Vikulega koma eldri borgarar saman hér í Neskirkju á samkomum sem við köllum Krossgötur. Fyrir nokkrum árum fór við í heimsókn í gamla kirkjugarðinn við Suðurgötu, Hólavallakirkjugarð.
Mér er ferðin minnisstæð en garðráðandi Heimir Janusarson tók á móti okkur með sögum og fróðleik. Frásagnir hans glæddu umhverfið lífi ef svo má að orði komast. Garðurinn er út af fyrir sig ákveðin hugleiðing um stefnumót lífs og dauða. Vitaskuld er hann helgaður því fólki sem hefur lokið lífsgöngu sinni en um leið er vart að finna gróskumeiri stað í borginni. Hér teygja trén sig til himins og eins og fram kom í máli Heimis er þar að finna plöntur sem hvergi vaxa annars staðar á Íslandi.
Garðurinn er líka eins og heimur út af fyrir sig, friðarreitur mitt í erli miðborgarinnar. Umferðin æðir um Hringbrautina og handan við kirkjugarðsveggina glittir í stórhýsi og iðandi mannlíf en innan veggjanna erum við ekki bara í heimi kyrrðar, þar standa líka nöfn og ártöl á steinum og minna á horfna tíð. Við göngum líka með fermingarbörnum um þessar slóðir og þau leita ýmissa upplýsinga sem standa á leiðunum, þar á meðal starfsheiti, eins og kaupmaður, ráðherra eða jafnvel hattagerðarmaður. Þau gefa auðvitað til kynna að eitt sinn höfðu þessir einstaklingar ,,nóg að gera“ eins og við segjum gjarnan með velþóknun.
Mér það að sama skapi minnistætt að það kom fram í máli leiðsögumanns að kirkjugarðar eiga það til að endurspegla umhverfi hinna lifandi. Samkvæmt því yfirfærum við strauma og stefnur í byggingarlist og fyrirkomulagi byggðar, á leiðin sem þar sem hin látnu hvíla.
Elsti hluti garðsins er óskipulagður svipað og fyrsta byggðin í Reykjavík. Svo minna reitirnir á hverfin hér í Vesturbænum, beinar línur og hrafntinna er í múrhúðinni á veggjum eins og á húsunum á Melunum og Högunum. Fossvogskirkjugarðurinn hallar svo mót suðri með sama hætti og tíðkaðist með byggðina sem reis um það leyti sem hann var hannaður. Svo þegar Gufunesið var skipulagt var allt hugsað út frá því að einkabílar ættu þar sem greiðastan aðgang. Fyrst eftir að garðurinn opnaði var hægt að renna niður rúðunni og gera krossmark yfir leiði eða teygja sig út með garðkönnu og vökva blómin. Svo lokuðu þeir götunum og við fengum alla þessa botnlanga.
Garðurinn er bakhlið lífsins í borginni. Hann er skuggi þeirrar veru sem stendur í sólinni og minnir okkur á að handan allrar þeirrar uppbyggingar og allra okkar drauma bíður annar veruleiki. Þótt hann sé ekki eins áberandi og sjálft lífið, þá minnir hann á sig reglulega og að endingu leitar allt það sem lifir í sama farveg. Moldin eignast okkur, eins og sungið er í stúdentasöngnum.
Nú opnum við sýningu Þrándar Þórarinssonar myndlistamanns, sem býr í nágrenni Hólavallagarðs og hann staðsetur verkin í garðinum. Þar lifna við þeir einstaklingar sem þarna hvíla. Sjá má svip friðsældar og æðruleysis úr andlitum sumra þeirra. Hjónaleysin í Brekkukoti, vökukonan Guðrún Oddsdóttir sem tekur á móti skörungnum Þorbjörgu Sveinsdóttur ljósmóður.
Börnin aftur á móti hlægja að dauðanum sem gín yfir þeim í svörtum kufli í verki sem er innblásið af gjörningi Ragnars Kjartanssonar. Eru þetta andstæðurnar? Óþroskaður hugurinn skilur ekki takmörk tímans sem allt líf þarf að lúta. En reynslan meitlar afstöðu þeirra sem eru eldri og vita hvað bíður.
Mest áberandi eru árstíðirnar í garðinum á vesturvegg sýningarinnar. Klukknahúsið, stígurinn og leiðin þar í kring birtast okkur í þeim búningi sem hvert tímabilið setur. Það kallar fram hughrif um þann straum sem við öll berumst eftir – sjálfan tímann.
Á æskuárum líður hann hægt. Eitt bernskusumar er eins og heilt æviskeið en svo þegar árunum fjölgar skynjum við það æ betur hvað öllu fleygir fram. Já, er bara komin helgi? Komin jól? Komið vor..? Þarna situr einmitt sjálfur Humpty dumpty á kirkjugarðsveggnum kostulegur og harmrænn sem hann er – og sístæð áminning um fallvaltleikann. Andartaki síðar fellur hann til jarðar og skurnin dreifist um stéttina.
Það eru þessi örlög sem tala til okkar í verkum Þrándar. Mögulega er allt starf okkar mannanna – viðleitni okkar og skipulagning einhvers konar viðbrögð við hinu óumflýjanlega. Störfin sem fólkið sinnti og við lesum um á steinunum fengu það mögulega til að gleyma sér í einbeitni annríkis og þá fundu þau ekki hvað tímanum leið. En svo vitjaði hann þeirra eins og hann mun gera í okkar lífi einnig.
Beygurinn sat eftir
Í sýningarskránni segir Friðrik Sólnes frá áhrínsorðum gömlu konunnar sem hann mætti í garðinum og hún varaði hann við því að vera með bægslagang á þessum helga reit. Sagði hún að eitthvað illt myndi henda hann um nóttina: „Var það ekki einmitt þá nótt sem ég vaknaði við að stór fugl reyndi að troða sér inn um hálfopinn gluggann á herberginu mínu með miklum bægslagangi? Var það kannski þessa nótt sem ég hætti að vera barn?“
Óvætturinn komst ekki inn í svefnherbergið en beygurinn sat eftir.
Sennilega mótar fátt hátterni okkar og afstöðu jafn sterkt og vitundin um endalokin og við mennirnir gefum okkur það að við séum einstök í ríki náttúrunnar hvað þau mál varðar. Er það ekki stærsta skrefið í þroska, þegar við stígum út úr heimi barnsins sem hlær að karlinum í kuflinum og inn í þennan napra veruleika?
Eitt meginstef Biblíunnar tengist ákveðinni hegðun sem fræðimenn margir hverjir telja að eigi rætur að rekja til fullvissunnar um endalokin. Já og segja að hún kunni í senn vera einn afrakstur skynsemi okkar og framsýni og um leið ein skýringin á því að við skyldum komast svo hratt upp fæðukeðjuna sem raun ber vitni. Biblían er full af frásögnum um þessa athöfn og þar greinum við merki þess að fólk hefur tekist á um eðli þess og rétta meðhöndlun.
Hér er talað um fórnir. Það þykir vera til marks um magnað hugmyndaflug lífveru á þessari jörð að vera tilbúin að leggja frá sér einhver verðmæti í þeirri von að fá þau til baka síðar og þá í margfaldri mynd. Besta dæmið er auðvitað þegar fræ er sett í jörðu og svo er beðið eftir uppskeru.
En dæmin eru fleiri. Trúarbrögð eru rík að helgisiðum sem tengjast fórnum. Frá öndverðu hefur fólk reynt að blíðka máttarvöldin með því að færa því gjafir af því sem það mat mest, dýr, korn, jafnvel hefur fólki verið fórnað. Í varnarleysi gagnvart örlögum sínum og hlutskipti reynir manneskjan að hafa einhver áhrif. Við sjáum þessa viðleitni í margvíslegri mynd jafnvel á okkar dögum.
Í Biblíunni lesum við harða gagnrýni slíkt framferði og við getum jafnvel lesið hina helgu bók að einhverju leyti sem viðbragð við því. Spámenn og trúarleiðtogar amast við því þegar fólk dregur naut inn í musterið og slátrar þeim þar, í þeirri von að njóta velþóknunar almættisins. Og í bréfinu til Hebrea sem hér var lesið er talað inn í þetta samhengi. Þar segir einmitt: „Með hjálp Jesú skulum við því án afláts færa Guði lofgjörðarfórn, ávöxt vara er játa nafn hans. En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.“
Í Biblíunni lesum við jú ákveðna breytingu sem verður á hugmyndinni um fórnir. Áður skipti máli að þóknast goðum og guðum með því að færa fram það besta sem fólk hafði að gefa. En í hinu biblíulega samhengi verður það framkoma okkar við okkar minnstu systkin sem skiptir sköpum. Það er fórnin sem við eigum að færa til æðri máttarvalda. Drottinn lítur með velþóknun til þeirra sem eru hjálpsöm og gera vel við þau sem á þurfa að halda. Það að reyna að ná stjórn á aðstæðum með því að gefa almættinu einhverja dýrgripi er aftur á móti harðlega fordæmt.
Fórnin ristir auðvitað dýpra og hvergi talar hún eins sterkt til okkar og á krossinum. Hér hlýddum við á frásögn úr Jóhannesarguðspjalli þar sem líf og dauði eru til umfjöllunar. Þar er horft fram til þeirrar fórnar sem kristnir menn líta svo á að hafi mætt öllum þeim fórnum sem menn hafa reynt að færa Guði til þóknunar. Jesús vísar þar til þeirrar þjáningar sem átti eftir að mæta honum og þessum hópi og líkir þeim við fæðingarhríðir. Aftur mætum við andstæðum lífs og dauða.
Hann vefur þær saman, landamærin hverfa þar sem trúin á Krist leiðir inn í lífið. Já, þetta er sá boðskapur sem birtist okkur þegar gengið er framhjá moldu fólks sem lifði og hrærðist á ólíkum tímum en var svo kallað á brott, á einhverjum dauðans óvissum tíma.
Jesús ávarpar þennan veruleika okkar og þar stillir hann sér upp mitt á krossgötunum okkar þar sem við horfum fram til hins hulda heims sem bíður handan dauða og grafar. Þar nýtast ekki skyndilausnirnar, engar brennifórnir, þar eru tæknin og vísindin jafn orðlaus og ómálga barnið – um hvað þar kann að leynast.
Kristur talar vissulega í ráðgátu sem skilur okkur eftir með spurningar. Hér er ekki fjallað um einn afmarkaðan atburð. Miklu frekar það líf sem vex upp úr æðruleysinu andspænis því sem við fáum ekki ráðið við. Við sjáum það einmitt á svip þessara sálna sem Þrándur dregur upp í myndum sínum.
Já, fróðlegt var að fá að ganga um hinn forna Hólavallarkirkjugarð. Hann er eins og heimur út af fyrir sig. Í honum vaxa jurtir sem hvergi er að finna á öðrum stöðum á Íslandi og jafnvel í Norður Evrópu. Garðurinn er eins og spegilmynd umhverfis þeirra sem enn draga andann og verður fyrir vikið enn sterkara tákn um veruleika okkar og hlutskipti.
Það var eins og friðarstaður hinna látnu væri hliðstæða þess heims sem fólk lifði og hrærðist í. Já þarna eru bæði látlausar grafir og grafhýsi sem hafa vart kostað minna en glæsihallir lifenda rétt eins og á við um heimkynni okkar. Allt þetta blasti við göngufólki sem tók þátt í vikulegri dagskrá í Neskirkju og ber það viðeigandi heiti, Krossgötur.
Dauðinn endurspeglar lífið og án hans væri ekkert líf. Þessar hugrenningar lesum við úr guðspjalli dagsins. Þær fangar listamaðurinn á sinn hátt og flytur okkur óð til tímans, til hins forgengilega og mögulega býr þar að baki eitthvað það sem kann að vera óforgengilegt.