Ástarkvæði

Ástarkvæði

Ég vil kveða um ástvin minn, ástarkvæði um víngarð hans. Ástvinur minn átti víngarð á frjósamri hæð.

Þannig hefst fyrri ritningarlestur dagsins, úr spádómsbók Jesaja (5.1-7). Lýst er þeirri vinnu sem ástvinurinn lagði á sig til að uppskeran yrði góð, hann stakk upp garðinn, tíndi úr honum grjótið, gróðursetti gæðavínvið. Hann reisti turn í honum miðjum og hjó þar þró til víngerðar. En allt kom fyrir ekki: Hann vonaði að garðurinn bæri vínber en hann bar muðlinga.

Ekran sem hann ann Ástvinurinn er auðvitað Drottinn Guð og víngarðurinn er Ísraels hús og Júdamenn ekran sem hann ann (Jes 5.7.a). Þekkt eru orð Jesú: Ég er hinn sanni vínviður og faðir minn er vínyrkinn (Jóh 15.1) og um okkur segir hann: Þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt sem er í mér og ég í honum en án mín getið þér alls ekkert gert (Jóh 15.5). Páll postuli tekur undir vínviðarlíkingu Jesú og minnir á að ef rótin er heilög eru einnig greinarnar það (Róm 11.16). Það merkir að líf okkar sem trúum á Jesú helgast af honum því þó við séum villtur olíuviður sem græddur hefur verið við ræktaðan olíuvið (sbr. Róm 11.24) njótum við einnig rótarsafa olíuviðarins (Róm 11.17), það er krafts frá Jesú.

Þetta heyrðum við einnig um í síðari ritningarlestri dagsins, úr 9. kafla Rómverjabréfsins: Ekki eru líkamlegir afkomendur Abrahams börn Guðs heldur þeir sem fyrirheitið hljóðar um. Það er hins vegar ekki okkar að dæma um hver tilheyri hópi Guðs barna. Páll postuli minnir á að enginn munur sé á Gyðingum og Grikkjum - við erum Grikkir samkvæmt þessum skilningi, fólk utan upprunalega sáttmálans: Hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla sem ákalla hann því að ,,hver sem ákalla nafn Drottins verður hólpinn" (Róm 10.12).

Við megum því og eigum að taka til okkar orð Jesaja spámanns; líka þau sem lýsa hryggð Guðs yfir sinnuleysi fólksins síns. Hryggðin er hin hlið ástarinnar; vonbrigðin sár þegar þau sem Guð elskar, það er við öll, hafna ást hans. Þessi orð frá 8. öld fyrir Kristsburð eru að sönnu töluð inn í ákveðnar aðstæður, líkt og ávítur Jesú í guðspjalli dagsins: Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! fyrir að taka ekki sinnaskiptum (Matt 11. 21, 20). En því miður er þetta saga allra tíma að þó okkur standi opin faðmur Ástvinar mannkyns kjósum við oftar en ekki að snúa við honum baki. Sú er líka saga okkar og þeirrar borgar sem við búum í.

Sorg Jesú, sýn til framtíðar Sorg Jesú vegna borganna sem höfnuðu honum er skiljanleg. Þar hafði hann gert flest kraftaverk sín (Matt 11.20). Þetta minnir okkur á lokaorð guðspjalls nýliðins sunnudags: Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð (Lúk 12.48). Ástvinurinn lagði allt í sölurnar fyrir víngarð sinn. Hann vonaði að garðurinn bæri vínber en hann bar muðlinga.

Í Jesajaritinu - og auðvitað víðar í Biblíunni - heyrum við aftur og aftur um vonbrigði Guðs vegna trúnaðarbrests þeirra sem hann þó vildi allt fyrir gera. Og í hinu guðspjalli þessa sunnudags, sem er tíundi sunnudagur eftir þrenningarhátíð, guðspjallinu samkvæmt textaröð A, gefur að líta grát Jesú vegna Jerúsalem sem vissi ekki hvað til friðar heyrir, þekkti ekki sinn vitjunartíma (Lúk 19.41-44). Guð býður fólkinu hvíldarstað, "ljáið þreyttum hvíld, hér er endurnæring", en þeir vildu ekki hlusta (Jes 28.12). Samt stendur fyrirheit Guðs sem lesa má í 33. kafla Jesajaritsins (15-18):

Þegar anda af hæðum verður úthellt yfir oss og eyðimörkin verður að aldingarði og aldingarðurinn telst skógur mun réttvísin setjast að í eyðimörkinni og réttlætið búa í aldingarðinum. Ávöxtur réttlætisins verður friður og afrakstur réttlætisins hvíld og öryggi um eilífð. Þá mun þjóð mín búa í friðsælum heimkynnum, í öruggum híbýlum, á næðissömum hvíldarstöðum.

Að láta sannfærast Má vera að okkur sem boðum fagnaðarerindið hafi mistekist - líkt og spámönnum fyrri tíma að því er virðist - að koma á framfæri þessum ástríka boðskap Guðs um hvíld og friðsæld og endurnæringu? Kann að vera að orð okkar hafi um of einkennst af boðum og skipunum og skömmum og áminningu (sbr. Jes 28.10-13)? Höfum við gleymt að það er gæska Guðs sem leiðir til iðrunar, afturhvarfs (Róm 2.4)? Eða höfum við kannski ekki þorað að ávíta eins og Jesús gerði, skirrumst við að tala um synd og réttlæti og dóm sem heilagur andi sannar í hjörtum þeirra sem við vilja taka (Jóh 16.8)? Tökum eftir því að syndin er að þeir trúðu ekki á mig samkvæmt orðum Jesú hér (Jóh 16.9).

Víst er að það er Guðs verk að sannfæra fólk um tilvist sína. Það gerum við ekki með neinum rökræðum. En hvernig eiga menn að trúa á þann sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað nema hann sé sendur? segir Páll enn (Róm 10.14-15). Að prédika er að segja frá, segja frá Guði og verkan trúarinnar í lífi okkar. Það getum við öll gert. Við getum öll borið trú okkar vitni og það gerum við á svo margvíslegan hátt, ekki síst í líferni okkar og dagfari. En það er heilagur andi Guðs sem gefur trúna, trúin er verk Guðs (Jóh 6.29) og Jesús er höfundur og fullkomnari trúarinnar (Heb 12.2).

Ást Guðs, andsvar mitt Það sem styrkir mína trú er fullvissan um ást Guðs. Að geta ávarpað Guð sem ástvin minn er mikil játning og djúp. Ástvinur minn lætur sér annt um mig og velferð mína. Hann vill mér allt hið besta, greiðir mér leið í öllum kringumstæðum lífsins og ber mig á höndum sér þegar vegurinn er grýttur. En ástin er ekki bara á annan veginn. Guð þráir ást okkar á móti, að við leitum nærveru hans innra með okkur og tjáum hana með kærleika út á við. Þó ég sé aðeins feimin við það get ég leyft mér eins og trúsystkini mín í gegn um aldirnar að lýsa Ástvini mínum með orðum Ljóðaljóðanna sem oft eru lesin sem mynd ástar Guðs til fólksins síns eða Krist til kirkju sinnar:

Sem eplatré í kjarrviði ber elskhugi minn af sveinunum. Í skugga hans uni ég og ávextir hans eru gómsætir. Hann leiddi mig í veisluskála og tákn ástar hans var yfir mér. Nærið mig á rúsínukökum, styrkið mig með eplum, ég er máttvana af ást. Vinstri hönd þín undir höfði mér, hin hægri faðmi mig. (Ljl 2.2-6)

Að njóta ástar Guðs Ýmislegt í Ljóðaljóðunum minnir einmitt á myndmál Jesaja spámanns. Brúðinni er líkt við garð (Ljl 4.12), háls hennar er sem turn (4.4, 7.5), brjóst hennar líkjast vínberjaklösum (7.9). Við erum þessi brúður, við sem njótum ástar Guðs, fáum að dvelja með honum í garðinum við ilm myrru og ilmjurta ásamt alhliða næringu á anda, sál og líkama (sbr. Ljl 5.1).

Síðar í Jesajaritinu (27.2-5) er myndmálið þetta: Á þeim degi skuluð þér syngja um hinn blómlega víngarð: Ég, Drottinn, er vörður hans, ég vökva hann sífellt og gæti hans dag og nótt svo að honum verði ekki spillt. Reiður er ég ekki en finni ég þyrna og þistla ræðst ég á þá og kveiki í þeim öllum nema menn leiti hælis hjá mér, semji við mig frið, semji frið við mig. Þau orð enda með fyrirheiti: Á komandi dögum festir Jakob rætur, Ísrael blómgast og ber fræ og fyllir heiminn ávöxtum (Jes 27.6).

Leyfum okkur að vera dvelja í hinum blómlega víngarði Guðs, vera grein, grædd á hinn sanna vínvið sem er Jesús Kristur, elskhugi sálar okkar. Þiggjum vökvun Guðs sem er vörður okkar og gætir okkar dag og nótt. Það kann að vera að við finnum til þegar uppræta þarf þyrna og þistla úr lífi okkar en leitum þá hælis hjá verndara okkar og semjum frið við hann. Þá finnum við líka kraft fyrirheitis Guðs inn í líf okkar, við festum rætur, finnum ró, blómgumst, berum fræ og fyllum heiminn ávöxtum!

Því að svo segir Drottinn Guð, Hinn heilagi Ísraels: ,,Fyrir afturhvarf og rósemi munuð þér frelsast, í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera" (Jes 30.15).