Guðspjall: Jóh. 10.11-16 Lexia: Ds. 23.1-4 Pistill: 1. Pét. 2.21-25
Nú eru kosningar til alþingis nýlega afstaðnar. Sitt sýnist hverjum um úrslit þeirra en ljóst er að hvert einasta atkvæði gat ráðið úrslitum um það hverjir fengju rétt til setu á Alþingi.
Þannig var hverjum atkvæðisbærum manni falin mikil ábyrgð á hendur þegar í kjörklefann kom. Fram að þeirri stundu höfðu margir flokkar kynnt stefnuskrár sínar og reynt að ná til sem flestra kjósenda með ýmis konar áróðri. Áróður getur verið ágætur og haft sín áhrif en oft virðist okkur að fátt verði um efndirnar. Þá missum við oft trúna og traustið á þann flokk sem við treystum best til þess að vera málsvarar okkar á Alþingi. Einstaklingum getur verið í lófa lagið að leggja fallega á borð en viðskilnaðurinn getur verið í hrópandi ósamræmi við hið fallega uppábúna borð. Því má með sönnu segja að það sé sitthvað orð og efndir. Mörg góð orð og fögur loforð voru látin falla í kosningabaráttunni en nú er bara að sjá hvort efndirnar verði í réttu hlutfalli við loforðin. Nú um stundir eru þreifingar í átt til stjórnarmyndunar og við bíðum í ofvæni eftir lausn á því máli.
En skyldi nokkur hafa hugleitt hvað Jesús Kristur hafði fram að færa í kosningabaráttunni?
Í dag heyrist raust hans sem lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Jesús segir: “Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina”.
Jesús var, er og verður hinn sami um aldir.Hann stendur ofar öllum flokksbrotum og kennir sig ekki við einn flokk framar öðrum. Hann kom í heiminn, inn í mannleg kjör, ekki í sínu eigin nafni, heldur í nafni föður síns sem sendi hann og gaf líf sitt til þess að við mættum lifa fyrir hann. Enginn getur sýnt meiri elsku en að leggja líf sitt í sölurnar fyrir þá sem hann elskar. Ekki er hægt að saka Jesú um að hafa ekki staðið við orð sín þegar hann mælti þessu fyrrgreindu orð um góða hirðinn sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauði sína. Um það vitnar kross hans á Golgata. En krossinn markar ekki endalok heldur nýtt upphaf. Enn stóð Jesús við þau orð sín að hann myndi rísa upp á þriðja degi. Sigur lífsins yfir dauðanum blasti við konunum sem komu árla dags til þess að smyrja lík Jesú. En þær gerðu sér litla grein fyrir merkingu fagnaðarerindis Páskanna: Jesús er upprisinn.
“Sigurhátíð sæl og blíð”, segir í sálminum góðkunna eftir sr. Pál Jónsson í Viðvík. Já, páskarnir eru mesta hátíð kristinna manna, sannkölluð sigurhátíð þar sem upprisu Jesú Krists frá dauðum er fagnað. Hann lifir áfram sem hirðir sauða sinna, safnaðar síns hér á jörðu sem á sér engin landamæri. Hvarvetna þar sem nafn hans er boðað þar er Jesús, Drottinn. Og máttur hans megnar að sigra allt sem mengar og raskar lífi okkar mannanna. Hann vekur allt frá dauðanum til lífsins. Hann er lífsins og kærleikans Guð sem hefur gefið okkur loforð um eilíft líf sem kallar á ábyrga afstöðu okkar í orði og verki gagnvart því lífi sem bærist í kringum okkur.
Nú höfum við Íslendingar kosið fulltrúa okkar á Alþingi til þess að bera hag okkar fyrir brjósti. Hlutverk þeirra er vandasamt og ábyrgðarmikið. Alþingi fer með löggjafarvaldið og semur því lög til þess að vernda rétt hvers einasta þjóðfélagsþegns. Halda verður skikkanlegri skipan á í þjóðfélaginu til þess að réttur þegnanna verði ekki fyrir borð borinn af öflum sundurlyndis og sundrungar. Enginn vill lifa í þjóðfélagi þar sem réttur þegnanna er fyrir borð borinn. Slíkt skapar úlfúð og óhamingju. Slíkt skapar úlfúð og óhamingju. Við sjáum slík ófriðarbál víðs vegar í heiminum. Þar er í fullu gildi orðatiltækið: “Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn”. Þar eigast bræður og systur við og svífast einskis til þess að ná fram markmiðum sínum. Oft sýnist manni sem þetta sé ein stór sundurlaus hjörð sem engan hirði hefur. Þar sem úlfar ráfi um og tvístri hjörðinni.
Í guðspjalli dagsins bregður Jesús upp myndmáli eins og hann gerði oft til þess að fá áheyrendur sína til þess að skilja betur hvað hann var að segja. Allir viðmælendur Jesú þekktu myndina af góða hirðinum, hjörðinni, leiguliðanum og úlfinum.
Góði hirðirinn var sem fæddur inn í sitt hlutverk. Hann var sendur út með hjörðinni jafnskjótt og hann hafði aldur til. Kindurnar urðu vinir hans og félagar. Hirðinum var brátt eiginlegt að hugsa fyrst um þær áður en hann hugsaði um sjálfan sig. Ef einhver utanaðkomandi var fenginn til þess að gæta hjarðarinnar þá hugsaði sá alla jafna meira um peningana sem hann myndi fá fyrir það en sitt starf. Þess vegna fann hann ekki til jafn ríkrar ábyrgðarkenndar gagnvart kindunum eins og góði hirðirinn sem var fæddur inn í hlutverk sitt og var reiðubúinn að hætta lífi sínu fyrir þær. Falski hirðirinn, leiguliðinn er ekki tilbúinn til þess að hætta sjálfum sér til að bjarga hjörðinni. Þess vegna gleymir hann henni og flýr af hólmi.
“Sjá, ég sendi yður eins og sauði meðal úlfa”, segir Kristur einnig í guðspjalli dagsins. Páll postuli sagði eitt sinn við forstöðumenn kristinna safnaða sem voru að mótast: “Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði. Ég veit að skæðir vargar mun koma inn á yður þegar ég er farinn og eigi þyrma hjörðinni. Og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér”.
Jesús er að benda okkur á þá tvöföldu hættu sem stafar af kirkju sinni, já, henni sjálfri. Annars vegar frá utanaðkomandi öflum sem reyna að sundra einingu hennar, hins vegar frá fólki sem starfar innan kirkjunnar en flytur rangsnúna kenningu og tælir lærisveinana til sín.
Það er mikilvægt fyrir kirkjuna á hverjum tíma að eiga trúfasta og ábyrga hirða því að þeir eru góð vörn gagnvart öflum sem reyna að tvístra einingu kirkjunnar. Þeir reyna að viðhalda einingu kirkjunnar með lífi sínu og starfi, minnugir orða frelsarans sem segir: “Ég er góði hirðirinn”.
Jesús hefur gefið okkur eftirdæmi til þess að fylgja. Þetta er vandasamt og ábyrgðarmikið hlutverk.
Stjórnmálamönnum er einnig falið vandasamt hlutverk. Þeir skipa sér í ýmsa flokka eftir eigin sannfæringu. Eins og gefur að skilja þá eru þeir ekki alltaf sammála um hlutina frekar en kristið fólk er um helstu málefni kirkju sínnar á hverjum tíma.
Í dag er mikilvægt að stjórnmálamenn komi sér saman um málaflokka þrátt fyrir ágreining til þess að hægt sé að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Það má ekki dragast úr hömlu að ný ríkisstjórn líti dagsins ljós því að annars er hætta á því að öldur missættis og sundrungar rísi sem gæti haft áhrif á allt þjóðfélagið .Þeir verða að koma sér saman um málamiðlun og hugsa með þeim hætti fyrst um hag þjóðfélagsins og síðan um eigin hag.
Við erum ólík innbyrðis og höfum margvíslegar skoðanir á málefnum líðandi stundar. Við höfum misjafna hæfileika. Guð hefur gefið okkur frelsi til þess að nýta þessa hæfileika út í æsar og koma skoðunum okkar á framfæri á skynsamlegan hátt. Hins vegar er frelsi okkar kristinna manna ekki takmarkalaust. Öllu frelsi fylgir ábyrgð, ábyrgð gagnvart vistkerfum lífríkisins og því mannlega lífi sem bærist í kringum okkur. Í þessu felst frelsi hins kristna manns. Kristnir stjórnmálamenn verða að vera sér meðvitaðir um þetta hlutverk sitt, jafnt á Alþingi sem annars staðar.
Enginn kristinn maður ætti að láta flokkspólitískar skoðanir ráða gerðum sínum og orðum því að hann á fyrst og fremst að hlýða góða hirðinum Jesú Kristi, rannsaka sitt hjartalag og hugarfar í ljósi orða hans og sýna síðan ábyrgð sína í verki gagnvart náunganum og sköpuninni.
Okkur er alveg óhætt að tala umbúðalaust við Jesú Krist því að hann er persónulegur og lifandi frelsari sem vill heill og hamingju allrar þjóðarinnar. Við getum treyst orðum hans. Hann getur opnað augu margra og gefið þeim nýja lífssýn og nýtt líf. Megi góður Guð gefa að við getum ætíð hlýtt á raust góða hirðisins og lifað sem kristnir einstaklingar í sátt og samlyndi. Amen.
Sr. Sighvatur Karlsson flutti þessa prédikun að nýafstöðnum Alþingiskosningum árið 1987.