Hefur þú lent í árekstri eða bílveltu í umferðinni? Þekkir þú þögnina sem dettur á þegar byltunni er lokið? Þögnina þegar skaðinn er skeður og enginn veit enn hver hann er.
Þögnin andspænis skaðanum getur verið djúp. Stundum varir hún skamma hríð og breytist í feginleika og fögnuð. Stundum verður hún æfilöng.
Það var í þögn af þessu tagi sem Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar árið 1945 eftir blóðbað síðari heimsstyrjaldar þegar vestræn menning hafði tapað fyrir sjálfri sér í mestu grimmdarbyltu sem orðið hefur í sögunni. Í dag eru nær öll ríki veraldar aðilar að samtökunum, alls 193 talsins sem þannig eiga sameiginlegan grundvöll í mannréttindayfirlýsingunni sem samþykkt var á alsherjarþingi SÞ í desember '48. Sáttmálinn hefst á þessum orðum: „Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku, og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan.“
En hvernig vitum við það? Hvernig er hægt að fullyrða svona um manneðlið að allir séu jafnir? Og hver getur sagt að einhver sé skyldur til að breyta bróðurlega?
Mannréttindayfirlýsing sameinuðuþjóðanna er samkomulag þar sem aðildarþjóðir skuldbinda sig m.a. til þess að beina menntun í þá átt að þroska persónuleika einstaklinganna og auka virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi eins og það er orðað. „[Menntun] skal miða að því að efla skilning, umburðarlyndi og vináttu meðal allra þjóða, kynþátta og trúarhópa...“
Hvað er þetta? Hvernig getum við ákveðið að skilningur, umburðarlyndi og vinátta milli þjóða, kynþátta og trúarhópa sé skuldbindandi viðfangsefni fyrir alla? Að menntun eigi að þroska persónuleika einstaklinga og auka virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi?
Fyrir skemmstu var Lisbeth Zornig, rithöfundur og fyrrverandi umboðsmaður barna í Danmörku, sakfelld fyrir að smygla fólki. Hún hafði boðið dauðþreyttu göngufólki bílfar eftir dönskum þjóðvegi. Eiginmaður hennar var líka sakfelldur fyrir að hafa boðið fólkinu upp á kaffi og kökur. Þessum hjónun er gert að greiða sekt sem jafngildir 430.000 íslenskum krónum.
„Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum.“ segir fyrsta grein mannréttindayfirlýsingar-innar. „Allir eru gæddir skynsemi og samvisku, og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan.“ En nei hjá stóru systur okkar meðal þjóða, Danmörku, er það ekki alveg svo. Á vef Ríkisútvarpsins má lesa að alls hafi 279 Danir á umliðnum vetri verið ákærðir fyrir að aðstoða fólk. - Tvöhundruðsjötíuogníu Danir ákærðir og sektaðir af yfirvöldum fyrir aðstoð við fólk! Flóttafólk.
Það var í þögninni andspænis ómælanlegum skaða þegar milljónir Evrópubúa voru á vergangi um álfuna í kjölfar hildarleiks síðari heimsstyrjaldar að mannréttindahugsjón nútímans fæddist eins og við þekkjum hana.
„ Allir eiga rétt til að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum. [...]Enginn skal að geðþótta handtekinn, sviptur frelsi eða gerður útlægur. [...] Allir skulu jafnir fyrir dómstólum og njóta réttlátrar [...] málsmeðferðar.“
Við erum að tala um þögn. Sá sem kynnir sér píslarsögu Jesú eins og hún er skráð í guðspjöllunum fjórum skynjar djúpa þögn. Jesús stendur þegjandi frammi fyrir Heródesi konungi sem spyr hann á marga vegu en Jesús svarar honum engu. (Lúk. 23.9.) Og þegar Pílatus landsstjóri er kominn á vald óttans undir lok yfirheyrslunnar eins og henni er lýst hjá Jóhannesi þagnar Jesús og veitir honum ekkert svar. (Jóh. 19.9.) Það er þögn Jesú sem gefur orðum hans vægi. Þögnin andspænis skaðanum. - „Viltu ekki tala við mig? Spyr Pílatus í örvæntingu og undrun. „Veistu ekki að ég hef vald til að láta þig lausan og ég hef vald til að krossfesta þig.“
Valdsmaðurinn annars vegar, hræddur og reiður í hita leiksins. Bandinginn hins vegar, í þögninni andspænis skaðanum.
Það er að vísu hægt að vita sitt af hverju um manneðlið. Við erum t.d. ákveðin tegund af flokki spendýra. Okkar tegund er eðlilegt að gera tvennt þegar að henni er sótt; hrökkva eða stökkva, flýja eða slá. Mannskepnan er rándýr og flóttadýr í senn. En Jesús gerir hvorugt. Hann stendur kyrr í þögninni.
Pílatus höfðar til manneðlisins, hótar illu og lætur glitta í flóttaleið. Jesús þegir og orð hans skiljast einungis í ljósi þagnarinnar sem á undan er komin þegar hann loks mælir til Pílatusar: „Þú hefðir ekkert vald yfir mér ef þér væri ekki gefið það að ofan.“
Vald Pílatusar er að ofan. Ofan úr stigveldinu, ofan úr valdakerfinu sem hefur teflt honum fram sem embættismanni. - Pílatus, er Jesús að segja, þú ert bara maður eins og ég.
Það er í þögninni andspænis skaðanum sem við vitum þetta. Í þögninni á slysstaðnum, í þögninni eftir sprengingu hryðjuverkamannanna, í þögn styrjaldarrústanna vitum við það sem mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðnanna einmitt er að segja: Þú ert bara maður eins og ég.
Vandamálið sem dönsk yfirvöld standa frammi fyrir ásamt hinum íslensku og öllum öðrum yfirvöldum veraldar, er það sama og Pílatus gat ekki horfst í augu við. Veistu ekki að ég hef vald? spyr valdið. Ég hef vald yfir örlögum þínum. Innan úr þögninni kemur svarið; þú ert bara maður eins og ég.
Það er þess vegna sem mannréttindayfirlýsing sameinuðuþjóðanna bannar þá algengu iðju að gera fólk að glæpamönnum. Jesús frá Nasaret er í hópi þeirra milljóna á milljónir ofan sem gerðir hafa verið og gerðir eru að glæpamönnum. Það er ekki út í bláinn að Guðspjöllin segja söguna af flóttabarninu, innflytjandanum, hælisleitandanum og glæpamanninum Jesú frá Nasaret.
„ Allir eiga rétt til að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum. [...] Enginn skal að geðþótta handtekinn, sviptur frelsi eða gerður útlægur. [...] Allir skulu jafnir fyrir dómstólum og njóta réttlátrar [...] málsmeðferðar...“
Gamalt vandamál og nýtt; Flóttafólk, innflytjendur, hælisleitendur, sakborningar - fólk eins og ég.
Og svo stendur hann dæmdur og líflátinn frammi fyrir okkur á þessum morgni.
Þvílík storkun! Þvílík dómadags storkun og eilífðar diss!
Sagan af hinum upprisna er ævarandi andóf, ævarandi staðfesting á því sem andinn veit og sálina grunar í þögninni andspænis skaðanum. Innst inni veistu það. Þú veist að það er von. Í andanum sérðu út fyrir þennan heim, út fyrir allar byltur, sprengingar, rústir og skaða. Í andanum sérðu Jesú. „Friður sé með ykkur“ segir hann: „Lítið á hendur mínar og fætur að það er ég sjálfur. Þreifið á mér og gætið að." (Lúk. 24.39)
Nei, eyðileggingin eru ekki niðustaðan. Valdið er ekki valdsins megin og sprengjan hefur ekki síðasta orðið. Ég er hér hjá þér, segir hinn upprisni frelsari. Það sem um mig varð er um þig. Það sem um þig verður er um mig. Þú veist það.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem er og verður um aldir alda. Gleðilega páska.