Fermingarnar eru byrjaðar og já við lífsspurningunum hljóma í kirkjunum. Hvað ætli þetta unga fólk þrái mest? Hluti eða kannski eitthvað annað? Kanntu að gefa?
Síðustu fimm árin hafa fermingarungmenni í Neskirkju skrifað á blað vonir sínar og drauma um framtíðina. Þessi lílega fimm hundruð svör eru merkileg, nánast alltaf heiðarleg, sum skemmtileg og kúnstug, en önnur átakanleg. Draumar um frægð spretta fram og mörg vilja verða afreksfólk á einhverju sviði. Nokkur stefna á vit ævintýra og ætla að stunda áhættuleik og hasaríþróttir. Útlitsmál eru stundum nefnd, þau vilja gjarnan vera mjó og sæt. Vinnumál eru líka flestum ofarlega í huga. Störfin eru ekki lengur rígbundin við kyn. Og menntunareinbeitnin er skýr. Á hverju ári skrifa svo einhver, að þau þrái að eignast hest, hund eða annan álíka vin. Unglingarnir minna gjarnan á, að við eigum að vinna að velferð allra jarðarbarna, stuðla að jöfnuði og vernda náttúruna.
Stóru draumarnir? Hvaða gjafir þráir meirihluti fermingarbarna? Hvað er oftast nefnt? Nei, það eru ekki hörðu pakkarnir, sem eru þeim efst í huga, heldur raunveruleg dýrmæti. Fermingarungmenni þrá, að fjölskylda þeirra sé hamingjusöm, að öllum líði vel og að í framtíðinni eignist þau skjálf góðan maka og gjöfult fjölskyldulíf: “Mig dreymir um góða fjölskyldu.” “Mig dreymir um að vera hamingjusöm í framtíðinni.” “Ég vil verða hamingjusamur.” “Mig dreymir um, að vera hamingjusöm til æviloka.” “Mig dreymir um að eignast góðan mann.” Nokkur stynja upp, að þau þrái meiri ást síns eigin fjölskyldufólks. Slíkt stingur í hjartað. Eiga ekki allir menn rétt á elsku “ástvina”?
Ertu á leið í búð til að kaupa fermingargjöf? Staldraðu við og íhugaðu fyrst óskir og þrá fermingarungmennisins? Getur verið, að það hafi nákvæmlega sömu grunnþarfir og þú? Hlutir eða hamingja? Peningar eða tími? Harðir pakkar eða meiri mýkt? Getur þú gefið eitthvað af þér, nánd, gleði, fegurð og elskusemi? Fermingarungmenni eru ekki hlutafrík heldur hamingjufólk. Unglingar slá vissulega ekki hendi á móti pakka, en mikilvægast er þeim hið góða líf. Þau vilja hamingju fremur en dót. Þú mátt trúa því því þau skrifa það, staðfesta það, sjálf. Hamingjan er alltaf heimafengin og aldrei keypt. Iðkum gleðina fremur en að pakka henni inn. Það er í stíl við kirkjujá. Manstu hver er aðalspurningin í fermingunni?