, það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.
- Hvað fleira er um hana að segja? Já, hvað höfum við fleira um konur að segja? Konurnar í lífi okkar. Áttu reynslu af gáfuðum konum? Hefur þú notið stjórnunar sterkra kvenna með mikla yfirsýn? Hefur þú kynnst ósvífinni úrræðasemi konu á ögurstundu? Kannast þú við konur sem hafa innsæi til að höggva á hnúta í flóknum samskiptum þannig að sómi og sanngirni er varðveitist? Þekkjum við sterkar konur sem bera ríkan metnað og stefna hátt? Konur sem eru öskrandi fyndnar, óútreiknanlegar, uppátækjasamar og fastar fyrir? Er það ekki málið? Við vitum að íslenska konan er engin luðra heldur hefur hún vald yfir lífi sínu. Það er þess vegna sem líf hennar svo mikið þakkarefni af því það er svo virðingarvert. Væru konur almennt einhverjar luðrur væri erfiði þeirra í besta falli sóun en ekki fórn. Guðspjallið í dag er um þetta. (Markúsarguðspjall 10. 46-52) Sagan af Bartímesusi blinda er saga af manni sem tók við valdataumum í eigin lífi. Bartímeus sat úti í vegarkanti og enginn vissi hvað hann hét. Bar-Timeus merkir bara sonur Tímeusar á grísku. Hann hét s.s. ekkert sérstakt þessi blindi öryrki og þegar hann vildi ná tali af Jesú þá var honum einfaldlega sagt að þegja en Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“Þeir kalla á blinda manninn sem kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Og sem maðurinn stendur fyrir framan Jesús þá spyr Jesús hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Hvað vilt þú? Spurði Jesús. Hann innti hann eftir hans eigin vilja.
Hugsaðu þér að Jesús segði si sona: Jæja, góði minn. Þú ert aldeilis heppinn að hitta mig. Nú ætla ég að lækna þig og svo skal ég segja þér hvað þú átt að gera. Hvað er það sem væri ólíkt Kristi - ókristilegt - við þessi orð? Við skynjum það öll. Það vantar í þau valdeflinguna. Jesús hefði aldrei jæjað og góað á neinn. Hann hefði heldur aldrei snúið kastljósinu að sjálfum sér til að þakka sér og þaðan af síður tekið sér vald yfir nokkrum manni og sagt honum hvað hann ætti að gera. Enda kveður hann Bartímeus eftir að hann er orðinn sjáandi með þessum orðum „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“
Þetta eru þeir skínandi lífsmöguleikar sem við eigum í Jesú Kristi, karlar og konur í senn. Við megum efla hvert annað að völdum, dást að gagni og gæðum kynjanna og fagna því að vera heilar og sannar manneskjur sem lifa af alefli og láta sitt aldrei eftir liggja. Fórnarsigur Jesú hefur í eitt skipti fyrir öll leyst okkur undan hvers kyns luðru-lífi. Í ljósi Jesú og vegna hans megum við treysta því að lífsbarátta okkar er þess virði að hún sé háð, hún verður aldrei sóun heldur fórn sem gefur líf og eflir komandi kynslóðir að kjarki og dug.
En sólin hún hnígur og sólin hún rís Og sjá, þér við hlið er þín hamingjudís sem alltaf er skjól þitt þinn skjöldur og hlíf. Það er íslenska konan, tákn trúar og vonar sem ann þér og helgar sitt líf. Amen, í Jesú nafni amen.
Textar: 2Mós 33.12-13 Heb 5.7-10 Mrk 10.46-52