Ótrúlegra en aprílgabb

Ótrúlegra en aprílgabb

Ef þessi páskagleði er raunverulegur og lifandi hluti af tilveru okkar, þá hefur það áhrif á allt okkar líf. Við mætum mótlæti og áföllum rétt eins og aðrir, en birtan frá upprisunni veitir ljósgeisla inn í dýpstu myrkur.
fullname - andlitsmynd Þorgeir Arason
01. apríl 2018
Flokkar

Flutt 1. apríl 2018 í Egilsstaðakirkju og Þingmúlakirkju

Biðjum: Ljúk upp augum okkar, Drottinn, að við megum skilja dásemdirnar í orði þínu. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Á þessum degi árið 1962 birti Morgunblaðið stórfréttina „Silfur Egils fundið í Mosfellsdal“ og uppskar mikil viðbrögð lesenda sinna. Til dæmis hringdi maður nokkur til blaðsins og sagði: „Ég er einasti erfingi Egils Skallagrímssonar á lífi. Viljið þér gjöra svo vel að afhenda mér silfrið!“

Á þessum sama degi, sem er einnig sami dagur og í dag, árið 1970 sagði Morgunblaðið frá því að Bítillinn John Lennon væri kominn til landsins til að ræða við Gunnar Þórðarson tónlistarmann um hugsanlega samvinnu. Og á þessum degi árið 2009 tilkynnti Mogginn að rostungur hefði gengið á land norður í Þistilfirði.

Mikið rétt, það er víst 1. apríl í dag.

Það sem einkennir vel heppnuð aprílgöbb er gjarnan viss trúverðugleiki. Þau eru ótrúleg en á sama tíma er eitthvað sem gerir að verkum, að það er möguleiki að gleypa við þeim. Kannski hjálpar líka til þegar menn vilja gleypa við aprílgabbinu, langar að drífa sig af stað til að berja augum silfur Egils, Lennon eða rostunginn.

Nú skulum við venda kvæði okkar í kross og ímynda okkur aðeins: Ef búið hefði verið að finna upp prenttæknina á dögum Jesú, hvað hefði getað staðið í Morgunblaði Jerúsalem þann 1. apríl árið 33 eða svo (skekkjumörkin eru allavega 10-30 dagar, kannski nokkur ár!) Þar hefði forsíðufyrirsögnin e.t.v. verið: „Smiðssonur sagður hafa risið upp frá dauðum“ eða þá: „Lærimeistari frá Nasaret horfinn úr gröf sinni.“ Svo hefði líklega verið viðtal við Símon Pétur lærisvein, eða Jóhannes, en alls ekki við Maríu Magdalenu eða hinar konurnar sem í rauninni komu að tómu gröfinni, vegna þess að það var ekki tekið mark á vitnisburði kvenna.

Hefði þetta verið aprílgabb?

Auðvitað hljómar það eins og hvert annað gabb að maður, sem er raunverulega látinn, geti vaknað til lífsins og gengið út úr gröf sinni.

En hver hefði eiginlega getað eða langað til að gleypa við slíku gabbi?

Er það ekki aðeins of ótrúlegt til að geta verið gott aprílgabb?

Og svo er önnur spurning sem er ennþá áleitnari:
Hvers vegna í ósköpunum hefðu fylgjendur Jesú átt að búa til lygasögu um að hann væri upprisinn?

Frá veraldlegum, praktískum sjónarhóli höfðu þeir öllu að tapa og ekkert að vinna með því að boða slíka sögu ef hún var ekki sönn.
Jesús hafði sannarlega dáið. Hann hafði verið handtekinn, pyntaður og þurft að deyja kvalafullum og niðurlægjandi dauðdaga. Við það urðu lærisveinar hans svo hræddir að foringi lærisveinanna, Símon Pétur, þorði ekki að viðurkenna fyrir óbreyttu þjónustufólki að hann hefði verið einn af vinum Jesú. Óttinn, vonleysið og sorgin réðu ríkjum í vinahópi Jesú.

Hvernig hefðu nú þessir menn, örskömmu seinna, átt að geta tekið þá áhættu að ögra trúarlegum og veraldlegum valdhöfum enn frekar, með því að spinna upp sögur um að Jesús væri hreinlega lifnaður aftur við?

Og bíta svo höfuðið af skömminni, með því að halda því fram að það hefðu verið konurnar í hópnum sem hefðu fyrstar fengið vitneskju um þetta? Ekki hefur sagan þótt trúverðugri fyrir það.

Samt er upprisusagan besta sanna saga í heimi, því að lífið sjálft er oftar en ekki ótrúlegra en mesti skáldskapur og uppspuni.

Og ein sterkustu rökin fyrir því að sagan sé sönn eru einmitt allir þeir fjölmörgu vinir og vinkonur Jesú, frá dögum Símonar Péturs og alveg fram til okkar daga, sem hreinlega geta ekki annað en vitnað um hinn upprisna Jesú – hvað sem það kostar.

Postularnir vissu vel að það gæti orðið dýrkeypt fyrir þá að segja frá upprisu Jesú. Allt frá upphafi var kristin kirkja ofsótt. En þau sem trúðu á hinn upprisna Jesú gátu ekki annað en „talað það, sem þau höfðu séð og heyrt,“ og það þó að þau þyrftu að leggja líf sitt og heilsu í hættu. Það gerir enginn fyrir aprílgabb, svo mikið er víst, heldur aðeins fyrir þá fullvissu sem hefur breytt lífi okkar til hins betra.

Í nútímanum er enginn trúarhópur í heiminum jafngrimmilega ofsóttur og kristið fólk. Í löndum þar sem múslimatrú eða guðleysi eiga að móta allt og alla, er ekkert rými fyrir kristindóminn. Kristna flóttafólkið sem kom fyrir nokkrum vikum hingað til Austurlands frá Írak og hefur fengið hæli í Fjarðabyggð, það þekkir þetta af eigin raun. Trúin á Jesú Krist er illa séð í þeirra heimalandi eins og víðar. Það virðist vera, að margir sem ekki segist trúa á Krist eða upprisu hans, upplifi engu að síður ógn frá þeim mætti sem fylgir upprisunni. En það máttuga afl brýst fram að lokum.

Jesús Kristur sigraði dauðann raunverulega. Hann gekk af dauðanum dauðum!

Ef þessi páskagleði er raunverulegur og lifandi hluti af tilveru okkar, þá hefur það áhrif á allt okkar líf. Við mætum mótlæti og áföllum rétt eins og aðrir, en birtan frá upprisunni veitir ljósgeisla inn í dýpstu myrkur.

Danski presturinn Flemming Kofod-Svendsen lýsir vel persónulegum átökum við sorg, og styrk upprisutrúarinnar við erfiðar aðstæður, í bók sinni Dauðinn, sorgin og vonin. Í bókinni fjallar hann um hörmulegan missi sem hann og fjölskylda hans upplifðu í árslok 2004. Þá gekk gríðarleg flóðbylgja vegna jarðskjálfta yfir Tælandsströnd og fjöldi manns týndi lífi. Þar á meðal voru sonur Flemmings, tengdadóttir og tvö lítil börn þeirra, en fjölskyldan var í fríi á Tælandi.

Við tók átakanleg glíma Flemmings og annarra ástvina við sorgina, þar sem upprisuljós frelsarans gegndi lykilhlutverki. Við skulum grípa niður í góðan stað í bókinni þar sem hann ritar, í lauslegri þýðingu minni:

„Aftur og aftur er ég minntur á, að dauðinn er hræðilegur veruleiki. Hann eyðileggur og eyðileggur. Ef ástvinir mínir hefðu snúið aftur frá Tælandi, hefðu þau við eitthvert annað tilefni getað orðið dauðanum að bráð. Þegar ég sat uppi með minn missi, skildi ég betur lærisveina Jesú, eftir að Jesús var dáinn. Heimurinn var einfaldlega hruninn fyrir þeim… Svo fá þeir á páskadagsmorgun að heyra það frá nokkrum konum, að Jesús lifi. Óhugsandi. Ómögulegt. En Jesús mætir lærisveinum sínum, og vonleysi þeirra breytist í von. Ótti þeirra snýst upp í frelsi. Hið stórmerkilega við upprisu Jesú er, að hún leggur traustan grunn fyrir vonina. Hér er einn, sem hefur gengið í dauðann og risið upp eftir það, og sem fullvissar þau sem trúa á hann um, að þau fái að vera með honum eftir dauðann. Hvað er þá eiginlega að óttast? … Þess vegna lýsir vonin yfir þann sársauka, sem við upplifum núna. Þau eru hjá Guði.“

Kæri söfnuður. Gerum þessi lokaorð að okkar eigin bjargföstu sannfæringu, hvað sem á dynur. Látum von og fögnuð páskanna breiða birtu yfir allt okkar líf.

Gleðilega páska í Jesú nafni. Amen.