Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“ Matt. 17.1-9
Við skulum biðja: Vertu Guð faðir faðir minn Í frelsarans Jesú nafni Hönd þín leiði mig út og inn Svo allri synd ég hafni. Amen.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Það er fallegur tími janúarmánuður. Fallegt þótt myrkrið sé mikið á þessum árstíma þá sýnir jörðin af sér nýjar myndir næstum á hverjum degi. Stundum hvessir og snjóar og náttúran sýnir tennurnar og oft um of, finnst manni. En á milli hryðja lygnir og golan strýkur vangann. Sólin er tekin að hækka á lofti og virðist á stundum sem veturinn sé að ummyndast í kaldan vordag eða bjart haustkvöld hér við Reykjavíkurtjörn.
Til kirkju komum við hér á helgum degi, Drottins degi, sunnudegi. Og kirkjubyggingin stendur hér sem fyrr sem ljósastika á strætum miðborgarinnar, eins og hún hefur gert um árhundruð.
Dómkirkjan stendur hér ávallt fyrir sínu. Kirkjan er tákn fyrir þá von sem Jesús Kristur gefur. Kirkjan er hins vegar ekki bara tákn heldur er hér lifandi, iðandi starf og mikið líf, ekki bara á sunnudögum heldur öllum dögum vikunnar.
Hingað sem og í aðrar kirkjur, komum við á stórum stundum lífsins, í sorg og gleði, og margir þegar eitthvað bjátar á. Þá er kirkjan til staðar, eins og hún hefur verið og verður um ókomin ár. Þegar við komum til kirkju mætir okkur gjarnan friður, ró og jafnvel annar taktur en mannlífið geymir almennt.
Hér er yfirleitt gott að vera!
Það fannst Pétri líka á fjallinu í frásögu guðspjallsins. Lærisveinar Drottins Jesús tók þá Pétur, Jakob og Jóhannes með sér úr erli mannlífsins og fór með þá á fjallið. Þetta gerði hann gjarnan eftir erilsama daga, dró sig í hlé, safnaði kröftum, byggði sig upp, hlóð batteríin, eins og við öll þurfum að gera, fá frí, frið, ró og tíma til að ná áttum.
Og þeir upplifðu eitthvað stórkostlegt og viðbrögð Péturs voru: ,,hér er gott að vera!”
Kjarnyrt og hnyttið
Guðspjallamaðurinn er kjarnyrtur í frásögu sinni. Hann eyðir ekki orðum í óþarfa heldur setur kjarna málsins fram í snörpum stíl og er hnyttinn á köflum.
Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: ,,Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!
Þetta er skemmtileg sena og frásagnarstíllinn góður. Pétur var enn að tala, þegar Guð tók til máls! Væri þá ekki rétt að hlusta, ef Guð vill eitthvað við mann segja! Það er svolítill húmor í þessari framsetningu guðspjallamannsins.
Hvað gerist á fjallinu?
Hvað nákvæmlega á sér stað þarna á fjallinu er erfitt að segja til um. Gríska sögnin metamorþoo þýðir að breyta um útlit, form. (Morþosis!) Ljóst er af frásögninni að leyndardómur hins yfirnáttúrulega mætir lærisveinunum þremur. Ásjóna Jesú skein sem sól og klæði hans urðu björt sem ljós.
Skýið (á grísku neþele) er í hinni rabbínsku hefð tákn fyrir nærveru Guðs og má finna mörg slík dæmi í Gamla testamentinu. Skýið er ljós táknmynd í huga hvers Gyðings um að Guð sé nærri.
Í spádómsbók Malakí er talað um Móse og Elía í tengslum við hinn mikla og ógurlega dag Drottins. Nærvera þeirra þarna á fjallinu, merkir þannig að ríki Guðs er að koma. Víða í gamla testamentinu eru væntingar um Messías á nótum hins mikla stríðskonungs. Á þeim nótum er dagur Drottins ógurlegur þar sem réttlætið ræður för, og ofbeldismenn og veraldlegir valdhafar fá makleg málagjöld af hendi hins mikla herra sem kemur í mætti og dýrð.
Náðin og miskunnin
En dýrð Drottins og máttur birtist í veikleika. Drottinn fæddist sem barn inn í þennan heim, barn sem þarfnast móður og umhyggju fjölskyldu. Líkt og litla barnið sem borið er til skírnar, þannig mætum við Drottni eins og skírnarbarnið í dag, á hverri stundu í lífi okkar og dauða. Og Guð elskar þig og mig og alla menn skilyrðislaust. Enginn vinnur sér inn þá stöðu að vera Guðs elskað barn, heldur er sú staða gefin af Guði sem allt vill gefa. Í því birtist náðin, miskunnin og kærleikurinn sem kristnin grundvallast á.
Þessi texti um ummyndunina ber má segja með sér sól trúarinnar.
Jesús opinberast þeim Pétri, Jakobi og Jóhannesi upprisinn. Og hann biður þá að segja engum frá þessari reynslu fyrr en eftir að Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum. Dulúðin og leyndardómurinn eru hér í lykilhlutverkum. Jesús verður upplýstur fyrir augum þeirra. Lærisveinarnir verða upplýstir í kjölfar þess! Þó ekki í anda upplýsingartímans eða stefnunnar, en þeir fá staðfestingu á orðum Jesú um það hver hann er.
Þeir verða vitni af dýrð hans, sem hefur án efa knúið þá síðar til að bera honum upprisnum vitni. Orð Guðs á fjallinu eru þeim staðfesting á því öllu sem þeir hafa upplifað með Jesú, séð og heyrt. Hvað hafa þeir upplifað? Frásögurnar allar, margar þekkið þið. Dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. Frásöguna af því er Jesús læknar lamaðann mann, er hann læknar dóttir Jaríusar, er hann neytir kvöldmáltíðar hjá Sakkeusi, reisir Lasarus frá dauðum, rekur út illa anda, kennir í samkundunni, fyrirgefur hórseku konunni, og þannig mætti áfram telja.
Fyrirgefur
Drottinn fyrirgefur syndir! Syndir þínar eru fyrirgefnar segir hann við alla menn sem iðrast, sem horfast í augu við eigin breyskleika. Barn mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar! Syndga ekki framar! Sagði hann við hórseku konuna. Guð vill gefa og fyrirgefa! Og vill að við gefum og einnig fyrirgefum hvert öðru það sem miður fer.
Í sakramentum kvöldmáltíðarinnar, þegar við göngum til altaris, vill Hann sameinast okkur í anda, létta byrgðunum og veita þann frið sem hvergi býðst en við borðið hans.
Hin kristna von boðar að hver nýr dagur er nýtt upphaf, tækifæri til góðra verka, nýtum dagana vel! Trúin segir að í kjölfar myrkrar nætur komi nýr dagur. Myrkur erfiðleika, veikinda og hindrana er lífsins saga, sem við án efa þekkjum öll í mismiklum mæli þó. Það myrkur er ekki lokapunktur eða endastöð, því nýr dagur kemur ávallt úr skauti Guðs. Eins og segir í helgu orði: ,,Sjá ég gjöri alla hluti nýja!“
Það var sá Drottinn sem opinberaðist þeim lærisveinum þremur á fjallinu, sá Drottinn sem gjörir alla hluti nýja. Og viðbrögð Péturs eru ,,hér er gott að vera.”
Pétur postuli
Pétur var maður framkvæmdanna. Hann vildi reisa tjaldbúð og bauð það. Þarna vildi hann dvelja fjarri mannlífinu, í skugga vængja Guðs, en það var ekki ósk Jesú! Ef Pétur hefði fengið að ráða þá hefði hann örugglega byggt tjaldborgir og jafnvel kirkju á fjallinu. Þarna fannst Pétri gott að vera. Hér skulum við dvelja, var hans tillaga. Líkt og okkur finnst gjarnan gott að koma í kirkjur sem Dómkirkjuna vildi Pétur dvelja þarna.
Hvað mætir okkur í kirkjum?
Í kirkjum stafar bjarmi trúarinnar af öllum táknum sem mæta okkur. Í því samhengi fá hinar djúpu tilvistarspurningar sálarinnar um tilgang lífsins, um það af hverju heimurinn er til, þær spurningar fá hljómgrunn, fá einhvern samhljóm í þeirri heilögu nærveru sem stafar frá Jesú Kristi og orðum hans. Jesús vildi ekki að þeir væru á fjallinu lengi. Þeir eru þarna táknmynd kirkjunnar sem er á ferð og er að störfum.
Jesús rak þá niður af fjallinu á nýjan leik inn í eril mannlífsins, þangað sem mannfólkið var.
Vettvangur kirkjunnar er ekki aðeins á fjallinu og hér í helgidóminum heldur í samfélagi manna. Jesús vildi ekki að lærisveinarnir væru í fjarlægð frá mannfjöldanum heldur einmitt mitt í miðju mannlífsins, í miðborginni. Jesús vildi að þeir færu á ný til borgarinnar, að þeir færu á strætin, þar sem mannlífið iðar.
Kirkjur nefndar eftir lærisveinunum
Vegna þess að þeir þremenningar, lærisveinarnir Pétur, Jakob og Jóhannes komu á ný niður fjallið til þjónustu í samfélagi manna eru margar kirkjur nefndar eftir þeim. Þær eru sjálfsagt óteljandi í heiminum Péturskirkjurnar, Jakobskirkjurnar og Jóhannesarkirkjurnar. En ef þeir hefðu dvalið áfram á fjallinu væri það líklega ekki svo!
Jesús kallar kirkju sína til þjónustu við manneskjur, til þjónustu við mannlífið. Þar er vettvangurinn!
Dómkirkjan miðborgarkirkja!
Dómkirkjan hefur um aldir svarað þessu kalli Drottins með starfi sínu og þjónustu. Og vill með auknu miðborgarstarfi reyna að svara breyttum aðstæðum í samfélaginu. Dómkirkjan hefur opnað Kvöldkirkju og vill sækja fram til enn meira samstarfs um samfélagsleg málefni, vera ennmeira á vettvangi. Allir sem koma að miðborgarstarfi Dómkirkjunnar vilja hlýða því kalli, vilja ganga þann veg í Jesú nafni og stíga skrefin út á stræti borgarinnar í þeim krafti sem kirkjan er kölluð til!
Lítill hópur á fjallinu
Ekki var það stór hjörð sem var með Jesú á fjallinu. Ekki kemur það fram að Jesú hafi hugsað líkt og prestar gera á stundum þegar bekkirnir eru þunnskipaðir, hvar eru allir hinir! Þeir voru aðeins þrír af tólf með Jesú. Hinir níu voru ekki mættir þar, kallaðir þangað, þeir voru að sinna öðru!
Kirkjuna viljum við hafa iðandi af fólki, fulla bekki, en það er auðvitað ekki alltaf svo þótt oft sé margt um manninn. Í kirkjunni er það samt ekki alltaf fjöldinn sem skiptir öllu. Guðsþjónustan er að sjálfsögðu þjónusta við fólkið sem mætir í kirkju, en fyrst og fremst þjónusta við Guð, samkvæmt orðanna hljóðan!
Leyniþjónustan
Eitt sinn sá ungur prestur vin sinn í kirkju. Presturinn kom auga á hann úr prédikunarstólnum og hugsaði með sér, jæja gaman að sjá hann hér, en ekki mætir hann nú oft. Ætli hann viti ekki að við eigum öll að vera í þjónustu við lífið og náungann, sinna þeirri þjónustu í Jesú nafni.
Við kirkjudyr tók hann í spaða vinar síns og sagði: ,,Það er nú langt síðan þú hefur látið sjá þig! Veistu ekki að við erum öll í þjónustu við Guð!” Eitthvað kom á vininn en hann svaraði að bragði: ,,Jú jú ég veit það vel að við sameinumst í þessari þjónustu – ég hef bara valið að vera í leyniþjónustunni...!”
Hvað með hina lærisveinana níu?
En lærisveinarnir níu sem ekki fóru í fjallgönguna, voru ekki í neinni leyniþjónustu, þeir voru búnir að reyna að lækna, voru búnir að vera á strætunum en án Jesú því hann var jú á fjallinu. Þeir náðu ekki miklum árangri í vinnu sinni án Drottins.
Það segir frá því í textanum í framhaldinu að ekki fyrr en Jesús kom niður af fjallinu hafi þeir getað læknað á ný og boðað Guðs heilaga orð.
Þegar Jesús var með breyttist allt, má lesa úr orðum guðspjallsins.
Er það ekki einmitt það sem á stundum þarf í mannlífi miðborgarinnar og í mannlífinu yfirleitt og kannski alltaf? Sálgæslu, bænagjörð, trú, von og kærleika! Ljósið hans er ljós lífsins. Drottinn vill gefa það ljós sem svarar angist sálarinnar, vísar veginn og staðsetur okkur í elsku Guðs.
Staðsetningin skiptir máli
Það voru eitt sinn tveir vinir að ræða saman. Annar hafði eignast GPS tæki og var ánægður með gripinn. Hinn vinurinn þekkti ekki svona græjur. Þeir höfðu lent í ýmsu, áttu marga misjafna reynsluna, þótti sopinn góður, og höfðu mælt strætin um tíma hér fyrrum. Vinurinn spurði hvernig græjan virkaði!
Jú sjáðu til ég kveiki svona hérna, og svo sé ég þennan punkt hér og með hjálp þriggja gerfitungla þá fæ ég nákvæmar upplýsingar um það hvar ég er staddur! Nú já, svaraði hinn, nákvæmar upplýsingar hvar þú ert staddur, væri ekki bara auðveldari leið og kannski betri að drekka bara svolítið minna!!
Glettnin er nú alltaf ágæt svona í bland!
Köllun kirkjunnar
En kirkjan er kölluð til hinna þurfandi. Til þeirra sem í fangelsi sitja, til þeirra sem sjúkir eru, til þeirra sem glíma við heimilisleysi, fjölskylduvanda, svartsýni, vonleysi, einmanakennd og ótta. Kirkjan er kölluð til allra sem hafa misst, glíma við sorg og söknuð. Kirkjan vakir þar sem gleðin er við völd, þar sem þakklætið fyllir brjóstin og jákvæðni er mannsins val.
Orðið sem kirkjan boðar er orð sáttargjörðar, fyrirgefningar og líknar.
Fagnaðarerindið er um hina eilífu von páskadagsmorguns sem altaristafla Dómkirkjunnar túlkar.
Jesús er Guðs elskaði sonur, og við skulum hlýða á hann, heyra hans orð! Jesús vill mæta þér, hann vill svara þörfum þínum, hann vill að þú njótir lífsins og þess að vera til. Í þeirri nærveru og fullvissu er gott að hvílast og starfa. Pétur sagði einmitt við Jesú: ,,Drottinn, gott er að við erum hér!”
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.